Lesbók Morgunblaðsins - 06.10.2001, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 06.10.2001, Blaðsíða 11
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 6. OKTÓBER 2001 11 biskupi vígður til prests 1185. Þorgeir bisk- upssonur var einn af hans bestu vinum, og fór hann utan til Noregs en lést á heimleið og varð mörgum harmdauði, ekki síst Guðmundi „…ok þat fell honum svá nær, at náliga mátti kalla, at hann skiptist í annan mann at mörgu eðli síð- an… Hann gerðist þá mikill trúmaðr í bæna- haldi ok tíðagerð ok harðrétti ok örlæti, at sumum mönnum þótti halda við vanstilli ok ætluðu, at hann mundi eigi bera mega allt sam- an, harðlífi sitt ok óyndi af andláti Þorgeirs“. Sýnist manni að þarna hafi orðið sú breyting á Guðmundi er hann bjó að alla tíð síðan. Tók að safnast að honum ómagafólk og fátæklingar og alþýða manna kallaði hann Guðmund góða. Eftir prestvígsluna er hann prestur á nokkrum stöðum í Skagafirði og nú fara að gerast ýmsir fyrirburðir kringum hann, sem yrði of langt upp að telja. Hann ferðast og vígir brunna víða um land og vatn, sem Guðmundur hafði vígt, læknaði sjúklinga og var einu sinni notað sem eldsneyti í stað lýsis. Þá er Guðmundur kall- aður til prestsþjónustu að Völlum í Svarfaðar- dal og er hann þá kominn á þær slóðir, sem við erum að ferðast um. Hrakningar Guðmundar góða á Heljardalsheiði 1193 Það var skömmu eftir jól að Guðmundur prestur á Völlum ætlaði til Hóla að heimsækja Brand biskup. Slóst margt manna í för með honum sem vant var, alls urðu þau 16, þar af fjórar konur og fjórir unglingar. Fólkið var misvel á sig komið og misvel búið, eins og títt var um fylgdarlið Guðmundar. Þau fóru fyrst fram að Skeiði, sem er framarlega í Svarfaðar- dal, gistu þar, og þegar búist var til ferðar morguninn eftir var Guðmundur beðinn að flýta bænagjörð. „En þat varð ekki svá, ok urðu tíðirnar seinni en aðrir vildu en skjótari en hann vildi...“ Er þau leggja loks af stað var veður „…þjökkt ok vátadrífa ok vindlítit, ok þótti öllum mönnum óteygiligt“. En er þau sækja á heiðina skellur á blindstórhríð úr vestri svo „…at ekki sá af tám fram, ok þá tekr at nátta“. Þegar Guðmundur er kominn á heið- ina bíður hann þeirra sem seinni voru, og ákveður að best sé að snúa til baka undan veðri og brekku. Hjónin Hrafnkell og Hallbera kom- ust þó áfram yfir heiðina við illan leik niður að bænum Heljardalsá í Kolbeinsdal. Í Byskupa- sögum er furðu nákvæm lýsing á lífsbaráttu þeirra sem sneru til baka. Helga frá Gröf fórst er hún lenti í gili og hljóp snjóflóð þar yfir (gæti verið við Kambagil, en þar er snjóflóðahætt). Ingjaldur sonur hennar villist frá fólkinu. Guð- mundur sveiflar sér úr kyrtlinum og lætur yfir meyna Unu, leiðir Jódísi fóstru sína, en Er- lendur prestur leiðir sveinana Vermund og Gest, sem báðir voru í miklu uppáhaldi hjá Guðmundi. Gestur lendir í á (líklega Svarfaðar- dalsá) og andaðist áður en menn fengu grafið hann í fönn. Una er síðan grafin í fönn vafin kirtli Guðmundar. Vermundur gefst upp, og andast í fangi Guðmundar meðan verið er að grafa hann í fönn, og fellur prestur afturábak með líkið í fanginu ofan á sér, en við hlið hans liggur Jódís fóstra hans, og gat hann leyft henni að hvíla höfuðið á handlegg sínum, svo að hana kæli ekki. Þannig finnast þau Jódís og Guðmundur lifandi morguninn eftir, en Una fannst lifandi tveimur dögum seinna og var til þess tekið að hana kól hvergi nema á tá einni sem stóð undan kyrtli prestsins. Ekki eru í sögunni rakin afdrif allra, en greint er frá and- láti fimm manna, fjögurra unglinga og einnar konu og fundust sum líkin ekki fyrr en næsta sumar. Það er athyglisvert að svo er tekið til orða í sögunni að Svarfdælir unnu Guðmundi svo mikið, „…at þeir þóttust hann hafa ór helju heimtan“, en Heljardalsheiði er stundum ein- mitt nefnd „Helja“. Niður Heljardal Göngumenn í pílagrímsgöngu árið 2000 halda nú áfram niður Heljardal, en austan Heljardals er mikið fjall og inn í það gengur víðáttumikil og falleg skál með jökulfönnum, nefnist hún Heljarskál og úr henni koma tveir lækir. Leið okkar liggur vestan ár niður á dal- inn miðjan og þurfti að vaða þrjá læki, og er þá komið niður á graslendi. Ráðgert var að fara yfir Heljará um miðjan dal, en nú hafði teygst nokkuð úr hópnum, þannig að sumir voru komnir lengra en ráðgert var. Leiðsögumaður var með NMT-síma sem öryggistæki og hafði samið við Árna bónda á Laufskálum í Hjaltadal um að koma á dráttarvél að Kolbeinsdalsánni og ferja menn yfir. En nú var síminn sam- bandslaus þarna inni í dalnum og ekki hægt að gefa bónda merki um hvenær hann ætti að mæta. Okkur til gleði sjáum við dráttarvél koma akandi slóðina upp Heljardalinn, og hafði Árni þá komið óræstur og miklu lengra en til var ætlast og gladdi það vegmóða göngumenn mjög að þurfa ekki að vaða Heljarána. Fór svo að hann kom yfir Heljarána, reyndar á slæmu vaði, þar sem hann sá til fyrstu göngumann- anna, en eina kvísl urðu menn að stökkva. Þeg- ar komið var yfir Heljarána hvíldust menn. Biskupstíð Guðmundar góða Mikill vinskapur og tengsl voru með Guð- mundi presti og Kolbeini Tumasyni Ásbirningi og ræður Kolbeinn því að Guðmundur er val- inn biskup 1201, þegar Brandur Hólabiskup deyr. Kolbeinn taldi að Guðmundur mundi verða sér leiðitamur. Settist biskup á Hólastól og upphófust strax deilur hans og Kolbeins, snerust þær aðallega um það, hvort kirkjan skyldi lúta kirkjulögum eða landslögum. Kol- beinn féll í Víðinesbardaga við menn biskups og alla biskupstíð Guðmundar héldust deilur hans við Ásbirninga og Sturlunga og yrði það of langt upp að telja hér. Var biskup oft hrak- inn af Hólastað, flæmdur og fluttur nauðugur um landið og þvældist hann víða um land og með honum misjafnt lið. Stóðu menn hans í bardögum við höfðingjana víða um land og var mesta orustan háð í Grímsey. Gegnir það furðu að maður, sem svo illa fótbrotnaði á yngri ár- um, skyldi ferðast svo mikið. Hann þurfti á fund erkibiskups í Niðarósi til að verja sig og var á síðustu árum ævinnar stofufangi á Hólum og lést þar árið 1237. Þegar lík hans var grafið upp og flutt til um öld síðar sáust stórir hnútar á leggnum. Æviferill Guðmundar er rakinn í Byskupa- sögum, en hann lét engin rit eftir sig. Víða um land lifa sögur af Guðmundi góða, vígslum hans og kraftaverkum, örnefni minna á hann og margar þjóðsögur tengjast honum. Guð- mundur var ástsæll af alþýðu og varð þjóð- ardýrlingur, þótt aldrei tækist að fá viðurkenn- ingu páfa á helgi hans. Göngulok Eftir stutta hvíld í Heljardal var fyrst geng- ið upp Smérbrekku og síðan niður brattar Heljarbrekkurnar, niður á eyrarnar við ármót- in. Á þessum slóðum sést móta fyrir tóftarbrot- um og er talið að þar hafi staðið bærinn Helj- ardalsá, er hjónin komust að árið 1193. Allir bæir í Kolbeinsdal eru nú komnir í eyði. Menn gengu niður á eyrarnar, en Árni ók vélinni, og þar beið heyvagninn. Fór allt liðið í vagninn og Árni ók varlega og af kunnáttu yfir ána, sem var í nokkrum vexti. Var nú komið á góða jeppaslóð út Kolbeinsdal en enn var um tveggja tíma ganga til Hóla yfir Hálsgróf utan við Elliða og er þá farið um hlað á eyðibýlinu Fjalli þar sem nú stendur veglegt gangna- mannahús. Nú voru komnir nokkrir bílar þar sem menn voru að sækja vini og kunningja og fóru sumir með bílum, aðrir í heyvagninum, en mestu garparnir gengu alla leið að Hólum, og lauk þessari ferð á 9 tímum. Á Hólum komust menn í mat, sund og heitan pott og þreytan leið fljótt úr mönnum. Daginn eftir, sunnudaginn 9. júlí, var svo fjölmenn messa í Hóladómkirkju í umsjá Glerársafnaðar og var séra Gunnlaugur býsna útitekinn fyrir altari, en sagðist hress og ánægður með ferðina. Lauk þar velheppnaðri pílagrímsgöngu í fótspor Guðmundar góða yfir Heljardalsheiði. Ljósmynd/Bjarni E. Guðleifsson Stiklað yfir Heljará. Höfundur er náttúrufræðingur, hann starfar hjá Rala á Möðruvöllum í Hörgárdal og er formaður Ferðafélagsins Hörgs. Hversu hratt mun Vatna- jökull bráðna á næstu árum? Svar: Áður en við ræðum hve hratt Vatna- jökull gæti bráðnað á komandi árum þarf að lýsa honum með nokkrum orðum. Vatnajök- ull er rúmlega 8.000 km² að flatarmáli og tæplega 500 m þykkur að meðaltali, en mest er hann 950 m þykkur. Hann hvílir á hásléttu sem er að mestu í 600–800 m hæð, en botn- inn fer niður fyrir sjávarmál og hæstu fjöll undir honum ná í 1.800 til 2.000 m hæð. Þó rísa aðeins um 10% af botni hans yfir 1.100 m hæð sem markar hæð snælínu á honum sunnanverðum. Hyrfi jökullinn myndi því að- eins setjast jökull á Bárðarbungu, Grímsfjall, Kverkfjöll og Öræfajökul við núverandi lofts- lag. Nú rís jökulskjöldurinn hins vegar hátt yfir botninn og um 60% af flatarmáli hans eru að jafnaði ofan snælínu; þar er safnsvæði jökulsins. Hann lifir því á eigin hæð. Þannig er ljóst að Vatnajökull myndaðist við mun kaldara loftslag en nú er hér á landi. Er talið að það hafi verið fyrir um 2500 árum. Raunvísindastofnun Háskólans og Lands- virkjun hafa í samstarfi mælt afkomu Vatna- jökuls hvert ár frá 1992. Á þeim tíma hefur hún sveiflast verulega. Fyrstu þrjú árin bætti jökullinn á sig sem nam 2,4 m af vatni jafndreifðu yfir hann allan. Næstu sex ár rýrnaði hann samanlangt um 3,1 m (0,5 m á ári). Á öllu tímabilinu, níu árum, rýrnaði hann því um 0,75 m (eða 6 km3 sem eru 0,15% af heildarrúmmmáli hans). Á þessum árum sveiflaðist snælína frá 1.000 m hæð upp í 1.400 m og stærð safnsvæðis frá 80% til 40% af flatarmáli jökulsins. Loks skal nefnt að rýr afkoma jökulsins nokkur síðustu ár hefur verið vegna lítillar snjókomu frekar en hlýrra sumra. Víkjum þá að spurningunni um hve hratt Vatnajökull gæti bráðnað á komandi árum. Fyrst skal bent á að Vatnajökull gæti enst nokkrar aldir þótt hann rýrni um tæpan metra á áratug eins og hann gerði undir lok 20. aldar. Rýrni hann hins vegar jafnhratt og á árunum eftir miðjan tíunda áratuginn myndi hann láta mjög á sjá á næstu tveimur öldum. Rýrnunin ykist hratt eftir því sem jökullinn lækkaði. Líkanareikningar benda til þess að skriðjöklarnir sunnan í jöklinum (Breiðamerkurjökull og Skeiðarárjökull) myndu eyðast fyrst en norður- og vest- urhlutinn (Brúarjökull, Dyngjujökull og Síðujökull) endast lengur. Þá gæti Breiða- merkurjökull hopað um 20 km á næstu tveimur öldum, upp að rótum Esjufjalla, og þangað næði Jökulsárlón. Hlýni á næstu ára- tugum, eins og margir loftslagsfræðingar spá, eða snjósöfnun bregðist vegna þess að lægðabrautir flytjast til, yrði rýrnun Vatna- jökuls enn hraðari. Fari svo gæti verið fædd- ur hér á landi sá sem fyrstur siglir til Esju- fjalla. Helgi Björnsson jarðeðlisfræðingur Hvað lifa iglur (blóðsugur) lengi og hvernig fjölga þær sér? Svar: Iglur (Hirudinea) eru oft kallaðar blóðsugur á íslensku. Í raun er þó aðeins lít- ill hluti iglna sem tilheyrir ytri sníkjudýrum, en stór hluti þeirra 500 tegunda sem lýst hefur verið lifir annars konar ránlífi. Flestar tegundir iglna finnast í ferskvatni en einnig lifa þær í sjó og einhverjar tegundir finnast á þurrlendi, þó aðallega þar sem mikill raki er, til dæmis í mýrlendi. Allar iglur eru tvíkynja, þannig að hver fullorðinn einstaklingur hefur bæði karl- og kvenkyns æxlunarfæri. Við mök skiptast tveir einstaklingar á sæði og þannig verður víxlfrjóvgun. Dýrin hafa nokkurs konar getn- aðarlim sem flytur sæðið í kynop hins dýrs- ins en frjóvgunin sjálf fer fram innvortis, sem er ólíkt því sem gerist á meðal ána- maðka (oligochaete), en annars er margt líkt með æxlunarkerfi iglna og ána. Eggin eru í hylkjum, líkt og hjá ánamöðkum, en í hverju hylki geta verið nokkur egg. Sem dæmi má nefna norður-amerísku tegundina Erpobdella punctata en hjá henni eru fimm egg í hverju hylki og venjulega framleiðir hún tíu egghylki sem hún verpir 3–4 vikum eftir æxlun. Í hverju hylki er einnig næringarefni á borð við albúmín sem nýtist nýklöktu ungvið- inu í einhverja daga áður en það brýst út úr egghylkinu. Sumar tegundir, eins og Piscicola geometra (mynd 1), sem lifa sníkjulífi festa egghylkin við hýsla sína. Annars er það frek- ar regla en undantekning að þær iglur sem lifa sníkjulífi yfirgefi hýsla sína á meðan þær verpa eggjum sínum. Einnig þekkist meðal nokkurra tegunda að foreldri festi egghylkin við líkama sinn. Það er breytilegt eftir tegundum hve lang- ur tími líður frá mökum og þar til eggjunum er verpt. Hjá sumum tegundum líða aðeins tveir dagar en hjá öðrum nokkrir mánuðir. Sú iglutegund sem við könnumst eflaust flest við er tegundin Hirudo medicinalis (læknablóðsuga) sem notuð hefur verið við lækningar í árþúsundir (mynd 2). Tegund þessi er sníkjudýr á spendýrum, þar á meðal mönnum, og fannst áður víðs vegar um Evr- ópu en er nú ákaflega sjaldgæf í náttúrunni. Dýrið hefur tvær sogskálar sem það notar til að festa sig við húð fórnarlambsins og bítur sig í gegnum hana með kröftugum kjálkum til að ná til blóðrásarinnar. Læknablóðsugan hefur þrjá kjálka sem hún beitir stíft á meðan hún sýgur blóð fórnarlambsins en óáreitt hangir hún í 30–40 mínútur og sýgur 10–15 ml af blóði. Við slíka máltíð stækkar hún 8– 11-falt og er södd í hálft ár, en það er tíminn sem það tekur að fullmelta þetta magn af blóði. Aðeins fullorðin dýr lifa með þessum hætti á spendýrum en ungviðin sækja í frosk- dýr þar sem kjálkar þeirra eru ekki orðnir nægilega sterkir til að vinna á húð spendýra. Erfitt hefur reynst að finna upplýsingar um hve lengi iglur lifa og á það reyndar líka við um marga aðra hryggleysingja. Svo virðist sem mönnum finnist það ekki nógu áhugavert rannsóknarefni. Ef við komumst yfir upplýs- ingar um málið munum við að sjálfsögðu birta þær. Jón Már Halldórsson. HVERSU HRATT MUN VATNA- JÖKULL BRÁÐNA? Í vikunni sem er að líða fjallaði Vísindavefurinn meðal annars um hvert norrænir ásatrúarmenn leituðu til lækninga, hver saga súkkulaðisins er, hvaða Danakonungur gaf Íslendingum sjálfstæði, í hvaða orðflokkum orðin plús, mínus og sinnum eru og hvort eitthvað er til í því að nafnorðið peysa sé franskt að uppruna. VÍSINDI Hirudo medicinalis, læknablóðsuga.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.