Lesbók Morgunblaðsins - 27.01.2001, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 27.01.2001, Blaðsíða 7
inn. „Í leikhúsinu eiga leikstjórar hápunkt síns ferils seint á ævinni. Þá er ég að tala um leik- stjóra sem sannanlega hafa verið að bæta við sig. Ekki þá sem dagað hafa uppi eða byrjað að endurtaka sjálfa sig. Ég er að tala um listafólk sem er í stöðugri þróun og til þess að þróast þarf að vinna að listinni. Mistökin hafa legið í því að okkar bestu leikstjórar hafa ekki fengið næg verkefni og þeim hefur verið hafnað fyrir tískufyrirbrigði forsendulaust.“ Legg sífellt meira í sölurnar Við snúum nú talinu að starfi leikarans. Þessu undarlega starfi þar sem mörg kvöld í viku er farið í gegnum tilfinningarót heillar mannsævi, oftlega samþjöppuðu á rúmlega tvo klukkutíma þar sem í upphafi leikur allt í lyndi en í lokin – tveimur stundum síðar – stendur ekki steinn yfir steini. Áhorfandinn varpar öndinni léttar, reynslunni ríkari í vissum skiln- ingi. Harmleikurinn í hnotskurn. Til að tætast ekki upp í frumeindir sínar þarf leikarinn að koma sér upp tækni, aðferð til að endurtaka til- finningaflæðið án þess að leggja allt í sölurnar persónulega í hvert sinn. Eða hvað? „Já, þetta er rétt. Endurtekningin er tækni- legs eðlis. En sú tækni er fólgin í því að geta farið í gegnum sama tilfinningaskala aftur og aftur af sömu dýpt í hvert sinn. Maður verður að leggja allt í sölurnar sjálfur. Og það er svo skrýtið að eftir því sem ég verð eldri og reynd- ari þá finnst mér ég leggja sífellt meira af sjálf- um mér í hverja sýningu. Þegar ég var yngri og kokhraustari þá fór maður í gegnum þetta á tækninni, líkamsfiminni og raddbeitingunni. Nú er eins og tilfinningarnar séu manni nær- tækari.“ Margir eru sjálfsagt sammála því að Arnar Jónsson hefur sífellt vaxið sem leikari og er nú þar staddur að ekkert hlutverk leikbók- menntanna ætti að vera honum ofviða. Kannski ætti hann að vera búinn að leika þau fleiri. „Aðstæður hér á Íslandi bjóða bara ekki upp á það. Ég hef verið mjög heppinn og fengið tækifæri til að leika fjöldann allan af hlutverk- um, mjög ólíkum. Ef ég hefði verið fæddur í Bretlandi þá þætti mér líklegt að ég væri núna búinn að leika flest stærri hlutverkanna í verk- um Shakespeares. En hlutirnir hafa æxlast þannig að ég hef aldrei leikið Shakespeare nema í skóla í gamla daga. Það er glíma sem ég hefði viljað lenda í.“ Vaxtarbroddur íslensks leikhúss Sem listamaður hefur Arnar verið mjög leit- andi og hafði á sjöunda og áttunda áratugnum mjög róttækar hugmyndir um leikhús. Hann og kona hans Þórhildur Þorleifsdóttir höfðu tekið þátt í að starfrækja Leiksmiðjuna undir stjórn Eyvindar Erlendssonar og upp úr því starfi réðust þau til Akureyrar um 1970. „Við ætluðum okkur stóra hluti með Leikfélag Ak- ureyrar en það má segja að Akureyringar hafi ekki verið tilbúnir að taka við þeim. Við urðum því að fara aðra leið til að skapa það leikhús sem hugur okkar stóð til.“ Ásamt Böðvari Guð- mundssyni, Þráni Karlssyni og fleirum stofn- uðu þau Arnar og Þórhildur Alþýðuleikhúsið haustið og veturinn 1974–75 og fyrsta verkefni hins nýja leikhúss var Krummagull eftir Böðv- ar í leikstjórn Þórhildar. Sú sýning vakti verð- skuldaða athygli og ekki olli næsta sýning von- brigðum, Skollaleikur, sem var um margt tímamótasýning í íslensku leikhúslífi. „Við fengum í upphafi í hendur mjög raunsæislegt verk frá Böðvari. Sögulegt verk um galdraof- sóknir á Íslandi,“ segir Arnar. Upp úr þessu handriti Böðvars sömdu Þórhildur og hann þá stílfærðu sýningu sem Skollaleikur varð, þar sem notaðar voru hálfgrímur, mjög myndræn hreyfimynstur og sérstök raddbeiting til að ná fram sem sterkustum blæbrigðum. Skollaleik- ur spratt hins vegar ekki fullþroska úr höfði Seifs. „Sýningin var mjög rökréttur hápunktur á samfelldu ferli sem staðið hafði í einn og hálfan áratug, allt frá því við störfuðum í Grímu rétt eftir 1960. Þetta er mikilvægt að komi fram svo enginn haldi að stærstu skrefin í leikhúsinu séu tekin fyrir einskæra tilviljun.“ Arnar brosir góðlátlega þegar ég spyr hann hvort Alþýðuleikhúsið hafi verið sjálfstæður leikhópur. „Já, auðvitað vorum við sjálfstæð í þeim skilningi að við gerðum það sem við vild- um gera og eins og við vildum gera það. Al- þýðuleikhúsið var pólitískt leikhús og stjórn- málamenn tóku mjög eindregna afstöðu með eða á móti því. Við áttum því í erfiðleikum með að fá styrki frá opinberum aðilum. Hinsvegar fengum við smástyrki frá félagasamtökum en mest munaði um styrk frá Ragnari í Smára sem sagði eftir að hafa séð Skollaleik að þarna væri „vaxtarbroddurinn í íslensku leikhúsi“. Sjálfstæði okkar voru því settar mjög þröng- ar fjárhagslegar skorður. En við lögðum allt okkar í sölurnar og gáfumst ekki upp fyrr en allt var uppétið. Bílar og hús. Mér sýnist mun- urinn á þeirri leikstarfsemi sem nú þrífst í nafni sjálfstæðra leikhúsa og þess sem verið var að fást við á sjöunda og áttunda áratugnum vera fólginn í að nú er mun meiri áhersla lögð á hreint skemmtigildi. En sú umræða sem nú er uppi um stuðning við sjálfstæða leikhópa er ekki ný af nálinni. Það þarf ekki að fara á haus- inn með enn eitt leikhúsið til að sanna það sem allir vita að ekki er hægt að reka leikhús á Ís- landi án opinbers stuðnings. Það er greinilegt af aðsókn á þær fjölmörgu sýningar sem hafa verið í gangi að áhuginn er fyrir hendi hjá al- menningi. En það breytir því ekki að til að halda úti þessum leikhúsum þarf opinber stuðningur að koma til. Kjarni málsins er hins vegar sá að mikill blekkingaleikur hefur verið í gangi varðandi launamál í sjálfstæðu leikhús- unum. Það er ekki rétt að þar sé verið að bjóða hærri laun og betri kjör en hjá stofnanaleik- húsunum. Þetta vita allir sem vilja vita það. Enda sér það hver maður að þar eru engir pen- ingar til að bjóða eitt eða neitt. Þetta er raun- veruleiki málsins og fráleitt fyrir talsmenn sjálfstæðu leikhúsanna að halda öðru fram. Það gerir bara illt verra.“ Arnar lék ein fimm hlutverk í Skollaleik en minnisstæðastur er hann fyrir sköpun sína á mannkertinu Þorleifi Kortssyni. Raddbeiting Arnars varð mörgum svo eftirminnileg að í mörg ár á eftir var honum legið á hálsi fyrir að geta ekki hrist þessa persónu af sér. Menn þóttust oft heyra Þorleifi bregða fyrir í rödd hans. „Þetta er náttúrlega hlutskipti allra leikara. Maður hefur bara þetta eina hljóðfæri, líkama sinn, og þó maður geti leikið marga hljóma eru takmörk fyrir öllu. Ég held þó að þetta hafi verið ómaklegt því ég hef alltaf reynt að leita nýrra leiða og endurtaka sjálfan mig ekki. Per- sóna Þorleifs Kortssonar var hinsvegar ekki svo flókin sköpun fyrir mig. Hann var fremur tæknileg persóna en tilfinningaleg. Þetta var eiginlega meira gert af íþrótt en djúpri per- sónulegri innlifun.“ Sífellt bætist í farangurinn Árið 1983 varð Arnar fyrir áfalli sem breytti ýmsu. „Ég datt af vinnupalli við heimili okkar og braut báða hæla og ökkla. Ég varð að vera í hjólastól með báða fætur í gifsi í marga mánuði en síðan tók tíma að læra að ganga á ný. Þetta hafði mjög mikil áhrif á mig og allt mitt starf. Ég hafði verið mjög fimur og lagði alltaf mjög mikið uppúr líkamsbeitingu en þetta breytti því hvernig ég gat beitt líkama mínum. Maður fer ekki heljarstökk eða flikk flakk eftir svona áfall. En þetta er líka bara hluti af því að lifa og maður bætir því sem fyrir mann kemur í far- angurinn og safnar því saman. Þetta verður að lífsreynslu. Margt annað sem gerst hefur í mínu lífi og minnar fjölskyldu hefur ekki haft minni áhrif á mig en þetta. Sumt hefur rist dýpra og verið erfiðara að sætta sig við. Það hljómar kannski kaldhæðnislega en öll tilfinn- ingareynsla, sársauki og gleði – ekki má gleyma henni – sem fyrir mann ber í lífinu, nýt- ist manni sem leikara. Það er uppsprettan sem ausið er úr. Og kannski er það til marks um aukinn þroska manns sem listamanns að hafa greiðari aðgang að þessum tilfinningum og geta miðlað þeim í leik til áhorfenda.“ Rita gengur menntaveginn. Þjóðleikhúsið 1992. Arnar ásamt Tinnu Gunnlaugsdóttur. Bílaverkstæði Badda. Þjóðleikhúsið 1987. Arnar og Bessi Bjarnason. Steingesturinn (Don Juan). Leikfélag Akureyrar (Sjónvarpið) 1973. Arnar og Guðmundur Ólafsson. Pétur Gautur í Þjóðleikhúsinu 1991. Kreon í Antígónu í Þjóðleikhúsinu 2000. Ásamt Erlingi Gíslasyni. Bjartur í Sumarhúsum í Sjálfstæðu fólki. Þjóðleikhúsið 1999. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 27. JANÚAR 2001 7

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.