Morgunblaðið - 26.10.2003, Blaðsíða 6

Morgunblaðið - 26.10.2003, Blaðsíða 6
6 B SUNNUDAGUR 26. OKTÓBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ N AFN Jóns Sigurðs- sonar forseta og framlag til sjálfstæð- isbaráttunnar er þekkt flestum Ís- lendingum. En hver var Jón Sigurðsson? Guðjón Friðriksson sagnfræðingur og rithöfundur vildi reyna að komast nær manninum á bakvið ímynd landsföðurins og hefur nú lokið ritun ævisögu Jóns. Síðara bindi hennar kemur út á næstu dög- um. Það spannar tímabilið frá Þjóðfundinum 1851, þegar Jón stóð á fertugu, og til æviloka hans 7. desember 1879. En skyldi Guðjóni hafa tekist það ætlunarverk sitt að komast nær mann- inum Jóni Sigurðssyni? „Jón er mjög erfiður og gefur ekki mikil færi á sér. Hann fjallar mjög sjaldan um það sem kalla má einkamál í sendibréfum sínum. Jafnvel virðist hann svolítið hafa falið slóð sína,“ segir Guðjón. Til dæmis um það er að ekki finnast nein bréf sem fóru milli Jóns og Ingibjargar Einarsdóttur, konu hans. Þeim virðist hafa verið fargað og allt bréfasafn Ingibjargar er glatað. Guðjón segir að í öðrum bréfasöfnum megi finna eitt og eitt bréf frá Ingibjörgu þar sem hún víkur lítillega að einkamálum. „Ég held að Jón hafi mjög snemma gert sér grein fyrir landsföðurlegu hlutverki sínu, sem var liður í pólitík hans. Hann virðist hafa gert sér far um að grisja bréfasafn sitt þar sem eitthvað var sem gat skyggt á þá landsföðurlegu ímynd.“ Guð- jón segir að Jón hafi verið orðinn „þjóðardýr- lingur“ þegar í lifanda lífi. Það sé t.d. mjög merki- legt hvernig fylgismenn hans létu dreifa myndum af honum um allt land áður en myndir urðu al- menningseign. „Eftir þingið 1857 létu þeir gera steinprent af Jóni og fjölfalda í miklu upplagi. Síðan var myndunum dreift til allra þjóðkjörinna þingmanna og þeir áttu síðan að dreifa þeim í sín- um kjördæmum. Þarna er myndin orðin liður í pólitískri baráttu og merkilegt hvað þeir hafa verið nútímalegir í hugsun. Á þessum tíma er enginn íslenskur ljósmyndari kominn til starfa heima á Íslandi og myndaeign afar lítil.“ Guðjón segir að Jón hafi verið mjög dýrkaður af almenningi, og ef til vill mest þar sem hann hafði aldrei komið sjálfur. Dæmi um það eru Norðausturland og Austfirðir. „Þingmaður Þingeyinga, Jón Sigurðsson á Gautlöndum, hafði snúist gegn Jóni á þinginu 1865. Hann varð eiginlega að beygja af stefnu sinni til að halda þingsæti sínu því kjósendur hans fylgdu honum ekki. Þeir fylgdu Jóni Sig- urðssyni í Kaupmannahöfn og sáu ekki sólina fyr- ir honum. Þetta fólk var með myndir af Jóni uppi á vegg, en hafði fæst séð hann í eigin persónu. Á stöku stað hafði kannski verið mynd af kóngin- um, en nú var komin mynd af Jóni við hliðina á honum eða í staðinn fyrir hann.“ Þótt bréf milli Jóns og Ingibjargar finnist ekki eru til bunkar af reikningum úr heimilishaldi þeirra hjóna. Þeir gáfu Guðjóni innsýn í daglegt líf og sýslan Jóns. „Hann var eins konar sendiherra Íslendinga í Kaupmannahöfn og stóð í margs konar útrétt- ingum. Þetta voru viðskipti um leið. Íslendingar sendu honum mat, harðfisk og saltkjöt, og hann útréttaði fyrir þá í staðinn. Keypti jafnvel kven- fatnað í stórum stíl. Í bréfum til hans eru pant- anir á kjólum og kápum með mjög nákvæmum útlistunum um hvernig þær flíkur eiga að vera. Jón hefur átt að fara í tískubúðirnar að kaupa þetta, en Ingibjörg hefur sjálfsagt verið honum innan handar.“ Önnur heimild um Jón og heimili hans er dagbækur manna sem voru samtímis honum í Kaupmannahöfn og heimagangar hjá Jóni og Ingibjörgu, eins sendibréf þeirra heim til vina og ættingja. Þar ber þau hjón oft á góma, enda heimili Jóns og Ingibjargar fastur sama- staður í tilveru þeirra. Umdeildur í innsta hring Jón var þó síður en svo óumdeildur og lenti í margs konar deilum við landa sína í Kaupmanna- höfn. „Það er merkilegt hve margir af hans nán- ustu samstarfmönnum snúa bakinu við honum. Til dæmis þeir sem sátu í ritnefnd Nýrra fé- lagsrita með Jóni. Þetta voru yfirleitt stúdentar í Kaupmannahöfn. Ég hugsa að meirihluti þeirra hafi komist upp á kant við hann fyrr eða síðar. Margir urðu embættismenn á Íslandi og þurftu ef til vill stöðu sinnar vegna að snúast gegn honum. En nokkrir urðu beinlínis óvinir hans. Jón var af- ar ráðríkur og menn sem e.t.v. voru sjálfir skap- miklir áttu stundum bágt með að þola ráðríki hans til lengdar. Jón gat einnig verið þykkju- þungur og tók það óstinnt upp ef menn andmæltu honum – eða gekk í burt.“ Meðal þeirra sem sátu í ritnefnd Nýrra fé- lagsrita var Grímur Thomsen og eru samskipti þeirra Jóns rakin nokkuð í bókinni. Grímur komst til æðstu metorða í danska stjórnkerfinu og varð skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu. Hann var í miklum kunningsskap við æðstu emb- ættismenn Dana og með sjálfum kónginum í spilaklúbbi. „Grímur skar sig úr því hann var skandínavisti. Það var hreyfing í Danmörku um að Norðurlöndin ættu að sameinast í eitt ríki til að mynda mótvægi gegn stórveldunum. Þýska- land stefndi í sameiningu á þessum tíma og Ítalía var einnig að sameinast. Skandínavistar töldu að norrænu málin væru ekki svo ólík að það væri spurning hvort Norðurlöndin gætu ekki talist ein þjóð með mismunandi mállýskum. Íslendingar voru yfirleitt ekki hrifnir af þessum hugmyndum en Grímur var skandínavisti af lífi og sál. Um 1860 snýst hann gegn Jóni og virðist gera tilraun til að mynda nýjan flokk Íslendinga í Kaup- mannahöfn gegn Jóni. Jón var vanur að bjóða Ís- lendingum heim til sín á aðfangadag í mat. Einu sinni stal Grímur veislunni með því að vera fyrri til að bjóða öllum þeim sem Jón var vanur að bjóða. Þar á meðal voru nokkrir nánustu vina Jóns. Þeir afsaka það í bréfum til hans að þeim hafi verið boðið til Gríms. Grímur náði aldrei miklum hljómgrunni meðal almennings á Íslandi, en naut þó virðingar vegna stöðu sinnar. Hann var þá ekki orðinn vinsæll sem skáld, náði því eig- inlega ekki í lifanda lífi.“ Guðjón nefnir einnig Gísla Brynjúlfsson í Kaupmannahöfn sem andstæðing Jóns. Áður hafði hann verið náinn vinur hans. Gísli var styrk- þegi Árnanefndar en seinvirkur og afkastalítill. Jón var alltaf að reka á eftir Gísla og lítur út fyrir að sá síðarnefndi hafi þreyst á sífelldum að- finnslum. Á endanum snerist Gísli algerlega gegn Jóni og notaði hvert tækifæri til að skrifa skamm- argreinar og gagnrýna hann í dönskum blöðum. Guðjón segir að Grímur Thomsen hafi að nokkru leyti staðið á bakvið Gísla. „Jón var miklu umdeildari í þessum nána og litla hópi Íslendinga sem lét til sín taka í Kaup- mannahöfn en á Íslandi sjálfu. Hins vegar náðu helstu andstæðingar hans aldrei al- mennilega vopnum sínum á Íslandi, þar sem Jón aftur á móti naut mik- ils álits. Þess vegna mistókust að lokum allar aðfarir að Jóni.“ Jón lenti þó í andstreymi heima á Íslandi, eins og í fjárkláðamálinu 1859. Þá tókust á þeir sem vildu skera kláðakindur og hinir sem vildu lækna féð af kláðanum. Jón varð erindreki danskra stjórnvalda og fór um landið í þeirra erindum til að beita sér fyrir lækningum. Þrátt fyrir skiptar skoðanir um fjárkláð- ann og mikinn andbyr gegn honum í því máli virðist hvorki það, né önn- ur mál sem skiptar skoðanir voru um, hafa megnað að raska stöðu Jóns til lengdar sem hins mikla leiðtoga Íslendinga. „Það er þó ekki fyrr en eftir dauða Jóns að allir sem einn taka að mæra hann, jafnvel þeir sem höfðu harðast barist gegn honum,“ segir Guðjón. Óvenju vel gerður maður Jóni var gefið ríkulegt náðarvald hins fædda foringja. Samtíðarmenn lýsa því hve hrífandi ræðumaður hann hafi verið. „Þegar maður les greinar hans og ræður finnst manni að á þessu sé fremur þunglamalegur stíll. Að vísu er allt mjög skýrt og nákvæmt, en það er eins og vanti flug í textann. Maður hrífst ekki beint með. En þegar hann flutti sjálfur ræður virðist hann hafa gætt þær miklum töfrum svo menn þyrptust á áhorf- endapalla þegar von var á að hann tæki til máls. Jón virðist hafa haft gríðarlega persónutöfra. Það er auðvitað meðal annars þess vegna sem hann fékk þá yfirburðastöðu sem hann hafði sem leið- togi Íslendinga. Jafnvel andstæðingar hans hróp- uðu húrra þegar honum tókst sem best upp. Jón virðist hafa verið óvenjulega vel gerður og réttur maður fyrir Íslendinga á þessum tíma. En per- sónutöfrar ná ekki út yfir gröf og dauða. Þess vegna eiga nútímamenn oft erfitt með að skilja þessa hrifningu.“ Guðjón telur jafnvel að persónan Jón Sigurðs- son hafi goldið fyrir það hve mikið Jón var dýrk- aður að honum látnum. Hann hafi orðið eitt helsta tákn íslensks þjóðernis og þar af leiðandi hálfvegis ómennskur. Á síðari tímum eru Íslend- ingar ekki jafn þjóðernissinnaðir og þeir voru áð- ur og þá hefur gætt dálítið meðvitaðs og ómeðvit- aðs andófs gegn dýrkuninni á Jóni Sigurðssyni. Mörgum finnst gaman að tala illa um hann og Jón hefur jafnvel fengið þá ímynd að hafa ver- ið leiðinlegur. „Það er að vísu þvert gegn öllum lýsingum sem til eru á honum af mönnum sem þekktu hann og umgengust. Það var ekki að ástæðulausu að heimili hans var samkomustaður Íslendinga í Kaup- mannahöfn. Þar var opið hús einu sinni í viku og þangað þyrptust þeir. Það var ekki síst vegna þess hvað maðurinn var leiftrandi skemmti- legur.“ Nú til dags þykir það ef til vill ein- kennilegt að þessi mikla þjóðfrels- ishetja Íslendinga skuli hafa alið aldur sinn að mestu í Kaupmanna- höfn, fjarri fósturjarðarströndum. Guðjón segir það ekkert skrítið, því Kaupmannahöfn hafi á þessum árum verið höfuðborg Íslands. „Reykja- vík verður í raun ekki höfuðborg Íslands fyrr en með heimastjórninni 1904, þegar stjórnsýslan flyst heim. Valdið var í Kaupmannahöfn og þar voru helstu tímarit Íslendinga á þessum tíma gef- in út, svo dæmi sé tekið. Kaupmannahöfn var ekki bara stjórnsýsluleg miðstöð heldur einnig andleg miðstöð Íslendinga. Fram undir 1904 komu helstu hræringar sem urðu í íslensku þjóð- lífi frá Íslendingum í Kaupmannahöfn. Þar var deiglan. Það átti jafn við um hræringar í listum, heimspeki, skólamálum, atvinnumálum og stjórnmálum. Að því leyti var ekki óeðlilegt að Jón Sigurðsson hefði aðsetur í Kaupmannahöfn. Svo sér maður að eftir að heimastjórn kemst á 1904 flyst þessi miðstöð heim og þar á meðal tímaritin. Þá allt í einu verða menn sem bjuggu áfram í Kaupmannahöfn, eins og Valtýr Guð- mundsson, utanveltu í þjóðmálabaráttunni.“ Guðjón telur einnig að búseta Jóns Sigurðs- sonar í Kaupmannahöfn hafi styrkt ímynd hans meðal íslensku þjóðarinnar. „Hann var búinn að skapa sér þessa landsföðurlegu ímynd og návígið heima á Íslandi hefði ef til vill skemmt hana. Hann hefur örugglega verið sér meðvitandi um að fjarlægðin gerir fjöllin blá og mennina mikla. Fjarvera hans hefur átt sinn þátt í að lyfta honum í huga þjóðarinnar. Hann var ekki í þessu dag- lega argaþrasi.“ Jón var alþingismaður Ísfirðinga og forseti alþingis lengst af þingsetu sinni. En á þessum árum var þinghald ekki nema annað Foringi og fræ Jón Sigurðsson gekk með pípuhatt og Ingibjörg sá til þess að hatturinn væri burstaður á hverjum degi. Nafn sjálfstæðishetjunnar Jóns Sigurðssonar er skrifað stóru letri í Íslandssöguna. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur vildi kynnast manninum á bakvið nafnið. Guðni Einarsson ræddi við Guðjón um Jón forseta, en síðara bindi ævisögu hans er að koma út. Morgunblaðið/Ásdís Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur, hefur lokið rit- un ævisögu Jóns Sigurðssonar forseta. Ingibjörg Einarsdóttir, eiginkona Jóns.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.