Lesbók Morgunblaðsins - 14.08.1999, Blaðsíða 15

Lesbók Morgunblaðsins - 14.08.1999, Blaðsíða 15
SYNING TVEGGJA HEIMA Morgunblaðið/Kristján HANNES Sigurðsson og Hlynur Hallsson standa fyrir framan verk japanska myndlistarmanns- ins Makoto Aida, en það verk þykir endurspegla forna japanska myndlistarhefð og japönsk teiknimyndaáhrif. / Listasafninu á Akureyri verður opnuð í dag sýning á verkum listamannanna Hlyns Hallsspnar og Makoto Aida, sem kemur frá Japan. A sýningunni eru ljósmyndir, málverk og myndbandsverk sem munu gefa áhorfend- um innsýn í ólíka menningarheima sem byggja á eða vísa til nýrra og fornra hefða heimalands listamannanna, eins og segir í fréttatilkynn- ingu frá Listasafninu. I tengslum við sýning- una kemur hingað til lands virtur japanskur gagnrýnandi, Saturo Nagoya, og mun hann halda fyrirlestur um japanska samtímalist. Hann mun síðan kynna íslenska list í Japan er hann snýr aftur til heimalands síns. Landamæri eða mörk Hlynur sagði að verkin sem hann sýndi væru frá síðustu þremur árum en langflest væru gerð á þessu ári. „Ég sýni ljósmyndir, texta, póstkort, myndbandsverk, viðhorfskönnun og niðurstöður. Já, viðhorfskönnunin er tíu spurn- ingar sem ég bið sýningargesti að svara og nota svo niðurstöður svaranna. Niðurstöðurnar sem ég sýni hér eru unnar úr svörum sýning- argesta á átta síðustu sýningum,“ sagði Hlyn- ur. Þess má geta að Hlynur býr í Hannover og starfar þar að myndlist. Landamæri eða ákveðin mörk milli tveggja heima eru Hlyni ákaflega huglæg. Þetta kemur meðal annars fram í því að hann sýnir teikn- ingar af pólitískum landamærum ríkja, gerð af manna völdum. „Ég er t.d. með teikningu af pólitískum landamærum Islands og þar af leið- andi er hún bara autt blað því hér eru landa- mærin náttúruleg," sagði Hlynur. Hann sýnir einnig myndbandsverk sem hann tók út um glugga á rútu við ferðalag frá-Þýskalandi til Króatíu í þann mund sem rútan fór yfir landa- mæri þeirra ríkja sem á leiðinni voru. Huglæg mörk Þessi hugmynd um landamæri eða mörk endurspeglast í spurningum þeim sem Hlynur leggur fyrir sýningargesti í viðhorfskönnun- inni. „Mér finnst að þýska og enska orðið yfir landamæri hafi mun víðari merkingu en það ís- lenska. „Borders" eru einmitt einhvers konar mörk og það var það sem ég leitaði eftir í svör- um gestanna. Spurningar eins og í hvaða borg fólk vilji búa, hvaða bjór því þyki bestur og hvers konar vörur það kaupir, kallar á að það skoði hvar það sjálft setur sín mörk. Kaupir það kannski bjór frá Þýskalandi frekar en frá Islandi og þess háttar spurningar koma upp í hugann," sagði Hlynur. Onnur verk sem Hlynur sýnir á Akureyri er t.d. myndasería af fjölskyldu hans sem eru myndir af lífi venjulegrar fjölskyldu í daglegu lífi. Einnig sýnir hann myndbandsverk þar sem nokkrir einstaklingar víðs vegar að úr heiminum segja, á sínu móðurmáli, hvað þeim þykir mikilvægt. I tengslum við myndasýning- arnar eru póstkort með textum sem gestir geta tekið og sent hvert sem er í heiminum og þannig kemur hugmyndin um mörk á milli heima aftur upp. Gagnrýnendaskipli Hannes Sigurðsson, forstöðumaður listasafns Akureyrar, sagði að þessi sýning hefði átt sér langan aðdraganda. „Islenska menningarsam- steypan art.is lagði til við Sasakawa-sjóðinn að gerð yrði tilraun með að koma á samskiptum gagm-ýnenda frá Japan og íslandi. Sjóðurinn tók vel í málið og hingað til landsins kemur jap- anski gagnrýnandinn Saturo Nagoya og heldur fyrh-lestur um japanska samtímalist í Listasafn- inu á Akureyi’i 26. ágúst. Þess má líka geta að hann heldur einnig fyrirlestur á Kjai’valsstöð- um. Nagoya ætlar að kynna sér íslenska nú- tímalist og fjalla um hana í Japan og hvað bar* fyrir augu hans í Islandsferðinni. Hugmyndin er að gjalda í sömu mynt að ári liðnu og senda ís- lenskan gagnrýnanda til Japan,“ sagði Hannes. Virtur gagnrýnandi Hannes sagði að hann hefði haft samband við Þórodd Bjamason myndlistannann sem þá var í námi í Japan. Það var hann sem kom Hannesi í samband við Nagoya. Nagoya er mjög þekktur í japönskum myndlistai’heimi og hefur skrifað fyrir fjölmörg menningartímarit, auk þess sem hann er fréttaritari stærsta list- tímarits heims, FlashArt International. „I framhaldinu vaknaði sú hugmynd að fá að sýna hér einnig verk japansks listamanns. Na- goya taldi að Makoto Aida væri best til þess fallinn. Það er skemmtilegt til þess að vita að hann er á svipuðum aldri og Hlynur,“ sagði Hannes. Hannes sagði að listamennirnir tveir kæmu úr mjög ólíku menningarumhverfi og að Aida speglaði vel sitt samfélag. Togstrcita í verkunum „Togstreita á milli hefða og nútímaþróunar einkennir japanska myndlist, en vestræn áhrif komu þar afar seint til sögunnar, áður nam lærlingurinn af meistaranum og bætti litlu við af sinni hálfu. Þessi togstreita kemur sterkt fram í verkum Aida. I málverkum hans skína í gegn Mango-áhrif, en það er japönsk teikni- myndahefð, oft mjög ofbeldisfull, og svo líka áhrif frá klassískum tréskurðarmeisturum, á borð við Hokusai,“ sagði Hannes. „Munurinn á milli íslenskra og japanskra myndlistarmanna liggur kannski helst í því að íslenskir myn'dlistai-menn hafa ferðast mjög víða um heiminn og áhrifavaldar þein’a koma úr mörgum átttum. Japanskir listamenn hleypa sjaldnar heimdraganum og sýna ekki oft utan Japans. I seinni tíð hafa þó komið fram þekktir japanskir listamenn og ber þaa- fremstan að telja Onkawara," sagði Hannes að lokum. Sýningin verður opnuð í dag kl. 16 og stend- ur yfir til 7. október. TðNLIST Sfgildir diskar SJOSTAKOVITSJ Dmitri Sjostakovitsj: 24 prelúdíur og fúgur Op. 87. Vlademir Ashkenazy, pianó. Decca 466 066-2. Upptaka: DDD, Berlín/Winterthur/London 6/1996-4/1998. Útgáfuár: 1999. Lengd (2 diskar): 141:43. Verð (Skffan); 2.999 kr. HINAR 48 prelúdíur og fúgur Baehs, öðru nafni „Vel tempraða hljómborðið", frá 1722 (I. bindi) og 1744 (II.), hafa í meira en 200 ár þótt ef ekki síðasta, þá a.m.k. æðsta orðið sem sagt hefur verið af því tagi. Af Prelúdí- unum og fúgunum 48 hefur stafað þvílíkur ljómi, að tónskáld seinni tíma hafa iðulega veigrað sér við að nota sams konar verkheiti af ótta við að lenda í beinum samanburði. Dmitri Sjostakovitsj (1906-75) lét sig samt hafa það, þegar hann samdi sínar 24 prelúdí- ur og fúgur á aðeins rúmum fjórum mánuð- um 1950-51, eftir að hafa verið kallaður til sem dómari í píanókeppni í Leipzig í tilefni af tveggja alda ártíð Bachs. Þar heyrði hann löndu sína Tatjönu Nikolajevu leika úr öðru bindi Vel tempraða hljómborðsins, og ásetti sér af einskærri hrifningu að semja sam- svarandi safn fyrir hana í öllum tóntegund- um áttundarinnar. Þó ekki í hækkandi hálf- tónaröð eins og hjá Bach, heldur raðað eftir fimmundarhringnum, líkt og Chopin gerði við 24 prelúdíur sínar Op. 28. „Prelúdíur og fúgur“ á 20. öld? Menn átt- uðu sig eðlilega ekki í fyrstu, og áttu framan af til að afskrifa bálkinn sem hráa eftir- hermu, ef þá ekki sem skringilegt nátttröll aftan úr forneskju sem kæmi ekki nútíma- fólki við. En það átti eftir að breytast. Smám saman fór verkið að heyrast oftar, með Nikolajevu og Svjatoslav Richter í broddi túlkenda, og þó að heildarinnspilanir séu enn teljandi á fingrum annarrar handar, hafa a.m.k. fjórar komið út á Vesturlöndum á geisladiska - með Nikolajevu (Hyperion 1991), Papadopoulos (Kingdom 1991), Keith Jarrett (ÉCM 1992) og nú með Vladimir As- hkenazy á Decca. Tatjana Nikolajeva mótaði sem von var grunntúlkun verksins, en án þess að hafa heyrt hvorki Jarrett og Papadopoulos, má samt leiða að líkum, að með Ashkenazy sé loks komin verðug hliðstæða við djúprist inn- VEL TEMPRAÐI RÚSSINN sæi Nikolajevu. Auðheyrt er að Ashkenazy hefur gefíð sér góðan tíma til yfirlegu, því túlkun hans er afar innlifuð, án þess að vera ópersónuleg. Þá hefur hann fram yfir Nikolajevu tæknilegan brillj- ans, er ljær þróttmeiri þáttunum glampa sem gamla konan náði ekki að skila í sama mæli, og upp- takan virðist bæði mýkri og tær- ari en Hyperion-upptakan frá 1990. Tempóin eru og frísklegri hjá Ashkenazy, sem sést líka á lengdarmuninum - 165 mínútur hjá N., en aðeins 141 hjá A.(!) - án þess að verði nokkurs staðar vart við asa. Fyrir minn smekk geta tíð hraðahik N. stundum verkað þyngslaleg, en slíks gætir mun sjaldnai- hjá A. (berið t.d. saman fís-moll fúguna nr. 8 hjá téð- um píanósnillingum), og er ekki að efa að hrynþéttari túlkun Ashkenazys sé líklegri til að afla sérstæðu verki Sjostakovitsjar stór- aukinna vinsælda á næstu árum, því hún flet- ui’ að mínu viti hvergi út dýptina sem að baki býr, líkt og hætt er við hjá minni spámönnum. Ef fjölbreytni væri mælikvarði í sjálfri sér, gæti fátt skákað Op. 87, jafnvel þótt bor- ið væri saman við aðra píanóbálka í frjálsari formi, því verkið er sneisafullt af ólíkum stíl- um og tilfinningum þrátt fyrir nafngiftina. Það er eins og Sjostakovitsj hafi magnazt upp um allan helming við að setja sér þröng- ar skorður og gerzt skáldlegri og innblásnari en jafnvel galopnar fantasíur og impromptu- formleysur gæfu tilefni til. Einmitt þetta - þegar skáldskapur streymir að virðist óheft á yfirborði undir ströngustu formkvöðum þegar neðar er kafað - hefur jafnan verið kallað list listanna. Formið ti’uflar ekki upp- lifunina. Það bara er þarna, undir niðri, og hvort styður annað, svo útkoman verður, frekar ómeðvitað en hitt, heilsteyptur sam- runi anda og æðis. Svo fátt eitt sé til tínt úr þessu makalausu nægtarhomi, þá dytti manni t.a.m. í hug tvöfalda fúgan í e (nr. 4.), debussyíska klukku- spilsfúgan í a (7.), dulúðuga fug- an í fis (8.), passacaglíu-prelúdí- an í gís (11.) með fimmskiptu fúguna æðandi á eftir sem rytmískur hvh’filbylur, íhugula 5- radda fúgan í Fís (13.), hin streymandi SA fúga í es (14.), truðsvals-prelúdían í Des (15.) með „brjálaðri" krómatískri krossrytma-fúgu í kjölfarið, þrælunna fimmskipta staccato- fúgan með bamalagskennda stefinu í As (17.), hin stórbrotna kóral-prelúdía með juðandi staccato-mótstefi í Es (19.), „perpetuo mobile“-prelúdían í B (21.) með leiftrandi og fjaðurmagnaðri fugu sér við hlið, stimamjúka prelúdían næst á eftir í g (22.), hefðbundna en andríka F-fúgan (23.) og í lokin hin tignarlega prelúdía í d (24.) sem boðar í andstefi lengstu fúgu verksins - rúm- ar 7 mínútur - er lýkur þessu miklu ferðalagi eftir kyrrlátan inngang með tilfinningahlað- inni tign. Meistaraverk? Já, svo sannar- lega! Það er ekki ofmælt sem Nikolajeva sagði 1991, að hver einasta prelúdía og fúga geymir veröld út af fyrir sig. Og nú heyrist það jafnvel enn betur en áður. Samanburður við meistara Bach liggur beinast við - og verk Sjostakovitsjar Op. 87 stendui- þar í mínum huga, því oftar sem hlustað er, sem óbrot> gjarn minnisvarði um mesta skáld kontra- punktsins sem uppi hefur verið eftir að fimmti guðspjallamaðurinn frá Eisenach kvaddi þennan heim. TSJÆKOVSKÍJ Pjotr Tsjækovskfl: Þyrnirús. Ballett í þrem þáttum við ævintýri Charles Perraults. Rúss- neska þjúðarhljúmsveitin u. stj. Mikhails Plet- nevs. Deutsche Grammophon 457 634-2. Upp- Dmitri Sjostakovitsj taka: DDD, rikistúnlistarháskúlasalnum i Moskvu, 10/1997. Útgáfuár: 1999. Lengd (2 diskar): 159:01. Verð (Skífan): 2.999 kr. Það þykh’ kannski undarlegt, hér á „öld augans“ sem stríðelur okkur á sjónrænu áreiti hvers konar, að gefa frægan ballett út í heild á hljómdiski í stað myndbands eða DVD. En þegar betur er að gáð, er meira vit í því en virðist í fyi’stu. Það eru einmitt sí- gildir tónlistarunnendur (og bóklestrarhest- ai’) sem manna bezt hafa varðveitt þann hæfileika til að bregða upp myndum innra með sér sem uppeldisfræðingar kvarta nú sáran um að sé að hverfa hjá komandi kyn- slóð sakir sjónvarpsgláps. Og þó að ball- etttónlist Pjotrs Tsjækovskíjs (1840-93) hafi vissulega ekki verið hugsuð til nota utan danspallsins, er hún það vel samin, líka sem „algjör“ tónlist handan við þjónustuhlut- verkið, að jafnvel raðir stakra smáatvika virðast loða saman sem samfelld heild, þrátt fýrir öll stoppin á milli. Óstyttar útgáfur af heilskvöldsballettum Tsjækovskíjs eru þó vitanlega fæiri en „highlights“-úrvölin, sem eru á hverju strái, enda þar samankomnar margar þekktustu lagperlur hins mikla melódíusnillings. Það hvarflar að manni, að ein ástæða þess hvað balletttónlist hans höfðar til margra gæti verið tengd líkamleg- um úthaldstakmörkum dansara. Sem sé: stutt atriði = hnitmiðuð melódík! Að sjálf- sögðu fyrir utan danshrynjandina, sem ávallt gerir sig í mennskri músík. í því sambandi er raunar stundum eins og nútímatónskáld geti hvorki sungið né dansað. Þyrnirósartónlist Tsjækovskíjs er mikill töfrahellir dýrðlegra augnablika í tónum, og ekki undarlegt að draumasmiðurinn Disney skyldi hafa byggt gotnesku teiknimynd sína frá 1959 á ballettmúsík Rússans snjalla við mannvígsluævintýr Perraults. Stjórnandi rússnesku þjóðarhjómsveitarinnar, Mikhail Pletnev, er jafnvígur á sprota og píanó (kom áður við sögu hér í dálki 6.6.1998 fyrir leiftr- andi túlkun á Scarlatti-sónötum) og stýrir frábærri hljómsveit af alúð og snerpu. Upptakan hefur heppnazt mjög vel og nýtir afburðaakústík hátíðarsalar tónlistarháskól- ans í Moskvu út í æsar. Þetta er sannkölluð draumatónlist í úrvalsflokki. Og eitt að lok- um: Hví ekki reyna hana sem bakgrunn við ævintýraupplestur fyrir yngstu börnin? RfKARÐUR Ó. PÁLSSON LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/LISTIR 14. ÁGÚST 1999 1 5-

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.