Alþýðublaðið - 03.01.1990, Side 4
4
Miðvikudagur 3. jan. 1990
ÁVARP FORSETAISLANDS
1. janúar 1990
Góðan dag, góðir áheyrendur,
Ég óska landsmönnum öllum
gleðilegs nýárs með þeirri heilu von
að við megum nú líta til bjartari
tíma í íslensku þjóðlífi en verið hafa
um skeið. framtíðarspá um þjóðar-
hag leyfir okkur einnig að trúa að
svo sé og að við eigum nú að baki
örðugasta hjallann á nokkuð tor-
sóttri vegferð okkar á árinu sem
kvatt hefur og heyrir þegar sögunni
til. Allt andstreymi í stórum heimi er
þó afstætt og mér er stundum, þeg-
ar við kveinkum okkur mikið undan
þungum róðri, sem ég heyri vísna-
smiðinn þylja:
Finnst mér oft er þrautir þjá
þulid mjúkt uid eyra:
þetta er eins og ekkert hjá
ödru stœrra og meira.
Þyngst er okkur ávallt að lifa með
sorg við ástvinamissi og um þessi
áramót sem fyrr minnumst við
þeirra sem ekki eru lengur hluttak-
endur í lífi okkar og vottum þeim
sem sárast sakna innilegan samhug
okkar.
„Svo rís um aldir árið hvert um
sig. ..“ kvað Jónas í nýárskvæði
sínu. Og enn verður sama undrið,
nýtt ár, eilífðin í endurtekningunni,
en samt eitthvað breytt. Sólin er sú
sama og í fyrra, en þó er sem sitt-
hvað hafi breyst í Ijósi þessarar sólar.
Landið er hið sama og í fyrra en
samt nýtt og með einhverjum hætti
öðruvísi en fyrr. Og söm er þjóðin
sem landið byggir en þó hefur ævin-
lega eitthvað breyst í fari hennar og
aðstæðum. Því á hverjum tímamót-
um bíða okkar ný verk, nýr vandi og
oftar en ella ný gleði, — sá vandi og
sú gleði sem fylgir þeirri vegsemd
aö vera ísiendingur. Því það er í
senn gott til gæfu og vandasamt að
vera Islendingur.
Hafís við norðurstrendur landsins
er um þessar mundir enn einu sinni
að minna okkur á það, hvar við er-
um stödd á hnettinum, þessi sami
hafís sem skáldin kváðu um, „lands-
ins forni fjandi", sem boðaði hart
vor, kannske hungur og neyð. Samt
skyldum við aldrei gleyma því að-
stæður okkar nú eru allt aðrar en
formæðra okkar og feðra til þess að
fást við vandann sem skapast af
óblíðri náttúru, aðeins ef við viljum
beita til þess þekkingu okkar og
samtakamætti en látum ekki vanda
lítillar þjóðar í stórum heimi
smækka okkur, beygja okkur, held-
ur hvetja okkur til að horfa framan
í veröldina og segja án yfirlætis en
líka án óhóflegs lítillætis: Hér erum
við og hér verðum við — því að hér
viljum við vera.
Við erum nátengdari þessu landi
en margar aðrar þjóðir ættlöndum
sínum, þótt sumir finni það ekki fyrr
en þeir eru farnir héðan og horfa á
það úr fjarlægð. Við gleymum því
aldrei að við erum alin upp í töfra-
birtu hins íslenska sumars, okkur
finnst að við eigum þetta land með
einhverjum þeim hætti sem engu
líkist, ískalda jöklana líka og hrjóstr-
in öll. Þetta er landið sem við tókum
í arf og þess vegna er það okkar
land og við erum fólk þessa lands.
Þetta er það land sem við þekkj-
um og unnum. Og ekki aðeins land-
ið í heild: Átthagar eru stórt orð í
vitund okkar, oftast stærra en fyrir
öðrum annars staðar í álfum. Að
sumu leyti kann það að stafa af því
að í átthögunum ber næstum að
segja hver biettur nafn sem við
þekkjum og talar til okkar á gegn-
særri tungu. Bláfjöll og Jarlhettur,
Hveradalir og Hljóðaklettar, Jóru-
kleif og Ingólfsfjall — allt eru þetta
staðir sem bera okkur óm sögunnar
og náttúruskynjunar allt frá land-
námsöld. Of sjaldan gefum við því
líklega gaum hvern fjársjóð við eig-
um þar sem eru skiljanleg örnefni,
nöfn sem hvert barn getur séð í
gegnum án þess að leita flókinna
skýringa frá málvísindamönnum
eins og algengast er með öðrum
þjóðum. Þarna eins og annars stað-
ar sameinar tungan okkur, eflir
skilning okkar, gefur okkur óþrjót-
andi umræðuefni, ekkert síður en
fámennið og frændræknin.
Oft látum við að því liggja að land-
ið sé stórt en þjóðin fámenn, jafnvel
of fámenn. Hugsanlega eru þó
menning okkar og siðvenjur þess
megnugar að leggja okkur mikla
líkn í þraut. Til dæmis er sennilegt
að hver venjulegur íslendingur
þekki miklu fleira fólk persónulega
— bæði lífs og liðið — en mönnum
tekst að komast yfir annars staðar í
heiminum. Lífs eða liðið sagði ég,
því engin þjóð sem ég þekki man
eins vel þá sem gengnir eru og hin
íslenska, engin þjóð er jafn iðin við
að draga þá inn í umræðuna um
daginn og veginn með því að vitna
til þess hvað þeir sögðu og gerðu.
þetta er eitt af einkennum menning-
ar okkar og með þessum hætti verð-
ur fámennið til að skerpa minni
okkar, gera kynslóðabilið marklítið
og um leið til að stækka þjóðina,
fjölga í því liði sem við vitum af okk-
ur til trausts og halds í tilverunni.
Og okkur er líka hollt að minnast
forréttinda sem fylgja því að vera fá-
menn þjóð. Vissulega látum við
okkur lynda ýmisskonar misrétti en
fámennið ætti að gera okkur kleift
að byggja þjóðfélag okkar á hug-
sjónum meira jafnréttis og öflugri
samhjálpar en stórþjóðirnar eiga
kost á, þar sem ávallt vofir yfir að
einstaklingurinn verði ekki annað
en peð í tafli sem enginn hefur yfir-
sýn yfir.
Dýrasta sameign okkar, landið,
tungan og minningarnar, eflir okkur
öryggiskennd. Við erum ekki rótslit-
in, við eigum okkur athvarf í himin-
geimnum. En einnig í sameign okk-
ar, í nábýli okkar hvert við annað,
felast mótsagnir. Við höfum kunnað
að snúa bökum saman þegar mikið
lá við en í næstu andrá tökumst við
á, gagnrýnum hvert annað eins og
lífið liggi við, erum dómhörð og um-
burðarlynd á víxl, og ekki alltaf
auðvelt að koma auga á rökvísina
sem ræður því hvað verður ofan á.
Þetta getur orðið böl, því við meg-
um síst við því að bíða „þrjóskir við
garðinn" eins og segir í nýju Sturl-
ungakvæði:
,,medan sueit okkar máist
í módu sundrungar
„át.“
Þegar við á áramótum reynum að
skyggnast fram í tímann hljótum við
að minnast þess að þetta eru mikil-
vægustu forsendur framtíðar okkar:
Landið og fólkið.
Án byggilegs lands á fólk sér enga
framtíð. Eg ætla ekki að fara mörg-
um orðum um það hvernig við höf-
um á liðnum öldum gengið um land
okkar, jafnvel svo að sumum hefur
þótt horfa til auðnar. Hins vegar vil
ég minnast þess að fyrir dyrum
stendur merkilegt átak í tengslum
við sextugsafmæli Skógræktarfé-
lags íslands, nú á nýbyrjuðu ári, og
er kennt við ræktun landgræðslu-
skóga. En landgræðsluskógur er
skilgreindur sem allar þær land-
græðslu- og gróðurverndaraðgerð-
ir, sem leiða til þess að örfoka eða
lítt gróið land verði klætt trjágróðri
að nýju, eða öðrum jurtagróðri sem
bindur mold og býr í haginn. Um
gróður gildir það sama og um lífs-
yndi okkar, börnin. Ef við viljum lifa
það að sjá grjóskuríkan árangur, þá
verðum við að byrja strax, — það er
aldrei hægt að draga neitt á langinn
sem varðar ræktun. Jafnvel um
miðjan vetur verður að gera áætlan-
ir um, hvernig að standa eigi að
verki strax og tækifæri gefst. Landið
sem við nefnum ættjörð okkar hef-
Forseti íslands,
Vigdt's Finnbogadóttir.
ur oft leikið okkur hart. Það hefur
með öðru leitt til þess að við höfum
gengið harðara að því en skynsam-
legt hefði verið. Vera okkar í land-
inu hefur ekki samrýmst því að
landkostir héldust. En nú höfum við
sem betur fer gert okkur grein fyrir
illri þróun og viljum snúa við blað-
inu. Færa landinu aftur það sem frá
því var tekið. Og þá gefum við sjálf-
um okkur um leið þá gjöf að eiga
miklu betra land að una við.
Ég líkti saman trjárækt og uppeldi
barna. Til lítils kemur okkur að
rækta upp örfoka land ef við gleym-
um því að öll framtíð þjóðarinnar
veltur á þeim sem nú eru börn. Ef
okkur gleymist að hlúa að þeim
kemur landgræðsla fyrir lítið. Fyrir
nokkru voru stpfnuð tvenn samtök,
annars vegar íslandsdeild alþjóða-
samtaka um uppeldi barna áður en
þau ná skólaskyldualdri, OMEP, og
hins vegar samtök sem til bráða-
birgða eru nefnd „Hjálpum börn-
um“ og vinna eiga að barnaheill
og bættum hag barna hér á ís-
landi. Þessi samtök stefna að þörfu
átaki í aðhlynningarmálum barna,
— og mun nú líklega margur spyrja
hvort eitthvað skorti á að börnum sé
sæmilega sinnt á íslandi. Búum við
ekki við það lán að öil börn fá að
borða á Islandi og enginn gengur
klæðlaus? Vonandi er það rétt. Þó er
það nú svo að mörgum er hagur
barna í þessu vinnuþreytta þjóðfé-
lagi mikið áhyggjuefni og greinilega
er nauðsynlegt að finna leiðir til
lausnar. Við verðum að játa það fyr-
ir okkur sjálfum að börn okkar eru
afskipt. Við höfum verið svo ánægð
með allt það frelsi sem okkur hefur
áskotnast og gengið svo áköf til
vinnu til að afla verðmætanna, án
þess að láta þar á móti koma örugg-
an umhyggju- og uppeldisstað fyrir
börnin, skóla og námsstofnanir, að
við höfum gengið svo langt að láta
börnin ganga sjálfala. Það er eins og
við höldum að þau geti bjargað sér
sjálf, að þau læri af sjálfsdáðum að
tileinka sér verðmæti lífsins, svo
sem fróðleik ýmisskonar og sjálf-
saga. Þá höfum við gleymt því, að
ekki gátum við, sem nú erum full-
orðin, bjargað okkur sjálf til uppeld-
is. Við fengum aðstoð, okkar rækt-
un, þegar við vorum börn og styrk
til að nýta hana.
Þessa aðstoð fengum við hjá full-
orðnum sem leiðbeindu og töluðu
við okkur og umgengust okkur eins
og þær manneskjur sem þeir vildu
að við yrðum, þjóðinni til gagns
þegar við eltumst. Öll börn eiga rétt
á þessari hjálp. Öll börn eiga rétt á
því að fá frá okkur fullorðnum upp-
eldi til að njóta þess að lifa, hjálp til
að sjá og nálgast það sem gefur líf-
inu gildi. Þegar nú samfélag okkar
hefur þróast til þess að hverju heim-
ili dugi ekki minna en tveir til fyrir-
vinnu, ef sinna á kröfum nútímans,
þá verður eitthvað annað að koma
í staðinn til leiðsagnar og uppeldis.
Þá verður með nýjum hætti að
tryggja öllum börnum full mann-
réttindi.
Ég tel líka að hér séu hyggindi
sem í hag koma — hvert skref sem
stigið er til að kenna börnum að
njóta andlegra verðmæta verður til
þess að þau geti betur aflað sér
hinna veraldlegu, án þess að mikla
þau fyrir sér. Við verðum að gefa
börnunum af tíma okkar og reynslu
og vinsamlegum skilningi svo þau
viti betur að maður er manns gam-
an um leið og þau kunni að vera ein
með sjálfum sér og afla sér gleði við
annað en það sem mölur og ryð fá
grandað. Og öll börn eiga heimtingu
á uppeldi til þess að verða mann-
eskjur í einu og öllu, til þess að njóta
samvista við aðra en óttast þá
ekki. Ekkert okkar fær í vöggugjöf
skemmdarfýsn eða kunnáttu til of-
beldisverka. Ekkert barn á skilið að
alast upp til slíkrar hegðunar.
Þegar við um þessi áramót reyn-
um að sjá tilveru okkar, það að vera
íslendingur, í víðara samhengi,
hugsum við ekki síst til þ;ss hvers
virði séreinkenni okkar, þjóðmenn-
ing okkar, er í heimsmenningunni.
Heimsmenning, og þjóðmenning:
Þetta tvennt skarast alltaf, því eng-
inn er eyland. í þjóðmenningunni er
ávallt margt að finna sem er heims-
menning. Án þjóðmenninga sem
eru sjálfum sér trúar væri engin
heimsmenning. Og mætti ég þá í
leiðinni minna á þann augljósa
sannleik að heimurinn er ekkert
annað en við, hér og nú, og að
ábyrgð okkar er að bregðast á
hverju augnabliki sem líður við því
hvernig hann er frá stund til stund-
ar. Á þetta höfum við verið átakan-
lega minnt í jólamánuði 1989. En
þar fyrir utan er þjóðmenning sér-
eign þjóðar, sem verður að fá að
hugsa sitt i Ijósi þess hvar hún býr á
jarðhnettinum og í Ijósi þess sem yf-
ir hana hefur gengið. Þetta er sú
menning sem er séreign hverrar
þjóðar, auðlegð sem aldrei verður
frá henni tekin.
Vitundina um þessa auðlegð
sköpum við okkur í tungumálinu.
Þar erum við rík en megum þó ekki
láta þar við sitja. Hver og einn rækti
garðinn sinn segir í frægri bók. Og
það er til margs konar ræktun. Á ný-
liðnu ári var efnt til málræktarátaks
og er talið að hafi lánast vel. En því
átaki má ekki vera lokið. Því má
aldrei Ijúka. Öll ár í lífi þjóðarinnar
verða að vera málræktarár. Okkur
getur ekki liðið vel, við getum ekki
eignast lífsfyllingu í þjóðerni okkar,
nema með því að rækta tunguna
sem best, þetta orðríka, gagnsæja
og langminnuga tungumál, sam-
eign okkar. Við viljum ekki að fyrir
íslenskri tungu fari eins og latínu, að
afkomendur okkar verði að setjast á
skólabekk og nálgast hana sem
framandi tungu til að geta lesið um
okkur sjálf. Við verðum að láta það
renna okkur í merg og bein og hvert
orð sem gleymist er glataður sjóður,
ómissandi lykill úr stórri lykla-
kippu, hvert örnefni innstæða á
minningabanka með góðum vöxt-
um.
Þá þurfum við einnig að tryggja
það að þeir sem við taka kunni að
tileinka sér bækur, haldi áfram að
lesa okkar eigin bækur um okkar
eiginn veruleika og kunni og skilji
Ijóð okkar. Eg hef lengi verið þeirrar
trúar að Ijóð þjóðarinnar varðveiti
svo vel ótal orð og blæbrigði í ríki-
dæmi tungunnar sem stöðugt er í
hættu og glati purpurafaldi sínum.
Og Ijóð er auðvelt að læra — þau
seitlast inn i minnið og efla til lesturs
annars efnis sem á sama hátt er
verðmætt. Við vitum að samkeppn-
in um tómstundirnar harðnar og að
hætt er við að bóklestri fari aftur.
Við það yrðum við til muna fátæk-
ari. Því það verður seint ofmetið
hve mjög það auðgar hvern mann
að hafa vanist því að lesa.
Vitað er fyrir margvíslegar rann-
sóknir að lestrarvenjur mótast
snemma, eða áður en börn eru 11 til
12 ára. En hver lítur eftir því að börn
okkar læri að umgangast bókina
sem ómissandi þátt í daglegu lífi,
sem ætti ekki að vera bundin skyldu
heldur er sjálfsagður réttur barns
sem elst upp í þessu landi. Og hver
getur séð til þess að Ijóðið taki þátt í
því að rótfesta tunguna og ríkidæmi
hennar með þeim virka hætti sem
við helst vildum? Að engir múrar
rísi milli þeirra sem fara með bók-
menntaarfinn og rækta hann og
hinna sem á stundum þykjast láta
sér fátt um finnast. Þorsteinn skáld
frá Hamri segir:
Köllumst þuí á
annad ueifid!
þú og ég
og madurinn sem fullyrdir
stundum ad sér leidist Ijód;
og huer ueit
nema madur sem fuUyröir aö sér
leiðist Ijóö
geti þrátt fyrir þaö
nœrt okkur
á Ijóöi lífs síns
sœrt okkur
uiö Ijóö alls lífs
dag og dag.
Góðir landsmenn. Ég hef eins og
stundum áður látið mér tíðrætt um
ræktun lands og lýðs. Skilji þó eng-
inn orð mín svo að ég geri lítið úr
því sem á þeim sviðum hefur verið
unnið hingað til. Þar hefur oft verið
lyft grettistökum. En á hverjum tíma
ber okkur skylda til að byggja á
þeirri þekkingu sem við vitum besta
og sannasta. Okkur ber ávallt að
vera reiðubúin að endurskoða
starfsaðferðir okkar, jafnt í landrækt
sem mannrækt. Við lifum tíma svo
stórstígra breytinga að margir jafna
til byltingar. Án þess að gera okkur
sek um óleyfilega bjartsýni getum
við meira að segja haldið því fram
að þjóðir heimsins muni á nýjum
áratug snúa sér að ræktun og
uppbyggingu með stórfenglegum
hætti. Stórbætt sambúð ríkja og
ríkjablakka leiðir til þess að stigin
eru merkileg skerf í þá átt að skera
niður vígbúnað, fækka
eyðingarvopnum. Með því móti er
dregið að miklum mun úr líkum á
því að styrjaldir brjótist út manna í
milli. Um leið verða til nýir
möguleikar á því að semja sátt í
stríði mannkynsins gegn móður
náttúru, sem alltof lengi hefur stað-
ið og haft hörmulegar afleiðingar.
Heimurinn gerir sig nú líklegan til
að hrista sem víðast af sér fjötra, til
að höggva eldflugaskóg og snúa
orku sinni og hugviti að því að
vernda náttúrulegt umhverfi
mannsins, — snúa við blaði, hreinsa
mengunarkaunin, rækta upp, láta
sár foldar gróa. Það er trú mín og
von og ósk, að á þessu ári og þeim
næstu munum við sjá vakningu um
allan heim, samstillt átak til að bæta
það sem við höfum óvart eða
viljandi rifið niður eða eyðilagt,
átak til að byggja upp jörðina sem
við göngum á og manninn sjálfan.
Fari svo, kann að blasa við okkur ný
og mennskari framtíð á þessum síð-
asta áratug aldarinnar en okkur
hefur dreymt um að undanförnu. I
raunsærri bjartsýni höfum við þá
fulla ástæðu til að segja af sannfær-
ingarkrafti:
Gleðilegt nýár, gifturíka framtið.
Guð blessi land vort og þjóð.