Morgunblaðið - 21.10.2001, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - 21.10.2001, Blaðsíða 10
10 B SUNNUDAGUR 21. OKTÓBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ WIM Wenders er einnaf athyglisverðustuleikstjórum þýskunýbylgjunnar, semspratt upp á síðari hluta sjöunda áratugarins eftir lang- varandi lægð sem orsakaðist af nið- urlægingu Þýskalands eftirstríðsár- anna. Meginhugmyndir þýska nýbylgjuskólans voru sjálfsrýni í sköpun sem nokkurs konar andsvar við heildarhyggju ’68-kynslóðarinn- ar. Miklar þverstæður áttu sér stað í þýsku þjóðfélagi á tímum nýbylgj- unnar, andi frjálshyggju og lög- regluvalds, en stjórnvöld beittu sér fyrir hörkulegum aðgerðum í því skyni að uppræta hryðjuverk en gerðu sér jafnframt far um að veita róttæku listafólki brautargengi. Þessum tíðaranda eru gerð skil í helstu verkum þýsku nýbylgjuleik- stjóranna, þeirra Rainers Werners Fassbinders, Volkers Schlöndorffs, Margarethe Von Trotta og Wims Wenders. Vegamyndir og framúrstefnulegar spennumyndir Wenders hefur oft verið nefndur „expressjónisti“ nýbylgjuskólans vegna þess hve mikla áherslu hann leggur á stílbrögð og uppbyggingu myndmáls en hann skeytir saman myndmáli Hollywoodkvikmynda og listrænna framúrstefnumynda. Með myndum sínum leitast hann við að skoða mannlega þætti eins og ein- manaleika og kvíða um leið og hann rannsakar bandarísk áhrif í þýskri menningu en fáir leikstjórar hafa skoðað þau áhrif jafn kirfilega og Wenders. Wenders fæddist í Düsseldorf árið 1945 og ólst upp á tímum þegar Þjóð- verjar, sem vildu gleyma þrúgandi fortíðinni, leituðu flóttaleiða í banda- rískri menningu. Wenders hafði hug á að læra til prests en áhugi á banda- rískri tónlist og kvikmyndum varð þeim áformum yfirsterkari. Að loknu námi í læknisfræði og heimspeki í Freiburgháskóla og listmálaranámi í París hóf Wenders nám í kvik- myndaskólanum í München þar sem hann gerði allmargar kvikmyndir á bilinu 1967–1970. Eftir það réðst hann í gerð kvikmynda sem öfluðu honum viðurkenninga á alþjóðavett- vangi og mun Kvikmyndasafn Ís- lands sýna rjómann af þeim mynd- um. Einnig gefst tækifæri til að sjá sjaldséð verk eftir Wenders, t.d. Alabama 2000 light years frá 1969 og Angist markvarðar í vítaspyrnu (Die Angst des Tormanns beim Elfmeter) frá 1971 sem er spennusaga og segir frá manni sem eyðir nótt í kvik- myndahúsi með miðasölustúlku með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Vegamyndir hafa ætíð verið Wenders hjartfólgið viðfangsefni og tvær af eldri vegamyndum hans verða sýndar á hátíðinni, Lísa í borg- unum (Alice in der Städten, 1974) og Í tímans rás (Im Lauf der Zeit, 1976). Lísa í borgunum lýsir á ljóð- rænan hátt ferðalagi ungrar stúlku og ljósmyndara um Ruhr-héraðið og samskiptum þeirra. Í Í tímans rás er sagt frá ferðalagi og samskiptum tveggja manna, annars vegar við- gerðarmanns kvikmyndasýningar- véla og hins vegar manns sem er nýfráskilinn og hyggur á sjálfsmorð. Hjálmar Sveinsson kemst svo að orði í grein sinni um þýskar kvikmyndir í Heimur kvikmyndanna: „Handritið var skrifað jafnóðum en kvikmynda- takan, eins og í Alice in der Städten, var í höndum hins snjalla Robby Mullers sem átti síðar eftir að taka myndir fyrir Jim Jarmusch og Lars Von Trier. Útkoman var svo góð að gagnrýnendur, austan hafs og vest- an, settu Wenders umsvifalaust á fremsta bekk með Fassbinder og Herzog. Í þessum tveimur eilítið trega- blöndnu vegamyndum kemur fram minni sem átti eftir að verða rauði þráðurinn í kvikmyndum Wenders, en flestar þeirra fjalla á beinan eða óbeinan hátt um veröld þar sem myndir spila æ stærra hlutverk. Við lifum í heimi mynda: ljósmynda, sjónvarpsmynda, blaðamynda, víd- eómynda, kvikmynda og nú síðast tölvumynda. Gagnvart þessu mynda- flóði tekur Wenders á vissan hátt íhaldssama afstöðu og heldur dauða- haldi í þá hugmynd að ljósmyndir og kvikmyndir séu ekki tilbúningur eða sýndarveruleiki heldur skráning hlutveruleikans. Það er ástæðan fyr- ir því að Wenders aðhyllist langar óklipptar senur í kvikmyndum sín- um.“ 1 Í þessum myndum tekur Wenders jafnframt fyrir vandkvæði tjáningar og erfiðleika í mannlegum samskiptum. Allar þessar hugmyndir eru útfærðar enn frekar í myndinni sem ruddi braut Wenders til Hollywood, Ameríski vinurinn (Die Amerikan- ische Freund, 1977). Hún er byggð á spennusögu Patriciu Highsmith, Ripley’s Game, sem er framhald The Talented Mr. Ripley , en eins og kunnugt er gerði Anthony Minghella nýverið mynd byggða á síðarnefndu sögunni. Mynd Wenders segir frá rammagerðar- manninum Zimmer, sem leikinn er af Bruno Ganz, en hann þjáist af ólæknandi sjúkdómi. Hann kynnist glæpamanninum Ripley sem sann- færir hann með falsaðri lækna- skýrslu um að hann sé við dauðans dyr. Með þessu svikabragði fær Ripley Zimmer til að fremja morð. Í þessari sérkennilegu spennumynd skoðaði Wenders sem fyrr bandarísk og þýsk áhrif, auk þess sem hann tók að feta nýjar brautir í persónu- sköpun með persónunni Ripley sem er í senn illviljaður andi og verndar- engill. Vinsældir Ameríska vinarins urðu til þess að Wenders fékk tækifæri til að leikstýra kvikmyndinni Hammett fyrir Francis Ford Coppola en myndin gekk ekki sem skyldi, sér í lagi vegna afar erfiðs samstarfs við Coppola. Árið 1982 gerði Wenders The State of Things, sem sýnir fram á vandkvæði bandarísks og þýsks samstarfs og var eins konar uppgjör við Coppola. Hún fékk einnig misjafna dóma og var það ekki fyrr en með Paris, Texas, 1984 sem Wenders hlaut uppreisn æru og Gullpálmann í Cannes. Í myndinni, sem er gerð eftir handriti Sams Shephards og leikin af Nastössju Kinski og Harry Dean Stanton, kristallast flest þau þemu sem eru Wenders hugleikin. Hann sneri síðan aftur til Þýskalands til að gera myndina Himinn yfir Berlín árið 1987 en hún er talin til bestu verka Wenders. Í myndinni er sagt frá engli, leiknum af Bruno Ganz, sem eigrar um Berlín til að hugga hina lifandi. Hann verður ástfanginn af loftfimleikakonu (Solveig Dommart- in) og þráir að verða jarðneskur. Wenders hlaut alþjóðlega viður- kenningu fyrir myndina og verðlaun fyrir kvikmyndaleikstjórn í Cannes sama ár. Hann gerði framhald af myndinni, Faraway, so close! árið 1993, en hún olli vonbrigðum gagnrýnenda. Himinn yfir Berlín var endurgerð árið 1998 undir heitinu „City of Angels“ með Meg Ryan og Nicolas Cage í aðal- hlutverkum en hlaut dræmar við- tökur. Í Lisbon Story frá 1994 kannar Wenders þögla tímabilið í sögu kvikmyndanna með því að segja sögu kvikmyndagerðarmanns í nútímanum sem hefur í hyggju að gera kvikmynd án þess að taka tillit til þróunar í kvikmyndagerð fram að hljóðbyltingunni laust fyrir 1930. Í Buena Vista Social Club frá 1999 kannar Wenders djasstónlistar- menninguna á Kúbu á sérlega hlýjan og ljóðrænan hátt en myndin hlaut verðlaun og viðurkenningar um allan heim. Foto-Jarra Ljósmyndasýningin, sem verður haldin í anddyri Bæjarbíós, er einskonar ljósmyndavegamynd í anda Paris, Texas þar sem horfin siðmenning birtist fyrir sjónum áhorfandans. Wenders hefur alltaf tekið mikið af kyrrmyndum við gerð kvikmynda sinna og gaf m.a. út handrit Himinn yfir Berlín skreytt ljósmyndum úr myndinni. Ljósmyndirnar á sýningunni eru frá Ástralíu en þangað fer Wenders iðulega í leit að sérkennilegu myndefni. Í slíkum ferðum var Wenders oft með innfæddum sem kölluðu hann „Foto-Jarra“ (Brjálæðingur með myndavél) þar sem þeim fannst vitfirringslegt hvernig Wenders keyrði sig áfram og tók myndir dögum saman án hvíldar í ofsalegum sumarhitunum. Wenders þótti vænt um viðurnefnið og fannst viðeigandi að nefna sýninguna þessu nafni. Myndirnar eru teknar á sérstaka myndavél til að ná geysilegri víðáttunni (2,3 sinnum 6,5 tommu snið) og sýna leifar af horfnum menningar- samfélögum í mannlausum auðnum, t.d. yfirgefna risaskjái útibíós í miðri eyðimörkinni, furðufyrirbærið Ayers-klettinn, mauraþúfur og stór- fenglegt sólarlag. Eins og Wenders segir sjálfur: „Myndirnar túlka sýn menntamanns frá neyslusamfélagi Evrópu og tjá heimþrá hans eftir horfnum menningarsamfélögum.“ Heimildir: 1 (Hjálmar Sveinsson, Frá árinu núll til okkar daga, Saga þýskra kvikmynda frá 1945, bls. 83–84), Heimur kvikmyndanna. Ljósmynd/ Wim Wenders Nágrenni Coober Pedy (1988). Myndirnar á ljósmyndasýningunni Foto-Jarra eru teknar á sérstaka myndavél til að ná geysilegri víðáttunni (2,3 sinnum 6,5 tommu snið) og sýna leifar af horfnum menn- ingarsamfélögum í mannlausum auðnum. Að sögn Wenders er þetta sýn menntamannsins og heimþrá hans eftir horfnum menningarsamfélögum. VERÖLD WENDERS Dagana 24. til 28. október standa Kvikmyndasafn Íslands og Goethe Zentrum fyrir kvikmyndahátíð helgaðri Wim Wenders. Hátíðin verður haldin í Bæjarbíói og í anddyrinu verður sýning á ljósmyndum Wenders frá Ástralíu, afar sérstæðum og fallegum verkum, sem hafa farið sigurför um heiminn. Oddný Sen rifjar hér upp feril Wenders. Í Buena Vista Social Club frá 1999 kannar Wenders djasstónlistarmenninguna á Kúbu á hlýjan og ljóðrænan hátt, en myndin hlaut fjölda viðurkenninga. Wenders hlaut Gullpálmann í Cannes fyrir París, Texas (1984) og sést hann hér með tveimur leikaranna, þeim Harry Dean Stanton og Nastassia Kinski. Kvikmyndin Milljón dollara hótelið eftir Wim Wenders. Á myndinni sjást þau Milla Jovovich og Mel Gibson í hlutverkum sínum. Oddný Sen, kvikmyndafræðingur og rithöfundur.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.