Lesbók Morgunblaðsins - 30.06.2001, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 30.06.2001, Blaðsíða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 30. JÚNÍ 2001 7 mánuðum sem ég var krossfestur í blöðunum,“ segir Martin Amis um áðurnefnt tímabil í ævi- sögunni. Hann hefur hins vegar kenningu um hvers vegna hann varð svo illa fyrir barðinu á blaðamönnum: „Ólíkt öðrum listgreinum nota ég sömu verkfæri í minni listsköpun og blaða- menn. Það er ekki mitt hlutverk að segja að öf- und ráði ferðinni í umfjöllun þeirra um mig. Það er ykkar hlutverk,“ segir hann lesendum. Í verkinu fleytir Amis kerlingar um ævi sína, svipmyndum er brugðið upp í stað samfelldrar frásagnar og þótt ákveðinn þráður sjálfsrétt- lætingar sé næstum óhjákvæmilegur fylgifisk- ur sjálfsævisagna er Amis einkar hreinskilinn og á köflum ósérhlífinn. Þeim sem höfðu tann- læknismeðferðina í flimtingum er bókin afar holl lesning. Lýsingarnar á tannaðgerðunum sem Amis gekkst undir á Manhattan hafa yf- irbragð upphafins líkamshryllings sem erfitt er að slíta sig frá en afskaplega óþægilegt að lesa. Sem dæmi má nefna að í efri hluta hökunnar, undir tönnunum, fannst æxli sem í fyrstu var álitið illkynja; græða þurfti bein við neðri kjálk- ann; fjarlægja efri og neðri tanngarðinn, og síð- ustu árin, sagði læknirinn, hafði hver einasta máltíð sem ekki lauk með því að tennurnar féllu úr honum í heilu lagi verið hrein heppni. Á ein- um stað spyr Amis hversu margir af þessum þremur heimsþekktu stílsnillingum, James Joyce, Vladimir Nabokov og Martin Amis, hafi þurft að þola algert og endanlegt tannhrun á fimmtugsaldri? Svar: Allir þrír. „Engu að síð- ur,“ segir Amis, „þá stilli ég mér ekki við hlið þeirra nema að einu leyti. Ekki í listinni og ekki í lífinu. Aðeins í tönnunum. Í tönnunum.“ Áhrifaótti „Einu sinni var sagt að allir hefðu að minnsta kosti eina skáldsögu í sér. Og ég trúði því, og geri að sumu leyti enn. Ef maður er skáldsagna- höfundur verður maður að trúa þessu, það er hluti af starfinu. Sagan sem maður skrifar býr svo oft í einhverjum öðrum. En á þessari stundu, árið 2000, verður maður að draga stað- hæfinguna í efa. Það sem býr í fólki nú til dags er ekki skáldsaga heldur ævisaga,“ segir Amis snemma í eigin ævisögu. „Ekkert, nú um stund- ir, er samkeppnishæft við reynslu – hún er svo áþreifanleg, hún dreifist svo jafnt milli okkar allra,“ heldur Amis áfram. „Reynsla er það eina sem við eigum öll jafnan aðgang að og þetta jafnrétti er eitthvað sem allir eru meðvitaðir um. Ég er hins vegar rithöfundur, þjálfaður til að nýta mér eigin reynslu á annan hátt. Hvers vegna skyldi ég segja ævisögu mína? Ég geri það vegna þess að nú er faðir minn látinn og ég vissi alltaf að ég myndi þurfa að minnast hans.“ Kingsley Amis, höfundur bóka á borð við Lucky Jim (1954) og Take a Girl Like You (1960), var ásamt John Osborne einn helsti for- sprakki bókmenntahreyfingarinnar bresku sem kennd er við „reiðu ungu mennina“. Hann fær rúman hlut í ævisögu sonarins, nærvera hans er áþreifanleg jafnvel þar sem hann kem- ur ekki beint við sögu (sendibréfin sem Amis skrifaði til föður síns á námsárunum og birtir með reglulegu millibili í ævisögunni auka við þessa tilfinningu). Samband feðganna var hins vegar stormasamt, þeir voru á öndverðum meiði í stjórnmálum, Martin frjálslyndur og vinstrisinnaður meðan Kingsley varð sífellt íhaldssamari með aldrinum. Þá voru þeir afar ólíkir sem rithöfundar. Efnistökum Amis eldri má helst líkja við klassískt raunsæi, enda þótt hann hafi alla tíð notast við gamansöguformið. Hann lagði áherslu á línulega frásögn þar sem söguhöfundurinn heldur sér til hlés og reynir að skapa samhangandi veruleika í skáldverkinu sem lesandinn getur ótruflaður lifað sig inn í. Nær er að kenna Martin við póstmódernisma. Í verkum hans skipar sjálft tungumálið jafn mik- ilvægan sess og atburðarásin, öðl- ast sjálfstætt líf á köflum og eykur verulega við sjálfsvitund frásagn- arinnar. Kingsley sagðist aldrei hafa get- að lesið bók eftir son sinn til enda. Á sama tíma bar Martin ómælda virðingu fyrir höfundarverki föður síns og fjallar um það af mikilli lotningu. Í sendibréfum vísaði Kingsley til Martins sem „litla skít- seiðisins“. Viðurkenningin sem Martin þráði frá föður sínum kom aldrei. Það er því ekki langur vegur að þeirri ályktun að samband feðg- anna, og togstreitan þeirra á milli, hafi haft mótandi áhrif á rithöf- undaferil þess yngri, og þá kannski á fleiri vegu en einn. „Áhrifaótti“ er hugtak úr smiðju bandaríska bókmenntafræðingsins Harolds Bloom en hann vill meina að eins konar ödipísk valdabarátta milli bókmenntasögulegra „feðra“ og „sona“ sé á táknrænan hátt grund- völlur allrar umfjöllunar um tengsl rithöfunda, texta og bókmennta- legra forvera. Að mati Blooms (en kenning hans er, eins og sjá má, af- ar karlmiðuð) skynjar rithöfundur- inn á ómeðvitaðan hátt sína mik- ilvægustu forvera og áhrifavalda sem geldandi föðurímyndir, og reynir þess vegna að finna aðferðir til að afvopna þá. Oftast með því að nýta sér stílbrögð þeirra á ákveðn- um forsendum, hann endurskapar þau, umbreytir og reynir þannig að hliðra þeim. Hjá Martin Amis öðlast þessi táknræna tog- streita bókstaflega mynd. Starf höfundarins gengur sjaldnast í erfðir, fáir rithöfundar lenda í þeirri aðstöðu sem féll í skaut Amis um leið og hann sendi frá sér sína fyrstu bók, og var þar með kominn í óbeina samkeppni við föður sinn. Samkeppnin, ef hægt er að nota það orð, birtist þó í ýmsum myndum og Martin var meðvitaður um hversu einstakt tilfelli rithöfundarferill hans sjálfs var. Árið 1984, þegar bæði Money eftir Martin og Stanley and the Women eftir Kings- ley voru gefnar út, hafði Martin eftir við föður sinn samtal sem hann átti við bandarískan vin sinn, sem hafði sagt: „Ég keypti bókina þína í dag. Ég keypti bókina eftir pabba þinn líka.“ Kingsley hló við þegar hann heyrði þetta og sagði að þessi setning yrði aðeins einu sinni sögð í sögu heimsins. Hann samgladdist syni sínum þó ekki alltaf jafn innilega: „Martin Amis er náttúrlega orðinn frægari en ég núna,“ segir hann í dálitlum kvörtunartón í bréfi til Philips Larkin sama ár. Og árið 1979: „Martin ver árinu erlendis til að sleppa við skatta! Litla skítseiðið. Hann er ekki nema 29. Litla skítseiðið.“ Kingsley hefur lýst reynslu sinni af fyrstu skrefum sonar síns á ritvellinum, meðan Martin bjó enn í foreldrahúsum, á eftirfarandi veg: „Þegar ég kom inn í herbergið, þar sem hann var að skrifa, setti hann hönd sína samstundis yfir blaðið í ritvélinni til að fela það.“ Lýsingin gefur til kynna föðurlegan áhuga sem ekki fékk fram að ganga sökum tortryggni sonarins. Þeg- ar Martin fjallar um sama tímabil kveður við annan tón: „Mér finnst að faðir minn, að hluta til sökum meðfæddrar leti, hafi aldrei veitt því mikla athygli að ég var byrjaður að skrifa, að minnsta kosti ekki fyrr en ég skellti próförkinni að fyrstu bókinni minni á skrifborðið hans.“ Ómur sálfræðilegrar togstreitu er greinilegur í þessum staðhæfingum, og atlögurnar hafa haldið áfram. Reyndar er það Kingsley sem ráðist hefur fram af meiri hörku í fjölmiðlum. Hann kvartaði m.a. undan áherslu Martins á stílfærni: „Það má rekja aftur að einni af hetjum Martins,“ segir hann á einum stað. „Nabokovs. Ég kenni Nabokov um þetta allt – þessa stanslausu sýnikennslu Martins á tökum sínum á tungumálinu.“ Rithöfundurinn Julian Barnes, sem var á ákveðnu tímabili náinn vinur Martins, lýsti opinberum ummælum Kingsleys um Martin sem „hneyksli“ og bætti við að „sársaukinn sem þau hafa valdið mun aldrei hverfa“. En ein afleið- ing vanþóknunar föðurins er leit Martins að bókmenntalegum föðurímyndum á öðrum vett- vangi. Með örfáum undan- tekningnum (Joan Didion, Iris Murdoch, Jane Austen) fjalla öll bókmenntaskrif Amis, en þau eru umtalsverð og hafa verið gefin út í þremur greinasöfnum, um karl- kyns rithöfunda, höfunda á borð við Vladimir Nabokov, Saul Bell- ow og Philip Roth, og bera þess glöggt vitni að vera eftir rithöf- und sem er afar meðvitaður um bókmenntalega forvera sína. Þess utan standa höfundarnir sem Amis nefnir oftast sem áhrifavalda, líkt og Nabokov, Thomas Pynchon og William S. Burroughs, í augljósri andstöðu við Kingsley Amis. Þar sem vald bókmenntasögulega forverans, sem Bloom talar um, rennur saman við eiginlegt föðurvald í tilfelli Martins Amis má e.t.v. sjá bækurnar sem ákveðna framlengingu einkalífsins og uppreisn- in, hliðrunin, birtist kannski ekki síst í þeim höf- undum sem Martin tileinkar sér sem fyrir- myndir, höfundum sem reynast í aðferðum sínum skýrar andstæður við hans eigin föður, rithöfundinn. Martin Amis og póstmódernismi Í annarri bók Amis, Dead Babies (1975), kemur persónan Andy Adorno töluvert við sögu. Bókin lýsir dvöl ungs fólks á sveitasetri utan höfuðborgarinnar. Markmið persónanna er einfalt. Innbyrða eins mikið af eiturlyfjum og áfengi og tími vinnst til, stunda villt kynlíf og njóta tilverunnar. Atburðarásin tekur þó brátt óvænta stefnu og sadískur hryllingur verður allsráðandi. Vísunin í þýska heimspekinginn Theodor Adorno er áhugaverð því bókin fjallar öðru fremur um ofbeldið og grimmdina sem leysist úr læðingi, og á jafnvel að einhverju leyti rætur að rekja til tímabils óhefts félagslegs (sýndar)frelsis. Að þessu leyti má sjá Dead Babies sem skáldsögulega hliðstæðu hinnar miklu bókar þeirra Adorno og Max Horkheim- ers, Dialektik der Aufklärung (1947). Fyrstu setningar þeirrar bókar eiga reyndar vel við höfundarverk Amis: „Í almennu samhengi framsækinnar hugsunar hefur upplýsingin ávallt leitast eftir að frelsa mannkynið undan ótta og staðfesta fullveldi mannsins. Þrátt fyrir það einkennist hinn upplýsti heimur samtímans svo augljóslega af sigri hörmunga og þjáninga.“ Adorno er miðlægur í allri umfjöllun um póst- módernisma þar sem hann hafði mótandi áhrif á heimspekilegar forsendur póstmódernískrar hugsunar. Í Dialektik der Aufklärung halda þeir Adorno og Horkheimer því fram að hin upphafna „rökvísi“ upplýsingaraldarinnar, sem stefnt var gegn hjátrú og ætlað að reisa mann- inn sjálfan til öndvegis í sköpuninni, sé smætt- andi form af rökvísi, orðræða sem sjálf sé kúg- andi. Rökvísi upplýsingarinnar upphefur til- tekna tegund rökvísi, þ.e. Evrópumiðjaða teg- und hugsunar og vitundar, sem eðlilegt viðmið sem þröngva skuli upp á heiminn í heild, og er hún því einnig heimsvaldasinnuð og rasísk. Adorno og Horkheimer héldu því fram að „þekking og vald væru sama orðið“ áratugum á undan Michel Foucault. Staðhæfingu þeirra að „upplýsingin sé alræði“ má sjá sem grundvall- aratriði í stórum hluta póstmódernískrar hugs- unar þar sem eldri hugmyndafræði er hafnað, heildarlausnum sömuleiðis og notkun viðtek- inna hugmynda tortryggð. Umfjöllun Martins Amis um helförina í eftirmálanum að Time’s Arrow (1991) endurspeglar þessa hugsun, en skáldsagan lýsir voðaverkum nasista í öfugri tímaröð; fólk kemur út úr ofnunum, klæðir sig í fötin og gengur út. Þannig verður tíminn sjálfur og skilningur okkar á orsökum og afleiðingum viðfangsefni bókarinnar, en þetta segir Amis í eftirmálanum: „Glæpurinn var einstakur, ekki í grimmdinni, og ekki í heigulskapnum, heldur í stílnum – samblöndun hins frumstæða og hins nútímalega. Hann var, hvort tveggja í senn, við- urstyggilegur og „röklegur““. Frekar en að vera andstæða upplýsingarinnar er helförin eitt af andlitum hennar. Þegar talað er um skáld- sögur Amis sem póstmódernískar er því átt við annað og meira en stílbrögðin. Stíll bókanna tengist félagslegu viðhorfi höfundarins órjúfan- legum böndum. Á sama hátt er ekki hægt að greina fagur- fræðilegan póstmódernisma frá pólitískum póstmódernisma á auðveldan hátt. Söguleg þró- un, félagslegt umhverfi og tæknilegar umbylt- ingar nútímans hafa án efa mótað póstmódern- ísk viðhorf höfunda á borð við Amis. Rétt er líka að benda á að ýmsir kennimenn póstmódern- ismans skilgreina hugtakið einvörðungu út frá þessum þáttum. Sven Birkert hefur t.d. bent á þrjú atriði sem að hans mati einkenna hinn póstmóderníska veruleika: sálfræðileg og raun- veruleg nærvera kjarnorkuvopna og möguleik- inn á útrýmingu mannkyns sem umfram annað hefur mótað valdatafl stórveldanna síðan seinni heimsstyrjöld lauk; heildaráhrif færslu hins vestræna heims frá iðnvæðingu til upplýsinga- vinnslu; og gegnsýring vestrænna samfélaga af fjölmiðlum, sérstaklega sjónvarpi. Þessi atriði hafa öll grafið undan hugmynda- fræði upplýsingarinnar um sjálfræði mannsins, jafnvægi í heiminum og áhrifamátt einstak- lingsins. Í grein um ljóðskáldið Philip Larkin segir Martin Amis: „Larkin, sem einstaklingur, er sögulega aðskilinn frá okkur vegna breyt- inga sem orðið hafa á sjálfinu. Á hans tíma var maður það sem maður var, og ekkert meira var um það að segja. Þetta gerði menn óhagganlega og harða. Faðir minn var þannig en ekki ég. Ekkert okkar er svona. Það er svo mörg ólík öfl sem togast á um sjálf nútímamannsins.“ Þetta tengist gegnumgangandi viðfangsefni Amis, flöktandi sjálfsmyndum og ófullgerðu eðli sjálfsins. Skáldsaga Amis frá 1981, Other People, en nafnið vísar til staðhæfingar Jean- Paul Sartre um að helvíti sé annað fólk, er e.t.v. sterkasta dæmið um þetta. Sagan segir frá konu sem vaknar minnislaus í London nútímans og viðkynningu hennar af öðru fólki. „Þegar for- tíðin er gleymd,“ segir hinn dularfulli sögumað- ur bókarinnar, „er nútíðin ógleymanleg“. Öðru fremur fjallar verkið um enduruppbyggingu sjálfsins, eða tilraunina til þess, í raun er sagan tilvistarleg sakamálasaga þar sem lesandinn er í hlutverki rannsóknarmannsins. Aðalpersónan, sem tekur sér nafnið Mary Lamb, er hinn full- komni sakleysingi sem upplifir allt í fyrsta skipti. Þetta veitir höfundinum tækifæri til að búa til eins konar þekkingarfræðilega ráðgátu í framvindu sögunnar. Mary er ómeðvituð um eigið kynferði og kynhlutverk, rétt eins og allt annað, þegar hún vaknar fyrst til meðvitundar en uppgötvar fljótt hvernig samfélagið viðheld- ur fyrirframgefnum skilgreiningum. En á sama tíma breytist hún, vísbendingar eru gefnar um að persónuleiki Mary fyrir minnisleysið hafi verið öðruvísi en sá sem verður til í sögunni. Þarna vinnur Amis með ofangreinda hugmynd sína um að öflin sem móti nútímanninn séu of mörg og ólík til að heildstætt sjálf verði til. Titill ævisögunnar, Experience, og orð Amis um að reynsla sé sameiginlegur gjaldmiðill samtímans eru greinilega margræðari en ætla mætti í fyrstu. Og kaldhæðnari. Þetta er kannski lýsing á hinu póstmóderníska ástandi, öll erum við orðnir leikarar í miðluðum veru- leika hnattvæðingarinnar. En á sama tíma má kannski segja að raunveruleg, áþreifanleg reynsla verði sífellt fjarlægari eftir sem henni er miðlað í gegnum fleiri rafmagnstæki. Dæg- urmenningin er smám saman að verða viðmið okkar um veruleikann. Eða eins og Amis segir sjálfur: „Við höfum öll myndað okkur hugmynd um hvernig lífið eigi að vera – úr kvikmyndum, úr klámmyndum.“ Og líka bókum. Þess vegna eru höfundar eins og Martin Amis, sem skoða samtímann gagnrýnum augum, hafna yfir- borðskenndum skilgreiningum og viðteknum viðmiðum, sem sífellt kafa dýpra, svo afskap- lega mikilvægir. Feðgarnir og rithöfundarnir Martin og Kingsley á ljósmynd sem tekin var á öndverðum áttunda áratugnum. Spekin skín af þeim eldri. Sjálfsævisaga Martins Amis, Experience, birt- ist nýlega en í atkvæða- greiðslu breskra rithöf- unda var hún valin besta bók ársins 2000. Höfundur er bókmenntafræðingur. Martin Amis

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.