Lesbók Morgunblaðsins - 02.03.1996, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 02.03.1996, Blaðsíða 3
i-Bgnflg ® [öl 0 H 0® B B 0 Hl a □ ® [D Útgefandi: Hf. Árvakur, Reykjavík. Freskur mexíkanska málarans Diego Rivera í Mexíkóborg eru listræn afrek og eitt af því sem ferðamenn eru hvattir til að sjá. A veggjum Þjóðarhallarinn- ar er hægt að „lesa“ sögu þjóðarinnar og um ýmsar indíánamenningar, sem fyrr voru í landinu. Blaðamaður Lesbókar leit á freskurnar og hugleið- ir um leið okkar eign fátækt í verkum af þessu tagi. Viðskiptin efla alla dáð, er heiti greinar sem hefst á forsíð- unni og er eftir Þorvald Gylfason prófessor. Hann tekur þar dæmi af Hong Kong sem var fáætkt þorp snemma á öldinni, en tekjur á mann eru þar nú með því hæsta sem gerist. Þorvaldur nefnir dæmi um framleiðslu- og viðskiptasnilld þeirra í Hong Kong og vitnar í hvatningarræðu Jóns Sig- urðssonar frá 1843, en Jón virðist hafa séð það sem margir íslendingar sjá ekki á vorum dögum. Nágrannar Vestur-íslendinga við Winnipegvatn voru ekki sízt indíánar, frumbyggjar landsins, sem enn byggja Norður-Kanada. Um Algonkin-indíána, eins og þeir eru nefndir, skrifar Tryggvi V. Líndal, þjóðfé- lagsfræðingur. SVEINBJÖRN BEINTEINSSON Harmur Hver dagur skiptir sköpum böls og gleði því skilur enginn dauðans miklu völd en þar sem áður yndi dagsins réði er autt og tómt við harmsins rökkurtjöid. Þar skynjum við í táralausum trega þá trú sem ræður okkar von og þrá og sýnist horfin heillum allra vega sú hugmynd er fyr við treystum á. Að kvöldi voru hallir dagsins hrundar og húmið lokar útsýn fram á veg þó sjáum við að örlög einnar stundar þau eiga meira vald en þú og ég. Á meðan döpur dægrin litum breyta og dimmir að í hugans þagnarborg skal þreyttur andi lífs og vonar leita í Ijósi því sem býr í dýpstu sorg. Að harmsins boði horfna gleðistundin við hljóða kyrrð í tómi sorgarlags í nýrri mynd er minningunni bundin og merkt í svip og línur þessa dags. Sveinbjörn Beinteinsson, 1924-1993, var fæddur í Grafardal en bjó lengst af á Draghálsi í Borgarfirði og var jafnframt Ijóðskáld og allherjargoði ásatrúarmanna. Hann er kunnur fyrir kveðskap, orti sjálfur rímur og hafði yfirgripsmikla þekkingu á bragarháttum. Tímarnir tvennir AÐ er ekki oft sem tóm gefst til þess að hugleiða í rólegheitum, að maður megi nú muna tímana tvenna, enda er það kannski svo, að slíkar hugsanir sækja ekki svo mjög á hugann fyrr en viðkomandi nálgast það sem kallað er miður aldur. Eða öllu heldur, bytjar að líta á sjálfa/n sig sem miðaldra, sem er kannski allt annað fyrirbæri og getur komið síðar á þroskabrautinni en hinn raun- verulegi miðji aldur. Eg datt í þann pytt fyrir skömmu að fara að bera saman bernsku mína og minna leikfé- laga, við bernsku barna minna og þeirra fé- laga. Aðdragandi þessa var sá, að ég fór ásamt nokkrum kunningjum inn á lítið öldur- hús hér í borg, þar sem var skuggsýnt mjög. Þar var tekið mjúklega í öxl mér og mér heilsað með þessum orðum: „Blessuð, gamla vinkona!" Ég horfði bara á viðmælandann án þess að svara. Hann sagði þá: „Agnes! Á ég að trúa því að þú þekkir ekki þinn gamla leikfélaga? Leikfélaga sem lék þig grátt, bæði í Fallinni spýtu, fótbolta, handbolta, Staa, Hlaupastaa, brennó, kíló og öllum hin- um leikjunum!" ■ Ég varð bæði hvumsa og vandræðaleg, því ég þekkti ekki þennan miðaldra, stæði- lega, þunnhærða mann. Bar fyrir mig sígild- um afsökunum um hversu ómannglögg ég væri, skuggsýnt væri innandyra og sjón minni hefði hrakað allverulega frá því að ég hefði verið að kenna honum hand- og fót- mennt. Hann tók orðum mínum ljúfmannlega nema þessum um boltakennsluna, sem hann endursendi beint til föðurhúsanna sem mark- laust hjal, sagði til nafns og um leið vissi ég að auðvitað átti ég að þekkja þennan bernskuvin minn og leikfélaga og skammað- ist mín allnokkuð. En tæpir þrír áratugir höfðu liðið frá því fundum okkar bar síðast saman, þannig að kannski eru það engin undur og stórmerki að ég stóð mig ekki betur en þetta. Hann upplýsti mig um að hann hefði verið búsettur erlendis í tæpa tvo áratugi og væri bara í stuttri heimsókn á gamla Fróni. Svona fundur varð náttúrlega til þess að ég varð viðskila við kunningjahópinn og við tókum okkur sæti úti í horni og hófum „nostalgískar upprifjanir" og ýmis saman- burðarfræði á bernsku okkar og barna okk- ar, sem eru eiginlega kveikjan að þessu rabbi mínu. Hann rifjaði upp þegar við krakkarnir úr Víkingshverfinu fórum í hópferð á góðum sumardögum seint á sjötta og snemma á sjö- unda áratugnum í myndarlegar gönguferðir niður í ElUðaárdal, útbúin smurðu nesti frá mæðrum okkar, mjólkurflöskum með kakós- ulli og tómum sultukrukkum sem voru veiðar- færi okkar fyrir þá göfugu iðju, hornsílaveið- ar í Elliðaám. Hvernig við svo breyttumst í gólandi, drápsóða indíána á eyjunni í Elliða- ám, sem göngubrú lá út í frá Rafstöðinni. Eyjan sú heitir raunar enn í okkar huga Indí- ánaey. Hann rifjaði upp hvernig við „teikuðum" bíla niður eftir Réttarholtsvegi, við takmark- aða hrifningu bílstjóranna og ómældar skammir foreldranna, ef upp um okkur komst. Hann riíjaði upp hvernig skíðabúnað- ur okkar var á þessum árum, svona 1958 til 1964; tréskíði, stáltá, leðuról fyrir hælinn, sem smeygt var upp á gúmmístígvélin. Hvernig við öxluðum skíðin á góðum vetrar- dögum og þrömmuðum austur hitaveitu- stokkinn og kjöguðum svo upp Ártúnsbrekk- una aftur og aftur og aftur og renndum okkur niður á milli. Engar voru þær skíðalyft- urnar þá. Hann riíjaði líka upp hvernig við vorum rennblaut, hrakin og köld, þegar við snerum heim á leið úr Ártúnsbrekkunni, með epla- kinnar og bros á vör, alsæl eftir skíðaævin- týr dagsins. Skautaferðirnar niður á Tjörn urðu okkur einnig að upprifjunarefni og það hvernig krakkahóparnir höfðu farið í slíka leiðangra saman, skautað klukkustundum saman á Tjörninni í brunagaddi, öll haldandi í einn og sama lopatrefilinn. Já, hann vinur minn hafði margs að minn- ast og fékk mig til þess að rifja upp margt, sem satt best að segja var næstum gleymt. Við urðum ásátt um að það hefði nánast alltaf verið gott veður á sumrin þegar við vorum börn. Víkingsvöllurinn fóstraði okkur daglangt, það gerði Kobbahús við Hólmgarð líka, sem var aðalmiðstöð hverfisins fyrir boltaleikinn Yfir. Leikjaflóra okkar va.r ótrú- lega fjölbreytt og í minningunni er hún um- leikin rósrauðum ljóma. Þegar hér var komið sögu var komið að því að rýna örlítið í leikjaflóru barna okkar. Við vorum sammála um að á ýmsan hátt væri betur búið að æsku landsins í dag, en á uppvaxtarárum okkar. íþróttastarf og tómstundastarf hvers konar væri mun fjöl- breyttara og betur skipulagt. Tækifæri barnanna til að velja og hafna væru óum- ræðilega fleiri en þegar malargöturnar og Víkingsvöllurinn fóstruðu okkur daginn út og daginn inn. Þtjúbíó í Austurbæjarbíói á sunnudögum var helsta skemmtun sunnudaganna og þang- að arkaði barnafjöld, með hasarblöð undir hönd og mikil viðskipti hófust með blöðin, áður en Roy Rogers og Trigger fönguðu at- hyglina alla. Nú er ekkert barn með börnum ef það á ekki tölvuleiki og það helst nokkra. Hver man ekki eftir körfuboltamyndaæðinu, sem heltók hvert barnshjarta fyrir tveimur eða þremur árum, eða poxinu sem tók við af því? Auðvitað er stigsmunur en ekki eðlis á leikjum, sem fólu í sér söfnun í okkar bernsku, á hasarblöðum og leikaramyndum, og leikjum dagsins í dag, með söfnun tölvu- leikja, körfuboltamynda og poxsleggja. Þegar ég og félagi minn vorum hér komin í samanburðarfræðunum urðum við að viður- kenna, að það voru einkum umbúðir bama- leikja og tómstunda, sem höfðu breyst til muna frá því að við vorum börn, en ekki sjálft innihaldið. Að vísu er fjölbreytileikinn mun meiri í dag en fyrir þremur áratugum, en það þarf ekki alltaf að vera af hinu góða. Mikið framboð og fjölbreytt getur einfaldlega ruglað barnssálina og við hölluðumst að því að úrval bernsku okkar hefði nægt okkur og vel það. Við urðum sammála um að það sem væri alversta breytingin frá því að við vorum böm væri sú staðreynd, að börn í dag lesa svo miklu minna af bókum en við gerðum. Við og félagar okkar vomm fastagestir í útibúi Borgarbókasafnsins á Hólmgarði, þar sem Jón Björnsson sussaði á okkur strangur á svip og hafði undurgóðan aga á okkur, ef það heyrðist svo mikið sem múkk. Við burð- uðumst heim með átta til tíu bækur eftir hveija heimsókn, tókum fram landabréfabók- ina og laumuðum svo spennandi sögubók inn i hana, gleyptum í okkur Ævintýrabækum- ar, Fimm-bækurnar, bækurnar um Kim, Tom Swift, Árna í Hraunkoti, Kötlu o.s.frv. en þóttumst auðvitað vera að rífa í okkur landa- fræðina. Við urðum sammála um að einn versti óvinur íslenskra barna í dag er sjónvarpið, með offramboð af lágmenningardrasli, of- beldismyndum og anglósaxneskum áhrifum út í eitt. Við vorum raunar bæði jafn þakk- lát fyrir að sjónvarpið náði ekki heljartökum á okkur á mótunarámm okkar og bárum saman aðferðafræðina, sem við beitum til þess að lágmarka sjónvarpsgláp ungviðisins. Á mínu heimili er kvótakerfíð alræmda sú stjórnunaraðferð sem best hefur reynst. Nið- urstaða okkar úr samanburðarfræðunum og „nostalgíuupprifjunum" varð sú, að við hefð- um ekki viljað skipta á okkar bernsku við nokkra aðra. Agnes Bragadóttir LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 2. MARS1996 3

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.