Morgunblaðið - 09.10.2002, Blaðsíða 15
SUÐURNES
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 9. OKTÓBER 2002 15
BÚMENN hófu í gær byggingu tíu
íbúða í Vogum. Sala er tryggð á öll-
um íbúðunum.
Húsnæðissamvinnufélagið Bú-
menn vann að skipulagningu 30
íbúða í sérstöku hverfi í Vogum en
að sögn Daníels Hafsteinssonar
framkvæmdastjóra þótti í of mikið
ráðist og voru áformin lögð til hlið-
ar. Í staðinn fékk félagið lóðir fyrir
fimm parhús við Hvammsgötu í
Vogum til að byggja tíu íbúðir og
fékk til þess lánsloforð hjá Íbúðar-
lánasjóði. Ekki tókst að selja allar
íbúðirnar fyrirfram en Vatnsleysu-
strandarhreppur ákvað að kaupa
fjórar íbúðanna, ef þær gengju ekki
út, til þess að unnt yrði að hefja
framkvæmdir. Samkvæmt upplýs-
ingum Láru Guðmundsdóttur hjá
Búmönnum er búið að selja sjö
íbúðir og verið að athuga með þá
áttundu.
Búmenn sömdu við Eðalhús ehf.
á Selfossi um að byggja timburein-
ingahús á lóðunum. Íbúðirnar
verða 90 og 77 fermetrar að stærð,
ýmist með bílskúr eða sólskála.
Félagið Búmenn hefur
byggingu á tíu íbúðum
Vogar
Ljósmynd/Hilmar Bragi
Guðrún Jónsdóttir arkitekt, formaður Búmanna, tekur fyrstu skóflustunguna að húsum félagsins í Vogum.
UNNIÐ er að því að gangsetja salt-
verksmiðjuna á Reykjanesi á ný. Er
það í fjórða skipti sem verksmiðjan
hefur framleiðslu á salti.
Eignir verksmiðjunnar eru í eigu
Íslenskra sjávarsalta ehf. en fram-
leiðslan lagðist síðast af fyrir um
hálfu ári. Sævar Pétursson verkfræð-
ingur stjórnar endurreisn hennar.
Unnið að markaðsmálum
innanlands og utan
Sævar segir að framleiðsla á salti
sé þess eðlis að ávallt taki nokkurn
tíma að koma framleiðslunni af stað
eftir stöðvun því ýmsan búnað þurfi
að hreinsa og gera upp. Býst hann við
að fyrsta saltið verði tilbúið eftir tvær
vikur.
Jafnframt er unnið að markaðs-
málunum. Segir Sævar að góður
markaður sé fyrir afurðir verksmiðj-
unnar, ekki síst heilsusaltið. Aukinn
áhugi sé á því í Bandaríkjunum. Því
er pakkað á Akureyri.
Þá segist Sævar verða var við
áhuga innlendra framleiðenda á
venjulegu sjávarsalti frá verksmiðj-
unni. Meðal annars hafi Hafnarbakki,
sem er stór saltinnflytjandi, verið í
sambandi. Segir Sævar að verksmiðj-
an sé fulllítil til að sinna eftirspurn
eftir almennu salti sem sé ódýrara en
heilsusaltið. Segir hann að hag-
kvæmni framleiðslunnar myndi
aukast verulega ef hægt væri að auka
afkastagetuna og væri verið að at-
huga möguleikana á því.
Sævar segir mikilvægt fyrir Suð-
urnesin að koma saltverksmiðjunni í
gang á nýjan leik. Ekki veiti af
vinnunni. Tólf til fjórtán fá vinnu
beint við framleiðsluna og Sævar seg-
ir að hún hafi auk þess töluverð
margfeldisáhrif á atvinnulífið á svæð-
inu.
Verksmiðjan gangsett í fjórða skiptið
Góður markaður
fyrir heilsusalt
Ljósmynd/Hilmar Bragi
Reykjanes
ÖLL sveitarfélögin sem eiga aðild að
rekstri hjúkrunarheimilisins Garð-
vangs í Garði hafa staðfest samþykkt
stjórnar heimilisins um að heimila
Gerðahreppi að byggja íbúðir fyrir
aldraða á eignarlóð heimilisins.
Framkvæmdir hefjast á morgun.
Hreppsnefnd Gerðahrepps ákvað
á síðastliðnum vetri að byggja tíu
íbúðir fyrir aldraða. Jafnframt var
svæðið við hjúkrunarheimilið Garðv-
ang deiliskipulagt og gert ráð fyrir
að íbúðirnar yrðu fyrsti áfangi í frek-
ari uppbyggingu fyrir aldraða á lóð-
inni. Stjórn Dvalarheimila Suður-
nesjum sem annast rekstur
Garðvangs lagðist gegn skipulaginu
þar sem það þrengdi óþarflega að
hjúkrunarheimilinu. Sameigendur
Gerðahrepps að heimilinu, það er að
segja Reykjanesbær, Sandgerðis-
bær og Vatnsleysustrandarhreppur,
lýstu sömu skoðun.
Gerðahreppur hélt áfram undir-
búningi. Bauð verkið út í alútboði og
náðist samkomulag við Húsagerðina
hf. í Keflavík um að byggja íbúðar-
nar fyrir rúmar 115 milljónir. Vegna
ágreininings um málið var ekki gef-
inn út lóðarleigusamningur og fram-
kvæmdir gátu ekki hafist.
Hreppsnefnd Gerðahrepps ákvað í
vor að breyta áformum um uppbygg-
ingu svæðisins í framtíðinni, til þess
að reyna að ná samkomulagi við
meðeigendur sína um að leyfa bygg-
ingu þessara tíu íbúða. Ný bæjar-
stjórn Reykjanesbæjar samþykkti
það fyrir sitt leyti og nú hafa stjórn
Dvalarheimilanna, bæjarstjórn
Sandgerðis og hreppsnefnd Vatns-
leysustrandarhrepps gefið leyfi sitt.
Tíu íbúðir byggðar
Framkvæmdir hefjast á morgun
með því að fulltrúar eldri borgara
taka fyrstu skóflustungu að grunni
hússins. Við athöfnina flytur Ingi-
mundur Þ. Guðnason oddviti Gerða-
hrepps ávarp og í tilkynningu frá
hreppnum eru Garðmenn hvattir til
að mæta og fagna tímamótunum.
Íbúðirnar tíu verða í tveimur rað-
húsum og skilar verktakinn þeim til-
búnum til notkunar. Sex þeirra eru
tveggja herbergja, 79 fermetrar að
stærð, og fjórar eru þriggja her-
bergja, 93 fermetra. Íbúðarlánasjóð-
ur veitir Gerðahreppi lán til upp-
byggingarinnar.
Sigurður Jónsson sveitarstjóri
segir að í könnun sem hreppurinn lét
gera meðal eldri borgara á síðasta
ári hafi komið í ljós að verulegur
áhugi væri á íbúðum af þessu tagi.
Hann segir að íbúðirnar verði leigð-
ar út og jafnvel einhverjar seldar,
ekki hafi verið teknar endanlegar
ákvarðanir um það. Segir sveitar-
stjórinn að leiðin að þessu takmarki
hafi verið löng og erfið. En jákvæð
niðurstaða hafi fengist og sé það
mikilvægt, ekki síst vegna þeirrar
miklu samvinnu sem sveitarfélögin á
Suðurnesjum þurfi að hafa um ýmis
mál.
Allir eigendur Garðvangs hafa heim-
ilað byggingu tíu íbúða fyrir aldraða
Framkvæmdir
hefjast á morgun
Garður