Morgunblaðið - 11.11.2003, Qupperneq 4

Morgunblaðið - 11.11.2003, Qupperneq 4
4 B ÞRIÐJUDAGUR 11. NÓVEMBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ BÆKUR upp við ljóðaupplestur vinkonu sinnar. „Þetta síðasta ár sem ég drakk var ég farin að brjóta það prinsipp mitt að drekka ekki þegar ég las upp og það endaði síðan með þessum ósköpum í Skálholti. Ef það hefði gerst annars staðar hefði ég sjálfsagt getað talið mér trú um að þetta hefði verið einstakt atvik og að þetta mundi ekki gerast aftur en ég vissi það einhvern veginn inni við beinið að úr því ég gat hagað mér svona þarna yrði ekki aftur snúið. Þó að ég teldi sjálfa mig trúlausa manneskju og hefði sagt mig úr þjóðkirkjunni leit ég á Skálholt sem heilagan stað og þess vegna risti þetta mun dýpra en ómögulegur upplestur í einhverjum sal í Reykjavík hefði gert.“ Lygasögu lýkur svo með því að sögumaður fer í Skálholt að nýju og veltir fyrir sér hvað hefur gerst. „Svo kom ég aftur í kirkjuna ári síðar og fannst merkilegast hvað ég hafði búið mér til falska mynd af aðstæðum. Mig minnti að kirkj- an væri miklu minni og dimmri og drungalegri en hún er. Svona er heilinn. Blekkir mann stöð- ugt.“ Í sögunni fer aðalpersónan yfir líf sitt frá barnæsku til dagsins í dag, ríflega 40 ár. Frá- sögnin fer fram og aftur í tíma og smám saman byggist upp heildstæð mynd af lífi þeirrar konu sem sagt er frá. LINDA Vilhjálmsdóttir segist hafa vitað lengi að hún myndi skrifa nýútkomna bók sína, Lyga- sögu. „Þessi hugmynd hefur blundað lengi í mér og ég hef séð hluta af þessu fyrir mér í smásögur og áður en ég skrifaði þessa bók var ég komin vel á veg í handriti af sömu sögu en hafði þá annan útgangspunkt. Það tók mig langan tíma að finna rétta tóninn og réttu frásagn- araðferðina og eftir á að hyggja held ég að ég hefði aldrei getað sagt þessa sögu meðan ég drakk. Þótt atburðarásin hefði að hluta til verið sú sama hefði það verið allt önnur saga enda hefði sögumaðurinn í þeirri frásögn sett sjálfan sig í stöðu fórnarlambsins.“ Tilbúin þjáning Með orðum sínum hér á undan vísar Linda til þeirrar breytingar sem varð á lífi hennar þegar hún hætti að drekka fyrir þremur árum.Varstu ekki hrædd við að hætta að þjást? „Nei, hreint ekki. Ég er miklu færari um að skrifa nú en áður. Ég hafði ekkert að segja. Bjó til þjáninguna úr engu. Píndi hana upp úr mér. Nú hef ég miklu meira að segja og það hefur komið mér á óvart. Ég hélt að þegar ég væri hætt að drekka yrði lífið litlaust og hversdags- legt. Ég fór meira að segja í föndurverslun og keypti prjóna og garn. Ég er ekki enn farin að prjóna, hef hreinlega ekki komist í það.“ En þetta er samt ekki ævisaga? Ekki reynslusaga? „Ég hef reyndar aldrei skrifað um annað en það sem ég þekki úr mínum reynsluheimi en mér dettur samt ekki í hug að kalla það reynslu- sögur, reynsluljóð eða reynsluleikrit. Ég tel mig líka að því leyti heppna að ég hef kannski komið við á öðrum sviðum mannlífsins en margir aðrir rithöfundar og get þess vegna sagt frá mönnum og málefnum í mínum skáldskap sem aðrir eru ekki endilega að fjalla um. Sögumaðurinn minn í lygasögunni er í þremur hlutverkum í bókinni og reynir að segja söguna á þremur mismun- andi plönum. Í fyrsta lagi er það röddin sem segir söguna eftir á, í öðru lagi er það rödd barnsins og þá reyni ég að lýsa fólkinu og at- burðarásinni eins og hún kemur barninu fyrir sjónir og í þriðja lagi reyni ég að lýsa því öf- ugsnúna lífi sem verður hlutskipti sídrukkinnar manneskju með drafandi rödd.“ Hvar kemur ímyndunaraflið til sögunnar? „Ímyndunarafl okkar alkóhólista er mjög líf- legt og það sakar okkur enginn um skort á ímyndunarafli. Við eigum þvert á móti fullt í fangi með að halda okkur við jörðina og raun- veruleikann.“ Er þetta sönn saga? „Frá mínum bæjardyrum séð er ekki til neinn endanlegur sannleikur. Ég hef komist að raun um það á síðustu þremur árum að líf mitt fram að þeim tíma var einn blekkingarvefur og hver veit nema ég komist að sömu niðurstöðu aftur eftir þrjú ár. Þess vegna heitir bókin Lygasaga.“ Frásögnin er römmuð inn af því þegar sögu- maður er staddur í Skálholtskirkju og vaknar „Ég drakk í 30 ár og tókst að blekkja sjálfa mig og umhverfi mitt þannig að ég fékk að mestu að drekka óáreitt og án þess að margir áttuðu sig á því hvað ég væri djúpt sokkin. Það virtist a.m.k. koma flatt upp á ýmsa þegar ég hætti að drekka. En sumir voru ekkert hissa. Ég held reyndar að flestir hafi haldið að ég væri of hrokafull og merkileg með mig til að áfengismeðferð hefði einhver áhrif á mig. Ég hélt það meira að segja sjálf.“ Fullkomnunarárátta Í Lygasögu er dregin upp mynd af konu sem hefur aldrei gefið sjálfri sér tækifæri til að njóta sín til fulls. Allt frá barnæsku er hún yfirkomin af ótta við umhverfið og beitir alls kyns aðferð- um til að komast af og fela ótta sinn. „Óttinn og óöryggið fylgdu mér eins og skugginn þangað til ég hætti að drekka. Síðan eru þessir skuggar að leysast upp. Ef ég hefði ekki verið alkóhólisti og haft tækifæri til að hætta að drekka og hefja nýtt líf þá væri ég sjálfsagt bara snarvitlaus á taugum. Ég var haldin fullkomnunaráráttu. Ég gafst upp á öllu sem ég tók mér fyrir hendur ef ég sá ekki fram á að ég yrði best. Ég varð aldrei best í neinu nema að drekka. Ég var aldrei neitt í botn nema það. Ég var ekki sjúkraliði í botn, ekki skáld, ekki eiginkona, ekki systir, ekki dóttir. Ég bara drakk í botn. Ég hafði ekki sjálfstraust í það að vera skáld nema í hlutastarfi. Ég þorði ekki að stíga fram og segjast vera rithöfundur. Nú er ég búin að sinna skriftum eingöngu í þrjú ár og það er ótrúlegt hverju það hefur skilað. Ég finn hvað ég hef þroskast. Tölvan er ekki lengur óvinur minn. Ég sest niður á morgnana og skrifa. Ég lít á þetta einsog hverja aðra vinnu. Stundum gerist ekkert dögum saman. En það er allt í lagi. Ég hef lært að sætta mig við að þetta eigi allt sinn tíma.“ Linda hefur þrátt fyrir að segjast ekki hafa þorað að virðurkenna að hún væri rithöfundur gefið út fjórar ljóðabækur og er hiklaust talin í hópi fremstu ljóðskálda sinnar kynslóðar. Lyga- saga er fyrsta prósabókin hennar en hún hefur einnig fengist við leikritaskrif og segist vera að vinna drög að handriti fyrir sjónvarpsmynd. „Ég skrifaði leikrit í fyrra fyrir Þjóðleikhúsið. Það var svo leiklesið af leikurum með leikstjóra en meira hefur ekki gerst ennþá. Ég er líka með fleiri sögur í farteskinu. Ég var á Rhodos í sum- ar í íbúð fyrir rithöfunda og sá tími nýttist mér vel. Ég kom heim með hugmynd að nýrri skáld- sögu. Ég er mjög ánægð með það.“ Reynsla konu Hún lýsir fólki eins og það kom henni fyrir sjónir á þeim tíma sem sagt er frá. „Ég er ekki að lýsa fólkinu eins og það er. Ekki eins og öðrum finnst það vera og ekki eins og mér finnst það vera núna. Heldur eins og mér fannst það vera þegar ég var hrædd og ör- yggislaus. Það er mjög brengluð mynd sem þannig fæst af fólki. Það getur verið erfitt og sárt fyrir fólk að skilja þetta en svona er það og mér finnst mikilvægt að sýna hversu sjúkur heilinn getur orðið.“ Það er stundum sagt að erfiðara sé fyrir konu en karl að koma fram og viðurkenna drykkju- sýki sína. „Það er alveg rétt. Það er svo mikil skömm í konum. Fyrir mig er þetta auðveldara af því að ég á engin börn. Mæður eiga oft mjög erfitt með að lýsa þeirri niðurlægingu sem fylgir drykkju- skap ef þær vita að börnin muni heyra eða lesa frásögnina. Konur eru allt öðruvísi en karlar eftir að þær hætta að drekka. Konur hafa mesta sektarkennd yfir því sem þær hafa ekki gert. Yfir vanrækslusyndum sínum. Að þær hafi ver- ið slæmar mæður, dætur, eiginkonur, systur. Þær hafi ekki sinnt þessum hlutverkum sínum. Karlarnir hugsa meira um hvað þeir hafa gert, meitt, sært, skemmt og stolið. Þetta er sláandi munur, finnst mér.“ Í Lygasögu fer ekki á milli mála að það er reynsla konu sem mótar frásögnina. Konan Linda leggur til reynsluna og skáldið Linda mótar úr því skáldskap sem stendur samt með báða fætur í veruleikanum. „Næst langar mig að skrifa sögu um það hvernig maður ímyndar sér líf bláókunnugs fólks. Hvernig maður býr sér til persónu á bak- við óþekkt andlit sem verða á vegi manns. Raunverulegt fólk með ímyndað líf.“ Lygasaga um sannleikann LINDA VILHJÁLMSDÓTTIR: Sögumaður í þremur hlutverkum. Eftir Hávar Sigurjónsson Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson  Forlagið hefur gefið út skáldsöguna Lygasögu eftir Lindu Vilhjálmsdóttur. NÚ í vor kom út hjá bókaforlaginu Máli og menningu eitt af stórvirkjum heimsbók- menntanna: Kantaraborgarsögur enska skáldsins Geoffrey Chaucers (ca 1340–1400). Þetta verk Chaucers er að langmestu leyti í bundnu máli, en þýðandi kýs að snúa því í prósa án þess að hafa um það nokkur orð hvers vegna sú leið var valin. Vitaskuld ætti það að vera gleðiefni þegar verk eins og Kantaraborgarsögurnar er gert aðgengilegt íslenskum lesendum, en í þetta sinn er sú gleði nokkuð blendin. Þýðandi er maður orðhagur og þýðingin mjög læsileg, en þar með eru – því miður – upptaldir helstu kostirnir sem verkið prýða. Margt í þýðingu Erlings hefur tekist heldur slysalega, og hún er að mörgu leyti gölluð. Fyrir það fyrsta er ýmislegt við efnisyfirlit, skýringar og efnisval að athuga. Þannig virð- ast sögurnar mun fleiri en þær eru í raun og veru. Örstutt innskot í einstakar sögur, svo sem „Eftirmáli Chaucers við Sögu skóla- mannsins“, „Hvað bóndi sagði við skjaldsvein- inn o.s.frv. eru þannig kynnt eins og um sér- stakar sögur sé að ræða. Í útgáfum af Kantaraborgarsögunum hefur fyrir löngu myndast sú hefð að inngangur (þar sem honum er til að dreifa) og sagan sjálf eru kynnt saman sem ein heild, t.d. „The Miller’s Prologue and Tale“, en þeirri eðlilegu efnisskipan er hér ekki fylgt. Söguheitin eru líka undarleg á köflum. Eilífðarstúdentinn frá Oxford segir t.a.m. „Sögu skólamannsins“ sem ég á bágt með að skilja sem þýðingu á „clerk“ á miðensku, „The Second Nun’s Tale“ (Saga hinnar nunnunnar, sem í „Formálanum“ er sögð vera í fylgd með príorinnunni) verður að „Sögu yfirnunnunn- ar“, en hvað „yfirnunna“ á yfirleitt að merkja hef ég ekki hugmynd um. Svona mætti lengi telja. Skýringar um einstök atriði eru byggðar á úreltri kennslubók og einu aldargömlu rit- gerðasafni, og telur þýðandi greinilega að ekki þurfi meira til. Nýjustu fræðilega útgáfu á verkum skáldsins (The Riverside Chaucer) virðist hann ekki þekkja. Tveimur sögum er að mestu eða öllu sleppt – þar af annarri sem gegnir lykilhlutverki í sagnabálknum („Sögu sóknarprestsins“). Þetta er lýti á þýðingunni í heild, og skýringar Erlings á því hvers vegna þetta er gert eru harla fáfengilegar. Um þýðinguna sjálfa er það að segja að greinilegt er að Erlingur er ekki sérlega sleip- ur í máli Chaucers (miðensku), og alltof marg- ar þýðingarvillur hafa slæðst inn í textann. Hér er aðeins rúm til að nefna eitt dæmi sem tekið er af handahófi úr „Formála“ sagnabálksins. Um hinn slynga en þjófótta bryta, er sagt í þýðingu Erlings að yfirboðarar hans hafi verið þeim hæfileikum búnir að þeir kunnu „að hag- ræða svo jarðrentu og landi hvers einasta að- alsmanns á Englandi að hann gat með leik (nema hann væri moðhaus) framfleytt sér heið- arlega án skulda á tekjum sínum, og þurfti ekki að fara í launkofa með það; og ráðlagt gat hann þar á ofan heilu héraði um allt er varðaði mála- ferli sem kynnu hugsanlega að rísa“ (bls. 15). Í frumtexta segir hins vegar svo: „Worthy to been stywardes of rente and lond / Of any lord that is in Engelond, / To make him lyve by his propre good / In honour dettelees (but if he were wood), / Or lyve as scarsly as hym list desire; / And able for to helpen al a shire / In any caas that myghte falle or happe“. Með öðr- um orðum, væri aðalsmaðurinn ekki snargal- inn („wood“) gat hann lifað rausnarlega („in honour“) skuldlaus á tekjum sínum eða eins sparlega („scarsly“) og honum sýndist og þá hjálpað sýslungum sínum ef eitthvert óvænt áfall („caas“) riði yfir. Loks má geta þess að þær leikreglur sem gestgjafinn setur um sagnakeppnina sem nú fer í hönd eru ekki þýddar af mikilli nákvæmni. Í þýðingu Erlings (bls. 19) segir að vinning- urinn skuli falla þeim í skaut sem „spinnur upp þá sögu sem er mest upplýsandi og skemmti- legust“. Í texta Chaucers er rætt um sögur fremur en sögu: „Tales of best sentence and moost solaas“. „Solaas“ merkir hér réttilega skemmtun, en „sentence“ á ekkert skylt við upplýsingu; orðið þýðir „merking“ eða „gildi“. Þannig gerir gestgjafinn því skóna að píla- grímarnir geti valið milli þess að segja skemmtisögur eða sögur sem einkennast af meiri alvöru, og sú verður líka raunin. Þega öllu er á botninn hvolft verður því ekki annað sagt en að sérlega vel hafi tekist til með þýðingu þessa mikla snilldarverks, og ekki er hér við þýðandann einan að sakast. Að sjálf- sögðu hefði Mál og menning átt að fá einhvern sem er þokkalega kunnugur þessu verki Chaucers til þess að lesa yfir þýðingu Erlings. Þannig hefði margt mátt færa til betri vegar, en þess sér engin merki að forlagið hafi valið þessa leið. Verði þessi þýðing Erlings einhvern tíma gefin út aftur – sem því miður er heldur ólíklegt – er vonandi að hún verði lagfærð þannig að Chaucer fái að njóta sín í íslenskri þýðingu eins og hann á skilið. Gloppóttar Kantaraborgarsögur SAGNABÁLKUR Kantaraborgasögur G. CHAUCER Íslensk þýðing Erlingur E. Halldórsson. Mál og menning. Magnús Fjalldal

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.