Lesbók Morgunblaðsins - 10.03.2001, Blaðsíða 20
20 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 10. MARS 2001
G
ARÐLJÓÐ um haust og
Garðljóð um vetur
nefnir Kristinn G. Jó-
hannsson tvær mynd-
raðir sem hann hefur
sett upp í austursal
Listasafnsins á Akur-
eyri. Flest eru verkin
unnin á síðastliðnu ári. Í miðsalnum gefur
svo að líta nokkrar dúkristur Kristins frá
árinu 1982, sem hann telur að geti varpað
nokkru ljósi á nýju verkin.
Um málverkin í austursalnum segir lista-
maðurinn að sumir álíti þau vera um garð-
inn hans; runnana og trén að hausti og
vetri. „Öðrum hefur hugkvæmst að þetta sé
upptrosnaður vefur. Ég hef svo sem enga
hæfileika til þess að gera upp á milli hvort
heldur er rétt,“ segir Kristinn og bætir við
að þess vegna hafi hann ákveðið að taka
dúkristurnar með.
Kominn heim í garð
„Efnið í þær er sótt í gamlan vefnað og
þess vegna gróf ég þær upp. Mér fannst að
þær gætu kannski hjálpað okkur að ákvarða
hvort það séu einhverjir þræðir sem tengja
saman þessar gömlu dúkristur og málverk-
in. Hvort það séu einhverjir þræðir milli
þess sem ég var að gera þá og þess sem ég
er að gera núna og ég held stundum að sé
um garðinn minn. En um þetta er nátt-
úrlega ekki gott að segja,“ heldur hann
áfram dularfullur á svip. „Af því að ég er
landslagsmálari frá gamalli tíð þá veit ég
ekki betur en ég sé að mála sama málverkið
og ég byrjaði á 1950 – það er ekki komið
lengra. Þetta er framhald á því að ég hef
alltaf verið að mála umhverfið í kringum
mig. Nú er ég bara kominn heim í garð –
það er ekkert flóknara.“
Kristinn hélt sína fyrstu sýningu árið
1954, aðeins 17 ára að aldri. Síðan hefur
hann haldið fjölda einkasýninga og tekið
þátt í samsýningum jafnframt því að hafa
starfað sem skólastjóri í Ólafsfirði og á Ak-
ureyri, ritstjóri og pistlahöfundur. Hann
nam myndlist á Akureyri, í Reykjavík og
Edinborg. Nú er hann kominn á eftirlaun og
hefur orðið betri tíma en áður til að vinna
að list sinni. „Já, ég er búinn að velta af mér
reiðingnum, eins og Stephan G. orðaði það
forðum. Nú er meiri samfella í vinnsluferl-
inu en áður þegar ég var að stelast,“ segir
hann.
Lag eftir lag
Jónas Viðar sýnir í vestursal og í öðrum
klefanum þar inn af. Yfirskrift sýningarinn-
ar er „Portrait of Iceland“ en það er heiti
myndraðar sem hann hefur unnið að síðan
1998. Við gerð „portrettanna“ notar hann
tölvu jafnt sem pensil og klút. Hann lýsir
vinnsluferlinu þannig að hann taki ljós-
mynd, skanni hana inn í tölvu og klippi hana
svo til og vinni áfram í forritinu Photoshop.
Þá setji hann inn texta þar sem segir að
myndin tilheyri röðinni „Portrait of Ice-
land“ og gefi henni númer, prenti svo mynd-
ina út á þykkan pappír með strigaáferð.
Þegar hér er komið sögu límir hann mynd-
ina á plötu, sprautulakkar hana, fer svo yfir
hana með þunnum lit sem hann lætur þorna
í hálftíma. Þá tekur hann sér tusku í hönd,
vinnur með henni í myndina og nuddar út
litinn. Aftur lakkar hann yfir og aftur er
settur litur, alltaf nýr og nýr, með lakklagi á
milli. Á endanum er tölvuverkið horfið og
málverkið stendur eftir. Lögin geta verið
frá þremur og allt upp í tuttugu.
„Fólk er alltaf að spyrja hvernig þetta sé
gert. Ég gæti auðvitað bara sagt að þetta
væri „blönduð tækni“ og sloppið með það –
en ég þarf alltaf að segja alla söguna. Sumir
hafa orðið hissa og jafnvel svekktir yfir því
að þetta væri hálfgert plat. En ef við gerð-
um aldrei tilraunir þá værum við ennþá inni
í hellinum. Sumum þykir akrílmálverk eins
og ég mála ekki eins gott og olíumálverk –
en hvernig máluðu menn áður en þeir fundu
upp olíumálverkið? Listamaðurinn verður
að tileinka sér nútímann og aðferðir nú-
tímans í sinni list,“ segir Jónas.
Spurður um yfirskriftina „Portrait of
Iceland“ kveðst hann stundum hafa verið
gagnrýndur fyrir að nota ensku en ekki ís-
lensku. „En ég hef þá bara sagt að þetta sé
til útflutnings,“ segir hann.
Flestar myndirnar á sýningunni hefur
Jónas unnið í listamiðstöðinni Straumi á síð-
ustu mánuðum en þar hefur hann verið með
vinnustofu síðan í september og lætur afar
vel af vinnuaðstöðunni þar og umhverfinu.
Hann leitar ekki langt yfir skammt með
myndefnið en það hefur hann sótt í hraunið
í kringum Straum og álverið.
Flytur vinnustofuna inn á safnið
Jónas gerði sér lítið fyrir og flutti vinnu-
stofu sína eða öllu heldur innihald hennar
inn í safnið, nánar tiltekið í annan klefann
inn af vestursalnum. Þar verður hann við
vinnu sína á hverjum degi meðan sýningin
stendur yfir og veitir gestum innsýn í
hvernig verk hans verða til. „Þetta er mín
tilraun til þess að bjóða fólki á vinnustofuna
– ég flyt hana til fólksins.“
Með þessu segist Jónas öðrum þræði vera
að tengja ímynd sína sem listamanns við
listaverkin. Hann bendir á að staða hans sé
dálítið sérstök þar sem hann lærði fyrst á
Akureyri í fjögur ár og fór svo beint til
framhaldsnáms í listaháskólanum Accadem-
ia di Belle Arte di Carrara á Ítalíu en hafði
ekki viðkomu í Myndlista- og handíðaskól-
anum í Reykjavík eins og flestir íslenskir
myndlistarmenn og er því svo gott sem
óþekktur í reykvísku listalífi.
„Þegar maður stekkur svona yfir veit
enginn hver maður er,“ segir hann. Eftir
fjögurra ára nám á Ítalíu útskrifaðist hann
með hæstu einkunn og hélt heim á leið,
fyrst til Reykjavíkur og svo heim til Ak-
ureyrar, þar sem hann var frá 1995–2000 en
er nú aftur fluttur á höfuðborgarsvæðið.
Frá því sl. haust hefur hann alfarið helgað
sig myndlistinni.
Fást báðir við landslagsmálverkið
á abstrakt nótum
Þegar þeir Jónas og Kristinn setjast nið-
ur með blaðamanni í kaffistofu safnsins ligg-
ur beint við að spyrja hvernig það komi til
að þeir sýni þar á sama tíma, hvað þeir eigi
sameiginlegt og hvort þeir hafi þekkst áður.
Fyrstu spurningunni eru þeir sammála um
að réttast sé að beina til forstöðumanns
safnsins, Hannesar Sigurðssonar. „Kristinn
er búinn að starfa hér um áratugaskeið en
hefur aldrei sýnt hér í safninu, svo það var
náttúrlega löngu tímabært að viðra verk
hans hér. Hann hefur ekki aðeins starfað að
list sinni hér í öll þessi ár, bæði í Ólafsfirði
og á Akureyri, heldur hefur hann líka verið
mjög mikilvægur kennari hér og hvatt
marga út á listabrautina,“ segir Hannes og
heldur áfram: „Það sem mér finnst áhuga-
vert er að þarna höfum við tvær kynslóðir
Akureyringa. Það eru næstum því þrír ára-
tugir sem skilja þá að í aldri en báðir fást
þeir við málaralist. Það er fleira sem sam-
einar þá; báðir eru þeir að fjalla um sitt
nánasta umhverfi og báðir fást þeir við
landslagsmálverkið á abstrakt nótum. Þess
vegna þótti fara vel á því að kalla þá sam-
an,“ segir Hannes.
Á listamönnunum tveimur er ekki annað
að heyra en að þeir séu ánægðir með félags-
skap hvors annars í safninu.
„Við höfum drukkið saman kaffi áður,“
segir Jónas. Þeir segja að jafnvel þó að þeir
tilheyri tveimur ólíkum kynslóðum lista-
manna og noti ólíkar aðferðir eigi þeir ým-
islegt sameignlegt, meðal annars það að
báðir fáist þeir við náttúruna. „Já, það er
rétt, við erum báðir landslagsmálarar,“ seg-
ir Kristinn. Hann segist eiga dóttur sem
einnig hafi valið myndlistarbrautina og sé á
svipuðu reki og Jónas. „Þau voru meira að
segja í námi á Ítalíu á sama tíma. Jónas hef-
ur verið starfandi myndlistarmaður hér í
bænum og ég hef fylgst með því hvað hann
hefur verið að gera allt frá því að hann kom
heim,“ segir Kristinn.
Sá samt eitthvað af geislabaugnum
„Ég man alltaf þegar ég var hér í Mynd-
listaskólanum og við fórum á sýningu hjá
Kristni í Gamla Lundi. Það er alltaf mikil
upplifun fyrir nemanda þegar hann er í
skóla að fara á sýningar og hitta starfandi
listamann, sérstaklega þegar maður fær að
koma á vinnustofuna hjá honum. Fyrir ung-
an listamann er það alveg eins og að koma í
himnaríki, þó að það vanti nú yfirleitt væng-
ina á listamanninn – en ég sá nú samt eitt-
hvað af geislabaugnum,“ segir Jónas – og
hlær.
Þess ber að lokum að geta að sýningarnar
í Listasafninu á Akureyri eru opnar alla
daga nema mánudaga kl. 13–18 og þeim lýk-
ur 15. apríl nk.
TVÆR SÝNINGAR OPNAÐAR Í LISTASAFNINU Á AKUREYRI Í DAG
Jónas Viðar á milli verka sinna. Fyrir aftan hann glittir í þrjú verk úr myndröðinni „Portrait of Ice-
land“ en hann sýnir einnig nokkur stærri verk í Listasafninu á Akureyri fram til 15. apríl nk.
Morgunblaðið/Kristján
Kristinn G. Jóhannsson við eitt verka sinna á sýningunni Garðljóð.
„HÖFUM DRUKKIÐ
SAMAN KAFFI ÁÐUR“
Tvær einkasýningar verða opnaðar í Listasafninu á
Akureyri í dag kl. 16. Báðir eru listamennirnir Ak-
ureyringar og báðir fást þeir við landslagsmálverkið
þó að þeir hafi valið sér ólíkar leiðir. MARGRÉT
SVEINBJÖRNSDÓTTIR brá sér norður og hitti þá
Kristin G. Jóhannsson og Jónas Viðar.