Lesbók Morgunblaðsins - 04.09.1999, Blaðsíða 9

Lesbók Morgunblaðsins - 04.09.1999, Blaðsíða 9
ferðir um Reykjavík og nágrenni. Þar verða skoðaðir áhugaverðir staðir og mannvirki undir faglegri leiðsögn ýmissa sérfræðinga. Einnig er heilsdagsferð þar sem m.a. verður farið um þjóðgarðinn á Þingvöllum og til Nesjavalla. Þann 8. september verður farið upp á hálendið og skipulag þess kynnt. Forseti Islands, herra Olafur Ragnar Grímsson, er verndari ráðstefnunnar. íslensk núlímabyggingarlist Ein þeirra skoðunarferða sem í boði verða á Norræna byggingardeginum, hefur yfír- skriftina „Islensk nútímabyggingarlist“ og hefur Arkitektafélag Islands skipulagt þá ferð. Skoðaðar verða nokkrar byggingar sem hafa verið hannaðar og byggðar á síðastliðn- um 10 árum og er einungis um að ræða lítið brot af íslenskri nútímabyggingarlist. Áhersla hefur verið lögð á að velja byggingar sem gegna mismunandi hlutverki og eru í mis- munandi umhverfi. Einnig hefur valið miðast við að byggingarnar væru dreifðar um höfuð- borgarsvæðið. Þannig fæst yfírsýn yfir Reykjavík og nágrenni. Hægt er að sjá hvem- ig borgin hefur vaxið frá miðbænum í Kvos- inni austur fyrir Elliðaár og hvernig ná- grannabæjarfélögin eru orðin hluti svokall- aðrar Stór-Reykjavíkur. Farið verður frá Háskólabíói og haldið í miðbæ Reykjavíkur um Kvosina, elsta hluta borgarinnar. Fyrsta byggingin sem skoðuð verður er hús Hæstaréttar Islands sem hann- að er af Studio Granda. Þaðan verður haldið inn í Laugardal sem áður tengdist miðbænum sem þvottastaður, en er nú dæmi um upp- byggingu íþrótta-og útivistaraðstöðu fyrir bæjarbúa. Því næst er haldið um nokkur eldri út- hverfi, frá því um og eftir 1960, að höfuðstöðv- um Rauða Kross Islands en húsið er hannað af Glámu/Kím arkitektum ehf. A leiðinni má sjá nýjan miðbæ borgarinnar. Þar er m.a. Borgarleikhúsið, hannað af arkitektunum Olafi Sigurðssyni, Guðmundi Kr. Guðmunds- syni og Þorsteini Gunnarssyni, og nokkrar skrifstofubyggingar svo sem bygging Sjóvár- Almennra hönnuð af Ingimundi Sveinssyni arkitekt og hús Morgunblaðsins hannað af arkitektunum Gunnai-i Hanssyni og Helgu Gunnarsdóttur. I næsta nágrenni við Rauða kross húsið má jafnframt sjá Utvarpshúsið sem er hannað af arkitektunum Vilhjálmi og Helga Hjálmarssonum. Að því loknu verður haldið sem leið liggur um Miklubraut, aðalstofnbraut bæjarins og aðkomuleið út að ytri mörkum borgarinnar. A leiðinni má sjá nýleg dæmi um umferðar- mannvirki svo sem Höfðabakkabrúna, en Studio Grandi sá um útlitsmótun brúarinnar. Þá er haldið sem leið liggur inn í Árbæjar- hverfi, austasta hverfi borgarinnar. Hverfið er kennt við bæinn Árbæ sem nú hýsir Minjasafn Reykjavíkur, Árbæjarsafn. Árbær vai- á öldum áður var gjarnan síðasti áningarstaður áður en komið var til Reykja- víkur I Árbæjarhverfi verður Árbæjarsund- laug skoðuð en hún er hönnuð af Úti og inni arkitektastofu sf. Frá Árbæjarhverfi teygir borgin sig til norðurs og suðurs með ströndinni. Það verður haldið sem leið liggur um Breiðholt, stærsta úthverfi Reykjavíkur, í gegnum nágranna- bæjarfélögin Kópavog og Garðabæ, til Hafn- arfjarðar sem er syðst bæjarfélaganna í nán- asta nágrenni við Reykjavík. Hafnarfjörður hefur þá sérstöðu umfram önnur nágranna- bæjarfélög að eiga sér gamlan byggðarkjarna og byggðasögu sem er jafngömul þéttbýlis- sögu Reykjavíkur. Þar verður safnaðarheimili og tónlistarskóli í miðbæ Hafnarfjarðar skoð- að. Byggingin er hönnuð á teiknistofunni Tröð ehf. Þegar heimsókninni í Hafnarfjörð lýkur verður haldið til miðborgar Reykjavíkur á ný. Farið verður um miðbæ Garðabæjar sem margar nýjar byggingar setja svip á. Einnig verður ekið um vestari hluta Kópavogs þar sem meðal annars má sjá nýtt tónlistarhús Kópavogs hannað af arkitektunum Jakobi Líndal og Kristjáni Ásgeirssyni.og Listasafn Kópavogs, Gerðarsafn, hannað af Benjamín Magnússyni arkitekt. Ferðinni mun Ijúka í Norræna húsinu í Reykjavík. Þar mun forstöðumaður hússins Riita Heinámaa segja frá starfsemi hússins. Norræna húsið er teiknað af finnska arki- tektinum Alvar Aalto, einum helsta meistara norrænnar nútímabyggingalistar á þessari öld. Bygging hans er jafnframt eina nútíma byggingin hérlendis sem hönnuð er af er- lendum arkitekt og því eina dæmið um er- lenda nútímabyggingarlist í landinu. Bygg- ingin er staðsett í útjaðri miðborgarinnar á opnu svæði sem tilheyrir svæði Háskóla ís- lands. ÓLÖF GUÐNÝ VALDIMARSDÓTTIR og BALDUR Ó. SVAVARSSON arkitektar. „BÁRÐUR MINN Á JÖKLI" EFTIR VALDIMAR HREIÐARSSON Á ARNARSTAPA á Snæfellsnesi stendur stór hlaðin stytta af svipmiklum og mikilúð- legum manni. Hann horfir til Snæfellsjök- uls, þessi maður, og það er engu líkara en hann sé hluti af náttúru staðarins, að hann endurspegli hana og túlki í mynd, sem virð- ist af hálfu manns og hálfu trölls. Ragnar heitinn Kjartansson myndlistarmaður er höfundur verksins sem var afhjúpað 17. júní 1985. Er það reist til minningar um hjónin Jón Sigurðsson og Guðrúnu Sigtryggsdótt- ur, sem bjuggu lengst af á Bjargi á Arnar- stapa. Hver var hann, þessi mikli maður, sem á sér svo mikilfenglega mynd og minnismerki vestur á Arnarstapa á Snjófellsnesi? Því er ef til vill fyrst til að svara, að ef trúa má Bárðar- sögu var Bárður Snæfellsás ekki mennskur maður í venjulegri merkingu þess orðs. Ber þar allt að sama brunni, ætterni Bárðar, lífs- hlaup hans og ævilok. Og þá aðeins ef unnt er að tala um ævilok í eiginlegum skilningi, því saga Bárðar getur hvergi dauða hans, sem var þó allajafna vani, þá sagt er frá landnáms- mönnum. I upphafi Bárðarsögu segir frá foreldrum Bárðar. Faðir hans var Dumbur, konungur í Hellulandi. Dumbshaf er kennt við Dumb konung, en nú á dögum er það betur þekkt sem Norður-íshaf. Svo er sagt um Dumb kon- ung, að hann væri kominn „af risakyni í föður- ætt sína, en það fólk var vænna og stærra en annað fólk“, en að móðir hans hafi verið af tröllaættum. Bar Dumbur, faðir Bárðar, merki ættemis síns, því að hann var bæði „sterkur og vænn og góður viðskiptis og kunni því að eiga allt sambland við mennska menn“. En honum brá í móðurkyn sitt, tröllaættina, þannig, að hann var bæði „sterkur og stórvirkur og umskipta- samur og illskiptinn, ef honum eigi líkaði nokkuð“, eins og segir í Bárðarsögu. Reyndist Dumbur vel sínu fólki og var því bjargvættur. Má af lýsingunni á Dumbi ráða, að þeir hafi verið líkt skapi farnir þeir feðgar, Bárður og Dumbur. Móðir Bárðar var Mjöll Snæsdóttir, segir svo um hana, að hún hafi verið „kvenna fríð- ust, og nær allra kvenna stærst, þeirra sem mennskar voru, og mun þar hafa komið fram ætterni hennar. Segir sagan, að Mjöll móðir Bárðar hafi verið „svo fögur, eða björt á skinnlit, að sá snjór tók þar nafn af henni, er hvítastur er og í logni fellur og mjöll er kall- aður. Þá er Bárður fæddist þeim hjónum, var hann bæði mikill og vænn að sjá, og „furðu líkur móður sinni“. Mun honum þá hafa brugðið til móðurættar um útlit, en skapferli til föðurættar. Bárði var barni að aldri komið í fóstur hjá bergbúanum Dofra í Dofrafjöllum, og lærði Bárður af Dofra alls kyns íþrottir og ættvísi og vígfimi, og segir sagan, að eigi var traust, að hann næmi eigi galdra og forneskju, svo að bæði varð hann forspár og margvís. Með Dofra í hellinum var dóttir hans, Flaumgerður, og er ekki að orðlengja það, að vel fór á með þeim Bárði. Giftust þau síðan og eignuðust þrjár dætur, þær Helgu, Þórdísi og Guðrúnu. Stuttu síðar deyr Flaumgerður, og giftist Bárður þá Herþrúði, dóttur Hrólfs hersis hins auðga og eignaðist með henni sex dætur. Nokkru eftir giftingu þeirra Herþrúð- ar og Bárðar, fer að draga til tíðinda í Nor- egi. Fyrst er til að taka, að þursar gengu í bandalag í þeim tilgangi að ráða Dumb kon- ung af dögum. Tókst þeim það við illan leik. Fór Bárður þá norður eftir ásamt bróður sín- um og hefndu þeir föður síns. Ekki treystust þeir til að taka sér bústað þar nyrðra, og héldu heim aftur. Þá var Haraldur konungur lúfa að eflast til ríkis í Noregi, og vildi Bárður heldur yfirgefa frændur og fósturjörð en lifa undir því ánauðaroki sem hann frétti að al- múginn í landinu yrði að sætta sig við. Varð því úr að Bárður hélt ásamt með fylgdarliði til íslands, sem þá var óðum að byggjast. Þeir lentu í hrakningum í hafi, og komu að landinu úr suðaustri. Það fyrsta, sem þeir sáu til þessa lands, er átti eftir að verða þeirra heimkynni æ síðan, var einmitt Jökullinn sjálfur. Fylgdarfólk Bárðar nam land víða hér úti á nesinu, þar á meðal Þorkell Rauðfeldur, er nam land á Arnarstapa. En sjálfur nam Bárður land að Laugar- brekku. En ekki átti fyrir Bárði að liggja að búa lengi að Laugarbrekku, og segir í Bárð- arsögu, að hann hafi búið þar „nokkura stund“. Því að fáum árum eftir komu þeirra land- námsmannanna til landsins gerðust þeir at- burðir, er urðu örlagaríkir í lífi þeúra bræðra, Þorkels og Bárðar. Dætur Bárðar og synir Þorkels höfðu þann vana að vera að leikum á svellum á Barnaá. Þá bar svo við dag einn, er þau voru að leikum þarna, að Rauðfeldur, sonur Þorkels, hrindir Helgu, dóttur Bárðar, út á ísjaka, er lá við land. Stóð þá mikill vind- ur af landi, og bar jakann hratt út til hafíss- ins, er lá utar á sjónum. Þá sömu nótt rak haf- ísinn til Grænlands, og að 330 dögum liðnum komst Helga á land af ísnum í Grænlandi. Þetta var á þeim tíma, sem Eiríkur rauði bjó í Brattahlíð. Dvaldi Helga í góðu yfirlæti í Grænlandi, þó svo að þessi vísa, sem hún kvað þar, beri með sér, að heldur hefði hún kosið að dvelja í föðurgarði: Sæl væri ég, ef sjá mætti Búrfell og Bala, Báða Lóndranga, Aðalþegnshóla og Ondverðanes, Heiðarkollu og Hreggnasa, Dritvík og möl fyrir dyrum fóstra. Að sjálfsögðu var Bárði ókunnugt um afdrif Helgu, og þegar hann fréttir atburðinn, held- ur hann þegar að Arnarstapa og setur syni Þorkels, þá Rauðfeld og Sölva, sinn undir hvora hönd, og gekk með þá til fjalls. Rauð- feldi kastaði hann í gjá eina, sem síðan hefur verið kölluð Rauðfeldsgjá, en með Sölva fór hann upp á hamar mikinn, og kastaði honum þar fram af. Síðan hefur hamar þessi verið nefndur Sölvahamar. Þegar Þorkell fréttir þetta fer hann þegar til fundar við bróður sinn, og takast þeir á, allt þar til Þorkell brotnar á fæti. Við þessa at- burði alla verða skil í ævi Bárðar, Segir í Bárðarsögu, að hann hafi gerst „bæði þögull og illur viðskiptis, svo að menn hofðu engar nytjai- hans síðar“. Er engu líkara en að fomeskjan sem hann þáði í arf eftir forfeður sína, tröllin í Noregi, hafi náð undirtökum í sál hans við þessa at- burði og skyggt á hina mannlegu þætti í eðli hans Segir Bárður sjálfur við Sigmund félaga sinn á þessa leið: „Eg sé það, að sakir ættar minnar og harma stórra ber eg ekki náttúru við alþýðu manna, og því mun eg leita mér nokkurra annarra ráða.“ Eftir þetta hverfur Bárður. Þó svo að ekk- ert sé fullyrt í Bárðarsögu, segir þar þó, að „mönnum þyki sem hann hafi í jöklana horfið og hafa byggt þar stóran helli, því að það var meira í ætt hans að vera í stórum hellum en húsum“. Síðan segir svo í sögu Bárðar: „Var hann tröllum og líkari að afli og vexti en mennskum mönnum, og var því lengt nafn hans og kallaður Bárður Snjófellsás, því að þeir trúðu á hann nálega þar um nesið og höfðu hann fyrir heitguð sinn. Varð hann og mörgum hin mesta bjargvættur.“ Gjarna var sagt um hina fyrstu landnáms- menn, að þeir hafi „dáið í fjöllin". Ekkert slíkt er sagt um Bárð í sögu hans. Hann einfald- lega hverfur í jökulinn, og dauða hans er hvergi getið í sögu hans allri. Því að sögu Bárðar lýkur ekki þá er hann gengur í jökul- inn, heldur þvert á móti. Það er ekki fyrr en hann er genginn í jökulinn, að hann gerist sá kynngimagnaði vættur, sem raun ber vitni. Þrátt fyrir það, að fomeskjan hafi náð tökum á honum og hrekkt til fjalla, var Bárður ávallt hinn góði vættur, sem bjargaði mönnum úr nauðum, og var heitið á til heilla, hvort sem mikið eða lítið lá við. Svo kvað Hetta tröllkona á skjá á Ingjalds- hvoli eitt sinn seint um kvöld: Út reri einn á báti Ingjaldur á skinnfeldi. Týndi átján önglum Ingjaldur á skinnfeldi og fertugu færi Ingjaldur á skinnfeldi. Aftur kom aldrei síðan Ingjaldur á skinnfeldi. Var Hetta tröllkona nokkuð hróðug að von- um, því hún taldi sig hafa vélt svo um fyrir Ingjaldi, að hún gæti flutt fregnina af dauða Ingjalds heim að Hvoli. En Bárður, hinn góði vættur, kom Ingjaldi til bjargar á síðustu stundu. Þau voru fleiri stórvirkin, sem Bárður vann eftir að hann var horfinn í jökulinn, og frá er sagt í sögu hans. En Bárð er ekki að- eins að finna i Bárðarsögu, því að hann hefur átt sér sess í íslenskri þjóðtrú í gegnum ald- irnar. Ekki liggur lífið við þá unnin er tó- vinna. En íslenskri alþýðu þótti gott að heita á Bárð Snæfellsás, og hafa yfir þennan formála í hálfum hljóðum á meðan þæft er svo að þóf- aranum gangi betur þófið: Bárðurminná Jökli, leggstu á þófið mitt. Eg skal gefa þér lóna ogíleppanaískóna, vettling á klóna, þegar ég kann að prjóna, naglabrot í bátinn þinn, hálfskeið undir hestinn þinn, mórautt lamb og gimburskel, og meira ef þú þæíir vel. Þannig hefur Bárður Snæfellsás verið vinur íslenskrar alþýðu, hvort sem var í litlu eða stóru. Það er ekki að ástæðulausu að höfund- ur Bárðarsogu nefnir ekki dauða Bárðar. Því að í huga íslenskrar alþýðu dó Bárður aldrei. Hann lifir enn í rúmgóðum hellum íslenskrai- þjóðarsálar, hann lifir í landi draumsins og ævintýrisins. Sál hans er enn að finna í kynn- gimagnaðri nátturunni undir Jökli. Heimildir: Aðallega Bárðar saga Snæfells- áss. Höfundurinn er prestur á Suðureyri. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/LISTIR 4. SEPTEMBER 1999 9

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.