Alþýðublaðið - 21.03.1990, Blaðsíða 2

Alþýðublaðið - 21.03.1990, Blaðsíða 2
2 Miðvikudagur 21. mars 1990 rtHBIir.lMilli Ármúli 36 Sími 681866 Útgefandi: Framkvæmdastjóri: Ritstjórar: Fréttastjóri: Auglýsingastjóri: Dreifingarstjóri: Setning og umbrot: Prentun: Blað hf. Flákon Hákonarson Ingólfur Margeirsson Jón Birgir Pétursson Hinrik Gunnar Hilmarsson Sigurður Jónsson Leturval, Ármúla 36 Blaðaprent hf. Áskriftarsíminn er 681866 Áskriftargjald 1000 kr. á mánuði innanlands. í lausasölu 75 kr. eintakið. ENDURSAMEINING ÞÝSKALANDS OG VARNARMÁL EVRÓPU r Urslit fyrstu lýðræðislegu þingkosninganna í Austur-Þýska- landi er mikill ósigur fyrir kommúnista, hinn ríkjandi einræðis- flokk í landinu frá stríðslokum. Þessar niðurstöður koma engum á óvart. Hið kommúníska kerfi er hrunið um víða veröld. Þau ríki sem enn stunda kommúnískt einræði í nafni öreiganna einangr- ast æ meir og aðeins spurning um tíma hvenær fólkið í landinu rís upp gegn valdhöfunum. Aðstæðurnar í Austur-Þýskalandi eru sérstakar og hafa niður- stöður þingkosninganna dregið mjög dám af þeim. Þannig hefur Helmut Kohl kanslari Vestur-Þýskalands og formaður Kristilegra demókrata leikið stórt hlutverk í þingkosningum Austur-Þjóð- verja. Stórsigur Kristilegra demókrata í Austur-Þýskalandi bygg- ist fyrst og fremst á afskiptum Kohls af kosningabaráttunni og loforðum kanslarans um meiri velferð og lífsgæði Austur-Þjóð- verja ef til sameiningar þýsku ríkjanna kæmi. Yfirlýsingar Kohls varðandi peningamál þegna Austur-Þýskalands hafa einnig haft sitt að segja. Kosningarnar snerust í raun um peninga og gjald- eyri. Þess vegna er það ekki fráleit skýring erlendra fréttamanna að í raun hafi Helmut Kohl unnið þingkosningarnar í Aust- ur-Þýskalandi. Jafnaðarmenn í Austur-Þýskalandi undir forystu Ibrahim Böhme, hafa hafnað boði um setu í ríkisstjórn bandalags hægri flokka, sigurvegara kosninganna. Jafnaðarmenn hlutu ekki þá kosningu sem þeir höfðu gert sér vonir um. Almennt var talið að þeir yrðu sigurvegarar kosninganna. Spurning er nú hvort banda- lag hægri manna nái samstöðu við bandalag Frjálsra demókrata um stjórnarmyndun. Meginverkefni hinnarnýju stjórnar Austur- Þýskalands er að undirbúa sameininguna við Vestur-Þýskaland. Þar vegur þyngst að gera þær breytingar á stjórnarskránni sem nauðsynlegar eru til að flýta fyrir sameiningu þýsku ríkjanna. Fyrst hefst þó væntanlega undirbúningur að samræmingu gjald- miðla ríkjanna og tengingu efnahagslífs Austur-Þjóðverja við Vestur-Þýskalands. Urslit þingkosninganna í Austur-Þýskalandi setja enn meiri þrýsting á að hraða endursameiningu Þýskalands. Um leið vakna ýmsar spurningar varðandi varnar- og öryggismál ríkjanna og Evrópu í heild. Sovétríkin hafa þegar sent þau boð til Aust- ur-Þjóðverja að fara sér hægt í þessum efnum og ítrekað þá af- stöðu Sovétmanna að sameinað Þýskaland verði ekki aðili að Atlantshafsbandalaginu. Hins vegar er vandséð hvernig samein- að Þýskaland ætti að standa utan við Atlantshafsbandalagið. Vestur-Þýskaland er einn mikilvægasti aðili í N ATO og það myndi skapa mikla upplausn og óöryggi hjá öðrum aðildarlöndum NATO ef Vestur-Þjóðverjar gengju úr Atlantshafsbandalaginu við endursameiningu Þýskalands. Eðlilegast verður að telja að endursameinað Þýskaland verði aðili í Atlantshafsbandalaginu. Það er hins vegar álitamál síðari tíma hvort leysa eigi upp hernað- arbandalögin í austri og vestri. En meðan umbótastefna Gorbat- sjovs stendur ekki traustari fótum en raun ber vitni og herir Var- sjárbandalagsins eru enn í Austur-Evrópu, er vörnum og öryggis- málum Vestur-Evrópu best varið á þann veg að sameinað Þýska- land verði aðili að Atlantshafsbandalaginu. Pótt umbótastefna Gorbatsjovs hafi lagt drög að nýrri Evrópu og nýjum heimi, eins og sannaðist best í fyrstu þingkosningum Austur-Þýskalands, skulum við vera þess vitandi að háskaleg boð berast frá heræfingum Sovétmanna við landamæri Lithá- ens, þess lýðveldis Sovétríkjanna sem fyrst varð til þess að reyna á loforð umbótastefnunnar og lýsa yfir fullveldi og sjálfstæði landsins. Viðbrögð og hótanir Moskvu við þeirri yfirlýsingu lithá- enska þingsins sýna og sanna, að enn er allra veðra von frá Sov- étríkjunum. ONNUR SJONARMID SIGURJÓN félagi Pétursson var ekki spor hrifinn af Nýjum vettvangi í Þjóðviljagrein í gær. Sigurjón segir nefnileg að í hið eina skipti sem flokkarnir hafi boðið fram með sínu lagi, þá hafi Reykjavík fallið úr höndum íhaldsins. Sigurjón kallar Nýjan vettvang Flokkinn með stóru effi. Sigurjón segir að enn einu sinni sé búið að stofna flokkinn sem sameina eigi alla vinstri menn. (Stofendur Nýs vettvangs eru eflaust ósammáia Sig- urjóni — því meiningin var að stofna Nýjan vettvang sem svar við flokks- ræði, en það er önnur saga.) Sigurjón segir svo: „Nýr vettvangur ætlar að vera lýðræðislegri en allir aðrir og viðhafa opið prófkjör til að velja frambjóðendur sína. Þrátt fyrir það er talað um það upphátt að í fyrsta sæti listans verði Ólína Þorvarðardóttir, í öðru sæti Bjarni P. Magnússon og í þriðja sæti verði Kristín Á. Ólafsdóttir. Það var einhvern tíma haft eft- ir einræðisherra úti í heimi að kosningarnar skiptu engu máli, það sem skipti máli væri að vinna talninguna. Ósjálfrátt dettur manni í hug að forysta Nýs vettvangs telji sig geta haft gott vald á talningunni úr því að sætum hefur þegar verið raðað. Verði niðurstaða talningarinn- ar í prófkjörinu sú sem nú er al- talað að verði, þá er vandséð hvað nýtt er við svipmót listans ef frá er talið efsta sætið. Verður nýr Bjarni P. í öðru sæti og verð- ur ný Kristín Á. í hinu þriðja? Flest bendir til þess að það eina nýja við þetta framboð sé nafnið." Á þessum orðum Sigurjóns er að skilja, að Nýr vettvangur sé bara plat. HINS vegar kemur í Ijós, þegar grein Sigurjóns er áfram lesin, hvað ergir oddvita allaballa í borgarstjórn allra mest: Birting er að ganga úr stuðningsliði Alþýðubandalagsins og yfir í Nýjan vettvang: Sigurjón: Þaö er betra að losna við Birtingu en að standa í brösóttri sam- búð við þetta óhlýðna flokksfólk. „Á stofnfundi Flokksins mátti sjá mörg kunnugleg andlit fyrir okkur Alþýðubandalagsmenn, forysta Birtings, félags sem kall- ar sig Alþýðubandalagsfélag virðist næstum í heilu lagi hafa gengið til liðs við nýja flokkinn. Það er auðvitað alvarlegur hlutur þegar klofningur verður í hópi samherja, en þegar fólk á ekki lengur pólitíska samleið þá er það aldrei farsælt til lengdar að reyna að starfa saman í einum flokki sem logar þá I illdeilum og óánægju eins og við höfum feng- ið að reyna í Alþýðubandalags- félaginu í Reykjavík á síðustu misserum. Hreinn aðskilnaður er oft betri kostur en brösótt sambúð." lll eru örlög allaballa í Reykjavík: Þeir hafa þurft að hlusta á aðrar skoðanir í eigin röðum en þær sem forystan segir flokksmönnum að hafa. Þreytandi þetta lýðræði. Og eins og Sigurjón skrifar: Best er að losna við þetta hyski svo línan megi áfram verða bein og óröskuð. Eða eins og Sigurjón segir orðrétt: Hreinn aðskilnaður er oft betri en brösótt sambúð. Spurningin er bara hvort allaball- ar séu ánægðir með aðskilnað flokksins við kjósendur? Einn með kaffinu Eiginkonan kemur heim og sér að maðurinn er að pakka niður í ferðatösku. — Hvert ertu að fara? spyr kon- an. — Til Tahiti, mér sagt að mað- ur fái þúsund kall í hvert skipti sem maður kyssir innfæddar konur! svaraði maðurinn. Konan fer að pakka einnig. — Hvers vegna ert þú að pakka niður? spyr maðurinn. — Mig langar til að sjá hvernig þú ætlar að framfleyta þér á fimm þúsund kalli á ári! svaraði konan. DAGATAL Vorid er komid (eða þjóðarsálin býr í útvarpinu) Vorið er komið. Það stendur alla vega í dagatal- inu mínu að vorjafndægur séu haf- in. Vorið er komið. Það kom með öflugum jarð- skjálftakippi. Þetta var enginn gervikippur eða Laugavegar- skjálfti, heldur ekta Krýsuvíkur- kippur sem sló meira að segja kjaftaglaðasta ráðherra ríkis- stjórnarinnar, sjálfan fjármálaráð- herrann, út af laginu í útvarpsupp- töku. Vorið er komið. Það kom með mínus fjórum gráðum, bruna- gaddi og ofankomu. Bílar festust, menn urðu næstum því úti og ekki var fært úr miðbæ Reykjavíkur upp í Breiðholt og öfugt. Hafnarfjarðarleiðin lokaðist. Menn komust 'ekki einu sinni til Kópavogs. Hvað þá til Garðabæj- ar. Vorið er komið. Allar sumarferðir munu upp- seldar. Fólk vill komast af landi brott, frá íslenska vorinu og í sól- ina. Frá íslenska sumrinu og í hlýj- una. Vorið er komið en ekkert hefur heyrst í lóunni. Hins vegar hefur sést til rjúpna. Þær eru enn í vetr- arham. Isbirnir ganga eflaust laus- ir á hafísnum fyrir utan strendur landsins. Vorið er komið. Alþýðubandalagið er að leysast upp. Það verða sennilega einu vor- leysingarnar í ár. Þeir ná ekki einu sinni að manna forvalið sitt í Reykjavík. Sigurjón býður sig ein- an fram. Ég spyr nú bara: Hvaða máli skiptir það þótt enginn vilji bjóða sig fram til forvals í Alþýðu- bandalaginu nema Sigurjón, eða hvort Sigurjón verði kosinn efsti maður eftir að skipulögðu forvali lýkur? Sigurjón er jú Sigurjón eftir sem áður. Vorið er komið. Endurnar á Tjörninni hokra undir sementskumbaldanum sem rís æ hærra og þenur sig æ víðar með hverjum degi. Ráðhúsið er líkt og risavaxinn ljótur andarungi sem kemur úr skel sinni; grár, ran- geygður og á súluhækjum. Ljóti andarunginn í sögu H. C. Ander- sens varð fallegur svanur að lok- um. Skyldi ráðhúsið verða svanur þegar sagan er öll? Eða verður ráðhúsið áfram ofvaxinn, ljótur andarungi? Vorið er komið. Hlustendur eru hvattir sem aldr- ei fyrr að hringja í Þjóðarsálina og segja álit sitt á málunum. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvers vegna þjóðarsálin búi í útvarps- stöð. Ég hélt að þjóðarsálin væri miklu fallegri, breiðari og um- burðarlyndari en þeir einstakling- ar sem hringja í Þjóðarsálina í út- varpinu og skammast og láta öll- um illum látum. Reyndar hringir stundum kurteist fólk en þá æsa míkrafónfasistarnir viðmælendur sína svo upp, að þeir verða að lok- um sú þjóðarsál sem útvarps- mennirnir vilja að þjóðarsálin sé. Upp, upp mín þjóðarsál og allt mitt ógeð.

x

Alþýðublaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Alþýðublaðið
https://timarit.is/publication/2

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.