Morgunblaðið - 31.01.2001, Síða 21
LISTIR
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 31. JANÚAR 2001 21
ALLT TIL RAFHITUNAR
Fyrir heimili - sumarhús - fyrirtæki
ELFA-OSO hitakútar og túbur
Ryðfríir kútar með áratuga frábæra reynslu.
Stærðir á lager: 30—50—80—120—200 og
300 lítra.
Getum útvegað stærðir frá 400—1.000 lítra.
Blöndunar-, öryggis- og aftöppunarlokar
fylgja.
Ennfremur bjóðum við hitatúbur frá 6—1200
kW og elektróníska vatnshitara fyrir vaska og
handþvott.
ELFA-VÖSAB olíufylltir ofnar
Fallegir, einstaklega jafn og þægilegur hiti,
engin rykmengun, lágur yfirborðshiti.
Thermostatstýrðir. Kapall og kló fylgja.
Stærðir á lager: 400—750—800 og 1.000 W.
Hæð: 30 eða 60 sm.
Getum einnig útvegað tvöfalda ofna.
HAGSTÆTT
VERÐ!
Borgartúni 28, 562 2901
TÓNLISTARMENNIRNIR eru á
aldrinum 16 til 26 ára og eru þau öll
að ljúka prófi frá Tónlistarskólanum í
Reykjavík. Það eru þau Annette Ar-
vidsson fagottleikari, Ari Þór Vil-
hjálmsson fiðluleikari, Karen Erla
Karólínudóttir flautuleikari og Vík-
ingur Heiðar Ólafsson píanóleikari. Á
efnisskrá tónleikanna eru konsert
fyrir fagott eftir Mozart, fiðlukonsert
eftir Saint-Saëns, konsert fyrir flautu
og hljómsveit eftir Carl Nielsen og
píanókonsert eftir Tsjaíkovskí.
Stjórnandi á tónleikunum er Bern-
harður Wilkinson.
Stóra stundin nálgast
Æfingunni með Sinfóníuhljóm-
sveitinni er í þann mund að ljúka þeg-
ar blaðamaður nær tali af einleikara-
efnunum. Þau eru létt á brún eftir
þennan áfanga, en þetta er í fyrsta
sinn sem þau leika með stórri hljóm-
sveit. „Mér fannst þetta ótrúlega
gaman,“ segir Annette. „Maður er
búinn að æfa sig svo lengi einn og er
svo allt í einu kominn þarna upp með
hljómsveitinni.“ ,,Já og heyrir öll
þessi hljóð sem maður er búinn að
vera að ímynda sér einn að æfa sig,“
bætir Karen við.
Einleikaraefnin fá aðra æfingu
með hljómsveitinni áður en þau leika
á tónleikunum. En hvernig búa þau
sig undir stóru stundina? Víkingur
segist venjulega fara í gönguferð í
Öskjuhlíðinni til þess að búa sig undir
tónleika og öll taka þau undir það að
mikilvæg undirbúningsvinna eigi sér
stað í huganum. „Þegar ég er að æfa
ímynda ég mér að ég sé að spila á tón-
leikunum. Þannig að þegar ég geng
inn á sviðið verður það í raun ekki í
fyrsta skipti sem ég geri það,“ segir
Annette. Ari segir að nýyfirstaðin
æfing hafi verið mikilvægt skref í sín-
um undirbúningi. „Mér líður mjög vel
eftir hana, og veit að ég get þetta,“
segir Ari og Karen tekur í sama
streng. Það er því ekki annað að sjá
en einleikaraefnin fjögur séu vel upp-
lögð fyrir tónleikana með Sinfóníu-
hljómsveitinni á morgun.
Annette Arvidsson er fædd árið
1974. Hún byrjaði tónlistarnám tíu
ára gömul og lærði þá á klarinett.
Hún hóf nám við Tónlistarháskólann
í Gautaborg árið 1994, lauk gítar-
kennaraprófi 1998 og hafði fagott
sem aukahljóðfæri. Tvo síðastliðna
vetur hefur hún lært á fagott hjá Haf-
steini Guðmundssyni í Tónlistarskól-
anum í Reykjavík. Annette mun lík-
lega halda til Svíþjóðar og ljúka námi
þar, en hún hefur einnig áhuga á að
dvelja á Íslandi í framtíðinni.
Ari Þór Vilhjálmsson er fæddur
árið 1981. Hann hóf að læra á fiðlu
samkvæmt Suzuki-aðferðinni fimm
ára gamall en þá bjó hann í Banda-
ríkjunum. Hann hefur verið nemandi
Guðnýjar Guðmundsdóttur í Tónlist-
arskólanum í Reykjavík frá því árið
1996. Hann hyggur á framhaldsnám
erlendis í haust.
Karen Erla Karólínudóttir er fædd
árið 1977. Hún hóf að læra á flautu tíu
ára gömul í Tónlistarskólanum í
Garðabæ. Hún hefur lært hjá Bern-
harði Wilkinson og Hallfríði Ólafs-
dóttur í Tónlistarskólanum í Reykja-
vík frá árinu 1995. Hún útskrifaðist
einnig úr blásarakennaradeild frá
skólanum árið 2000.
Víkingur Heiðar Ólafsson er fædd-
ur árið 1984. Hann hóf píanónám
fimm ára hjá Erlu Stefánsdóttur í
Tónmenntaskólanum í Reykjavík.
Árið 1995 hóf hann nám í Tónlistar-
skólanum í Reykjavík og hefur verið
nemandi hjá Peter Maté. Hann hygg-
ur á frekara tónlistarnám eftir að
hann lýkur menntaskóla, en í sumar
mun hann sækja tónlistarnámskeið í
Aspen í Bandaríkjunum en þangað
koma frægir píanóleikarar og kenna.
Fjölbreytt efnisskrá
Hópurinn segir efnisskrá tón-
leikanna vera nokkuð fjölbreytta. „Í
mínum hluta leikur aðeins hluti af
hljómsveitinni, það er tvö horn, tvö
óbó og strengir. Síðan bætist við
hljómsveitina þegar Ari spilar og
þannig verður þetta stærra og
stærra,“ segir Annette. „Og lýkur
eiginlega með sprengingu,“ bætir
Víkingur við og hin hlæja.
Annette leikur konsert fyrir fagott
og hljómsveit í B-dúr eftir Mozart.
Hún segir hann vera mjög skemmti-
legan, ekki síst vegna þess að hann
nýti möguleika hljóðfærisins mjög
vel. „Mozart var búinn að kynna sér
hvað fagottið getur gert þegar hann
samdi verkið. Þannig fær fagottið að
gera skemmtilega hluti, það er létt og
skemmtilegt en líka lýrískt og fal-
legt,“ segir Annette.
Fiðlukonsert nr. 3 í h-moll eftir Ca-
mille Saint-Saëns er ekki einn af
stóru fiðlukonsertunum, en sæmilega
þekktur að sögn Ara. „Þetta er þriðji
fiðlukonsert Saint-Saëns og sá eini af
þeim sem enn er fluttur. Hann er
mjög rómantískur,“ segir hann.
„Þetta verður góð blanda,“ bætir
Víkingur við. „Það verður einn Moz-
art, tveir rómantíkerar og síðan verð-
ur Karen með módernískt verk.“
„Já,“ segir Karen. „Konsertinn er
eftir Carl Nielsen og er saminn árið
1926 fyrir flautu og hljómsveit. Hann
er reyndar saminn fyrir danska
flautuleikarann H.G. Jespersen og
átti að vera eins konar karakterlýs-
ing á honum. Karen segir að e.t.v.
megi greina togstreitu í verkinu sem
birtist í eins konar keppni milli bassa-
básúnunnar og sólóflautunnar.
„Bassabásúnan reynir að trufla flaut-
una í melódíunni en hún vinnur á end-
anum. Það má eiginlega segja að það
sé dálítill geðklofi í verkinu,“ segir
Karen.
Víkingur mun leika síðasta verkið
á tónleikunum, píanókonsert nr. 1 í b-
moll eftir Pjotr Tsjaíkovskí. „Kons-
ertinn er saminn á árunum 1874–5 og
er fyrsta píanóverk Tsjaíkovskís.
Hann var ekki píanisti sjálfur, og
þekkti ekki hvað var mögulegt á pí-
anóinu. Hann fór því með verkið til
Rubinsteins, frægs píanista, sem
hafnaði verkinu gjörsamlega. Pían-
istinn Hans von Bülow tók verkinu
hins vegar vel og gerði það fljótlega
að einum vinsælasta píanókonsert
sem saminn hefur verið. Hann er
samt ekki spilaður svo mikið núna,
hann hefur fengið orð á sig fyrir að
vera alltof rómantískur og væminn.
Ég er að sjálfsögðu mjög ósammála
því,“ segir Víkingur og brosir. Ari
bætir því við að hópurinn vilji koma á
framfæri þakklæti til Sinfóníuhljóm-
sveitar Íslands fyrir að láta eina
vinnuviku af hendi fyrir þessa tón-
leika.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Ari Þór Vilhjálmsson fiðluleikari, Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari, Karen Erla Karólínudóttir flautuleik-
ari og Annette Arvidsson fagottleikari að lokinni æfingu með Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Er svo allt í einu
kominn þarna upp
Fjórir ungir einleikaranemar leika með
Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum á
morgun kl. 19.30. Þar með ljúka þeir fyrri
hluta einleikaraprófs síns frá Tónlistarskól-
anum í Reykjavík. Heiða Jóhannsdóttir
ræddi við tónlistarmennina eftir fyrstu
æfingu þeirra með hljómsveitinni.
SPENNA, útilistaverk Hafsteins
Austmanns, við stjórnstöð Lands-
virkjunar á Bústaðavegi, fékk á
dögunum nýja lýsingu. Verkið bar
sigur úr býtum í samkeppni sem
Landsvirkjun efndi til árið 1989
og var sett upp árið eftir. „Verkið
hefur aldrei haft almennilega lýs-
ingu og því var tímabært að láta
af þessu verða. Þetta kemur mjög
vel út,“ segir Hafsteinn.
Það var Guðjón Sigurðsson
ljósahönnuður sem hannaði lýs-
inguna.
Morgunblaðið/Kristinn
Upplýst Spenna
TÍU STYRKIR voru veittir til hand-
ritsgerðar fyrir árið 2001 við úthlut-
un úr Kvikmyndasjóði Íslands hinn
27. janúar síðastliðinn og nemur hver
styrkur 300.000 krónum. Styrki hlutu
Arnaldur Indriðason fyrir Napóle-
onsskjölin, Ásgrímur Sverrisson fyr-
ir Hvítu eldinguna, Karl Ágúst Úlfs-
son fyrir Barndóm, Jón Steinar
Ragnarsson fyrir Skugga, Einar
Kárason og Friðrik Þór Friðriksson
fyrir Þórðar sögu kakala, Guðbergur
Bergsson og Ólafur Páll Sigurðsson
fyrir Sjúka sál, Jakob Magnússon
fyrir Kapphlaupið til tunglsins, Jóa-
kim Reynisson fyrir Birtu, Kristín
Ómarsdóttir og Oddný Eir Ævars-
dóttir fyrir Búktalaraást og Ragnar
Bragason fyrir Snjódóníu. Alls bár-
ust 66 umsóknir um handritastyrki.
Alls voru veittar 3 milljónir í hand-
ritastyrki en að auki verða 3 milljónir
veittar í framhaldsstyrki og aðstoð
við handritshöfundana á árinu. Að
sögn Ingu Bjarkar Sólnes, skrifstofu-
stjóra Kvikmyndsjóðs, eru fram-
haldsstyrkir veittir í tvennu lagi síðar
á árinu, fyrst 5 höfundum en síðan
1-2 höfundum og er sótt um þá sér-
staklega. Í millitíðinni verður auk
þess fenginn erlendur handritaráð-
gjafi til landsins og höfundum boðin
aðstoð hans. „Þetta fyrirkomulag
hefur gefið góða raun frá því Kvik-
myndasjóður hóf að veita handrita-
styrki árið 1997. Höfundum er með
því gefið tækifæri til að þróa verkefni
sín áfram og hafa nokkrar myndir
verið frumsýndar sem farið hafa í
gegnum þetta ferli. Sem dæmi má
nefna Fíaskó, 101 Reykjavík og
Næsland sem fengið hefur vilyrði til
framleiðslu. Þannig hafa heimtur
verið góðar og er það vísbending um
að við séum á réttri leið,“ segir Inga
Björk.
Tíu handrit styrkt