Lesbók Morgunblaðsins - 30.11.2002, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 30.11.2002, Blaðsíða 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 30. NÓVEMBER 2002 ÞORSTEINN Gylfason, prófessor í heim- speki við Háskóla Íslands, var nemandi Rawls. Þorsteinn segir, að Kenning um réttlæti hafi verið tímamótaverk að mörgu leyti. Hún hafi vakið stjórnspeki í heim- inum úr hálfgerðu dái. „Hún var uppreisnarrit gegn viðtekinni nytjastefnu bæði í stjórnspeki og sið- fræði,“ segir Þorsteinn. „Hún beitti ný- stárlegum aðferðum til að komast að nið- urstöðum um þjóðfélagslegt réttlæti, þar á meðal þrautfáguðum aðferðum ákvörð- unarfræðinga og hagfræðinga – sem höfðu þó leitt réttlæti og ranglæti alveg hjá sér. Hún vakti til nýs lífs gamla hefð úr sögu stjórnspekinnar, svonefndar sátt- málakenningar sem telja hvert samfélag manna reist á eins konar samningi. Hún bar fram ný og máttug rök fyrir frelsi (mannréttindum), og krassandi hugmyndir um jöfnuð sem höfuðprýði á réttlátu sam- félagi. Samkvæmt Rawls getur ójöfnuður í samfélagi aðeins orðið réttlátur með einu móti: að hann sé þeim til mestra hagsbóta sem verst hafa kjörin. Ekkert annað skipti máli fyrir rétt- lætið.“ Þorsteinn sat, veturinn 1963–1964, námskeið hjá Rawls um þýska hughyggju, án þess að taka próf. „Hann var með afbrigðum samviskusamur kennari. Á þessum árum hafði hann birt tvær eða þrjár ritgerðir um réttlæti og þær voru eitt helsta umræðuefni okkar stúd- enta í heimspeki á Harvard. Við höfðum á tilfinningunni að þær mörkuðu tímamót. En ég held að fæst okkar hafi talað um þær við hann. Hann var svolítið fjarlægur þótt hann væri ekki nema rúmlega fertugur. Ég talaði svolítið um hugmyndirnar við umsjónarkennarann minn sem var nánasti vinur og sam- verkamaður Rawls í áratugi. Löngu síðar hlustaði ég á Rawls á heilu námskeiði um réttlæti. Það var á Harvard vormisserið 1988. Þar reyndi hann að betrumbæta hug- myndir sínar í Kenningu um réttlæti á ýmsa lund, meðal annars í ljósi gagnrýni starfs- systkina sinna sem aldrei hafði vantað. Á þessu misseri kynntist ég honum lítillega sjálfum og talaði meðal ann- ars við hann um BA-ritgerð sem Birgir Hermannsson, nemandi minn í Reykjavík, var að skrifa um hann. Rawls var mjög hæglátur maður. Hann virtist vera feiminn og fremur óstyrkur í fram- komu.“ Þorsteinn segist ekki muna eftir því að Rawls hafi látið eitthvað uppi um hvernig hann hafi séð stöðu sína innan heimspek- innar. „Ég held að það hafi verið víðs fjarri honum að hugsa um svoleiðis hluti. Hann vann bara sitt verk.“ „SAMVISKUSAMUR KENNARI“ Þorsteinn Gylfason Þ AÐ hefur verið sagt um John Rawls að hann hafi valdið bylt- ingu í heimspeki. Þetta hljómar einhvernveginn ósennilega – maðurinn á myndinni hér til hlið- ar (sem var tekin í mars 1990) lít- ur ekki út fyrir að vera bylting- armaður. En hvaða bylting var það þá sem Rawls olli? Með skrifum sínum – þar tvímælalaust fræg- ustum bókinni Kenning um réttlæti (A Theory of Justice) – sneri hann heimspekinni aftur að spurningunum sem hún í upphafi fékkst við, spurningum um rétt og rangt, gott og vont, það er að segja siðferðilegum spurningum. Byltingarmaðurinn John Rawls lést á sunnu- daginn, 81 árs að aldri. Talsmaður Harvard-há- skóla, þar sem Rawls var lengst af prófessor, staðfesti tíðindin, en fréttastofan Associated Press segir ekkert hafa verið látið uppi um dán- arorsökina. Þó væri vitað að Rawls hefði fengið röð heilaáfalla síðan um miðjan síðasta áratug, þótt hann hafi haldið áfram að skrifa og birta skrif sín fram á síðasta dag. Í eftirmælum um Rawls, sem AP sendi út á mánudagskvöldið, segir ennfremur að Rawls hafi með byltingu sinni „bjargað“ heimspekinni frá rökfræði- og vísindaspekispurningunum sem hún hafi verið orðin gagntekin af. Það er vísast að einhverjum þyki það hafa verið bjarn- argreiði. Ráðandi afl í heimspeki Kenning um réttlæti kom fyrst út 1971 og þrjátíu og eitt ár er stuttur tími í fræðaheim- inum – að ekki sé nú minnst á í heimspekisög- unni – og því of snemmt að segja til um hvort það hafi verið heillaspor sem Rawls steig með þessari byltingu eða bara smáfeilspor sem heimspekin verði tiltölulega fljót að leiðrétta og jafna sig á. En hinu verður ekki neitað að nafn Rawls trónir nú hærra en flest önnur nöfn í heimspeki Vesturlanda og allir sem koma nálægt því fagi verða að taka afstöðu til Rawls eða að minnsta kosti kunna hann til prófs. Því má hiklaust segja að hann sé ráðandi afl í heimspeki nú um stund- ir, hvað svo sem seinna kann að verða. „Siðfræðingar og stjórnmálaheimspekingar gerðu sér fljótlega grein fyrir því að nú varð maður annaðhvort að vinna samkvæmt kenn- ingu Rawls eða útskýra hvers vegna maður kaus að gera það ekki,“ sagði fyrrverandi nem- andi hans, Andreas Föllesdal, í grein sem hann skrifaði í tilefni af áttræðisafmæli Rawls í fyrra og birtist hér í Lesbók (24. febrúar). „Skrif hans munu ekki gleymast næstu ára- tugina eða næstu aldirnar, held ég,“ hefur AP eftir Hilary Putnam, kollega Rawls við Har- vard. Og Joshua Cohen, prófessor við Massachusetts Institute of Technology, segir um mikilvægi kenninga Rawls: „Hann tengdi heimspekina við lýðræðið.“ Réttlátt samfélag Kenning um réttlæti fjallar um það hvernig megi best skipuleggja mannlegt samfélag. Föl- lesdal segir að Rawls telji „að það sem ráði úr- slitum um réttlátt samfélag sé það hvernig þeir verst settu hafa það“. Þarna mætti byggja á til- tölulega einfaldri reglu, sem höfundur eftirmæl- anna frá AP segir að hafi verið nefnd „Rawls- prófið“, og er svona: Skipulagið þarf að vera þannig, að þeir sem mest mega sín myndu sam- þykkja það, vitandi að þeir kynnu á hverri stundu að lenda sjálfir í sporum þeirra sem minnst mega sín. En þetta eru einungis óhlutbundnar reglur, hugmyndir á bók. Hvernig myndu þær skila sér í raunveruleikanum? Föllesdal segir að Rawls hafi hafnað bæði algeru markaðsfrelsi og líka fullkomnum jöfnuði. „Í staðinn telur hann að stofnanir samfélagsins verði að tryggja jafnar ævitekjur óháð samfélagsstöðu, nema hagur þeirra verst settu verði bættur með því að ein- hverjir hafi hærri laun og stækki þannig „þjóð- arkökuna“. Hærri laun fyrir sum störf eru því réttlætanleg, en aðeins ef slíkur launaauki er nauðsynlegur til að gera minnstu sneiðina af þjóðarkökunni eins stóra og hægt er.“ Illska mannanna Rawls var Bandaríkjamaður, fæddur í Balti- more og nam við Princeton-háskóla. Hann var ekki bara á kafi í bókum og til marks um það hefur verið haft að honum bauðst einhverju sinni að gerast atvinnumaður í hafnabolta. Ekki fylgir sögunni hvort hann íhugaði alvarlega að taka því boði. Á árum seinni heimsstyrjaldarinnar barðist hann á Kyrrahafsvígstöðvunum. „Þar gerði hann sér grein fyrir því hvað mannskepnan get- ur unnið mikil illvirki,“ segir í eftirmælunum frá AP. Samt hefði Rawls alla ævi búið yfir því sem hann hefði kallað „raunsæja staðleysuhyggju“, og verið bjartsýnn á að mannkyninu gæti farið fram – og ekki bara í kenningasmíð. ÓSENNILEGI BYLT- INGARMAÐURINN Bandaríski heimspeking- urinn John Rawls, sem lést sl. sunnudag, var einn áhrifamesti fræðamaður síðustu aldar. KRISTJÁN G. ARNGRÍMSSON greinir hér frá Rawls og hugmyndum hans um réttlátt samfélag. kga@mbl.isReutersJohn Rawls. Hann kvaðst vera „raunsær staðleysuhyggjusinni“. Hlutskipti þeirra sem hafa það verst er í rauninni það eina sem skiptir máli þeg- ar skorið er úr um hvort samfélag er réttlátt eða ekki, að mati Rawls

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.