Lesbók Morgunblaðsins - 23.06.2001, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 23.06.2001, Blaðsíða 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 23. JÚNÍ 2001 H INN 29. september 1950 komu samaná fund í Tónlistarskólanum dr. Páll Ís-ólfsson dómkirkjuorganleikari, Krist-inn Ingvarsson organleikari við Laug- arneskirkju, Páll Halldórsson organleikari við Hallgrímskirkju, Jón Ísleifsson organleikari í Nesprestakalli, Sigurður Ísólfsson organleikari við Fríkirkjuna í Reykjavík, dr. Victor Urbancic organleikari við Kristskirkju í Landakoti, Frið- rik Bjarnason organleikari við Þjóðkirkjuna í Hafnarfirði og Páll Kr. Pálsson organleikari við Bessastaðakirkju. Dr. Páll Ísólfsson dóm- kirkjuorganleikari boðaði til þessa fundar. Kvað hann tilganginn með honum þann að undirbúa stofnun organistafélags. Kvað hann það um all- langt skeið hafa verið ætlun sína að koma þeim félagsskap á fót en hefði dregist af ýmsum ástæðum.“ Þannig hljóðar upphaf fyrstu fundargerðar Félags íslenskra organista. Það var Páll Ísólfs- son dómorganisti sem var hvatamaður að stofn- un félagsins. Af fundargerðinni má ráða, að til- efni þess að Páll dreif í að stofna félagið var, að organistafélögin á Norðurlöndunum héldu til skiptis kirkjutónlistarmót, og nú var komið að því að slíkt mót yrði haldið á Íslandi. Fleiri verkefni slíks félagsskapar voru rædd strax á fyrsta undirbúningsfundi, þar á meðal, að org- anistafélag skyldi bæði láta sig varða kjör stétt- arinnar og störf. Stofnfundur Félags íslenskra organista var svo haldinn sunnudaginn 17. júní 1951 í húsi Tónlistarskólans í Reykjavík, Þrúð- vangi við Laufásveg. Hálf öld hefur liðið, og starfsemi Félags íslenska organista stendur með blóma. Formaður félagsins í dag er Kjart- an Sigurjónsson organisti í Digraneskirkju í Kópavogi. Hann segir markmið félagsins í dag að standa vörð um hagsmuni félaga sinna og að standa vörð um kirkjutónlist. E. Power-Biggs á fyrstu tónleikaröð organistafélagsins „Þegar félagið var stofnað, fyrir hálfri öld, voru fá orgel komin til landsins, og eitt af bar- áttumálum félagsins var að fá hingað fleiri pípu- orgel. Á þeim árum fólst kjarabarátta félagsins einkum í því að organistar fengju yfir höfuð laun fyrir sína vinnu, en það þótti ekki sjálfsagð- ur hlutur þá. Í þriðja lagi var það markmið félagsins frá upphafi að efna til tónleika og standa fyrir símenntun organista. Fyrsta átakið sem gert var í þeim efnum var kallað Musica sacra, en það var tónleikaröð, þar sem félagar í organistafélaginu léku, ýmist einir eða með kór- um sínum.“ Fyrsta starfsár félagsins fór að mestu í að skipuleggja fimmta norræna kirkjutónlistar- mótið sem haldið var í fyrsta sinn á Íslandi 3.– 10. júlí 1952. Félgið gerðist aðili að Norræna kirkjutónlistarráðinu sem stóð fyrir kirkjutón- listarmótunum, en þau hafa verið fastur liður í starfsemi norrænu organistafélaganna allar götur síðan. Norrænt kirkjutónlistarmót var síðast haldið hér á landi 1992. Næsta starfsár félagsins, 1952–53, var farið að skipuleggja tón- leikaröðina með nafninu Musica sacra. Fyrstu tónleikarnir voru haldnir í Dómkirkjunni 5. október 1953, og lék Páll Ísólfsson á orgel Dóm- kirkjunnar. Tónleikaröðin stóð með nokkurra vikna millibili allan veturinn, en metnaður org- anistanna lýsir sér vel í því að á lokatónleikum Musica sacra vorið 1954, lék enginn annar en E. Power-Biggs, sem nokkrum árum síðar var orð- inn þekktasti og virtasti organisti heims. Pow- er-Biggs lék tvenna tónleika að kvöldi, 28. apríl, og í fundagerðarbók má lesa að stjórn félagsins hafi boðið honum í skemmtiferð um Gullfoss og Geysi með viðkomu á Stokkseyri og á Skeggja- stöðum í Mosfellssveit. Eitt lamb fyrir organistann Kjartan Sigurjónsson segir að Félag ís- lenskra organista hafi lagt mikla áherslu á að þoka áfram baráttumálum sínum, sem hafa alla tíð verið margvísleg. Kjaramálin hafa verið þar ofarlega á blaði „Það náði því varla að heita þóknun sem menn voru að fá fyrir þetta starf í upphafi. Þá var þetta aukastarf, og menn voru jafnvel að fá greitt eitt lamb fyrir árs starf í kirkjunni. Í dag hefur þetta sem betur fer breyst til muna, og er kannski mesta breytingin í starfi Organistafélagsins frá upphafi. Við feng- um samninga við Reykjavíkurprófastdæmi sem hafðir voru til viðmiðunar um allt land. Síðustu samningar okkar eru frá því 1991, og það er kominn tími til að endurskoða þá, eins og önnur mannanna verk,“ segir Kjartan. „Á næstsíðasta kirkjuþingi unnum við þó okkar stærsta sigur, þegar staðfest var sérstök reglugerð um störf organista innan þjóðkirkjunnar. Það hafði aldr- ei verið stafur á bók um að að kirkjur landsins skyldu yfir höfuð hafa organista innan sinna vé- banda, þarna varð þetta loksins alveg klárt, að kirkjur landsins skyldu ráða sér organista og tekið var fram í reglugerðinni hvernig að ráðn- ingu organista yrði staðið og hvað þeir ættu að gera. Þetta var mikill áfangasigur fyrir okkur.“ Það var ekki fyrr en 1981 að organisti var fyrst ráðinn í fullt starf, og ekki fyrr en fyrir um fimmtán árum að almennt var farið að ráða org- anista í fullt starf við kirkjur landsins, og í dag segir Kjartan að organistar í fullu starfi séu á milli 30 og 40. „Sá mikli kirkjuorganisti Páll Ís- ólfsson var til dæmis aldrei í fullu starfi við þetta. Þetta var bara aukageta meðfram öðrum störfum.“ Félag sem hefur í mörgu að snúast Kjartan Sigurjónsson segir að þótt kjaramál- in hafi verið drjúgur þáttur í starfsemi Félags íslenskra organista sé starfsemin að öðru leyti ótrúlega fjölbreytt. „Það getur verið ansi fyr- irferðarmikið, þegar nýr organisti er ráðinn að kirkju. Organistafélagið er þá gjarnan kallað til og beðið um umsögn um viðkomandi organista; við erum líka kölluð til þegar gerðir eru sér- samningar við organista. Því er heldur ekki að neita að við höfum stundum þurft að bera klæði á vopn þegar mönnum semur ekki. Það líður ekki sú vika að sóknarnefndarformenn, prestar, organistar, formenn sókna eða gjaldkerar hafi ekki samband við okkur með spurningar um ýmislegt sem skera þarf úr. Kirkjutónlistar- mótin krefjast mikils undirbúnings og eru kostnaðarsöm, og ef við viljum standa undir nafni og koma fram á mótunum þá er það ekki hrist fram úr erminni. Mótin eru haldin á fjög- urra ára fresti, og þar sem félagið er ekki efnað, fer drjúgur tími í að safna farareyri fyrir þá sem sendir eru á mótin fyrir okkar hönd. Sem betur fer hefur okkar vegur verið mikill í þessu sam- starfi og við höfum vakið athygli. Á síðasta móti kom Schola cantorum fram fyrir okkar hönd á íslenskum tónleikum, og einnig Björn Steinar Sólbergsson organisti í Akureyrarkirkju.“ Mikil vinna þegar aðrir eiga frí Starf organistans sjálfs er ekki síður viða- mikið en starf félags þeirra. Organisti í fullu starfi mætir til vinnu í sinni kirkju á hverjum degi. Þar skipuleggur hann ýmist einn eða í samráði við prest þá tónlist sem flytja skal við messur. Að auki sér organistinn um að skipu- leggja tónlistarflutning við aðrar athafnir, út- farir, skírnir, brúðkaup, bænastundir, ferming- ar og fleiri slíkar athafnir. „Allt þetta kostar mikla vinnu, og oft þurfum við að útsetja sjálfir tónlist sem fólk biður um að flutt verði við þess- ar persónulegu athafnir. Við sinnum líka ráð- gjöf við fólk og bendum á þá tónlist sem er við hæfi við hverja athöfn. Að auki tökum við þátt í daglegu starfi í kirkjunni, tökum á móti fólki sem hingað leitar, sitjum starfsmannafundi og sóknarnefndarfundi svo eitthvað sé nefnt. Við erum auðvitað líka stöðugt að reyna að efla tón- listarflutning í kirkjunni, og þurfum oft að ráða söngvara og einleikara til að koma fram í guðs- þjónustum þegar við á. Við erum líka farin að taka æ meiri þátt í þjónustu bæði við aldraða og börn, sem margar kirkjur sinna sérstaklega. Þetta er ekki minna starf en hvert annað, og oft koma álagstímar, eins og um fermingarnar, jól og páska og aðrar hátíðir þegar mikið er við haft. Verkefnin eru óþrjótandi.“ Vegna álags á organista um helgar og á þeim tímum sem venjulegt fólk á jafnan frí, hefur náðst fram að viðveruskylda þeirra á daginn er ekki eins mikil og ella væri. „Flestir organistar eru þó að skila vel fullri vinnu, og sumir talsvert meiru en það.“ Organistar eru ráðnir af sóknarnefndum, og eru faglegir ráðgjafar um allt sem snertir tón- listarflutning í kirkjunum. Samstarf prests og organista þarf því að vera mjög gott. Kjartan segist sjálfur velja þá sálma sem notaðir eru við guðsþjónustu í sinni kirkju, en það gerir hann þó ekki fyrr en hann er búinn að kynna sér lestra dagsins og ræðuefni prestsins og sálmar eru valdir með tilliti til þessa. „Það er þó afar mismunandi hvaða háttur er hafður á um þetta; það getur verið breytilegt frá kirkju til kirkju og á milli einstaklinga. Sumir prestar vilja velja sína sálma sjálfir.“ Lék við messur og fékk í staðinn að æfa sig að vild Kjartan segist þó vel settur hvað þetta varð- ar, enda hefur hann stúderað guðfræði. Hann lærði á sínum tíma hjá Páli Ísólfssyni og er bú- inn að vera í þessum bransa eins og hann kallar það, í 47 ár, eða frá því hann var 17 ára gamall. „Ég byrjaði mjög ungur og var organisti á tveimur stöðum um leið og ég var farinn að ráða við þetta. Ég fékk aðtöðu til að æfa mig eins og ég þurfti í Kristskirkju í Landakoti, en þegar Victor Urbancic dó, ári seinna, 1958 var ég ráð- inn í hans stað. Launin voru óveruleg, en það sem hjálpaði mér mest var að fá að æfa mig að vild. Síðan hef ég komið víða við, meðal annars í Reykholti og á Ísafirði, þar sem ég gegndi einn- ig stöðu skólastjóra Gagnfræðaskólans. 1985 varð ég annar organisti Kópavogskirkju, og öðrum áratug eyddi ég í Seljakirkju, en er nú búinn að vera fjögur ár í Digraneskirkju.“ Kjartan hefur gegnt formennsku í Félagi ís- lenskra organista í tæp tíu ár. Á undan honum höfðu einungis fimm menn sinnt formennsku í félaginu; Þröstur Eiríksson, Kristján Sig- tryggsson, Guðni Þ. Guðmundsson, Páll Kr. Pálsson og Páll Ísólfsson, svo rakin sé röðin aft- ur til stofnanda þess. Vegur orgelsins að vænkast Kirkjur landsins hafa gegnt mikilvægu hlut- verki í tónlistarflutningi, þar sem margar þeirra hafa reynst hafa prýðis hljómburð. Þessi starf- semi verður æ fyrirferðarmeiri, og víða taka organistar beinan þátt í að skipuleggja tónleika- hald. Annars staðar eru kirkjurnar einfaldlega leigðar út til þeirra sem vilja halda tónleika, en oftast er það val borið undir organistann, því ekki þykir viðeigandi að hleypa hverju sem er í vígð hús. Ein mesta breyting sem orðið hefur í starfsemi Organistafélagsins er þó sú aukning sem hefur orðið á orgeleign kirkna landsins. „Það var mikill vendipunktur fyrir íslenska org- anista þegar stóra Klais orgelið kom í Hall- grímskirkju. Þá fóru æ fleiri að sýna því áhuga að nema orgelleik, og fólk sem jafnvel var komið langt í píanónámi sneri sér alveg að orgelleik. Með stöðugu orgelhaldi í Hallgrímskirkju, hef- ur vegur íslensk orgelleiks líka aukist og áhug- inn er miklu meiri en áður var. Organistafélagið hefur beitt sér fyrir smíði nýrra orgela og kaup- um á orgelum erlendis frá. Við eigum líka núna íslenskan orgelsmið, Björgvin Tómasson, sem hefur smíðað alveg frábær hljóðfæri.“ Eitt mest spennandi verkefnið á þessu sviði er að sögn Kjartans uppsetning gamla Dómkirkjuorgels- ins í nýju kirkjunni í Reykholti. „Við þessir gömlu, eins og ég, sem lærðum hjá Páli Ísólfs- syni lítum hýru auga til að hitta aftur gamlan vin þegar orgelið verður sett upp aftur í október á þessu ári.“ Félag íslenskra organista stendur enn sjálft fyrir tónleikahaldi, nú eru það hádeg- istónleikar í Hallgrímskirkju á fimmtudögum í júlí og ágúst. „Það hefur verið í mínum höndum að skipuleggja þessa tónleika, og það hefur ekki verið neitt vandamál að manna orgelið. Það eru allir spenntir að fá að taka í þetta góða orgel, og þetta er orðið eftirsótt.“ Láta fjúka í kviðlingum Kjartan Sigurjónsson segir starfið í Félagi ís- lenskra organista hafa verið sérstaklega skemmtilegt, og að honum sé nú ekki eins leitt og hann lætur, þótt hann hafi sinnt formennsk- unni lengur en til stóð í upphafi. „Það hefur oft verið gaman á fundum hjá okkur; menn gera að gamni sínu, og oft er látið fjúka í kviðlingum. Ég veit ekki hvort ein uppákoma í félaginu hafi ver- ið til sérstakrar fyrirmyndar, en ég segi þér frá því samt. Ef fundarefni hafa verið sérstaklega leiðinleg, þá hefur mönnum að sjálfsögðu leiðst talsvert. Ég man eftir því að einhvern tíma var til umræðu á aðalfundi efni sem menn voru hreint ekkert spenntir fyrir, og þá var borin upp tillaga um það að stjórn félagsins sæi fyrir því að fundarmenn fengju alltaf eitt staup af brennivíni á aðalfundi. Tillagan var samþykkt og þessi hefð hefur haldist síðan.“ ÞEIR TAKA ÞÁTT Í GLEÐI OKKAR OG SORGUM Félag íslenskra organista varð 50 ára 17. júní sl. Af því tilefni ræddi BERGÞÓRA JÓNSDÓTTIR við for- mann félagsins, Kjartan Sigurjónsson, sem fræddi hana um sögu félagsins og störf organistans í dag. Morgunblaðið/Sigurður Jökull Kjartan Sigurjónsson við nýtt orgel Digraneskirkju, sem Björgvin Tómasson smíðaði. begga@mbl.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.