Lesbók Morgunblaðsins - 10.03.2001, Blaðsíða 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 10. MARS 2001
Í
SLENSKI dansflokkurinn frumflutti
um síðustu helgi Kraak eitt og tvö eftir
Jo Strömgren og Pocket Ocean eftir
Rui Horta. Strömgren er með þekkt-
ustu ungum danshöfundum á Norður-
löndum en Horta er þrautreyndur höf-
undur sem snúið hefur heim til
Portúgal og opnað þar danssmiðju í
gömlu klaustri. Þangað héldu þrír félagar
dansflokksins í febrúar og var Hildur Óttars-
dóttir í þeirri ferð.
Höfundarnir hafa báðir unnið með dans-
flokknum áður og sögðust glaðir yfir þessu
tækifæri nú. Sýningar verka þeirra verða 9. og
25. mars og svo alla sunnudaga í apríl.
Um þennan mánuð miðjan fer dansflokk-
urinn til Kanada með sýninguna og eykur við
hana íslenskum verkum, eftir Katrínu Hall og
Ólöfu Ingólfsdóttur. Svona ferðir eru afar mik-
ilvægar, bæði til að kynna flokkinn og kynnast
straumum annarra. Síkvikum straumum og
forvitnilegum fyrir flokkinn, því að klassíkin
vék þar fyrir nútímadansi þegar Katrín Hall
tók við listrænni stjórn árið 1996.
Það val styrkti dansflokkinn og hefur sann-
að sig, segja þau Hildur og Elías Knudsen sem
auk hennar er mættur í viðtal. Hann er annar
tveggja dansara sem leggja flokknum lið í
þessari uppfærslu Horta og Strömgren en
tvær stöður eru auðar í bili vegna barnsburð-
arleyfis og svo meiðsla. Þetta er frumraun Elí-
asar með Íslenska dansflokknum eftir að hann
kom frá námi í Hollandi en Hildur hefur verið
ráðin við flokkinn á fjórða ár.
Að henda orku í fólk
Elías byrjaði seint að dansa, öfugt við Hildi,
og hann segir að fyrir sjö árum hefði hann
aldrei látið sig dreyma um þetta starf. En aldr-
ei að segja aldrei, það var tvítugur Elías sem
veðjaði við nokkra vini sína hver þyrði í ball-
ettnám og héldi lengst út. Sigurvegaranum
átti að bjóða í reisu félaganna næstu versl-
unarmannahelgi. Okkar maður hreppti það
hnoss, hann vann sem sagt veðmálið og er nú
atvinnumaður í dansinum þótt það dugi tæpast
til viðurværis fjölskyldu hans. Þess vegna hef-
ur Elías aukastarf, dyravörslu á veitingahús-
inu Klaustrinu, þar sem menn verða hissa á
kröftunum í kögglum þessa fíngerða drengs,
ef til kasta kemur. Útkastarinn Elías kýs þó
frekar að tala menn til sem eru með uppsteyt,
heldur en beita handafli.
„Ég fór alltsvo í ballett í einkaskóla á Sel-
tjarnarnesi og fannst alveg ógeðslega gaman,“
segir dansarinn. „Klassískur dans var samt
ekki alveg mín deild og ég ákvað eftir ár að
flytja mig í Listadansskólann. Þar tók David
Greenall mig í læri, ég gerðist félagi í List-
dansflokki æskunnar og tók þátt í uppfærslu
Íslenska dansflokksins, sem vantaði stráka
eins og oftar. Það var Féhirsla vors herra eftir
Nönnu Ólafsdóttur og það var einmitt hún sem
kom mér út í nám. Nanna hringdi í Hlíf Svav-
arsdóttur sem rekur dansskóla í Arnhem í
Hollandi og þangað fór ég til að vera í fjögur
ár.“
Í Hollandi tók alvaran við hjá Elíasi, dans
allan daginn, fyrir hádegi klassík og nútíminn
síðdegis. „Maður átti að geta gert allt eftir
námið,“ segir hann, „en auðvitað leggur hver
sínar áherslu. Ég lagði mest í frjálsar hreyf-
ingar og gólfvinnu – nú er gólfið besti vinurinn
– þessi sem maður snýr alltaf aftur til í módern
dansi þrátt fyrir marbletti og eymsli.“
Elías útskrifaðist í fyrravor og hefur síðan
verið á höttunum eftir vinnu í sínu fagi. Hon-
um bauðst staða við dansflokk á Spáni en þó að
borgin Valencia hefði aðdráttarafl var það
sterkara hjá konu hans og dóttur hér heima.
„Þær voru með mér úti í hálft annað ár en nú
er konan mín að klára Söngskólann hér og
dóttirin í ströngu leikskólanámi. Svo ég býst
við að vera á Íslandi, alla vega næsta árið, og
bíða eftir þeim. Það er litla vinnu að fá hérna í
dansinum, helst ef maður skapar sér tækifæri
sjálfur. Ætli ég fari ekki samt bráðum að
gamni út til Hollands þar sem félagar mínir
eru í atvinnuleit, bara til að sjá hvort eitthvað
komi út úr prufudansi.“
Síðustu mánuði hefur Elías sýnt með Dans-
leikhúsi með ekka og dansað í litlu stykki, Left
luggage, í Tjarnarbíói. „Svo er ég hér með
Dansflokknum fyrir slysni, svona tekinn á
leigu,“ segir hann og ber við skortinum fræga
á karldönsurum.
Vitleysingar í sokkabuxum
„Vegna þess að það eru ekki fleiri fastar
stöður í flokknum og fátt um önnur tækifæri til
að dansa hérna, kemur hitt djobbið til hjá mér.
Í vinnunni á skemmtistaðnum finn ég fyrir
sveitamennskunni sem hér ríkir í viðhorfum til
karlmanna í dansinum. Margir halda að maður
sé sennilega hommi og í ofanálag algjör vit-
leysingur, hoppandi um á sokkabuxum. Fólk
hefur spurt mig hvort ég geti ekki bara farið
að strippa í staðinn fyrir að standa þarna í dyr-
unum. Þá segist ég ekki vera nógu massaður,
eins og þetta væri nú líklegur aukapeningur.“
Elíasi finnst mikið um að fólk skilji ekki
hvers vegna hann valdi dansinn og sé meira að
segja mjög ánægður með það val. „Ég kem úr
verkamannaumhverfi þar sem alvöru menn
myndu ekki einu sinni horfa ótilneyddir á ball-
ett. En ég hef líka persónuleg tengsl við leik-
húsið, amma mín var Guðmunda Elíasdóttir
söngkona og ég var mikið nálægt sviðinu henn-
ar vegna. Og mér hefur alltaf þótt sá staður
sjarmerandi.“
Í Borgarleikhúsinu dansar Elías í verki Rui
Horta, fjórðu uppfærslunni frá því að hann út-
skrifaðist. Hann segir verkið hafa gengið ótrú-
lega upp á síðustu stundu. „Horta kom með
ákveðnar hugmyndir en vildi samt að útkoman
passaði okkur dönsurunum, svo eitthvað höfð-
um við um þetta að segja. Mér finnst orðið
flæði einkenna þetta verk, enda er þar vatn og
læti, en Horta krefst líka afar sterkrar túlk-
unar.“
Það hentar Elíasi ágætlega, aðspurður um
sitt sérfag segist hann alla vega vita að það
sem hann geri geri hann af krafti. „Það sem ég
geri á sýningu er á endanum einfalt; ég hendi
orku í áhorfendur.“
Annars má segja að sérfag Elíasar sé nú-
tímadansinn, hann kveðst stundum finna hvað
hann byrjaði seint í samanburði til dæmis við
félaga dansflokksins sem flestir hafi klassíska
skólun. Hann standi þeim auðvitað að baki
hvað tækni varðar en hafi kannski sína nátt-
úrulegu tækni, næstum ósjálfrátt. „Einn sem
var með mér í skólanum úti var húsasmiður og
fór ekki í dansnám fyrr en 27 ára. Og veistu
það, mér fannst hann miklu flottari en stelp-
urnar sem höfðu verið í ballett frá því þær
voru níu ára. Það tapast einfaldlega eitthvað
við of mikla slípun.“
Úr klassík í nútímadans
Hildur skipti úr klassískum ballett yfir í nú-
tímadans fyrir nokkrum árum og segir hann
henta sér mun betur. „Að minnsta kosti finnst
mér nútímadansinn mjög skemmtilegur, ég
var orðin leið á klassísku línunni eftir mörg ár
á henni í skóla. Og ef ég horfi á klassískan ball-
ett geri ég kröfur, mér þykir hann þurfa að
vera rosa góður til að hafa gildi. Fyrir dansara
held ég að klassísk þjálfun sé fínn grunnur, svo
fremi sem fólk nær að losa tökin í módern
dansi. Sumir sem fara sömu leið og ég eiga erf-
itt með þyngd og dýnamík í nútímadansinum,
aðrir virðast geta allt, þetta er endalaus um-
ræða í okkar fagi.“
Hildur var ein þeim sem fór smástelpa bæði
í ballett og fimleika, hún byrjaði átta ára og
valdi snemma á milli. Ballettinn varð ofan á og
Listdansskólinn. Sautján ára fór Hildur svo til
Svíþjóðar í dansnám og lauk því 1997, þá tví-
tug. Síðan hefur hún starfað í Íslenska dans-
flokknum, ein ellefu dansara sem þar eru ráðn-
ir til árs í senn. Hún er því ríkisstarfsmaður,
að vísu ekki dæmigerður, en þó á þeirri frægu
jötu sem úr fæst launatékki mánaðarlega
nema meiri háttar afglöp verði uppvís. Ekki er
það nú líklegt hvað dansara varðar, agaðra
fólk er víst vandfundið og Hildur sýnist sam-
viskusemin uppmáluð, alvarleg og varkár í því
sem hún segir blaðamanni.
„Það eru náttúrlega forréttindi að vera í
dansflokknum, hérlendis eru ekki mörg tæki-
færi fyrir dansara í lausamennsku. Ég met
þetta öryggi mikils en maður má þó ekki vera
of öruggur, fastráðningarnar heyra sögunni
til, maður horfir á eitt ár í senn en reynir auð-
vitað að standa sig þannig að þetta rúlli. Hvað
metnaðinn varðar er heldur ekki gott að vera
of öruggur eða værukær.“
Hildur játar því að útlöndin kitli svolítið,
„það væri auðvitað gaman að dansa úti og
kynnast öðru. Svoleiðis reynsla væri örugg-
lega dýrmæt. En ég reyni að lifa sem mest í
núinu og er alveg ánægð í bili. Það er alltaf
gaman að sjá árangur síns erfiðis, eins og núna
þegar við erum að sýna. Svo stendur ferðin til
Kanada fyrir dyrum og þar að auki fékk ég
þetta tækifæri, að fara til Portúgal. Það var al-
veg meiri háttar.“
Hvernig ætli það sé annars að vera dansari?
Nokkur andartök líða áður en Hildur nær að
safna saman lífi sínu í fáein orð. „Mér þykir
það ofboðslega upp og niður,“ byrjar hún
hugsi, „frábært og æðislegt eina stundina og
andstæðan aðra. Þessar sveiflur heilla mig
raunar, góðu dagarnir gera þetta starf meira
en þess virði að vinna það. Maður brotnar auð-
veldlega niður og finnst allt frekar ómögulegt
ef eitthvað gengur ekki sem skyldi. Dansinn er
rosalega krefjandi og mér finnst maður þurfa
að leggja sig allan í hann. Það er rétt að þetta
er alla jafna níu til fimm vinna, nema þegar við
erum að sýna, þá er það oftast á kvöldin en æf-
ingarnar taka sinn toll. Meirihluti tímans fer
nefnilega í æfingar í sal sem við höfum uppi á
efstu hæð hér í Borgarleikhúsinu. Ég óska
þess stundum að meira gengi út á sýningar hjá
flokknum en það er auðvitað takmarkaður
hópur sem kemur alla jafna að sjá þær og svo
kosta uppfærslur sitt. Þær eru núna um þrjár
á vetri en ferðalög hópsins hafa aukist svo við
sýnum víðar en hér og það er besta mál.“
Öfgar og andleg áreynsla
Þegar gengið er á Hildi um lífsstílinn segir
hún ljóst að svona miklar æfingar séu ekki
hollar. Dansarar hafi minna mótstöðuafl en
gengur og gerist hjá fólki, einfaldlega af of-
reynslu á kroppinn. Öfgar sé orð sem eigi við
um þetta líf, bæði óheilbrigðar og afar heil-
brigðar. Það þurfi til dæmis að passa vel upp á
mataræði og svefn, það sé dæmi um heilbrigðu
hliðina. Andlega sé starfið slítandi, í dansinum
geri maður næstum aldrei nógu vel og setji sig
undir sífelldan þrýsting um að standa sig bet-
ur.
„Maður er alltaf að gefa af sér í þessu starfi
og ég er oft gjörsamlega tóm eftir daginn.
Þetta bara er svona, áreynslan er andleg ekki
síður en líkamleg. Þetta er lítill flokkur og
nándin er mikil, mórallinn getur orðið raf-
magnaður en yfirleitt finnst mér vera þægileg
samkennd hjá okkur.“
Æfingatímabil fyrir uppfærslur eru álags-
punktar en sýningarnar síðan mikið kikk fyrir
flokkinn sem heild, að sögn Hildar. „Undir-
búningurinn með dansahöfundunum núna var
líka mjög gefandi. Vinnan með Rui byggðist
mikið á tilfinningu eða innsæi en hraði og
kraftur voru lykilatriði hjá Jo. Það kemur
greinilega fram í fyrra verkinu hans. Við höfð-
um svolítið knappan tíma með þeim en bjugg-
um að ferð okkar Cameron og Chad til Rui úti í
Portúgal og svo hafði Jo komið öðru hvoru til
flokksins frá því fyrir jól. Þeir sendu síðan að-
stoðarmenn á undan sér.
Fyrstu kynni af verkum geta annars verið
ýmiss konar, manni líkar misvel við þau, hrífst
eða er ekki nógu sáttur. Svo gerist það, þykir
mér að minnsta kosti, að verkin vaxa með
manni og verða nákomin. Smám saman fer
mér að þykja vænt um hvert verk og þá koma
líka stundirnar fágætu sem ég er ánægð. Þeg-
ar ég hef verulega lagt mig fram, komið er að
sýningum og þeirri umbun sem þeim fylgir. Þá
finn ég að nú hef ég gert mitt besta.“
GÓLFIÐ BESTI VINURINN
Níu dansarar Íslenska
dansflokksins taka þátt í
sýningum þriggja nýrra
verka í Borgarleikhúsinu.
ÞÓRUNN ÞÓRSDÓTTIR
spjallaði við Hildi Óttars-
dóttur og Elías Knudsen
að lokinni einni
æfingunni.
Morgunblaðið/Halldór Kolbeins
Tveir dansarar úr nýrri uppfærslu Íslenska dansflokksins, með ólíkan bakgrunn en sammála um ágæti nútímalínunnar í dansinum, Hildur Óttars-
dóttir og Elías Knudsen í æfingasalnum í Borgarleikhúsinu.