Lesbók Morgunblaðsins - 26.05.2001, Page 11

Lesbók Morgunblaðsins - 26.05.2001, Page 11
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 26. MAÍ 2001 11 síðdegi hins síðasta dags, þegar húmtjöldin falla og hylja fortíðina, þegar kveikt eru ljós og himinninn logar í hinu síðasta myrkri aldar- innar. Skáldið vissi að háleit áhrif skapast ekki nema í samruna mestu andstæðna: að ljós er ekkert án andstæðu sinnar, en um leið var hann á valdi hefðbundins myndmáls: sólskinið mun eyða „sóttkveikjuefnum“ myrkursins og leiða „það heilbrigða“ fram á sviðið. Líkamleg reynsla er uppspretta goðsagnar um samhengi sögu, náttúru og samfélags. En hvar á byrjun afleiðinganna sér ná- kvæmlega stað, spyr maður, andráin sem markar skil gamals og nýs: í uppljómuðu myrkri næturinnar, dagrenningunni eða sól- arbirtu næsta dags? Þessa þætti þarf að að- greina því svo ótalmargt fylgdi í kjölfarið að menn töldu, upphafsstaðan hlýtur að krefjast ítarlegrar lýsingar. Eða er staða þessi aðeins bóla á tímakortinu, jafngild öllum öðrum depl- um, hefur hún engan þunga umfram önnur tímamörk, er goðfræði endaloka og byrjunar kannski tilbúningur? Við verðum með öðrum orðum að spyrja um merkingu „aldar“ hverju sinni, rétt eins og við hljótum að spyrja hvað síðari hluti hugtaksins, „-mót“, feli í sér? Er hægt að hugsa sér rof í tímanum, gat eða geil, fullkomin umskipti þar sem gömlum gild- um er kollvarpað og nýr tími rís í gullnu upp- hafi; og sé svo hljótum við að spyrja um skilin sjálf: hvað gerist á milli dauða og fæðingar, gamals og nýs, þess sem var og hins sem verð- ur? Er hægt að tala um annað en framhald, stöðuga framvindu þar sem eitt flæðir af öðru líkt og alltaf áður. Svo kann að vera, en við stritum samt sem áður við að skrifa hina miklu eftirmælagrein um tuttugustu öld, rétt eins og menn gerðu um aldamótin á undan og þar áð- ur. Notum tækifærið til að festa og skilgreina, okkur sjálf og samfélagið, með hugtökum sem ýmist eru í mótun eða margslitin, í fárinu miðju, upplausnarkenndum samtíma. 4 Ég missti af tvennum aldamótum og harma hlutskipti mitt, því hlutskipti Halldórs Jóns- sonar bankagjaldkera hlýtur að vera öfunds- vert. Mannsins sem fékk árið 1900 að stíga fram á svalir alþingishússins og heilsa nýrri öld með kafla úr aldamótaljóðum Einars Bene- diktssonar. Rauðir logar gusu upp af Reykja- víkurapóteki og marglita ljósbál voru tendruð um völlinn; allt fór á annan endann í hávaða og ljósadýrð eins og segir í bréfi: „Klukkunum er hringt, fallbyssum skotið og hver flugeldurinn á fætur öðrum, og margir í senn, þutu með sterkum hvíslandi gný hátt í loft upp og sprungu þar í hvellandi skotum eða allavega litum stjörnum upp við svartblátt næturhvel- ið.“ Bæjarbúar stóðu sem steini lostnir því þeir höfðu aldrei séð og heyrt aðra eins lofgerð. Í einu Reykjavíkurblaðanna stendur nokkrum dögum síðar: „Menn fóru nú smátt og smátt að tínast burt, ljósagangurinn fór að réna og þeg- ar líða tók á nóttina tæmdust strætin mikið til af fólki. Aðeins stöku manneskjur, sem áttu bágt með að rífa sig undan sálaráhrifunum, sem þessi fagra næturstund hafði á þær, vöfr- uðu ennþá dreymandi til og frá ums strætin, eins og vofur í tunglsljósinu, og létu berast inn í framtíðina á vængjum hugsjónanna.“ Það hefur skapast sameiginlegur tíðarandi þetta kvöld þrátt fyrir upplausn síðustu ára- tuga, framsókn guðleysisviðhorfa og níhilisma í röðum menntamanna, búseturöskun og sam- ræðuopnun, – sameiginlegt sakleysi sem birt- ist okkur í yfirhöfnu táknmáli ljóss og myrk- urs, dauða og endurfæðingar, táknum sem menn notuðu öldum saman til að goðvæða sögulega reynslu: upptöku kristni, siðaskipti, upplýsingu, vísindi, rómantík, nútíma. Þetta sakleysi, – reist á hugmyndum um tíðaranda, aldarhátt, andlegt og félagslegt samhengi, – það er núna horfið og tröllum gefið. Fáum kemur til hugar að nota í alvöru táknmál Guð- brands Þorlákssonar, Magnúsar Stephensens og Einars Benediktssonar til að lýsa aðstæð- um samtímans. Flugeldarnir eru of margir, aldamótin fullmörg og óljós, táknin hafa slitn- að upp og flæða: nútími, síðnútími, síðsíðnú- tími, – í innantómum eltingarleik við sjálf sig, eins og til vitnis um úrræðaleysi og hugtakafá- tækt, eða kannski, innihaldsleysi stórra hug- taka. Fundurinn í dag bendir þó til að eitthvað hafi ekki breyst, þrátt fyrir allt, því enn er tal- að um anda, lok og byrjun í tengslum við hug- læga menningu. Menn strita sem fyrr við að skrifa sameiginlega andlátsgrein um tuttug- ustu öld, eins og gert var um fyrri aldir; nota tækifærið til að festa og skilgreina, sig sjálfa og menninguna, með hugtökum sem vísa ein- ungis á sig sjálf, háð vali og hugdettum þeirra sem þau nota. Kannski felst breytingin ein- ungis í því að það sem Magnús Stephensen gerði í þágu síns nútíma, með Eftirmælum átj- ándu aldar, er núna verkefni greinaflokka og málþinga; myndugleg raust einvaldans hefur breyst í margradda kór menntamanna, þar sem hver syngur með sínu nefi, en þörfin er söm og áður, að festa síbreytilega reynslu í frásögn með upphafi, miðju og endi, búa til táknmál við hæfi, goðsögn sem svalar þörf okkar fyrir einfaldleika. Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson „Flugeldarnir eru of margir, aldamótin fullmörg og óljós, táknin hafa slitnað upp og flæða: nútími, síðnútími, síðsíðnútími, – í innantómum eltingarleik við sjálf sig, eins og til vitnis um úrræðaleysi og hugtakafátækt, eða kannski, innihaldsleysi stórra hugtaka. Fundurinn í dag bendir þó til að eitthvað hafi ekki breyst.“ Höfundur er dósent í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.