Lesbók Morgunblaðsins - 02.06.2001, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 02.06.2001, Blaðsíða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 2. JÚNÍ 2001 5 myndlistina því að það er rétt sem Ásmundur Sveinsson sagði í samtölum okkar á sínum tíma, að það hafi verið myndin sem nam Ísland. Það voru guðamyndirnar á öndvegissúlunum sem vísuðu veginn. Og þessi vegvísir hefur stefnt okkur hingað á þessari stund. Enda þótt nauðsynlegt hafi verið að endurnýja form og innihald ljóðlistar eins og gert hefur verið á þessari öld – og ekki síður annarra list- greina, þá er margt í þeim gömlu klyfjum sem ástæða er til að meta og fráleitt það hafi íþyngt listum eins og sumir virðast halda. Ég geri ekki endilega ráð fyrir að gamaldags fagurfræði sé kennd í skólum, en listamenn mega helzt ekki verða þrælar vonds smekks, einungis vegna þess að krafan um nýbreytni er háværari en krafan um smekkvísi. Þó að bæjarslúðrið geri kröfuharðar tilraunir til að draga bókmenntir og listir niður á sitt plan, getum við sagt með þó nokkru stolti að enn er margt fólk á Íslandi sem lætur ekki blekkjast, en gerir kröfur til smekkvísi og fag- mennsku og hefur gagn, ánægju og jafnvel nautn af því sem vel er gert. Þetta fólk hlýtur að vera hverju skáldi, hverjum listamanni, sú áskorun sem úrslitum ræður. Platón segir að hlutverk listamanna sé ekki eigingjörn þjónkun við sjálfa sig, heldur þjónusta við list sína. Þannig er það í raun við- fangsefni skáldsins að breyta öðru fólki í skáld og myndlistamannsins að gera okkur að sjá- endum. Það er ekki efni ljóðlistar og ekki heldur neinna annarra listgreina, sem úrslitum ræður, heldur ferskleiki listamannsins, handbragð og hvernig að verki er staðið, enda fátt nýtt undir sólinni. Sé handbragðið persónulegt og sérstakt er markinu náð. Til þess þarf upplag, útsjónar- semi, ímyndunarafl; frjóa hugsun og ferska. Sérhvert listaverk á að vera atvik út af fyrir sig, eins og sköpun í sólkerfum. Forsendur slíkrar listsköpunar má að sjálf- sögðu finna í genum ekki sízt, svo að vísað sé til tízkuvísinda. En þeirra verður ekki síður leitað í lærdómi og menntun. Og þegar að þeim þætti kemur skilur hvert mannsbarn mikilvægi listaháskóla. Listamaður sem byggir hugsun sína og hugar- flug á traustri undirstöðu lærdóms og mennt- unar þarf ekki að hugsa um sérhvert vængja- tak. Flugið verður jafn áreynslulítið og hreyfing fugls í hrynjandi lofts og vinda. Það er í senn gaman og eftirminnilegt að ferðast með slíkum listamanni, því að ferðinni er þá ekki heitið inn í ringulreið, heldur reglu; inn í rúmgott jafnvægi. New York-skáldið Singer sagði, þegar hann talaði um herbergið sitt þar sem öllu ægði saman, að kaós hefði ríkt í tilverunni eins og vinnustofu hans, áður en guð sagði: verði ljós. En svo tók kosmos við, þótt sú þróun hefði ekki orðið á heimili hans. Við það sætti hann sig, þótt honum hefði ekki haldizt uppi að hafa allt á rúi og stúi í skáldsög- um sínum. Þar ríkir regla listarinnar ofar hverri kröfu. Eins og í sköpunarverkinu. En listamenn verða þá einnig að hafa djörf- ung, kraft og hugmyndaflug til að brjótast und- an vanabundnum klissjum hefðarinnar. Það er nauðsynlegt að kunna bragfræði ef maður er skáld, nauðsynlegt að geta teiknað, ef maður er myndlistamaður, ekki sízt vegna þess að menntun og lærdómur eru forsendur áræðis. Listir geta verið skemmtilegar, jafnvel eftir- minnilegar, þótt þær séu ekki fullkomnar. Auk þess eru þær eins og allt annað í lífinu, mis- jafnar. Það yrkir enginn eins og annar, þótt orðin séu hin sömu, merkingarmiðin svipuð, hugsun, takmark. Hver og einn syngur með sínu nefi. Það hlýtur þó að vera takmark hvers listamanns að vinna eins vel og hæfileikar hans standa til. En hæfileikar eru af ýmsum toga. Sumir fuglar geta flogið, aðrir ekki. Sumir fugl- ar ætla aldrei að ná flugtakinu, en komast þó á loft um síðir. Allir eiga þeir sama himin að markmiði. Og nú hef ég í huga það sem sögu- maður Kristnihalds undir Jökli hefur komið á framfæri við lesendur sína; að það sé einkenni- legt að allir fuglar skuli ekki fljúga eins; sumir fuglar eru eins og kría á steini, aldrei kyrrir á sama stað, aðrir þolinmóðir eins og eilífðin og láta lítið á sér kræla, enn aðrir sífellt syngjandi, sumir fuglblendnir, aðrir ekki. Það hefur ekki fundizt „rétt“ formúla að lista- verki né nein formúla að því, hvernig það verð- ur til. Formúlan er óskilgreint fyrirbrigði í blóði listamannsins, á sama hátt og loft og him- inn í vængjum fuglsins. Vettvangur arnarins er allt himinhvolfið, fjöll, firðir og firnindi þar sem maðurinn er sjald- gæfastur fugla. Þar starfar hann eins og sá einn, sem ætlar sér mikið hlutverk og mikla þátttöku í umhverfinu og ber sig helzt ekki saman við neina listamenn aðra en þá sem kunna að blaka vængjum, ómeðvitað. Fuglar eins og örninn eru fáir og fyrir þá er stundum eitrað eins og refinn. Þeir lúta engum fyrirmælum frekar en aðrir fuglar og þeir lista- menn sem líkjast þeim mest eru ekki við eina fjöl felldir. Veröld búrfugla er þeim framandi heimur, þröngur og ófrjáls. En þá skulum við ekki gleyma því að snjótitt- lingurinn sem er á þyngd við frímerki fýkur ekki þótt hann standi á berangri í fárviðri, eins og Jón prímus benti á. Hvað sem þessu líður eru listir þó fyrst og síðast vinna, vinna og aftur vinna, þótt vel megi vera að upphaf þeirra sé æði og ástríða. Enginn listamaður er einn á ferð. Í fylgd með honum er jafnan einhver Glámur og við hann þarf að glíma hvern dag sem guð gefur. Það er hörð glíma og háskasamleg og enginn fugla- söngur eða gamanmál yfir glasi, heldur grimmileg átök við úreldingu, svo að notað sé tungutak auðlindartízkunnar. Sú glíma fjallar um tortímingu og fer fram undir glottandi tungli og án áhorfenda. Listamenn eru íslenzkri menningu jafn nauðsynlegir og blóm og fuglar náttúrunni án þess við séum sífellt að gefa þeim einkunnir, enda tilgangslítið. Þeir gegna sérstæðu hlut- verki í umhverfi sínu, þótt ólíkir séu. Náttúran leitar jafnvægis í allt að því óendanlegri fjöl- breytni. Hún er gjöful en grimm. Hún gleðst yfir sandkorninu, ekki síður en sólkerfinu. Þannig eigum við einnig að umgangast skáldin og aðra listamenn, ekki sízt í skólastof- um. Erindi þeirra við okkur er margvíslegt og ekki það eitt sem Tómas nefndi, þegar kona ein veizluglöð vatt sér að honum og spurði, hvers vegna hann væri eiginlega að yrkja þessi ljóð! „Það er til þess,“ sagði skáldið af alkunnri hógværð, „að ég hafi eitthvað gott að lesa, þeg- ar ég er orðinn gamall.“ Við skólaslit listaháskóla hljótum við að leiða hugann að því sem ég drap á hér að framan og er eitt af undirstöðuatriðum alls lærdóms og allrar menntunar, vinnunni. Í samtölum okkar Páls Ísólfssonar minnir hann mig á þá stað- reynd, að það er enginn jöfnuður í náttúrunni. Og svo hafa séníin eitt fram yfir flesta aðra, segir hann, vinnuþrekið. Og dr. Páll bætir við: „Þrek og ódrepandi dugnaður ráða úrslitum um það hvort okkur tekst að vinna stórvirki eða ekki. Vinna og þolinmæði, ætli þessi tvö yf- irlætislausu orð séu ekki lykillinn að leyndar- dómi mikilla afreka. Ég hef horft á flag verða að túni á einu sumri. Því miður höfum við ekki þolinmæði náttúr- unnar, en meðan ég fylgdist með fæðingu þessa túns, hugsaði ég oft um það hve listamönnum er nauðsynlegt að kunna vinnubrögð náttúr- unnar. Hún gefst ekki upp þótt blási á móti. Alltof margir listamenn bíða lon og don eftir því sem þeir kalla innblástur. Maður einn gekk upp Túngötu á fögrum vordegi. Þegar hann kom á móts við Landakotsspítala dritaði kría í hausinn á honum. Hann var í senn hrifinn og undrandi yfir þessu atviki og vildi að það yrði endurtekið. Þess vegna hefur hann síðan verið öðru hverju á vappi við Landakot í von um að kría driti á kollinn á honum. Þessi maður minnir á suma listamenn. Þeir eru alltaf að bíða eftir sinni kríu sem þeir kalla „andagift“.“ Og þó, og þó! Biðin sjálf getur, eins og Beckett minnir okk- ur á í Godot, verið þrungin mikilli spennu: mik- illi andagift; þessari kvíðafullu eftirvæntingu Eyðilandsins. Fyrst Godot kemur ekki í dag, þá kemur hann áreiðanlega á morgun. Og þá heldur bið mannsins áfram, hvort sem hún fjallar um leit- ina að guði eða manninum í brjósti okkar sjálfra. Án listar, án trúar, er þessi leit, þessi bið merkingarlaus. Hún er eins og segir í leik- riti Becketts, einungis fyrir þá sem geta ekki hugsað nema með kúluhatt. Í Godot segir Estragon: „Allar dauðu radd- irnar,“ en Valdimar svarar: „Það þýtur í þeim eins og vængjum.“ Estragon: „Eins og í laufi.“ Valdimar: „Eins og í sandi.“ Þeir eru búnir að blaðra nóg þarna í miðju einskisins. En þá fær Estragon góða hugmynd: „Við ættum að snúa okkur ákveðið til náttúr- unnar.“ Og það eru orð að sönnu, þótt þeir færu ekki eftir þeim, því að náttúran er ekki utan við manninn, hún er í honum. Og það er í þessari samtengingu manns og náttúru sem hann öðl- ast þá tignu fegurð, sem gæti verið vísbending um að Godot sé ekki krían, heldur guð. Til að fullnægja öllu réttlæti og ná jafnvægi og þá ekki sízt vegna þess ég er í aðra röndina á vegum rektors, er mér víst ekki annað fært en vitna einnig í samtöl okkar Jóns Leifs: „Tak- mark allrar sannrar listar er að gefa mönnum þrek til að þola raunir lífsins,“ sagði Jón, „gera menn sterkari.“ Það hlýtur einnig að vera eitt helzta hlutverk listaháskóla, að styrkja vængjatökin. Kenna mönnum eðlisfræði listarinnar, auka þannig ör- yggið. Einhverju sinni í samtölum okkar Ásmundar Sveinssonar spurði ég hann um ástríðuna. „Hvað áttu við, góði,“ sagði Ásmundur. „Sex, kynlíf,“ sagði ég, „í takt við tízkuna..“ „Nei,“ svaraði Ásmundur, „ég hugsa ekki í hormón- um, ég hugsa í formum. Ég vil að þau tali sam- an.“ Við skulum í lokin ekki gleyma því hverjir það voru sem varðveittu þá menningu sem er hornsteinn arfleifðarinnar. Ásmundur sagði það hefði verið Vatnsberinn og Járnsmiðurinn. „Nei, það voru engar sætabrauðskerlingar eða bronskarlar með merkissvip,“ sagði Ásmund- ur. „Verndin er hluti þeirra trúarbragða sem eru mér hugstæðust. Móðirin verndar börnin sín, eins og kemur fram í sumum myndunum mínum. Helgimyndir, segja sumir. En verndin má ekki vera fólgin í því að frelsa fólk eins og stundum í trúarbrögðum. Þá slævist það og því hættir að fara fram, segir bara: Ég er frels- aður! Listin á ekki sízt að vernda okkur frá þess konar frelsi. Stundum hefur mér jafnvel dottið í hug að guð sé baráttan. Slagkrafturinn. Og þroskinn sem fylgir átakinu.“ Þræðir eftir Rósu Sigrúnu Jónsdóttur. Verk Margrétar Oddnýjar Leópoldsdóttur. Við erum öll svo einstök eftir Kristínu R. Berman.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.