Alþýðublaðið - 09.01.1997, Blaðsíða 6

Alþýðublaðið - 09.01.1997, Blaðsíða 6
6 ALÞÝÐUBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 9. JANÚAR 1997 ■ Margrét Elísabet Ólafsdóttir skrifar frá París og segirfrá einu dularfyllsta málverki listasögunnar sem nýlega komst í eigu Orsay- safnsins Uppruni heimsins L'Origine du monde eða Uppruni heimsins eftir Gustave Courbet. Lacan-hjónin geymdu leyndarmálið svo vel að það var ekki afhjúpað fyrr en eftir lát Jacques. Aðeins örfáir vinir þeirra voru leiddir í sannleik- ann um tilvist þess á þeim 27 árum sem verkið var í eigu þeirra. Sérstök athöfn fylgdi sem undanfari afhjúpunarinnar og var henni ætlað að tryggja þögn þeirra sem trúað var fyrir leyndarmálinu. Sannleikann allan og engan tepru- skap hefðu getað verið einkunnarorð franska nítjándu aldar málarans Gustaves Courbet (1819-1877). Raunhyggnari en hann urðu menn ekki um miðbik þeirrar aldar sem ljósmyndin haslaði sér völl og franska myndlistarakademían barð- ist í dauðateygjunum við að verja sín gildi og setja tálma í veg bylting- arsinnaðra myndlistarmanna sam- tímans. Bannhelgi Courbet var einn þeirra sem barð- ist með oddi og egg við oft aftur- haldssama, einráða dómnefnd sem valdi verk á hina tvíæru samsýninga í Grand Palais í París, þá helsta tækifæri myndlistarmanna til að koma verkum sínum opinberlega á framfæri og öðlast virðingu og við- urkenningu enn dómharðari og oft lítt upplýsta sýningargesta úr röðum vaxandi borgarastéttar. Fyrirmyndarfegurðarskyn aka- demíunnar í anda Ingres stóð fyrir allt sem Courbet forðaðist í mál- verkinu. Hann vildi mála konuna og veröldina alla eins og hún kom hon- um fyrir sjónir. Hvorki í upphafna fegurð né draumóra, aðeins nakinn sannleikann. Raunverulegt, holdlegt kvenfólk. Hann var auðvitað ekki einn um að vilja fanga veröldina ófegraða og konuna eins og hann sá hana. Yngri listamenn með Manet í fararbroddi tókst einnig að koma við velsæmiskennd góðborgaranna með áræði og áður óþekktu þori. En á meðan Olympía Manets starði vissu- lega ljóslifandi, nakin og ófeimin í augun á sýningargestum á „samsýn- ingu hinna úthýstu" árið 1863, - með hægri hendina að því er virtist kæruleysislega lagt yfír persónuleg- asta staðinn, - var Courbet að velta því fyrir sér hvemig hann gæti mál- að einmitt þennan sama stað á raunsannan hátt. Lengi vel fór hann í kringum efnið í leit að leið til að bijóta bannhelgina. I nektarmyndum hans mátti sjá glitta í forboðna lík- amshluta og í landslagsmyndum hans af hellisskútum sjá fræðingar myndhvörf. Árið 1866 steig Courbet loks skrefið til fulls og lét áform sín rætast. Utkoman var L’origine du monde, Uppruni heimsins, sem ný- verið komst í eigu Orsay-safnsins í Pans. Á sýningu sem safnið kom upp í byrjun vetrar var saga verksins rak- in, en hún er full af leyndardómum og ósvöruðum spurningum. Uppruni heimsins hefur alltaf, þar til nýlega, verið í eigu einkasafnara sem yfir- leitt hafa ekki kært sig um að hafa hátt um þessa eign sína. Fleirum hafði verið sagt frá því en sýnt það og því var vel hægt að efast um raunverulega tilvist þess. Aðeins ein óskýr svarthvít ljósmynd, sem eng- inn veit hver tók né hvers vegna, studdi grun manna um að einhvern- tíma hefði verkið verið til. Óvissan og orðrómurinn voru auðvitað kveikjan að goðsögninni sem skap- aðist í kringum verkið sem kemst langleiðina með að slá við dulúðinni sem sveimað hefur í kringum Mónu Lísu. Ekki fyrir allra augum Uppruni heimsins er lítið olíumál- verk, aðeins 46 sentímetrar á hæð og 55 sentímetrar á breidd. Ekki virðist stærðin þó hafa áhrif á aðdráttarafl- ið. Rithöfundurinn og listheimspek- ingurinn Bemard Tesseydre sem rit- að hefur sögulega skáldsögu um fer- il verksins, (Le Roman du l’Origine) setur fram þá kenningu að tyrkneski ríkiserindrekinn Khalil-Bay hafi fengið verkið í kaupbæti þegar hann pantaði annað og stærra verk af Co- urbet, sem listamaðurinn hafði sett upp hátt verð fyrir. Málverkið Svefii- inn, sem einnig er til sýnis í Orsay, sýnir tvær naktar konur sofandi í faðmlögum, og er tvímælalaust eitt af meistaraverkum listamannsins. Annar listfræðingur, Michele Hadd- ad, telur að Khalil-Bay hafí pantað bæði þessi listaverk hjá Courbet. Hvað síðarnefnda verkið er vissan alger, en livað Upprunann varðar er það eitt víst að Khalil-Bay var fyrsti eigandi þess. Haddad telur að kynni hans og málarans hafi gert Upprun- ann mögulegan. Sameiginlegur áhugi þeirra á kvenlegu holdi hafi ýtt á eftir Courbet með framkvæmd- ina. Listamaðurinn hefði þó tæplega látið sér detta í hug að mála kviðinn einan og á milli læranna hefði hann ekki verið áhugamaður um erótískar ljósmyndir þær sem á þessum upp- hafsárum ljósmyndatækninnar seld- ust grimmt undir borðið. Khalil-Bay var á þessum tíma bú- inn að yfirgefa utanríkisþjónustuna og Ifklega vegna þess að hann var sýktur af sýfilis. Uppruni heimsins gæti því átt að hafa verið feigðaróð- ur hans til fyrra lífs, síðasta minn- ingin um helsta unað holdsins, upp- runa lífs og dauða, kenningum Haddad er fylgt eftir. Eitt er vitað, Khalil-Bay hafði verkið ekki upp fyrir allra augum heldur faldi það á bakvið grænt tjald, sem hann aðeins dró frá fyrir útvalda gesti sína. Þeir fáu sem fengu að sjá dýrðina áttu auk þess erfitt með að lýsa því: Vissulega mynd af konu. En höfuð- lausri, handalausri og fótalausri. Lýsingarnar voru yfirdrifið kím í goðsögn. Khalil-Bay var ekki lengi eigandi verksins. Hverjum hann seldi það er óvitað því aðeins ein frásögn er til af því. Rithöfundurinn Edmond du Goncourt segist hafa fengið að líta leyndardóminn augum árið 1889 þar sem hann var falinn á bakvið annað málverk eftir Courbet, Le Chateau de Blonay, en getur þess ekki heima hjá hveijum. Næst fréttist af því til sölu árið 1913 á listaverkasölu Bern- heim-Jeune í París. Næstu áratugina er nokkuð á hreinu hvar það var, í híbýlum ungverska listaverkasafnar- ans Havatny baróns í Búdapest, nán- ar tiltekið inni á einkaskrifstofu hans. Havatny átti stórt safn nútíma- verka sem hann lánaði oft á sýningar hér og þar í Evrópu, án þess þó að hleypa Uppruna heimsins út úr húsi. Það er ekki fyrr en í síðari heims- styrjöldinni sem slóðin fer aftur að óskýrast. Hús Havatny er yfirtekið af nasistum, síðan kommúnistum og listaverkum hans stolið. Sjálfur hafði hann flúið til Parísar þar sem honum var boðið að kaupa aftur hluta af eigin verkum árið 1946. Meðal þeirra var Uppruni heimsins. v Leyndarmál Lacans Tæpur áratugur leið, baróninn var í fjárhagskröggum og vildi selja. Sálfræðingurinn Jacques Lacan, sem þá var ungur og óþekktur, en nýgift- ur Silvíu fyrrum eiginkonu George Bataille, fékk veður af því að verkið væri til sölu heima hjá vini sínum myndlistarmanninum André Mass- on. Jacques og Sylvía ákváðu að kaupa verkið, en í staðinn fyrir að hengja það upp með öðrum lista- verkum í íbúð sinni við Lille götu, sem liggur á kafla meðfram hlið Orsay safnsins, fóru þau með það í sveitahús sitt úti á Bretagne skaga. Áður höfðu þau þó fengið Masson til að mála felumynd, erótískt lands- lag, sem þau létu setja í sérstakan ramma. Hægt var að opna eina hlið hans, renna Masson verkinu út og þar með afhjúpa Uppruna heimsins. Lacan-hjónin geymdu leyndarmálið svo vel að það var ekki afhjúpað fyrr en eftir lát Jacques. Aðeins örfáir vinir þeirra voru leiddir í sannleik- ann um tilvist þess á þeim 27 árum sem verkið var í eigu þeirra. Sérstök athöfn fylgdi sem undanfari afhjúp- unarinnar og var henni ætlað að tryggja þögn þeirra sem trúað var fyrir leyndarmálinu. Lacan minntist ekki einu sinni á verkið undir rós í fjölmörgum fyrirlestrum sínum um myndlist, ekki einu sinni eftir að hann var í brennidepli fyrir hneyksl- anlegar sálfræðikenningar sínar snemma á áttunda áratugnum. Það var ekki fyrr en eftir lát hans árið 1982 að Sylvía Ijóstraði því upp að þau hefðu átt Uppruna heimsins í öll þessi ár. Handalaus - fótalaus - höfuðlaus Sylvía hafði tvisvar sinnurn sam- þykkt að lána verkið á sýningar áður en hún lést árið 1993. Tveimur árum síðar ákváðu erfingjar hennar að gefa verkið til Orsay safnsins uppí erfðaskattsgreiðslur. Sama ár fór það á sýninguna Masculin, féminin. Le sexe dans l’art í Pompidou listamið- stöðinni. Nú í haust var L’origine du monde hengt upp í Orsay í sal sem verkið deilir með Svefninum (Le Sommeil), Le Chateau de Bonay stúdíu af La femme au perroquet, - öðru hneykslanlegu verki eftir Cour- bet, - einni hellamynd og feluverki Massons, að ógleymdu Tyrkneska baði Ingres, sem áður var einnig í eigu Khalil-Bay. Verkið er því ekki lengur hulið sjónum manna. Uppruni heimsins er fyrsta mál- verkið í listasögunni sem sýnir kvensköp á svo raunsæjan og opin- skáan hátt. Þeir eru óteljandi sem fylgt hafa í kjölfarið, en sjónarhom- ið sem og nafnleysi fyrirsætunnar - enginn veit hver sat fyrir - gerir það að verkum að jafnvel listskoðendur í lok tuttugustu aldar fara hjá sér þarna í Orsay, verða feimnir, og þora sumir varla að horfa á verkið nema útundan sér. Sköp konunnar blasa við áhorfandanum svo blygð- unarlaust að sagt er að þarna hafi Courbet náð hápunkti raunsæis- stefnu sinnar. Kynfærin ein, án eig- anda. Kynfæri Konunnar: Kona kyn- líf. Verkið hefur skilið fleiri en einn eftir algerlega ringlaðan. Lacan vildi meina að málverkið breytti áhorf- andanum sjálfum í málverk.. Var hann með Uppruna heimsins í huga? Aðrir hafa orðið til að benda á að það geti verkið ekki, „hún“ er handalaus, fótalaus, höfuðlaus. En sköpin eru í forgrunni, skapahárin og mjúk opin lærin. Þau blasa við áhorfandanum, bjóðandi eða ekki; það er erfitt að horfast í augu við sköp. ■

x

Alþýðublaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Alþýðublaðið
https://timarit.is/publication/2

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.