Lesbók Morgunblaðsins - 02.02.1985, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 02.02.1985, Blaðsíða 7
undir sig, geta troðiö sér upp í æðstu sætin, svo drotníngarnar smyrji fætur þeirra með balsami og þerri með hári sínu.“ (158—159) Þarna er listin semsé orðin heldur hégómleg í augum Steins Glliða þótt hann hafi litið á sig sem listamanns- efni þegar frá barnæsku. Með orðum Albans er tilverugrundvöllur hans brost- inn. Þess vegna leitar hann á náðir kirkjunnar sem bugaður maður, upplagt munkefni, ef marka má orð Tómasar frá Kempis um þá sem ætla sér slíkan hlut: „sá sem ekki leitast við að verða minnstur allra og undirsáti allra getur ekki lengi notið friðar. Þú ert kominn til að þjóna, ekki til að stjórna; vittu (munk- ur) að köllun þín er að þjást og starfa.“ Það mun koma í hlut kirkjunnar að búa til nýjan mann úr Steini Elliða ef hún kann tök á svo óþjálum leir. Konan er leirinn í höndum mannsins, þá líkingu notar skáldið í Undir Helgahnúk. (157) Og Diljá skrifar í bréfi til Steins Elliða: „Það er einginn sem skilur mig og þekkir nema þú. Þú hefur gert mig að því sem ég er. Ég var leirinn milli handa þinna." (65) Orð Albans breyta Steini úr skáldi í leir, óskrifað blað og raunar niður- brotinn mann. Eða lét hann kannski aldrei bugast? Vald Orða Hluti af þeim þroska sem Atli í Undir Helgahnúk á eftir að taka út felst í því að skilja boðskap kærleika og auðmýktar. Hann þráir valdið og hann þráir konu sem hann gæti undirokað. Það er farvegurinn sem kynhvöt hans beinist í. En gera má ráð fyrir að sambandið við Áslaugu leiði hann til aukins þroska. Hún sýnir honum að vald og metnaður er ekki allt sem máli skiptir. í sögunni af vefaranum Steini Elliða er þessi hug- mynd útfærð mun betur. Sem unglingur hefur Steinn gert sér að leik að fara illa með náungann. Hann flekar stofustúiku heimilisins; helsta íþrótt hans er að kveða féiaga sína í kútinn og leggur metnað í að vera ekki nema nokkrar mínútur að því. Hann kvelur dýr. Hann finnur svo til máttar sjálfs sín, sem fyrst og fremst birtist í valdi hans yfir orðinu, að hann verður hálfpart- inn hlægilegur fyrir vikið. Þessi valdahugsun hans birtist ekki síður í samband- inu við Diljá. Hún er leirinn í höndum hans; þess vegna vill hann hana ekki. Hún veitir ekki nægilegt viðnám, er ekki verðug hans, finnst honum. En þó sigrar hún hann kannski með mýkt sinni, svo talað sé í anda taóismans. Það verður þroski Steins: þegar hann bognar. Þá kemst hann út úr kynhvataflækju gelgjuskeiðsins. En meðan hann er ennþá í þeirri flækju birtist hún einnig í af- stöðu hans til kirkjunnar og föður Albans. Hann fellur að fótum kirkjunnar af því að hún sigrar hann í orðum (Albans), hún hefur valdið. Steinn Elliði krefst þess að sigra eða vera sigraður. Þegar Steinn lýtur föður Albani kyssir hann vöndinn sem hann hefur verið flengdur með. En uppreisnar- kenndin býr enn í brjósti hans og eðli sinu samkvæmt, sem skáld, getur hann í raun réttri ekki með neinu móti sætt sig við slíka niðurstöðu. Því rökrétt niðurstaða þess að lúta kirkjunni er að þegja. Kirkjan rennur sam- an við dauðann frá sjónarmiði skáldsins. Þegar Alban dæmir orð og skáldskap Steins Elliða ómerk er þar um að ræða táknræna geldingu. En lesandi sögunnar stend- ur frammi fyrir skáldverki, og það skáldverki sem er allt annað en smátt í sniðum. Niðurstaða Vefarans mikla getur ekki orðið að skáldskapur sé ómerkur því verkið sjálft er einmitt merkur skáldskapur. Það er þess vegna sem Vefarinn miklu frá Kasmír fjallar ekki um leið Steins Elliða í klaustrið heldur þvert á móti leið hans út úr því. Þrætubók í Vefaranum mikla eru nokkrar kenningar prófaðar tiltölulega kerfisbundið. Vitríngurinn velur um þrennt, segir á einum stað: að Iifa fyrir sjálfan sig, fyrir menn- ina eða fyrir guð. Hugmyndin að velja eitt og aðeins eitt af þessu þrennu er síðan prófuð. Hver þessara lausna er jafnframt „veikleikur" (160). Sjálfsupphafning, guðs- dýrkun og manngyði togast þarna á í sérkennilegum hráskinnsleik. Guð virðist hafa yfirgefið mennina í hrjáðum heimi, en stundum virðist trú á guð eina lausn- in. Gagnvart hörmungum veraldarinnar virðist hins vegar ást á mönnum og starf í nafni mannúðar öllu máli skipta. En sjálfsbjargarviðleitni sem getur breyst í eig- ingirni er manninum ævinlega nærtæk þegar erfiðleik- ar steðja að. Kristnin og mannúðarstefnan eru hugsjón- ir. „Maðurinn er nákvæmlega svo mikils virði sem sú hugsjón, er h'ann gerir að takmarki baráttu sinn- ar... Starf, sem ekki miðar að því að framkvæma verðmæta hugsjón, það er illgresi, hversu fagurt sem það er.“ (164) En sjálfsbjargarhvöt einstaklingsins ryður hugsjónum brott þegar minnst varir: „Vei þeim manni sem þykist berjast fyrir hugsjón á vor- um tímum og kann ekki að villa á sér heimildir." (168-9) f bréfi Steins Elliða sem dagsett er á nýári í London 1925 kveðst hann hafa verið að reyna að ala upp í sér aöferðir til að yfirbuga manninn. Þær felast í kynvillu, sem skýtur loku fyrir tímgun og stefnir þannig í dauða. í öðru lagi á hann við eiturfíkn, sem er hægfara afbrigði af þriðju aðferðinni, sem er sjálfsmorð. Steinn segist lifa fyrir sjálfan sig en fyrirlíti sig um leið. Guð er ekki til og fyrir hverjum á ég þá að bera ábyrgð? spyr hann. Ef guð er ekki til þá er synd aö lifa fyrir aðra en sjálfa sig samkvæmt Steini Elliða, enda gerir hann ráð fyrir að samhygð og mannúð hljóti að styðjast við guðstrú. Meö vísun í Nietzsche segir hann að markmiö lífsins hljóti að vera dauðinn, fullkomnun ástarinnar er sömu- leiðis dauðinn. Dauðinn, kóróna Iífsins! Þetta eru nokkurn veginn meginhugmyndirnar sem Steinn Elliði lætur hafa sig að leiksoppi. Þessar þrjár meginstefnur hans má ef til vill kenna við kaþólsku, ISamandregið tákn lífsins er í augum Steins Elliða konan, og það er þess vegna sem hann vel- ur á milli konunnar og guðs. Konan og orðið: það er lífið. Hitt er dauði. Vegna þessa jafngildis milli konunnar og orðsins fær ástarsena Steins og Diljár á Þingvöllum sérstaka merkingu. Halldór ungur að árum — á meðan hann átti heima bjá foreldrum sínum í Laxnesi. jafnaðarstefnu og ofurmenniskenningu Nietzsches. Steinn hefur mikið undir: líf og dauða. Sé guð ekki til, blasir tilgangsleysið við einstaklingnum, kviksyndi al- gerrar eigingirni fær enga fróun nema í sjálfsmorði. Niðurstaða Steins er að eins gott sé að hætta við sjálfs- morðið og velja guð í staðinn. Það þýðir að hann hættir öllum bollaleggingum um hvort guð sé til og ákveður að trúa því einfaldlega án frekari umhugsunar. Hann kýs að koma til kirkjunnar og gerast fífl, eins og Tómas Kempis ráðleggur mönnum. Uppistaðan í þessum ályktunarvef er sú trú að sið- ferðið verði ekki réttlætt nema með tilveru guðs. Sig- urður Nordal tók í líkan streng á þessum tíma því hann taldi siðlega hegðun marklausa nema maður tryði á líf að loknu jarðlífinu, en Guðmundur Finnbogason and- æfði þeirri skoðun í Skírni 1920. Guð þýddi: eitthvað annað, eitthvað utan einstaklingsins, eitthvað ofar og æöra honum. Guö var trygging þess að einstaklingurinn bólgnaði ekki út og hæfist til skýja í sjálfsupphafningu og geðbilun að dæmi Nietzsches ásamt sjálfsmorði. Þess vegna var lexía auðmýktarinnar svo þýðingarmikil fyrir þeim Atla og Steini Elliða. Steinn kemst að þeirri niðurstöðu að guð sé firra og reynir þá að sálga sér en mistekst. Þá tekur hann trú. Siðferðið sem trúin á guð átti aö tryggja fólst fvrst og fremst í mannúð, því að taka tillit til annarra. í Barni náttúrunnar og eldri skáldsögum íslenskum var trúin á guö tiltölulega þægileg og sjálfsögð lausn. Hér er hún kvalafull afneitun skynseminnar og orðsins. Smátt og smátt fann skáldið út, meðan hann dvaldist í Ameríku aö þótt það væri gott og blessaö að menn tryðu á guö, svona prívat, þá var engin ástæða til að fara tröllaukinn krók trúarinnar til ástar á mönnunum. Hann komst þá aö þeirri niðurstöðu að ef tilgangurinn var mannúðar- stefna var hægt að ganga beint til verks og elska menn- ina og berjast fyrir velferð þeirra algjörlega án þess að láta mælgina um guð tefja fyrir sér, og má segja að hann hafi þar með nálgast sjónarmið Guðmundar Finnbogasonar skv. framansögðu. Halldór virðist þá ekki lengur setja guðstrú sem forsendu manngæsku. í þeim punkti er Alþýðubókin skiljanlegt framhald af Vef- aranum mikla frá Kasmír. í Upphafi Var Skáldið Ef guð verður ekki dýrkaður með verkum, þá verður hann ekki heldur dýrkaður með orðum. Orð missa þá marks. Þar tekur þögnin við, og þögn er skáldinu dauði. Það er vegna þessa sem kristni jafngildir sjálfsmorði fyrir Steini Elliða, sem er eiginlega lítið annað en holdgervingur skálds. Steinn Elliði lifir í orðum, hann er orð. Hann er orðið sem kirkjan hvílir á, hann er undirstöðusteinn hennar eins og Pétur postuli. Þegar Steinn flýr sjálfsmorðið og velur klaustrið kýs hann kviksetningu fremur en bókstaflegan dauða. Steinn Ell- iði telur að nota megi lygina til að efla góðan málstað og þar er hann á öndverðum meiði við föður Alban og aðra málsvara kaþólskunnar. Steinn trúir á máttinn í orðinu, hann trúir með öðrum orðum á mátt sinn og megin eða semsagt á sjálfan sig eins og Atli litli í Undir Helga- hnúk. Miklir kaþólskir spekingar telja heiminn syndsam- legan. Maðurinn á ekki að gleyma sér í því jarðneska, heldur afneita því og hverfa inn í guðdóminn í inn- hverfri hugleiðslu. Heimurinn er tál djöfulsins, rétt eins og skáldskapurinn og annað jarðneskt skv. Steini Elliða þegar trúin grípur hann. Sú kenning að allt jarð- neskt sé saurugt hefur mikla þýðingu í Vefaranum mikla frá Kasmír. Steinn lifir í orðum, en orðin eru þessa heims og ekki annars. Orð vísa til hluta og veruleika. Afneiti maður því jarðneska afneitar maður orðinu. Kenningin um djöfulleika hins skapaða tengist með þessum hætti dauðanum sem kristnin boðar samkvæmt sögunni. Sköpunarverkið skyggir á skaparann ef trúa má kaþólskri guðfræði, en hið eftirrsóknarverða er ekki sköpunarverkið, heldur það að verða eitt með skaparan- um. Það verður maður ekki fyrr en maður losnar úr líkamanum þ.e.a.s. deyr. En það er fróðlegt að bera þessa hugleiðingu um samband sköpunarverks og skap- ara saman við rithöfundinn og verk hans. Ef sköpunar- verkið skiptir engu en skaparinn öllu, þá gildir ef til vill á sama hátt að skáldverkið er aukaatriði en vera skálds- ins, semsé það að skáldið er skáld, verður aðalatriði. í rómantískri hugmyndafræði er slíkt viðhorf oft ríkj- andi og var líka ofarlega á baugi í heimspeki Nietzsches. Steinn Elliði er skáld, alveg sama þótt hann yrki lítið. Það að hann gengur út frá því sem sjálfsögðum hlut að Ijóð hans séu meistaraverk stafar af því að hann telur sig fyrirfram skáldsnilling. En hann teldi sig líka skáldsnilling þótt hann hefði ekkert ort, því það er verufræðilegt atriði — verkið skyggir aðeins á skapar- ann, verkið er af hinu illa en skaparinn guðdómlegur. í sálarátökum Albans og Steins eru þverstæður. Hvernig má skýra það að Alban fær Stein til að trúa að orð skipti engu máli með orðum? Hvernig má skýra það að þegar Steinn hefur leiðst til guðdómsins með þeim hætti að hann hefur misst trúna á orðin og skáldskap- inn, flytur hann bænir sem eru eins konar kappræða við guð? Skýringin er sú að Vefarinn mikli er skáldsaga, hún samanstendur af orðum eins og Steinn Elliði gerir sjálf- ur. Handan orðsins er ekkert, núll og nix, aðeins dauði. En Steinn Elliði gengur úr greipum hans. Steinn lifir. Orðsending Frá Lesendum Heimurinn er tákn guðs, en guð birtist mönnum ekki nema í heiminum, í sköpunarverki sínu. Hann birtist okkur í tákni, alveg eins og Steinn birtist okkur í orðum. Það sem táknið vísar til verður ekki dregið fram í dagsljósið til hlítar. Það sem liggur á bak við orðið getur ekki birst nema orðið deyi. Guð er til sem sköpun- arverk, Steinn sem orð. Guð birtist ekki nema heimur- inn eyðist og þá birtist hann einmitt ekki (þ.e.a.s. birtist engum). Þetta er útgangspunktur Steins Elliða. Hann kemur til guðs af því að hann elskar sköpunarverkið, hann elskar „dýrðina á ásýnd hlutanna“ eins og hann kemst að orði. Samandregið tákn lifsins er í augum hans konan, og það er þess vegna sem hann velur á milli konunnar og guðs. Konan og orðið: það er lífið. Hitt er dauði. Vegna þessa jafngildis milli konunnar og orðsins fær ástarsena Steins og Diljár á Þingvöllum sérstaka merkingu. Steinn velur lífið og konuna í gerðum sínum. Orð hans hins vegar eru markleysa, hvort heldur sem . hann aðhyllist eigin kenningu um að þaö sé óhætt að ljúga sé það góðum málstað til framdráttar eða kenn- ingu Albans um að orð séu guði ekki þóknanleg. Þegar Steinn hefur lokað dyrum klaustursins að baki sér vísar hann Diljá burt. Hann segir henni að leita guðs og fer þar eftir heilræði Tómasar frá Kempis. En hvernig vísar hann henni frá sér? — Með mælsku, meö orðum. Guðsblessunarlega óforbetranlegt sk.áld! Skilningur bókarinnar á munklífi og guðstrú er með þeim hætti að ekki er hægt aö reka áróður fyrir honum í orðum. Bókin felur í sér afneitun skaparans að því marki sem hún er lofsöngur um sköpunarverkið. Hún felur í sér afneitun skáldsins að því marki sem hún er lofsöngur um skáldskapinn. Fyrir lesandanum deyr Steinn Elliði með síöasta orði skáldsögunnar uns lestur sögunnar hefst að nýju. Steinn Elliöi fann guð sinn aðeins í orði kveðnu I klaustrinu. Halldór Laxness fann sinn guð ekki í klaustri heldur í höfundarverki sínu. Hann kaus líf með mönnum. Við lesendur hans getum ekki annað en fagnað þeirri niðurstöðu. Vefarinn mikli frá Kasmír var, vegna þverstæðna sinna, eins konar lykkja á leið skáldsins. Reyndar verð- ur Ieið skálds snubbótt nema á henni séu lykkjur. Án lykkju ekkert prjónles. Skáldsögugerð er vefnaður. Sá sem les Vefarann mikla finnur hættu þagnarinnar og dauöans í hverju skrefi, en það að halda á bókinni er þægileg trygging gegn þeirri vá. Skáldskapur er þykj- ustuleikur. Þó knýja fá skáldverk íslensk á mann af meiri alvöruþunga en Vefarinn mikli frá Kasmír. Steinn lifir. LESBÖK MORGUNBLAOSINS 2. FEBROAR 1985 7

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.