Alþýðublaðið - 29.05.1997, Blaðsíða 2

Alþýðublaðið - 29.05.1997, Blaðsíða 2
ALÞYÐUBLAÐIÐ t v í h I Q FIMMTUDAGUR 29. MAI 1997 MPÍBUBIMB Brautarholti 1 Roykjavík Sími 562 5566 Útgáfufélag Ritsljóri Auglýsingastjóri Auglýsingasími Auglýsinga fax Dreifing og áskrift Umbrot Prentun Ritstjórn Fax Alþýðublaðsútgáfan ehf. Össur Skarphéðinsson Ámundi Ámundason 562 5576 562 5097 562 5027 Guðmundur Steinsson ísafoldarprentsmiðja hf. Sími 562 5566 562 9244 Áskriftarverð kr. 1.500 m/vsk á mánuði. Svört skýrsla fyrir Sjálfstæðisflokkinn Menntun er aðgöngumiði að hagsæld framtíðarinnar. Ætli ís- Iendingar að standast samanburð við helstu nágrannaþjóðirnar um velmegun, er óhjákvæmilegt að menntunarstig hér á landi sé að minnsta kosti svipað og meðal þeirra. Öðrum kosti munum við ekki aðeins dragast aftur úr í lífskjörum, heldur sjá á eftir hæfustu og menntuðustu einstaklingum hverrar kynslóðar. Þeir munu einfald- lega hasla sér völl erlendis, þar sem betri lífskjör og lífsgæði bjóð- ast. Röng menntastefna og naumt skammtað fjármagn til skólakerf- isins getur því leitt til alvarlegs atgervisflótta. Góð grunnmenntun og í kjölfar hennar traustir framhalds- og háskólar skipta því sköp- um fyrir framtíð íslendinga. Staðan er því miður miklu verri, en flesta óraði fyrir. Ágúst Ein- arsson, alþingismaður og prófessor við Háskóla íslands, óskaði í vetur eftir því fyrir hönd þingflokks jafnaðarmanna að mennta- málaráðherra birti skýrslu um kennslu, nám og rannsóknir á há- skólastigi. Niðurstaðan liggur nú fyrir, og það er vægt til orða tek- ið að kalla hana áfellisdóm yfir menntastefnu síðustu ára. Alþing- ismaðurinn hefur líkt henni við hina svörtu skýrslu frá Hafrann- sóknastofnun, sem fyrir aldarfjórðungi sýndi að ástandið á fiski- miðunum var miklu verra en menn töldu þá. Því miður er samlík- ingin ekki út í hött hjá Ágústi Einarssyni, því skýrsla menntamála- ráðherra sýnir, að ástandið á háskólastigum íslendinga er miklu dekkra, en menn gerðu sér grein fyrir. Hið alvaralegasta í niðurstöðu háskólaskýrslunnar er sú stað- reynd, að hlutfallslega mun færri Islendingar ljúka háskólanámi en í helstu nágrannalöndum okkar. Munurinn er sláandi, og ekkert bendir til að saman dragi með okkur og hinum, því af þeim sem nú eru á háskólaaldri eru hlutfallslega mun færri íslendingar í námi en meðal nágrannaþjóðanna. Samhliða hafa íslendingar dregist veru- lega aftur úr fjárveitingum til rannsókna- og þróunarstarfs og mun minna fé er einnig varið til háskólastarfsins en tíðkast með ná- grannaþjóðunum. Mistökin í menntastefnu síðustu ára birtist gleggst í þróun fjár- veitinga til Háskóla íslands. Á sama tíma og námsmönnum þar hef- ur fjölgað um þriðjung á sex árum, þá hafa fjárframlög verið skor- in niður. Fjölgun námsmanna er semsagt mætt með beinum niður- skurði! Þessi stefna hlýtur óhjákvæmilega að draga úr námsfram- boði, rýra gæði námsins og aðstöðu kennaranna. Afleiðingin birtist í því að erfiðara reynist að fá hæfa kennara og stúdentar finna síð- ur nám við sitt hæfi. í framkvæmd birtist því stefnan þannig, að það er engu líkara en verið sé markvisst að koma í veg fyrir fjölg- un þeirra, sem fara í háskólanám. Hvar liggur ábyrgðin? Hún hvílir að sjálfsögðu á herðum þeirra, sem mótuðu menntastefnuna. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sóst eftir því að hafa tauma menntakerfisins í sínum höndum, og af síðustu fjórtán árum hefur hann verið með ráðuneyti menntamála í tólf ár. Sjálfstæðisflokkurinn er því ábyrgur fyrir þeirri válegu þróun, sem hægt en örugglega er að gera íslendinga verst menntaða í þeim hópi þjóða, sem þeir telja sér skyldastar. Ágúst Einarssonar orðaði það svo í útbreiddum fjölmiðli í gær: „Stjórnmál snúast um forgangs- röðun og menntamálin hafa ekki verið forgangsverkefni hjá Sjálf- stæðisflokknum." Þegir heilbrigðisráð- herra? Yfrrlýsingar Ingibjargar Pálmadóttur heilbrigðisráðherra og að- stoðarmanns hennar um starfsemi Barna- og unglingadeildar eru líklega án fordæma. Æðsti yfirmaður í málaflokki og pólitískur að- stoðarmaður hennar bera fram staðhæfingar, sem í eðli sínu eru þannig, að það er óhjákvæmilegt annað en draga af þeim þær álykt- anir, að stjórnendur viðkomandi deildar hafi ekki verið starfi sínu vaxnir, og viðbótarframlögum til deildarinnar hafi verið sólundað. Virtur yfirmaður deildarinnar, Valgerður Baldursdóttir, hefur nú sagt starfí sínu lausu og starfsfólk deildarinnar hefur lýst undrun, reiði og sorg vegna ummæla ráðherrans. Heilbrigðisráðherra á nú aðeins um tvo kosti að velja: Leggja fram gögn sem styðja fullyrðingu hennar, eða biðja viðkomandi yf- irmenn afsökunar á rakalausum áburði. Þögnin mun ekki duga ráð- herranum út úr þessu máli. Meira um limrur og ferskeytlur Undir lok limruþáttar míns í Al- þýðublaðinu 15. maí síðastliðinn varð slys: Limrugrey sem ég sjálfur hafði bangað saman fatlaðist illilega einhvers staðar á krókaleið sinni um tölvupóstlúgur víðernanna, datt við það úr ljóðlínum og þrykktist sem argvítugasti prósi, svohljóðandi: Er það nú Islendingur! Endemis vitleysingur! Þegar kemst hann til manns verður kveðskapur hans aldrei kallaður byssustingur. Þetta slys laðar fram í hugann tvær velþekktar feluvísur. Önnur er eftir Andrés Björnsson: Það er hægt að hafa yfir heilar bögur án þess rímið þekkist þegar þær eru nógu alþýðleg- ar. Hin er eftir Guðmund Böðvarsson: Það er ekki að efa að ef það bara sprettur sæmilega þá er það þriggja hesta blettur. Ég eftirlæt lesendum að skipta þessum feluvísum í ljóðlínur, en vil nota tækifærið til að hnykkja á skástu aðferð sem ég kann til að skilgreina muninn á háttbundnu ljóði, óbundnu Tvhkypur | Þórarinn Eldjárn skrifar ljóði og prósaljóði meðan við höfum svo sláandi dæmi um þýðingu ljóð- línunnar eða vísuorðsins fyrir aug- um. Skilgreiningin er svona: Háttbundið ljóð: Hátturinn ræður ljóðlínuskiptingu. Óbundið ljóð: Skáldið ræður skipt- ingu. . Prósaljóð: Setjarinn eða umbrots- forritið ræður. Og ef ég endurreisi þá limruna mína og læt lokið snautlegum prósa- ljóðsferli hennar verður hún þannig: Er það nú Islendingur! Endemis vitleysingur! Þegar kemst hann til manns verður kveðskapur hans aldrei kallaður byssustingur. Hér er ort í orðastað manns sem óttast um ferskeytluna í limrugangi nútímans. Sér til styrkingar vitnar ljóðmælandinn í fræga ferskeytlu eftir áðurnefndan Andrés Björnsson sem gjarnan er farið með til að sýna eðli ferskeyttu lausavísunnar ís- lensku og þau not sem af henni má helst hafa: Ferskeytlan er Frónbúans fyrsta barnaglingur en verður seinna í höndum hvöss sem byssustingur. hans Grafarholti: Um ljóðalýti (Reykjavík 1942), en þar gerir hann meðal annars bragarbót á fyrsta erindinu í Vísum ís- lendinga eftir Jónas Hallgrímsson, Björn Bjarnason. Munurinn á limru og ferskeytlu út frá þessu þjóðlega sjón- armiði ætti þá að vera ljós: Ferskeytl- an er hvöss, meitluð, nöpur, hnitmiðuð, hættuleg. Limran er tómur vitleysisgang- ur. En ef þetta er rétt ætti ferskeytlan reyndar ekki að vera í mikilli hættu, slíkir hljóta yfirburðir hennar að vera. Og rætur hennar standa djúpt í íslenskri bók- menntasögu. Ferskeyttur háttur er elstur rímnahátta. Rímur hefjast á 14. öld, elsta varðveitta ríman er Ólafs ríma Haraldssonar í Flat- eyjarbók, 65 ferskeyttar vísur eftir Einar Gilsson. Síðan komu svo til þríhendir og tvíliendir hættir og auk þess ýmis afbrigði ferskeyttra hátta að viðbættum dýrleika sem gerði af- brigði hvers háttar óendanlega mörg og átti það til að þróast yfir í all- nokkra verðbólgu. En alsiða varð í rímnaflokkum, svo sem til að minn- ast upphafsins, að fyrsta ríma í flokki væri jafnan ort undir óbreyttum fer- skeyttum hætti. Þaðan er svo lausa- vísan runnin. Sumum þykir byssustingslíking Andrésar óviðfelldin og lítt í sam- ræmi við íslenskan reynsluheim. Hafa af því sprottið ýmsar tilraunir til lagfæringa sem getið hafa af sér nýja botna, til að mynda: En verður seinna í sálu hans svört sem kolabingur. Eða: En tútnar út á ævi hans eins og Þingeyingur. Eitt nýjasta afbrigðið sem ég hef heyrt er svona: Ferskeytlan er frónbúans fyrsta barnaglingur en verður oft í elli hans algjör leirbarningur. Einhverjum kunna að mislíka slíkar leiðréttingar, en fyrir þeim er líka ágæt hefð sem rekja má til bæklings eftir Björn Bjarnarson hreppstjóra í lagfærir það jafnt að formi sem efni: Hvað léttir geð sem góðra vina fundur er gleðin órfar fjör og lyftir brá? Sem vors á tíma laufi skrýðist lundur, eins lifhar manns í huga kætin þá. Er ræður sýna sálarkjarna frjóa og söngur fagur glæðir hjartans yl, þá vissulega bestu blómin gróa í brjóstum þeim er geta fundið til. Um þessar lagfæringar sínar kemst Björn þannig að orði: „Hér er reynt að losast við ljóðalýti gömlu vísunn- ar. Og í stað þess að þar er áfengis- nautnin látin vera aðal-gleðigjafi samkvæmisins, er það hér viturlegar ræður og fagur söngur, sem er kjarni skemmtunarinnar, og ætti það að vera vænlegra til manngöfgunar. Þannig verður að fara með fjölda fornra ljóða; færa þau í réttan búning ("snúa" þeim), ella leggja þau á hill- una og geyma sem aðra forngripi..." En hvað sem þessu líður: Höfum ekki áhyggjur af framtíð ferskeytl- unnar, hún endurnýjar sig sífellt, hún er og verður réttnefnd ferskskeytla. RS. Þættinum hefur borist fróðlegt einkabréf norðan úr landi sem ég þakka kærlega. Hvet ég lesendur til að senda mér fleiri slík og heiti að birta þau ekki. Ýmsir hafa verið að spyrja mig af hverju ég hafi valið mér Alþýðu- blaðið sem vettvang bragfræðiskrifa minna. Því er auðsvarað: Ég er svo feiminn.

x

Alþýðublaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Alþýðublaðið
https://timarit.is/publication/2

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.