Morgunblaðið - 09.03.2003, Blaðsíða 8

Morgunblaðið - 09.03.2003, Blaðsíða 8
8 B SUNNUDAGUR 9. MARS 2003 MORGUNBLAÐIÐ A UGUN eru brún og djúp. Það vinstra virkar minna; hann dregur það stundum hálf- partinn í pung þegar hann hugsar. Viktor Kortsnoj tal- ar lágt í upphafi en hækkar róminn þegar hann kemst á skrið; hann er glaður í bragði, gerir að gamni sínu og brosir oft meðan á samtalinu stendur. Það er glettni í augunum og einsog hann kreisti hlátur fram; hallar sér afturábak og þröngvar hlátrinum upp úr neð- anverðum hálsinum. En þetta er engin uppgerð. Það leynir sér ekki að hláturinn er einlægur. Kortsnoj er orðinn 72 ára. Þetta virðist ekki sami „vondi“ maðurinn og þjóðin tók upp á að hata eftir að hann blés sígarettureyk einsog í akkorði framan í Jóhann Hjartarson við tafl- borðið í Kanada um árið. Við hittumst að máli strax eftir að hann stóð upp frá síðustu skákinni á Stórmóti Hróksins að Kjarvalsstöðum á fimmtudegi í fyrri viku; sig- urskák gegn Frakkanum tvítuga, Etienne Bacrot, sem varð stórmeistari aðeins 14 ára, yngstur allra frá upphafi. Alexei Shirov sigraði á mótinu með 7 vinninga af 9 mögulegum einsog komið hefur fram en Kortsnoj varð jafn Pólverjanum Bartlomiej Macieja í öðru sæti með 6 vinninga. „Honum er ekki vel við að mæta mér,“ segir Kortsnoj í upphafi um Frakkann unga þegar ég nefni að sigurinn hafi verið næsta auðveldur í þessari síðustu skák. „Við mættumst fyrir fimm árum þegar hann var enn bara skólastrákur, og ég vann 4:2. Honum hefur farið mikið fram síð- an, leikur mjög athyglisverðar byrjanir og er með skemmtilegar hugmyndir. En ég sigraði meðal annars í dag vegna þess að við byrjuðum ekki að tefla á sama tíma og venjulega!“ Segist nefnilega hafa verið andlega sterkari en Frakkinn. Tafl hófst kl. 17 keppnisdagana nema þann síðasta, þá fóru skákklukkurnar af stað kl. 13. „Best er að tefla alltaf á sama tíma dagsins á mótum og ég veit ekki hvers vegna skipuleggjendur létu menn setjast að tafli á öðr- um tíma en venjulega seinasta daginn. Ég er gamall maður og mér finnst betra að hefja leik snemma dags en síðla. Þegar keppni hefst klukkan fimm síðdegis, eins og raunin hafði ver- ið, fékk ég mér venjulega blund frá klukkan þrjú til hálf fimm en í síðustu skákinni varð ég að taka á til þess að sofna ekki því ég gat ekki lagt mig! Og það sama er að segja um Bacrot; hann er greinilega líka vanur að fá sér blund en nú sat hann og nuddaði augun vegna syfju.“ Og svo hlær hann þessum sérkennilega hlátri. Viktor grimmi Kortsnoj er talinn einn mesti keppnismaður skáksögunnar, kallaður Viktor grimmi þegar hann var upp á sitt besta. Hann varð sovéskur meistari 1951, alþjóðlegur meistari 1954 og stór- meistari 1956. Áratuginn frá 1960 til 1970 sigr- aði hann fjórum sinnum á sovéska meist- aramótinu sem á þeim árum var langsterkasta landsmót í heiminum. Á árunum frá 1954 til 1990 tók Kortsnoj þátt í um það til 70 alþjóðlegum skákmótum og varð í fyrsta sæti, einn eða jafn öðrum, 40 sinnum. Að- eins þrisvar varð hann neðar en í þriðja sæti! Kortsnoj tapaði einvígi við landa sinn, An- atoly Karpov, 1974, þegar þeir börðust um að fá að mæta Bobby Fischer sem varð heimsmeistari í Reykjavík tveimur árum áður. Fischer neitaði síðan að verja titil sinn, eins og kunnugt er, og Karpov varð þar með heims- meistari. Kortsnoj sótti um pólitískt hæli í Hollandi 1976 og varð síðar svissneskur ríkisborgari. Hann er enn búsettur í Sviss. 1978 mætti hann Karpov aftur, þá í einvígi um heimsmeistaratitilinn, en tapaði með fimm vinn- ingum gegn sex en 21 jafnteflisskák var ekki tal- in. Hann tapaði síðan aftur 1981 fyrir Karpov. Eiginkonu Kortsnojs og syni var ekki leyft að fara frá Sovétríkjunum fyrr en um miðjan ní- unda áratuginn og sonur hans var hnepptur í fangelsi 1981, skömmu fyrir einvígið við Karpov, eftir að hafa reynt að flýja land. Eftir að þau mæðgingin fengu að flytjast vestur skildu Kortsnoj-hjónin reyndar og Viktor giftist síðar Petru, núverandi eiginkonu sinni sem var ein- mitt með honum í Reykjavík. „Það er vissulega áhugavert að í Sovétríkj- unum var litið á mig sem pólitískan mann, sem átti þátt í því að ákveðin endurreisn hófst; perestrojkan. Þegar ég fór frá Sovétríkjunum höfðu 43.000 manns þegar farið án leyfis rík- isins. Þetta fólk hvarf bara en ég hélt aftur á móti áfram að tefla og skák skipti gríðarlega miklu máli í Sovétríkjunum. Yfirvöld gátu því ekki falið það að ég var enn að keppa með góð- um árangri; vann meðal annars annan og þriðja mann Sovétríkjanna. Ég sýndi Sovétmönnum að gáfumenni getur lifað fyrir vestan! Frá og með þeim tíma að ég fór úr landi fóru menntamenn að yfirgefa Sovétríkin og það var í raun upphaf perestrojkunnar. Ekkert land getur haldið velli án menntamanna. Í huga ýmissa sem ekki vildu sjá breytingar í Sovétríkjunum er ég því nokkurs konar söku- dólgur þeirra varanlegu breytinga sem orðið hafa.“ Óttaðist að fá ekki að tefla Hann leit ekki á sjálfan sig sem pólitískan ein- stakling þegar hann fór. En sá sig samt knúinn til þess að yfirgefa föðurlandið. „Ég fór úr landi í þeim tilgangi að geta haldið áfram að tefla. Þegar ég mætti Karpov [1974] ákváðu sovésk yfirvöld að hann væri hinn sig- urstranglegi en ég lítilmagninn. Hann varð því að sigra, að ósk ríkisins, og eftir að ég hafði tap- að sýndi ég tennurnar; sagði það sem mér bjó í brjósti. Það mislíkaði yfirvöldum og mér var refsað. Frá því augnabliki gerði ég mér grein fyrir því að ekki væri víst að mér yrði leyft að tefla framar. Þess vegna fór ég. Stjórnvöld í Sovétríkjunum héldu fjölskyldu minni sem gíslum, ég barðist fyrir því að fá hana úr landi en ég leit í sjálfu sér ekki á mig sem andófsmann. En ég dróst hins vegar inn í stríð við Sovétríkin; stjórnvöld litu á mig sem póli- tískan andófsmann – litu þannig á að ég ætti í stríði við föðurlandið.“ Svona blasir málið við honum, en bætir svo við, „almennt talað“ eins og hann segir: „Ég spurði sjálfan mig: Hver er ég? Svarið er á þá leið að ég er einstaklingur sem getur ekki annað en sagt skoðun sína og það var einfald- lega ekki leyft í Sovétríkjunum. Þess vegna, þegar spurt er, hvað ég væri ef ekki skákmaður í dag; hefði ekki yfirgefið land- ið, er svarið einfalt: Ég lagði stund á sagnfræði í háskólanum í Leníngrad á sínum tíma og ég væri þess vegna sögukennari einhvers staðar í Síberíu! Og hefði ekki fengið að ferðast. Einfalt mál.“ Og nú hlær hann sínum sérkennilega hlátri, brosir hringinn og dillast sem aldrei fyrr í stóln- um. Finnst gott að tefla á Íslandi Mér fróðari menn um skák segja Kortsnoj hafa teflt mjög vel á Stórmóti Hróksins. Ég spyr hvort hann sé sammála því. „Já, ég verð að vera það. Fólk hefur líklega ekki átt von á því að ég tefldi svona vel á mótinu vegna þess að ég er ekki jafn hár að stigum og sumir aðrir þátttakendur. Stundum var ég heppinn og stundum óheppinn, það jafnast lík- lega út. En þegar ég leiði hugann að því þá leik ég yfirleitt vel á Íslandi. Ég hef tekið eftir því. Það er erfitt að útskýra hvers vegna en hér fæ ég líka oft áhugaverðar hugmyndir við tafl- borðið, til dæmis á alþjóðamótinu 1996; ef til vill skiptir loftslagið máli. Hér er ekki ósvipað lofts- lag og í Leníngrad þar sem ég er fæddur.“ Skiptir nálægðin við sjóinn ef til vill máli; sjávarlyktin? spyr ég. „Mér finnst að hér andi ég með öllum lík- amanum og finni eitthvað sambærilegt við það loftslag sem ég er fæddur í.“ Talandi um Leníngrad; Kortsnoj var þar ung- ur drengur þegar umsátrið um borgina stóð yfir í síðari heimsstyrjöldinni. Ástandið var öm- urlegt í borginni meðan umsátur Þjóðverja og Finna varði, frá 8. september 1941 til 27. janúar 1944. Talið er að 650.000 Leníngradbúar hafi látist árið 1942, aðallega úr hungri, vosbúð, sjúkdómum og vegna sprengjuregns Þjóðverja. Viktor Kortsnoj fæddist 23. mars 1931 og var því tíu ára þegar umsátrið hófst. Ég spyr hann um þennan tíma. „Sjáðu nú til; faðir minn var skynsamur mað- ur og í stríðsbyrjun kvað hann upp úr með að ég yrði að fara á brott; hann vildi að ég færi austur til Asíuhluta Sovétríkjanna ásamt öðrum skóla- strákum. Móðir mín, sem vel að merkja bjó ekki með föður mínum, var hins vegar á öðru máli og tók mig úr búðum sem ég var þegar í fyrir utan Leníngrad og fór með mig aftur inn í borgina. Þess vegna var ég þar allan tímann sem umsátr- ið stóð yfir.“ Og hann kynntist hryllilegum vandamálum á þessu erfiða tímabili. Skákin virðist þó efst í huga Kortsnojs nú þegar hann hugsar til baka, því hann segir fyrst: „Ég var 10 ára þegar stríð- ið braust út og segjum sem svo að aldrei hefði orðið neitt stríð hefði ég ef til vill orðið heims- meistari í skák! Ég byrjaði nefnilega ekki að tefla fyrr en eftir að umsátrinu lauk, 13 ára. Þegar menningarlífið fór aftur af stað í borginni vandi ég komur mínar í klúbb og fór að læra skák. Hefði ekki komið til stríðs hefði ég örugg- lega byrjað tveimur til þremur árum fyrr.“ Svo segir hann: „Ég sá margt vont. Það var ákveðið vandamál að alast upp í pólskum hluta fjölskyldunnar; faðir minn var hálfur Pólverji og hálfur Úkraínumaður svo þegar ég var ungur talaði ég pólsku. Og meðan á umsátrinu stóð svalt hluti af þessum pólska hluta fjölskyld- unnar og sumir dóu úr hungri.“ Ástandið var oft hræðilegt. Fyrsti vetur umsátursins var til dæmis hroðalega kaldur og erfiður íbúum borg- arinnar. „Ég man að ég fór oft sjálfur með tvær stórar fötur niður að ánni Neva til þess að ná í vatn. Öðruvísi var ekki hægt að fá vatn; allt var frosið.“ Langt er síðan þetta gerðist, en ég skynja að Kortsnoj vilji ekki fara út í nánari smáatriði því hann segir skyndilega: Hver er næsta spurning? Og ég beini umræðunni inn á aðra braut. Hvers vegna valdi hann skák sem lífsstarf; hafði hann til dæmis ekki áhuga á því að starfa við sagnfræði fyrst hann lagði stund á hana í há- skóla? „Ég átti á sínum tíma þrjú áhugamál; í fyrsta lagi að spila á píanó, í öðru lagi framsögn vegna þess að ég hafði áhuga á að verða leikari og í þriðja lagi skák. Svo kom í ljós að til að verða góður á píanó yrði ég að hafa hljóðfæri heima til að geta æft mig nægilega og til þess var hvorki nóg pláss heima né nægir peningar til. Því hætti ég fyrst að læra á píanó. Svo kom í ljós að framburður minn á rúss- nesku var ekki alveg nógu hreinn; þeir reyndu að bæta mig en ég hafði ekki nægilega þol- inmæði og hætti því þess vegna líka. Tónlist og ljóðlist eru enn í dag mikil áhugamál mín, ég kann mikið af ljóðum utanbókar en tónlistar- innar nýt ég eingöngu með því að hlusta. Ég leik ekki.“ Og ekki segist hann heldur yrkja ljóð. Væri örugglega sögukennari í Síberíu … „Ég átti á sínum tíma þrjú áhugamál; í fyrsta lagi að spila á píanó, í öðru lagi framsögn vegna þess að ég h

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.