Lesbók Morgunblaðsins - 30.11.2002, Blaðsíða 8

Lesbók Morgunblaðsins - 30.11.2002, Blaðsíða 8
8 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 30. NÓVEMBER 2002 Ég er orðinn svo þreyttur á íslenskum enskurappandi mönnum, það er kominn tími til að þú sjáir að þú átt aldrei eftir að verða frægur í útlöndum, þú talar um bíf en þú gætir ekki einu sinni battlað Greifana, þú ert eins og þú sért með psoriasis því þú getur aldrei meikað það, þú feikar það, eins og Wu-Tang bolir í Jónas á milli, og þegar þú rappar þá get ég bara hugsað um að takturinn fer til spillis, ég tryllist. Að þið haldið að það sé nóg að rappa um „kíp it ríl“, tónlist er um hæfileika, en ekki enskuslettur, lífs og fatastíl! Þ ETTA textabrot er ættað úr laginu Við erum topp með XXX Rottweilerhund- um frá 2001. Rottweilerhundarnir vöktu umtalsverða athygli þegar þeir stigu fram á sjónarsviðið fyrir að rappa aðallega á íslensku en fram að því höfðu íslenskir rapparar mestmegnis notað ensku. Reyndar gaf Sesar A út plötuna Stormurinn á eftir logninu um svipað leyti en hún er talin fyrsta íslenska rappplatan eingöngu á ís- lensku. Núna er rappsviðið gerbreytt; á nýrri rapp- skífu sem út kom í sumar, Rímnamíni, eru öll lögin röppuð á íslensku. Ennfremur hafa tengsl rímna og rapps orðið nánari eins og sást t.d. á athyglisverðri dagskrá á síðustu menningarnótt þar sem gerð var tilraun með samruna þessara forma en hún hefur nú verið gefin út á geisladiski. Samfélagsspegill Málverndarmenn hafa löngum haft nokkrar áhyggjur af stöðu íslenskunnar innan dægurmenn- ingar. Nefna má sem dæmi greinina „Eru Íslendingar að verða tvítyngdir?“ eftir Kristján Árnason frá 1997 þar sem hann ræðir þá hættu sem íslenskri tungu kann að stafa af ensku. Einkum nefnir Kristján skemmtanaiðnað og tómstundir, telur að þar séu ensk áhrif einna mest og nefnir sem dæmi íslenska dæg- urlagatónlist sem sungin er á ensku. Þetta á vissulega við rök að styðjast en augljóslega er staða íslenskunnar innan dægurlagatónlistar sveiflukennd ef miða á við rappið sem er líklega frjóasti vaxtarbroddur íslenskrar dægurtónlistar um þessar mundir. Þar hefur íslenskan unnið umdæmis- sigur þar sem margir vinsælastu tónlistarmenn landsins rappa á íslensku. Í textabrotinu hér að ofan gagnrýna Rottweilerhundarnir þá sem rappa á ensku harkalega. Þeir sletta reyndar sjálfir en íslenskan er aðalmál þeirra og það er meginatriðið. Segja má að í rappinu fái tungumálið nýtt hlutverk; í rappinu eru ensk orð tekin og aðlöguð málinu en orðaforðinn er að megninu til íslenskur, notast er við rím og textarnir vísa í íslenskt samfélag og íslenskan menningarheim sem er ekki síður mikilvægt. Rapp hefur síðan tekið að renna saman við rímur að und- anförnu, t.a.m. í lögum eins og Púsl þar sem Sesar A og gamla brýnið Skapti Ólafsson leiða saman hesta sína. Fáar tónlistargreinar samtímans gagnrýna ensku- skotið samfélag nútímans eins harkalega og sést á þessu textabroti í laginu BlazRoca Achbar með Rott- weilerhundunum þar sem sögusviðið er íslenskt og um leið tengt æskumenningu okkar tíma þar sem þumalputtakynslóðin svokallaða spilar snake í síman- um sínum: Eden er hamborgaraknæpa með starfsfólki sem slefar bara snákar, engin Eva þess vegna er ég með rauðan fána og steyttan hnefa erfiður að kyngja svo þeir kalla mig sannleik starta byltingu gegnum gemsann meðan þú spilar snake. Í framhaldi af þessu má velta því upp hvort íslensk tunga sé að vinna umdæmissigra með því að verða auðmagn í neðanjarðarmenningu (e. subcultural capi- tal). Franski heimspekingurinn Pierre Bourdieu skil- greindi menningarlegt auðmagn svo að það sé þekk- ing á ýmiss konar efnivið menningarinnar (tungumálið, listform, orðræðu valdsins, t.d. trú, lög, tækni o.s.frv.) og hæfni til að vinna með þennan efni- við. Í þessu felst einnig að deila smekk með ríkjandi valdhöfum og bera skynbragð á það sem þeim finnst mikilvægt (ágæta skilgreiningu á þessum kenningum Bourdieus má finna hjá Torfa H. Tulinius: „Snorri og bræður hans.“). Í dægurmenningu hefur síðan verið fundið upp hugtakið auðmagn neðanjarðarmenningar sem felst einmitt í því að hafa vit á efnivið menningarinnar en vera í andstöðu við ríkjandi valdhafa, t.d. með því að hafna því sem er söluvænlegt eða fylgir meirihlut- anum (Sanjek: „Institutions.“). Þannig má spyrja hvort Rottweilerhundar velji að rappa á íslensku til að sýna vit sitt á auðmagni neðanjarðarmenningar en rapp hefur að megninu til verið á ensku hingað til og íslenskt rapp ekki þótt söluvænlegt. Auðmagn neð- anjarðarmenningar endar þó yfirleitt sem hefðbundið menningarlegt auðmagn um leið og það nær vinsæld- um. Ólík notkunarsvið tungumálsins Kristján Árnason („Eru Íslendingar að verða tví- tyngdir?“) hefur bent á að verkaskipting tungumála þarf ekki að ráðast af samfélagshópum heldur af að- stæðum – þannig skipti tungumál mannlífinu einfald- lega á milli sín. Myndast geta venjur; annað tungu- málið er þá notað við tilteknar aðstæður en hitt við aðrar. Þá vakna margar spurningar; t.d. hvaða svið mannlífsins hvor tungan helgar sér. Kristján hefur einnig rætt stöðu tungunnar í fræðasamfélaginu („Landið, þjóðin, tungan – og fræðin.“) og bent á þann möguleika að enska verði tekin upp í stað íslensku af svokölluðum hagkvæmnis- ástæðum, t.d. í stjórnsýslu, atvinnulífi og menntakerf- inu. Hann telur þó að staða íslenskunnar sé enn sterk og reynslan sýni að menningarleg þjóðernishyggja sé býsna öflug. Kristján hefur rætt Háskóla Íslands sérstaklega („Íslenska í æðri menntun og vísindum.“) og hefur bent á að þar þurfi ekki nema einn erlendan nema í kennslustund til að allir tjái sig á ensku og skiptir þá ekki máli hvort enska er móðurmál nemandans eða ekki. Hann varpar einnig fram þeirri spurningu hvort slík viðskipti séu á jafnréttisgrundvelli því íslenskir nemendur sem fara til útlanda í nám þurfa oftast að læra viðkomandi tungumál og hvergi er þeim kennt á íslensku. „Alþjóðleg“ fræði Nú er það orðin opinber stefna Háskóla Íslands að fjölga námskeiðum á ensku, einkum í framhaldsnámi. Þetta má t.d. lesa á heimasíðu skólans (www.hi.is/ stjorn/rektor/Frettir/hi2002-2005.pdf). Þetta á að gera háskólann alþjóðlegri og laða að fleiri erlenda nemendur. Enn sem komið er eru fá námskeið kennd á ensku; t.d. hefur Ari Páli Kristinsson kannað þessi mál („Utredning om de nordiske språkenes domener og det siste tiårs språkpolitiske initiativ.“) og taldist honum til að 1,6% allra námskeiða við Háskólann væru kennd á ensku miðað við Kennsluskrá fyrir vet- urinn 2000 til 2001 og er það ekki hátt hlutfall. Ekki eru námskeið kennd á öðrum erlendum tungumálum en ensku að neinu ráði. En hneigðin er ótvírætt fyrir hendi og stefnan er að fjölga þessum námskeiðum um nánast helming fyrir haustið 2003. Þá má spyrja sig hver staða íslenskunnar verður í fræðiheiminum ef stærsti háskóli landsins ákveður að kenna æ meir á ensku. Háskóli Íslands er tvímælalaust stærsta rann- sóknastofnun á Íslandi. Þar störfuðu u.þ.b. 830 manns 1. september 2001 og á sama tíma voru u.þ.b. 7.280 stúdentar skráðir þar til náms samkvæmt heimasíðu skólans (www.hi.is). Ekki er kveðið á um neitt sér- stakt hlutverk Háskóla Íslands gagnvart íslensku máli í lögum um skólann nr. 41 frá 1999. Engin eig- inleg málstefna er til í stofnuninni. Hins vegar er það opinber stefna skólans að fjölga námskeiðum á ensku til að laða að fleiri erlenda nema. Þannig geta erlendir nemendur komið hingað og sloppið við að læra ís- lensku með því að taka námskeið á ensku. Vissulega er það jákvætt að styrkja stöðu Háskóla Íslands á alþjóðavettvangi með því að fjölga erlendum nemendum og kennurum. Hins vegar er ljóst að mið- að við núverandi námsframboð á meistarastigi er mjög þrengt að skólanum fjárhagslega. Óraunhæft er að halda að tvöfalt námsframboð verði á meistara- stigi, þ.e. á ensku og íslensku. Því er full ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu íslenskunnar innan fræðanna og nauðsynlegt að staldra við og íhuga málið. Margir hafa haldið því fram að enska sé framtíð- armál fræðanna og í framtíðinni fari vísindastarf heimsins fram á heimsmálinu ensku. Meðal þeirra er Rúnar Vilhjámsson, prófessor í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands, sem setti fram eftirfarandi sögu- skoðun í viðtali sem bar yfirskriftina „Vísindi í eðli sínu alþjóðleg“ og birtist í Morgunblaðinu árið 2001: „Með þjóðernisstefnu 19. aldar kom afturkippur í al- þjóðlega þróun vísinda um leið og sú krafa var gerð að vísindamenn skrifuðu á móðurmáli sínu.“ Rúnar telur að þá hafi vísindamenn einangrast og gagnrýni á verk þeirra og áhrif þeirra á umheiminn orðið minni. Hann spáir því að þegar menn skrifi „strangfræðileg“ í hug- og félagsvísindum í framtíð- inni eigi þeir eftir að skrifa á ensku. Á bak við þessa skoðun býr vitaskuld þjóðhverf (etnósentrísk) heims- mynd þar sem gert er ráð fyrir að tungumál nýlendu- velda séu „alþjóðlegri“ en önnur tungumál. Nú á dög- um er það tunga Bandaríkjanna sem er skilgreind sem alþjóðamál. Kristján Árnason hefur gert athugasemdir við söguskoðun Rúnars („Málstefna 21. aldar.“) og bend- ir á að sagnfræðingar almennt telji 19. öldina eitt mesta blómaskeið vísinda og þá hafi verið lagður grunnur að tækniþróun 20. aldar. Hann kveður um- mæli prófessorsins „vægast sagt furðuleg“. Einnig má velta því fyrir sér hvort ástæða sé til að láta eins og enska sé eina alþjóðamálið í heiminum. Er ekki líklegt að ef Háskóli Íslands byði upp á námskeið á frönsku, spænsku, rússnesku eða arabísku myndi námsmönnum sem leituðu til Íslands frá stórum mál- svæðum í heiminum fjölga verulega? Það gerði Há- skólann alþjóðlegan í raun, ekki aðeins tvítyngdan. En það myndi vissulega kosta fé. Ari Páll Kristinsson telur að staðan sé þó ólík í eldri háskólum á borð við Háskóla Íslands og Kennarahá- skóla Íslands og nefnir heimasíður þeirra sem dæmi en þær nefnast www.hi.is og www.khi.is. Heimasíður nýrri háskóla bera enskuvæðingunni hins vegar skýrt vitni. Heimasíða Háskólans í Reykjavík kallast www.ru.is og heimasíða Háskólans á Akureyri heitir www.unak.is. Heimasíða síðarnefnda skólans þarf ekki að koma á óvart en í grein Ara („U de nordiske språkenes domener og d språkpolitiske initiativ.“) kemur fram a Þorsteinn Gunnarsson, hefur lýst því yf arsýn hans sé sú að meira verði kennt lenskum háskólum. Ástandið í Svíþjóð virðist sambærileg menn áhyggjur af því að sænskan miss smám saman til enskunnar og verði mi eigin landi. Þessarar þróunar hefur eink innan raun- og náttúruvísinda. Þar líta m til Íslands sem fyrirmyndar og telja að FJÖLNISME VORRA DA Hver er staða íslenskrar tungu í Háskóla Íslands? Í þ grein er því haldið fram að minni ástæða sé til þes óttast um stöðu íslenskunnar í afþreyingarmenning þar sem rapparar eru farnir að tjá sig á því ástkæ ylhýra, en stöðu hennar í Háskólanum. Morgu Hver er framtíð tungunnar í Háskóla Íslands? ÍSLENSKA Í RAPPI OG FRÆÐUM E F T I R K AT R Í N U J A K O B S D Ó T T U R

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.