Morgunblaðið - 31.01.2001, Page 24
LISTIR
24 MIÐVIKUDAGUR 31. JANÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ
STELLA lætur lítið yfir sér þar sem
hún situr bakvið svartan skerm í
þessu einkennilega viðtali. Öðru
hverju skrjáfar í fatnaði hennar þeg-
ar hún skiptir um stellingu og er
ógjörningur að heyra hvort hún
klæðist karlmanns- eða kvenmanns-
flíkum. Til skiptis slær fyrir vit mín
daufum ilmi af karlmannlegum rak-
spíra og ofurkvenlegu ilmvatni. Hún
veit hvað hún syngur hún Stella.
Með sama áframhaldi verður henni
erfiðast að slá sjálfa sig út hvað dul-
úð varðar en hún er nú ókrýnd
drottning íslenskra spennusagna
hvernig svo sem á skilja það, þegar
öll kurl verða komin til grafar.
– Hvernig kom það til að Bertels-
mann vildi gefa út bækur þínar?
„Hvernig áttu þeir að standast
Stellu Blómkvist? Þegar vinir mínir
hjá Máli og menningu höfðu kynnt
þeim rækilega þessar tvær bækur,
Morðið í Stjórnarráðinu og Morðið í
Sjónvarpinu, kom það ekki á óvart
að þeir féllu fyrir söguhetjunni!“
– Hafa bækurnar þegar verið
þýddar á einhver erlend tungumál
og hver er þýðandinn?
„Þessi þýska þýðing verður sú
fyrsta.“
Þriðja bókin í smíðum
– Ertu að semja eitthvað núna?
„Þriðja bókin er í smíðum. Efnið
er ennþá leyndarmál. Ég má því
ekkert segja. En ég skemmti mér
jafn mikið við að skrifa nýju söguna
eins og hinar fyrri. Kannski klára ég
hana fyrir næstu jól. Samt lofa ég
engu. Það kemur í ljós.“
– Hefurðu samið annars konar
skáldskap en spennusögur?
„Vigdís Grímsdóttir sagði í
ritdómi um Morðið í Stjórnarráðinu
að höfundurinn væri ekki að skrifa
sína fyrstu sögu. Vigdís er klár
stelpa!“
– Hver finnst þér staða spennu-
sögunnar vera á Íslandi í dag?
„Spennusagan er á hraðferð upp
vinsældalistann. Staðan breyttist ár-
ið 1997 með fyrstu bókinni um Stellu
og fyrstu bók Arnalds Indriðasonar.
Þá urðu íslenskar spennusögur allt í
einu spennandi og mikið lesnar því
Morðið í Stjórnarráðinu fór í mörg
þúsund eintökum. Núna koma
nokkrar nýjar sögur út á hverju ári.
Útlend forlög sýna líka áhuga.
Framtíðin er því björt.“
– Hvernig finnst þér form spennu-
sögunnar henta íslensku umhverfi?
„Spennusögur geta gerst hvar og
hvenær sem er, en Stellubækurnar
eru beintengdar við nútímann.
Skuggahliðar borgarlífsins eru fínn
bakgrunnur fyrir spennandi at-
burðarás. Hérna er fullt af krimm-
um og klámköllum, grimmum pen-
ingasugum og ósvífnum pólitíkusum,
ofbeldismönnum og eiturlyfjasölum.
Það er hægt að finna litríka skúrka
út um allt. Þetta umhverfi er fínt
fyrir skáldsögur og bíómyndir sem
gerast í nútímanum.“
– Áttu erfitt með að setja þig í
spor sögupersóna þinna?
„Nei. Það er bara vinna. Ég var
viss um að lykillinn að frumlegum ís-
lenskum krimma væri óvenjuleg
söguhetja. Eftir miklar pælingar
stóð hún skyndilega fyrir framan
mig, bráðlifandi og herská eins og
Pallas Aþena forðum daga. Með
fastmótaða skapgerð sem réði frá-
sagnarstílnum.“
– Ertu að lýsa sjálfri þér eins og
þú vildir vera eða eins og þú ert?
„Hefurðu séð Stellu Blómkvist á
götu? Eða í réttarsalnum? Líklega
ekki. Enda eru þetta engar sjálfs-
ævisögur. En djöfull væri gaman að
sjá eina alvöru Stellu í lögfræðinga-
liðinu sem ungað er út úr háskól-
anum. Það gæfi lífinu regnbogalit!“
Pælt mikið í Hæstarétti
– Sóttirðu um starf hæstaréttar-
dómara?
„Mér fannst það ekki tímabært,
hvað sem síðar kann að gerast. Ann-
ars hef ég pælt mikið í Hæstarétti
síðustu mánuði. En það er bara
vegna sögunnar sem ég er að
skrifa.“
– Hversu lengi hefurðu hugsað
þér að halda þínu raunverulega
nafni leyndu?
„Stella Blómkvist á að standa á
eigin fótum í veröldinni. Það lá fyrir
um leið og hún fæddist. Og það hefur
gengið bærilega. Stella lifir sjálf-
stæðu lífi. Mér liggur ekkert á að
troða upp á hana höfundi. Hún væri
líka vís til að taka því illa!“
– Finnst þér gaman að fara í bíó?
„Mér finnst gaman að brjálæðis-
legum hrollvekjum sem hrista ræki-
lega upp í taugakerfinu.“
– Finnst þér kvikmyndir eiga
margt sameiginlegt með spennusög-
um?
„Kvikmyndir nærast á skáldsög-
um eins og vampýrur. Sumar
spennusögur skila sér vel í bíói en
öðrum er misþyrmt hræðilega. Ég
get ekki ímyndað mér eymdarlegri
örlög frábærrar spennusögu en að
enda sem léleg bíómynd.“
– Áttu von á því að sögur þínar
verði kvikmyndaðar?
„Af hverju ekki? Það væri hægt að
gera frábæra kvikmynd eða sjón-
varpsþætti eftir bókunum. En ég léti
þær ekki í hendurnar á hverjum sem
er.“
– Af seinni bók þinni má ráða að
þér sé ekki sérlega vel við gagnrýn-
endur. Hefurðu slæma persónulega
reynslu af þeim?
„Skúrkarnir í sögunum mínum
eru af ýmsu tagi. Ég get nefnt sem
dæmi pólitíkusa, klámkóng, fjár-
málakall, uppdópaðan íþróttakenn-
ara og sálsjúkan skurðlækni. Mér er
ekkert illa við þessar starfsstéttir.
Ekki heldur við gagnrýnendur.
Spennusögur verða bara að hafa
skúrka sem koma úr öllum áttum og
þar eru gagnrýnendur jafngjald-
gengir og aðrir. Mér fannst gaman
að skapa Hallgerði sjónvarpsgagg-
ara sem er bæði skúrkur og fórn-
arlamb. Það er engin ein fyrirmynd
að henni. Persónan varð til úr mörg-
um pörtum eins og skáldsagnaper-
sónur yfirleitt.“
Tími spennusagnanna kemur
– Hvað borgar Bertelsmann fyrir
útgáfurétt sagnanna?
„Ég kvarta ekki.“
– Áttu von á því að fleiri útlend
forlög vilji gefa bækur þínar út?
„Af hverju ekki? Viðbrögð við
þýsku útgáfunni ráða kannski miklu
um framhaldið. Bertelsmann á víst
forlög út um allt.“
– Varðstu fyrir vonbrigðum með
að bók þín skyldi ekki tilnefnd til Ís-
lensku bókmenntaverðlaunanna?
„Því miður var engin spennusaga
tilnefnd. En þeirra tími kemur!“
– Hvaða skoðun hefurðu á Ís-
lensku bókmenntaverðlaununum?
„Þetta eru verðlaun útgefenda.
Þau hafa það markmið að selja fleiri
bækur og gera það skilst mér.“
– Ertu meðlimur í Hinu íslenska
glæpafélagi (þ.e. félagi spennu-
sagnahöfunda)?
„Já, mér var boðið í félagið í fyrra.
Þótt ég geti ekki sótt fundi í félaginu
fylgist ég með því sem þar er um að
vera. Ég er með þeim í andanum.“
– Hvernig sérðu sjálfa þig fyrir
þér eftir 20 ár?
„Árið 2021? Ætli nokkur maður
lesi bækur eftir tuttugu ár? Ég veit
það ekki. En vonandi verður Stella
Blómkvist sem lengst í banastuði.
Hver veit, kannski endar söguhetjan
eftir allt saman í Hæstarétti. Eða á
Bessastöðum! Stella er til alls vís.
Sagði mamma.“
Drottning spennusagnanna, Stella Blómkvist, í einkaviðtali
„Fullt af krimmum
og klámköllum“
Morgunblaðið/Ásdís
Halldór Guðmundsson, útgáfustjóri Máls og menningar, verst allra
frétta um hver sé á bakvið nafnið Stella Blómkvist.
Rithöfundurinn Stella
Blómkvist er að leggja
heimsbyggðina undir
sig eftir að þýski útgáfu-
risinn Bertelsmann
keypti útgáfurétt að
báðum bóka hennar;
Morðinu í Stjórnar-
ráðinu og Morðinu í
Sjónvarpinu. Hávar
Sigurjónsson fékk
einkaviðtal eftir ýmsum
krókaleiðum við þennan
dularfulla höfund.
SÖNGVAR frá sjónarhóli barna
var yfirskrift Tíbrártónleikanna sem
haldnir voru í Salnum sl. mánudags-
kvöld þar sem Margrét Bóasdóttir
og Miklós Dalmay fluttu barna-
söngva eftir íslensk og erlend tón-
skáld. Orðið barnasöngvar getur
þýtt margt; söngvar sem ætlaðir eru
börnum til söngs, sönglög þar sem
fjallað er um barnalegt efni og „full-
orðinna manna lög“, sem annað-
hvort á að syngja við börn eða eru
um börn og ætluð fullorðnum hlust-
endum. Margir hafa sett sig upp á
móti því að sérstakir söngvar séu
fyrir börn og hafa bent á að börn
geta sungið alls konar tónlist og eru
ekki síðri hlustendur en þeir full-
orðnu.
Þeir söngvar sem Margrét Bóas-
dóttir og Miklós Dalmay fluttu voru
fullorðinna manna lög, um börn og
barnalegt efni en fyrir fullorðna. Í
efnisskrá er vitnað í þau orð Bern-
steins „að söngvarinn skuli ekki
reyna að syngja eins og hann haldi
að barn myndi syngja, heldur nálg-
ast þann heiðarleika og óspilltar til-
finningar sem börn búa yfir“. Þetta
er erfitt, og birtist oft í leikaraskap,
þannig að barnið í söngvunum er
gert broslegt, eins og t.d. í laga-
flokknum I hate music eftir Bern-
stein.
Tónleikarnir hófust á sex lögum
eftir Þorkel Sigurbjörnsson við
texta eftir Þorstein Valdimarsson og
nefnist lagaflokkur þessi „Lög
handa litlu fólki“. Textinn er smá-
ljóð, er sum hafa á sér svip vöggu-
vísunnar. Lög Þorkels eru falleg,
sérstaklega Dögun í skógi, Hugsvar
og Þröstur. Í laginu Trúðar, sem er
á margan hátt skemmtilegt lag, var
nokkuð ofgert í píanóinu. Flutningur
Margrétar á lögum Þorkels var sér-
lega góður, að ekki sé talað um sér-
lega skýran framburð hennar, og
ekki spillti fyrir frábær undirleik-
urinn hjá Dalmay.
Vögguvísan var ekki fjarri í næstu
sex lögum, sem eru eftir Elínu
Gunnlaugsdóttur og gefur hún þeim
yfirskriftina „Barnalög – í gamni og
alvöru“. Þetta eru falleg lög við
kunna barnatexta, Verndi þig englar
og Sofna, sofna, bæði við texta eftir
Streingrím Thorsteinsson, Dags
þegar rennur fagur fákur eftir
Sveinbjörn Egilsson og þjóðvísan
Guð blessi börnin. Margrét söng
þessi lög af innileik, eins og vera ber
þegar um vögguvísur er að ræða.
Tvö síðustu lögin eftir Elínu eru við
tvær vögguvísur eftir Jón úr Vör og
var hér um að ræða frumflutning.
Þetta eru einstaklega fallegar tón-
smíðar er voru sérlega vel fluttar.
I hate music eftir Bernstein hefur
undirrituðum ávallt þótt vera í and-
stöðu við það sem hann ráðleggur
flytjendum að gera ekki. Hann býr
til þann heim sem hann heldur að sé
barnalegur, enda syngja flestir þessi
lög með barnalegu látæði og gera
sér gaman að „barnaskap“ barn-
anna, sem nokkuð vildi loða við
flutning Margrétar, þótt í heild væri
látlaus. Það er einnig athyglisvert
hversu einfaldur undirleikurinn er
þegar þess er gætt að Bernstein var
afburðagóður píanóleikari.
Fallegasta tónlistin á efnisskránni
var eftir Reger og Schumann og þar
var söngur Margrétar bestur, að
ekki sé talað um leik Dalmays, sem
var ótrúlega glæsilegur, sérstaklega
fallegur í Vögguljóði Maríu eftir
Reger og glæsilegur í Aufträge op.
77 eftir Schumann. Seinna lagið eftir
Reger, úr Einföldum lögum, var
Kóngurinn frá Austurlöndum, er var
mjög vel flutt, og Maríuhænan op.
79. eftir Schumann, er var mjög vel
mótað og flutt af Margréti.
Barnaherbergið eftir Mússorgskí
er meðal frægustu tónverka um
börn og þykir vera snilldarvel gert
og er sérstakt uppáhald hjá söngv-
urum, enda er textinn sérlega leik-
rænn og fær sterka undirstrikun í
píanóinu. Þarna var rödd Margrétar
ekki nógu hljómmikil, þótt túlkun
hennar væri töluvert sannfærandi
og píanóleikurinn hjá Dalmay mjög
áhrifamikill. Í heild voru tónleikarn-
ir framfærðir af fagmannlegu ör-
yggi, bæði hvað varðar túlkun og
framburð, og var söngur Margrétar
sérstaklega fallegur og innilegur í
lögunum eftir Reger og Schumann
og einnig í þeim íslensku. Píanóleik-
ur Dalmays var hreint út sagt frá-
bær.
TÓNLIST
S a l u r i n n
Margrét Bóasdóttir og Miklós
Dalmay fluttu barnasöngva eftir
Þorkel Sigurbjörnsson, Elínu
Gunnlaugsdóttur, Bernstein, Reg-
er, Schumann og Mússorgskí.
Mánudaginn 29. janúar.
EINSÖNGS-
TÓNLEIKAR
Að syngja um og fyrir börn
Jón Ásgeirsson
ÍSLENSKUM kórsöngvurum á
aldrinum 17 til 26 ára gefst kost-
ur á að þreyta inntökupróf í
Heimskór æskunnar laugardag-
inn 24. febrúar. Kórinn mun hitt-
ast í Venesúela 19. júlí og æfa í
Merida í tvær vikur. Síðan verður
kórinn á tónleikaferðalagi í aðrar
tvær vikur í Venesúela og fer til
Flórída og Louisiana. Stjórnendur
kórsins í sumar verða Maria
Guinand frá Venesúela og Anton
Armstrong frá Bandríkjunum.
Kórfélagar verða sjálfir að bera
kostnað af ferðinni milli heima-
lands og Caracas í Venesúela en
Þorgerður Ingólfsdóttir kórstjóri
veitir nánari upplýsingar.
Starfar á ólíkum stöðum
Heimskór æskunnar (World
Youth Choir) var stofnaður árið
1989.
Kórinn hefur starfað einn mán-
uð á hverju sumri og alltaf á ólík-
um stöðum í heiminum. Kórfé-
lagar eru 96 talsins á aldrinum
17-26 ára og eru valdir úr hópi
þúsunda umsækjenda hvaðanæva
úr heiminum. Þeir þurfa að hafa
mjög góða kunnáttu í nótnalestri
og raddbeitingu ásamt reynslu í
kórsöng og kórstarfi.
Nokkrir íslenskir kórsöngvarar
hafa við góðan orðstír sungið með
Heimskór æskunnar.
Heimskór æskunn-
ar til Venesúela
Þúsundir manna sækja um inngöngu í Heimskór æskunnar.