Lesbók Morgunblaðsins - 17.03.2001, Blaðsíða 8

Lesbók Morgunblaðsins - 17.03.2001, Blaðsíða 8
8 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 17. MARS 2001 A Ð hugleiða tíðarandann í aldarbyrjun leiðir okkur bæði til fortíðar og fram- tíðar. Úlfhildur Dagsdótt- ir sagði fyrir nokkrum vikum frá 94 ára gamalli ömmu sinni hér í þessum greinaflokki, nútímalegri konu sem lifað hefur eitt mesta breytinga- skeið Íslandssögunnar. Skömmu síðar sagði Guðjón Pedersen frá fæðingu dóttur sinnar, aldamótabarnsins, sem fæðist inn í veröld hraða og hnattvæðingar. Amma Úlfhildar er fædd árið 1907. Það var árið sem giftar konur fengu kosningarétt í bæjarstjórnarkosning- um í Reykjavík og Hafnarfirði. Kannski mamma hennar hafi þrammað með hana í fanginu til að nýta nýfenginn atkvæðisrétt sinn. Þetta var meðal fyrstu skrefanna í langri göngu frá aðskilnaði kynjanna sem þótt hafði sjálfsagður um aldir. Hann var svo sjálfsagður að hann þurfti ekki að færa í orð: Þannig var t.d. hvergi kveðið á um það í reglugerðum Lærða skólans að konum væri bannaður aðgangur. Það var einfaldlega svo sjálfsagt að ekki þurfti að nefna það, svo sjálfsagt að lög þurfti til að heimila það. Dóttir Guðjóns, fædd í apríl árið 2000, fæð- ist inn í breyttan heim, samfélag sem byggir á arfi lýðfrelsis, menntunar og upplýsingar þar sem allt tengist og tvístrast í senn, eins og Ástráður Eysteinsson víkur að í upphafs- grein sinni í þessum greinaflokki. Tenging og tvístrun eru ágæt orð til að lýsa sambúð hins karllæga og hins kvenlæga í menningu okkar og umhverfi síðastliðna öld. Tenging hefur smám saman vikið fyrir tvístrun eða aðskiln- aði. Konur hafa, eins og fyrr var vikið að, smám saman verið tengdar við samfélags- legar stofnanir eins og menntun, kosninga- rétt, stjórnmál, menningu – í fáum orðum, tengdar með almennri þátttöku í opinberu lífi. Sú saga er vel þekkt og óþarfi að rifja hér upp. Sögulegar breytingar sem oft gleymast eru hins vegar tengingar karla við kvenlega sýslu og yfirráðasvæði, einkum það sem snýr að einkasviðinu, umönnun og uppeldi barna. Margir mikilvægir áfangar mynda vörður á þeirri leið. Áratugir eru nú síðan fyrsti ís- lenski karlinn útskrifaðist úr fóstrunámi og nú eru þó nokkrir karlar sem gengið hafa þá menntabraut. Þessi þróun er fagnaðarefni og dæmi um það er að nafni Fóstruskólans var breytt í Fósturskóla til að karlmenn gætu samsamað sig náminu og starfinu. Annað mikilvægt svið þar sem karlar hafa verið tengdir við kvennaheim sem þeim var áður lokaður er nærvera karla við fæðingu barna sinna. Ekki eru nema örfáir áratugir síðan barnsburður var einkamál kvenna. Guðjón Pedersen hefur að öllum líkindum verið við- staddur og tekið þátt í fæðingarathöfn dóttur sinnar. Hann og hún eiga nú rétt á sérstökum tíma saman, ekki bara tveimur táknrænum vikum heldur alvöru fæðingarorlofi. Fæðing- arorlof karla er mikilvægt skref frá aðgrein- ingu kynjanna. Annað merkilegt skref var tekið um áratug fyrr, með lögum sem gerðu mögulega sameiginlega forsjá fráskilinna foreldra yfir börnum sínum. Þar var saxað á hinn svokallaða móðurrétt, sem tryggði móð- urinni foreldraábyrgð og áhrifavald langt umfram karla. Það sem áður var tvístrað er nú tengt. Og enn má tína til dæmi, táknræn og ver- aldleg: karlar sem hafa áhuga á hjúkrunar- störfum eru nú boðnir velkomnir með starfs- heitinu hjúkrunarfræðingar og sleppa við að vera hjúkrunarkonur, eins og stéttin hét áð- ur en menntun hennar fór á háskólastig. Karlar sem sækjast eftir þjónustustörfum um borð í flugvélum, sem nokkuð færist í vöxt, öðlast hið þægilega starfsheiti flugþjón- ar og þurfa ekki að vera freyjur. Fyrir þá sem starfa í fræðimennsku og vísindum urðu vatnaskil þegar kvennafræði og kvenna- fræðileg sjónarhorn urðu að kynjafræðum. Gamla hugtakið var orðið að alltof þröngri flík í þeirri grósku sem orðið hafði í rann- sóknum beggja kynja á sjálfu sér og á hinu kyninu og báðum kynjunum, eða réttara sagt öllum kynjunum, því tvíhyggjan sem skipt- ir okkur upp í tvö andstæð kyngervi er löngu úrelt. Karlar láta sífellt meira að sér kveða í rannsóknum á þýðingu og birtingarformi kynferðis, sem er ein grundvallarstærð allra þekktra samfélaga. Það er mikill fengur að fræðum og þekkingarsköpun karla á þessu sviði sem konur einar sinntu þar til á síðustu árum. Það sem áður var tvístrað er nú tengt. Enn á sér þó stað aðgreining eftir kyn- ferði. Einkum og sér í lagi virðist það eiga við um opinbera umræðu og margvíslegan vett- vang stefnumarkandi samræðna. Í október síðastliðnum var haldin hér á landi alþjóðleg fagsýning þekkingariðnaðarins undir yfir- skriftinni Agora, eða torgið. Í nafninu fólst skírskotun til forngrískrar lýðræðishefðar og þekkingarleitar. Málþing í tengslum við sýn- inguna var helgað líftækni og upplýsinga- tækni, en miklir vaxtarbroddar eru á báðum sviðunum um þessar mundir. Af þrettán aðal- fyrirlesurum málþingingins var engin kona, en margar konur eru framarlega á þessum sviðum, sérstaklega í líftækni og lífvísindum. Svipuð aðgreining eftir kynferði var viðhöfð á ráðstefnunni Nýjungar og rannsóknir í verkfræði sem haldin var af Verkfræðinga- félagi Íslands og Verkfræðideild HÍ í tilefni 30 ára afmælis verkfræðikennslu við Háskóla Íslands í október síðastliðnum. Yfir þrjátíu verkefni voru kynnt og af rúmlega fjörutíu frummælendum var einungis ein kona. Í ára- mótablaði Morgunblaðsins 31. desember 2000 var umfjöllun um yfirstandandi tíma- mót og viðtöl við forsvarsmenn hagsmuna- og heildarsamtaka í samfélaginu undir yfir- skriftinni „Hvað segja þeir um aldamótin?“ Af fjórtán viðmælendum var engin kona. Á ráðstefnu Lögfræðiakademíunnar og Félags stjórnmálafræðinga „Hvert stefnir valdið? Staða þjóðþinga og framkvæmdavalds á Norðurlöndum“ þ. 3. febrúar voru sjö fyr- irlesarar, enginn þeirra var kona. Fyrir ári, í febrúar 2000, var ítarleg þemaumfjöllun í Morgunblaðinu um horfur læknisfræðirann- sókna á Íslandi þar sem rætt var við fimmtán einstaklinga. Meðal þeirra var engin kona. Og að lokum táknrænt dæmi: Af öllum utan- hússtyttum í gjörvallri Reykjavíkurborg er engin af konu. Það sem áður var aðgreint er enn um sinn sundur skilið. Amma Úlfhildar var af aldamótakynslóð. Hún hafði ekki sömu möguleika á þátttöku í opinberu lífi og Úlfhildur sjálf sem er 32 ára, eins og fram kom í grein hennar. Dóttir Guð- jóns Pedersens er líka af aldamótakynslóð, hún verður 32 ára árið 2032. Hvaða mögu- leikar og tækifæri skyldu bíða hennar þá? Skyldi eiga fyrir henni að liggja að verða rit- stjóri á stóru dagblaði? Skyldi hennar bíða biskupsembætti? Skyldi hennar kynslóð enn vera að velta vöngum yfir aðgreiningu og hvernig allt tengist og tvístrast? Svörin við þeim spurningum geymir framtíðin, en þau velta ekki síst á því hvort enn verður dregið í dilka eftir kynferði eða hvort þá þykir sjálf- sagt mál að tengja það sem nú er aðskilið. T ÍÐARANDI Í ALDARBYRJUN Morgunblaðið/Kristinn „Af öllum utanhússstyttum í gjörvallri Reykjavíkurborg er engin af konu. Það sem áður var aðgreint er enn um sinn sundur skilið.“ AÐGREIN- ING EFTIR KYNFERÐI E F T I R Þ O R G E R Ð I E I N A R S D Ó T T U R Höfundur er lektor í kynjafræði við Háskóla Íslands.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.