Lesbók Morgunblaðsins - 30.11.2002, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 30.11.2002, Blaðsíða 11
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 30. NÓVEMBER 2002 11 Hvaða áhrif hefur súkkulaði á líkamann? SVAR: Súkkulaði er gert úr kakóbaunum sem vaxa í fræpokum á kakótrénu, Theobroma cacao , en gríska orðið „theobroma“ má út- leggja sem „fæða guðanna“. Súkkulaði hefur verið til í þúsundir ára, en áður fyrr var þess einkum neytt í fljótandi formi súkku- laðidrykkjar. Það var ekki fyrr en um miðja nítjándu öld, þegar tókst að vinna kakósmjör úr kakóbaunum, að farið var að framleiða súkkulaði á föstu formi, eins og við þekkjum það í dag. Kakósmjör er eitt mikilvægasta innihaldsefni súkkulaðis, auk malaðra kakó- bauna, sykurs og bragðefna, en í ljóst súkku- laði er einnig notað mjólkurduft, og er slíkt súkkulaði nefnt mjólkursúkkulaði eða rjóma- súkkulaði. Fyrstu áhrif súkkulaðineyslu eru þau að meltingarfærin brjóta efnasambönd í súkku- laðinu niður í frásoganlegar einingar sem eru síðan frásogaðar í frumum smáþarma til flutn- ings í blóðrás. Þetta má kalla hefðbundin áhrif fæðuneyslu á líkamann, hann byrjar alltaf að melta fæðuna og frásoga úr henni næring- arefni og önnur efni. Súkkulaði er mjög orkuríkt og yfir 30% af innihaldi þess eru fita. Rúmlega helmingur af fitunni í súkkulaði er mettuð, en rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl neyslu mettaðrar fitu við hjarta- og æðasjúkdóma og þess vegna má álykta að óhófleg súkkulaðineysla sé varasöm. Meðal eiginleika fitunnar í súkkulaði (sem kemur að miklu leyti frá kakósmjöri) er að bræðslumark hennar liggur rétt undir venju- legum líkamshita. Súkkulaði helst þess vegna á föstu formi við stofuhita, en bráðnar í munni. Þessum eiginleika hefur verið eignað að tölu- verðu leyti hin gómsætu og aðlaðandi áhrif súkkulaðis, ásamt sætu bragði frá sykri, sem er 40–50% af innihaldi súkkulaðis. Þetta mikla sykurinnihald á sinn þátt í hve orkuþétt súkkulaði er, á kostnað næringarþéttleika, auk þess að eiga þátt í myndun tannskemmda. Þrátt fyrir þetta inniheldur súkkulaði ýmis vítamín og steinefni. Dökkt súkkulaði er ágæt- is uppspretta járns, magnesíums og kopars og inniheldur einnig eitthvað af B-vítamínum. Í ljóst súkkulaði bætast svo þau næringarefni sem mjólk er rík af, svo sem kalk og meira af B-vítamínum, en það rýrist hins vegar af járni, þar sem mjólk er lélegur járngjafi. Auk þekktra næringarefna inniheldur súkkulaði hátt í 300 önnur efnasambönd, sem eiga flest uppruna sinn í kakóbauninni og hafa margs konar virkni og áhrif, sem eru einungis að litlu leyti þekkt í dag. Meðal þessara efna má nefna koffín og þeóbrómín (e. theobrom- ine), sem tilheyra bæði flokki metýlxanþína (e. methylxanthines). Koffín er vel þekkt örvandi efni, meðal annars úr kaffi, sem örvar tauga- kerfið og dregur úr áhrifum þreytu, en magn þess í súkkulaði getur verið umtalsvert. Þetta á þó sérstaklega við um dökkt súkkulaði, en koffínið á rætur að rekja til kakóplöntunnar. Þeóbrómín er skylt koffíni og hefur einnig áhrif til örvunar, en það örvar vöðva og víkkun æða. Sagan segir að Astekar til forna hafi not- að þetta efni sem nokkurs konar náttúrulega útgáfu af stinningarlyfinu Viagra. Súkkulaði inniheldur fleiri efni sem hafa áhrif á líkamann, eins og „ástarlyfið“ tryptóf- an , en það er amínósýra sem er notuð í fram- leiðslu á taugaboðefninu serótónín , en í háum styrk getur það kallað fram gleðitilfinningu og jafnvel ofsagleði. Annað efni í súkkulaði, fenýl- etýlamín , getur örvað gleðistöðvar í heilanum og aukið tilfinningar á borð við aðlöðun og kynferðislega spennu. Það ber þó að hafa í huga að mörg önnur matvæli innihalda þessi efni og þau eru aðeins í litlu magni í súkkulaði. Vísindamenn telja því ólíklegt að súkku- laðineysla framkalli þessi áhrif sem nefnd eru hér að ofan. Meðal annarra athyglisverðra efna í súkku- laði er anandamíð, en það er taugaboðefni sem hefur áhrif á sömu heilastöðvar og virka efnið í kannabisplöntunni. Þetta efni er einnig í litlum styrk í súkkulaði og neysla þess þyrfti að vera nokkur kílógrömm á dag til að hafa áhrif á eðli- legan styrk anandamíðs í heila. Á móti kemur að súkkulaði inniheldur tvö önnur efnasambönd sem virðast hægja á niðurbroti anandamíðs, og þessi efni gætu hugsanlega framlengt áhrif an- andamíðs í heilanum. Það sem hins vegar hefur vakið mesta um- ræðu um súkkulaði og mögulega hollustu þess eru fjölfenólar. Þetta er fjölbreyttur hópur efna, sem er víða til staðar í jurtaríkinu og fæst því fyrst og fremst úr ávöxtum og grænmeti, en einnig úr öðrum afurðum, eins og til dæmis rauðvíni og einmitt kakóbaunum. Heilsu- samlega eiginleika fenólsambanda má meðal annars rekja til andoxunareiginleika þeirra, og þannig geta þau meðal annars haft hjarta- verndandi áhrif, öfugt við mettuðu fituna í súkkulaði. Töluvert magn fenólsambanda er að finna í súkkulaði, meira í dekkra súkkulaði þar sem kakómassinn er meiri og mest er í ósætu kakói. Reyndar er það svo að dökkt súkkulaði inniheldur meira af fenólum en rauðvín og þannig mætti færa rök fyrir því að ráðleggja fólki að borða dálítið dökkt súkkulaði rétt eins og sumir ráðleggja hóflega rauðvínsdrykkju. Eins og sjá má af upptalningunni hér að of- an, er í súkkulaði að finna fjöldann allan af efnasamböndum sem geta haft margvísleg áhrif á líkamann, allt frá hinum hjartavænu fe- nólum til „ástarlyfsins“ tryptófans og „stinn- ingarlyfsins“ þeóbrómíns. Hins vegar má ekki gleyma að súkkulaði er mjög orkuríkt og inni- heldur mikið af mettaðri fitu. Í 100 grömmum (sem jafngildir einni súkkulaðiplötu) eru yfir 500 hitaeiningar (kcal), sem samsvarar rúm- lega ¼ af daglegri orkuneyslu kvenna í síðustu landskönnun. Jákvætt orkujafnvægi, það er þegar orkuneysla er umfram orkuþörf, getur til lengri tíma litið leitt til þyngdaraukningar og offitu. Því er mikilvægt að neyta orku- og fitu- ríkra matvæla á borð við súkkulaði í hófi, en þó er engin ástæða til að neita sér alveg um þessa gómsætu „fæðu guðanna“. Björn Sigurður Gunnarsson, matvæla- og næring- arfræðingur á Rannsóknastofu í næringarfræði. HVAÐA ÁHRIF HEFUR SÚKKULAÐI Á LÍKAMANN? Á meðal spurninga sem hefur verið svarað á Vís- indavefnum að undanförnu má nefna: Hvaðan koma orðin hægri og vinstri, hvað felst í trúfrelsi, hver þýddi Faðirvorið, eru til staðfestar heimildir um ófreskjur og hvernig nær maður tveimur bjórglösum í sundur? VÍSINDI Morgunblaðið/Ásdís Súkkulaðifíkn. Ljóðmæli Sveinbjarnar Egils-sonar gaf Einar Þórðarsonút í Reykjavík 1856, oggengu auk hans frá útgáf- unni þeir Þorgrímur Johnsen, Ei- ríkur Jónsson og Jón Árnason. Á blaðsíðum 81–86 í þeirri útgáfu eru barnavísur, þar á meðal þessi með fyrirsögn: ’Kristín segir tíð- indi’: Fljúga hvítu fiðrildin fyrir utan glugga; þarna siglir einhver inn ofurlítil dugga. Í neðanmálsgrein kemur fram að þessi vísa sé ein af þeim sem eru teknar eftir minni, en eftir minni hvers er ekki nefnt. Að öðru leyti er heimildar ekki getið. Þá er ljóst að útgefendur hafa hvorki fundið vísuna né fyrirsögn hennar í pappírum Sveinbjarnar. Ugglaust hafa margir kunnað vísuna, en líklegast er að einn út- gefendanna, Jón Árnason þjóð- sagnasafnari, hafi vitað um tilefni hennar og skrifað hana eftir eigin minni; hann var í mörg ár til heimilis hjá Sveinbirni og eftir lát hans hjá ekkjunni. Kristín sú sem er nefnd í fyrirsögninni var dóttir Sveinbjarnar, nefnd Krist- ín litla og Stína í öðrum vísum sem hann kvað til hennar og um hana þegar hún var barn, ’Kristín litla komdu hér’ og ’Eitthvað tvennt á hné ég hef, heitir annað Stína’. Þessi vísa er prentuð í ágætu safni vísna og kveðlinga sem Sím- on Jóhann Ágústsson tók saman og kom fyrst á prent 1946, nefnt Vísnabókin, og hefur oft verið endurprentað síðan. Þar er þessi vísa Sveinbjarnar hægra megin í opnu, en mynd eftir Halldór Pét- ursson vinstra megin (bls. 4–5 í aukinni og endurskoð- aðri útgáfu 1963). Á myndinni krýpur strákur á blárönd- óttum nátt- fötum í rúmi sínu og horfir út um fjögurra rúðu glugga. Út um efri rúðurnar sést álftahópur á flugi, en um neðri rúðuna til vinstri fjögur hvít fiðrildi og um þá hægri lítill bátur á siglingu undir hvítum seglum. Þá er ljóst að myndin túlkar vísuna þannig að í henni séu tvenn tíðindi sögð: að fiðrildi fljúgi fyrir utan glugga og að ofurlítil dugga (bátur) sigli inn, væntanlega til lendingar. Þennan sama skilning leggur sá ágæti ljóðrýnandi, Hannes Pét- ursson skáld, í þessa vísu í pistli í nýrri bók: Túnfiðrildi á bls. 74–75 í Birtubrigði daganna (Katlagil, Reykjavík 2002). Ég skil vísuna öðruvísi. Mér finnst eins og ég sjái Sveinbjörn sitja með Kristínu litlu dóttur sína á hnjánum við opinn glugga á kyrru sumarkvöldi og hún hjali við hann um hvítu fiðrildin sem sveima fyrir utan og hafi orð á því þegar eitt kemur á sínum hvítu vængjum inn eins og ofur- lítil dugga undir seglum. Með þessum skilningi er vísan ljóm- andi myndræn og orðið ’ofurlítil’ valið af þeirri smekkvísi sem Sveinbirni Egilssyni var lagin. Annars er vísan höggvin í sundur í miðju og mynd hennar brotin. ÓLAFUR HALLDÓRSSON Höfundur er íslenskufræðingur. MISSKILIN VÍSA? Sveinbjörn Egilsson Einu sinni var apastelpa aðklifra uppí tré tilað ná ínáttkjólinn sinn sem þarhékk frá því nóttina áður. Apastelpur skilja alltaf náttkjól- ana sína eftir í trjánum. Og hún klifraði niður úr trénu með nátt- kjólinn, fór í hann, settist uppvið tréð og byrjaði að háma í sig rauð skógarber, þetta gerðist í skógi, og útbía sig alla útí rauðum berj- um, náttkjólinn, puttana, munninn og nefið. Þá sveif til hennar hin fagra skógardís með töfrasprot- ann í hendi og sagði: Mikið ertu skítug um puttana, apastelpa, og skítug í framan og náttkjóllinn þinn alveg útbíaður. Með töfra- sprotanum snart hún apastelpuna sem varð tandurhrein á samri stundu náttkjóllinn og allt fyrir ut- an hinn sitjandi grasgræna apas- telpurass, því ekki er hægt að ná úr grasgrænu með töfrasprota. Apastelpan þorði ekki að borða berin svona hrein og þorði ekki að hreyfa sig í náttkjólnum svona hrein horfði hún á eftir skógardís- inni svífa á brott og varð svo ein- mana að hana langaði tilað gráta en tilþess var hún líka of hrein. Lítið fiðrildi flaug til hennar og beit hana í tánna en hún gat ekki hlegið eða sagt eitthvað, tilþess var hún of hrein. Refur kom og flaxaði skottinu við vanga hennar, en hún var of hrein tilað finna hvað þetta var mjúkt flax. Ugla settist ofan á hausinn á henni og apastelpan var of hrein tilað finn- ast þessi kóróna of þung. Uglan sat þarna sem fastast og apastelp- an var samt einmana og svöng þrátt fyrir öll rauðu berin allt í kringum hana. Uglunni leiddist þófið og flaug burt, leiðindaskjóða, leiðindaskjóða, kvakaði í henni og apastelpan undraðist þetta ugluk- vak en var of hrein tilað undrunin breytti eitthvað svipbrigðunum. Mús skreið undir náttkjólinn hennar og skreið síðan aftur burt, það breytti engu. Apastelpan var alltof hrein. KRISTÍN ÓMARSDÓTTIR Höfundur er rithöfundur. TÖFRASPROTINN

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.