Lesbók Morgunblaðsins - 23.02.1985, Qupperneq 13
flóttanum undan Arnarfelli sem Eyvindur
á að hafa sagt að sér hafi orðið erfiðast
lífið í útilegunni. Það var á einhverjum
kafla, sem honum varð svo erfitt um að-
drætti, að þau Halla voru að verða hung-
urmorða, og telpan þá sjálfsagt enn með
þeim. Þá varð það, þegar þau höfðu nær
gefið upp alla von um björg, að Eyvindur
náði 5 kindum en þá var enginn eldurinn
til að sjóða við kjötið.
Eyvindur gat étið hrátt, en líklega ekki
Halla eða telpan, nema hann sagðist í
þetta skipti aldrei hafa átt erfiðara með að
kveikja eld en í þetta skipti og þessi frá-
sögn ber vott um að hann hefur haft ein-
hver ráð með að kveikja eld, og það getur
þá varla annað verið en hann hafi jafnan
borið á sér tinnu og stál, en erfitt hlýtur
það að hafa verið honum oft að láta neist-
ann lifna í snjó og frostum í köldu hreysi
og hvað gat hann haft með sér sem var
nógu eldfimt til þess að eldur kviknaði af
neista sem í það félli.
Það má hugsa sér ýmislegt, til dæmis, að
Halla hafi geymt inná sér þurrt lauf en
skýring á eldkveikju Eyvindar fæst sjálf-
sagt aldrei, en oft hefur hann kveikt eld. í
flestum hans hreysum eru hlóðir, og hann
getur ekki alltaf hafa flutt með sér eld eða
stolið honum á bæjum.
Eyvindarflokkur
Á Strandir
Það segir nú ekkert af þeim Eyvindi fyrr
en veturinn 1763, að vitað er um þau öll,
Eyvind, Höllu, Arnes og Abraham vestur á
Ströndum.
Eyvindur hefur getað fregnað það, þegar
hann var undir Arnarfelli, af bróður sín-
um í Skipholti, að ekki hafi verið lýst eftir
þeim á Alþingi sumarið 1762 og Jökulfirð-
ingar hafi látið sér nægja að þau hypjuðu
sig á brott og ekki lagt fyrir sýslumann
kæru um þjófnað eða grun sinn um morðið
á drengnum.
Þegar Eyvindarflokkurinn var kominn á
Strandir, þá var þar orðið þjófasafn og því
einnig er getið þarna í sama mund og
þeirra Eyvindar, þjófanna Halldórs Ás-
grímssonar, Þorsteins skenks og Tugthús-
Gvendar en trúlega hafa þjófarnir verið
fleiri en ekki getið annarra en gripnir voru
síðar. Þessi þjófahópur hélt sig á Dröng-
um, Bjarnarfirði nyrðri, Skjaldbjarnarvík
og yfirleitt á svæðinu sunnan Geirólfs-
gnúps og voru þá í umdæmi Strandasýslu-
manns. Líklega hafa þau Eyvindur talið
ráðlegt að halda sig utan umdæmis sýslu-
manns Norður-ísfirðinga. Það væri ekki
að vita, hvað vakna kynni upp um atferli
þeirra í Jökulfjörðunum, ef þau lentu í
höndum þess sýslumanns.
Erlendi Ólafssyni hafði verið vikið frá
embætti um stundar sakir og meðan mál
hans var í rannsókn, hafði verið settur
sýslumaður Sigurður nokkur Sigurðsson,
kominn úr Vestmannaeyjum, og hafi ein-
hverjar kærur legið hjá Erlendi, sem hann
hafi trassað að sinna, þá hefur hann ekki
talið það bæta um fyrir sér að afhenda
þær settum sýslumanni. Erlendur karlinn
stóð í ströngu um embættisfærslu sína, og
oftar en einu sinni, en náði alltaf að rétta
hlut sinn, því hann var hinn mesti skyn-
semdarmaður, þó skrýtinn væri eins og
Grunnvíkingurinn bróðir hans.
Nýir vendir sópa bezt og það varð hinn
setti sýslumaður Norður-ísfirðinga sem
hreinsaði til á Ströndum, og afhenti sýslu-
manni Strandamanna-þjófasafnið. Trú-
lega hafa þjófarnir herjað norður yfir
Geirólfsgnúp um Reykjarfjörð og Furu-
fjörð og þá komnir í Norður-ísafjarðar-
sýslu. Hér fór því sem oft áður fyrir Ey-
vindi, að honum var það hættulegast að
vera í slagtogi við aðra þjófa, sem oft voru
illmenni, sem fólki stafaði hætta af, og
margir þjófar í einum stað ullu meiri bú-
sifjum en við yrði unað og sýslumenn
lögðu miklu helzt í leiðangur, ef þeir vissu
von mikillar veiði.
Gísli Konráðsson segir Eyvind og Abra-
ham hafa verið tekna á Dröngum og svo
segir einnig í Grímsstaðaannál 1763:
„Þjófar tveir handteknir á Dröngum
í Trékyllisvík, Eyvindur og Abraham
að nafni, höfðu stolið víða um land;
höfðu yfirgengið líkast stigamönnum,
það var skömmu fyrir páska. “
Þetta trúi ég sé í eina skiptið, sem Ey-
vindur er nafngreindur í annálum. Það tók
tímann sinn að verða landsfrægur í þenn-
an tíma og einstakir illræðismenn komust
ekki með nafni í annála, nema þeir væru
hengdir á Alþingi. í annálum er yfirleitt
látið duga um þjófa, að geta þess, ef þjófa-
faraldur var mikill þetta árið eða hitt.
Halla var tekin í Bjarnarfirði ásamt
Halldóri Ásgrímssyni, Þorsteini skenk og
Tugthús-Gvendi en Arnes tekinn síðar á
þessum slóðum með fylgikonu sinni ungri,
Salborgu að nafni.
OG enn deyr barn
Halla var handtekin við hreysi sitt og
þar fannst barnslík, sem líklega hefur ekki
verið hægt að husla í jörð um veturinn
sökum snjóa og klaka. Barnið var eignað
Höllu og hefur það þá verið barnið, sem
hún gekk með, þegar hún flúði á Arnar-
fellsjökul um haustið.
Henni hefur orðið svipul barneignin,
kerlingaraumingjanum, en kannski hefur
það ekki lagzt þungt á hana, ef rétt eru
hermd ummæli hennar, þegar hún skildi
við börn sín á Hrafnsfjarðareyri. Ekki er
nú lengur getið stúlkunnar Guðrúnar í
fylgd með foreldrum sínum.
Eflaust hafa hreysi útilegumanna verið
mörg á Ströndum, svo margir sakamenn,
sem þangað leituðu öldum saman. Eyvind-
ur hefur komið svo seint vestur um haust-
ið, að honum hefur ekki unnist tími til
áður en snjóar féllu og jörð fraus, að búa
eins vel um sig og vandi hans var og ekkert
hreysi hefur fundizt þarna Eyvindarlegt,
en einhverju skýli hefur hann komið sér
upp til að hafast við í um veturinn, og
honum er því eignað óvandað og lítið
hreysi í Bjarnarfirði og annað í Geirólfs-
gnúp þar á syllu í klettunum, og hreysið í
Bjarnarfirði er einnig undir kletti.
Sýslumaður Strandamanna, sem fékk á
sig alla þjófana, var Halldór Jakobsson á
Felli í Kollafirði.
Af sýslumannshjónunum á Felli er
nokkur saga. Frúin var ekki aldæla í fé-
græðgi sinni og hann sást þar lítt fyrir
líka í peningamálum og var að auki
drykkfelldur ribbaldi en í honum góðar
taugar, sem þessari vandræðakerlingu,
sem hann bjó með, tókst ekki fyllilega að
eyðileggja.
Sú kvöð var þung á sýslumönnum að
bera kostnað af varðhaldi fanga og mun
það að nokkru leyti hafa valdið því, að þeir
voru ekki alltaf á harðahlaupum á eftir
smáþjófum. Sýslumanni hefur sýnzt lítil
gjóra á því, að geyma ágæt vinnuhjú í
járnum og lætur þau ganga laus og vinna
búi sínu. Þetta spurðist til amtsmanna,
sem veitir Halldóri bréflega ákúrur og
segir að það gangi ekki að láta þennan þjóf
Eyvind, sem lifað hafi af þjófnaði, ganga
lausan og heldur ekki konu hans, sem átt
hafi dautt barn við hreysið þar, sem hún
var tekin. En Halldór lét ekki skipazt við
ávítur sýslumanns og gekk Eyvindur um
sem frjáls maður á Felli, á jafnvel að hafa
brugðið sér af bæ til að stela peningum frá
lögréttumanninum á Mel í Hrútafirði til
að kaupa Höllu lausa úr þeim varðhöldum,
sem höfð voru á henni í fyrstu á Felli.
Þessi saga, sem trúlega er skáldskapur, á
rætur að rekja til þeirrar fégræðgi, sem
Ástríður sýslumannsfrú var annáluð fyrir.
Brotthlaup Frá
SÝSLUMANNINUM
Þau Eyvindur struku úr vistinni á Felli
vorið 1764. Þá hefur Halldóri ekki verið
stætt á því lengur að halda þeim hjá sér í
vinnumennskunni og ekki komizt hjá að
flytja þau til dóma suður. Þar gat ekkert
beðið þeirra annað en brennimerking, kag-
hýðing og þrældómur í járnum, annað
hvort í Reykjavík eða á Brimarhólmi.
Halldór var um stund settur frá embætti
fyrir vanrækslu í gæzlu þjófanna og hlaut
fésektir, en þau Eyvindur voru horfin og
sennilega ekkert eftir þeim leitað af Hall-
dóri. Sýslumaðurinn, sem settur var með-
an mál Halldórs var í rannsókn, auglýsti
eftir þeim Eyvindi á Alþingi 1765 og er sú
lýsing nær alveg samhljóða þeirri fyrri,
nema Eyvindur er orðinn mikill tóbaks-
maður og bólugrafinn og Halla hafði ekki
heldur fríkkað enda komin um fimmtugt
og það voru ekki snyrtistofurnar á hverju
leyti fyrir hana Höllu til upplyftingar á
fésinu.
Framhald í næstu Lesbók.
Mynd: Eiríkur Smith.
Eftir flóttann undan Arnarfelli voru þau án elds og hefdu líklega orðid hungurmorða, ef þau hefðu ekki rekizt á kindur. Eyvindur gat étið
kjötið hrátt, en ekki Halla og telpan. Aldrei kvaðst hann síðar hafa átt eins erfitt með að kveikja eld og þá, en sagan sýnir, að hann hefur haft
eitthvað til þess, sennilega tinnu og stál.
JÖN FRA PALMHOLTI
Jón Yngvi
Svartir vindar þjóta
um myrkur loftsins
fara rauðar stjörnur
fara stjörnur í rauðum skýjum
um möl og brekkur
slær leiftri frá ókunnum orðum
frá heitum dýrum orðum
sem aldrei voru sögð.
Um blátt myrkur loftsins
á veglausri nóttu
fara óræðir draumar
fara draumar úr óræðum söngvum
yfir strandir og höf
æðir gnýrinn frá ókunnu hrópi
sem aldrei heyrðist.
Svartir fuglar í skýjum
undir örlagaskuggum
fara djúpir tónar
fara tónar úr grænum djúpum
um friðlausa andrá
bíður leitin að ókunnri perlu
að mjúkri lýsandi perlu
sem aldrei hefur fundist.
KRISTINN MAGNÚSSON
Ferðalangur
Þú
sérð ekki
stóra fuglinn
fyrir sólinni,
ekki heldur
litla fuglinn
inní
stóra fuglinum —
því hún
er hátt á lofti
í augum þér
sólin og sælan
sunnan við
landið þitt
Hann
sækir þig heim
litli fuglinn
að vori
Arnór Egilsson
Ytri Rangá
Hún líður hjá
lygn í þokunni,
óendanleg litbrigði
á eilífri hreyfingu.
Hún streymir hjá
hljóð í logninu,
órofin kyrrstaða
í stöðugri breytingu.
Hún rennur hjá
hvítfrissandi í rokinu,
ógleymanleg mynd
í huga sjáandans.
Hún flæðir hjá
hljóðlaus undir snjónum,
ósýnileg í bylnum
í ísilögðum vetrarböndum.
Hversu oft hef ég
hugfallinn staðið,
horft og hlýtt á
hennar eilífu hljómkviðu.
Jón frá Pálmholti er rithöfundur I Reykjavfk.
Kristinn Magnússon var prenfari, en vinnur nú
viö stööumæiavörztu I Reykjavlk. Arnór Egilsson
er læknir á Heiiu.
LESBOK MORGUNBLAOSINS 23. FEBRÚAR 1985 13