Lesbók Morgunblaðsins - 14.12.2002, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 14.12.2002, Blaðsíða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 14. DESEMBER 2002 7 ÞEGAR líður nær jólum heyrist víðapískrað um hangikjöt. Sumir kaupa bitafrá ýmsum reykhúsum til að bragða áð-ur en jólakaupin eru ráðin. Aðrir skipta beint við bændur sem reykja sjálfir, e.t.v. í heima í gömlu sveitinni, og merkilegt nokk, á tímum plastkorta og tölvubanka er þar stund- um enn við lýði einhvers konar gamaldags vöru- skiptaverslun, eða greiði gegn greiða. Stórreyk- ingamenn eru einnig til sveita sem skipta við verslanir í þéttbýlinu. Og sumir „reykja í laumi“, þ.e. vilja sem minnst gefa upp um sínar aðferðir. Á Þjóðminjasafni er stærsti upplýsingabanki landsins um matarhefðir. Síðastliðið ár hefur verið safnað heimildum um heimareykingu mat- væla með því að senda spurningar til fólks á öll- um aldri og leita uppi og heimsækja þá sem þetta iðja. Ýmislegt hefur borið á góma, t.d. pylsur af ýmsum gerðum s.s. bjúgu, löngu, grjúpán, rúllupylsur, íspenjur og harðreyktar spangipylsur svo nokkur nöfn séu nefnd. Eistu, svið, stórgripatungur, hraun, sjófugl, svín, sel, hval, vatnafisk, hrogn, grálúðu, rauðmaga, karfa, síld, rauðsprettu og rafabelti má einnig nefna og matarrétti, sem eru soðnir fyrst og síð- an reyktir, svo sem hangikæfu, magála og döndla. Hér er hins vegar ætlunin að takmarka sig við örfá atriði um hátign reykhúsanna, hangikjötið – sem flestir telja að sé fyrst og fremst af sauðfé. Orðið er helst ekki notað um reykt kjöt af öðrum skepnum, þó að það hafi ekki síður „hangið“ í reykhúsunum. Nánari úr- vinnsla heimildanna er svo væntanleg áður en langt um líður. Reyking sem geymsluaðferð hefur verið þekkt frá því að sögur hófust. Eftir að frysting varð aðgengilegur geymslumáti hefur þróunin almennt verið í þá átt að léttreykja meira, upp á bragðið en ekki endilega geymsluþolið. Í nýleg- um erlendum handbókum um matvæli eru sér- kenni íslenska hangikjötsins talin harðreyking fremur en almennt tíðkast í hinum vestræna heimi svo og taðreykingin. Þá er óvíða jafnmikið reykt af kindakjöti og hér, langalgengasti reyk- maturinn erlendis er af svínaættum. Framan af öldinni var sjaldgæft að reykja lambakjöt þó að dæmi væru um að bændur gerðu það í þeim tilgangi að selja þéttbýlisbúum hangikjöt. Það var fullorðið fé, sauðir og geldar ær, sem mest fóru í reyk, almennt það feitara. Fyrir daga frystanna var rýrara kjöt „höggvið í spað“ og saltað eða soðið í kæfu. Verkunin skipt- ist í eftirfarandi tímabil: Upphenging eftir slátr- un, hlutun og söltun, upphenging eftir söltun, reykingu, og síðan þurrkun eða geymslu að henni lokinni. Eftir að frystar komu er bæði hægt að taka úr frysti til að reykja og einnig frysta kjötið á eftir. Menn brytjuðu töluvert stærra þegar átti að reykja kjöt en þegar átti t.d. að salta það. Enn er skrokk oft hreinlega skipt í fernt eftir að slög- in hafa verið skorin úr ef hann á að fara í reyk. Hann er þá sagaður í tvennt eftir endilöngu og síðan þvert yfir hrygg og hæklarnir látnir fylgja. Algeng hlutun á sauðarfalli í reyk á fyrri hluta aldarinnar var á þessa leið: Fyrst var magáll tekinn í heilu lagi, þ.e. sem kringla en ekki tveir huppar, þá var skrokkurinn klofinn í tvennt rétt aftan við bógana og tvö til fjögur rif látin fylgja afturhluta, krofinu. Það var hengt í heilu lagi upp á kroftré, sem gekk yfir rá, í gegn- um hæklana. Frampartur var oft kallaður skammrif, og stundum skammrifsbrók þegar bógar höfðu verið teknir frá. Þannig urðu til hlutarnir skammrifsbrók, krof, bógar og mag- áll. Oft var ekki hlutað frekar, en bringukollur var þó stundum skorinn úr, enda ýmsar hefðir sérstaklega bundnar við hann. Rif voru venju- lega lömuð við hrygginn (þ.e. brotin frá hrygg- súlunni) til að kjötið tæki betur við salti og reyk. Skrokkar voru oft látnir hanga í einhverja daga fyrir verkun en sums staðar, t.d. vestra, virðist hafa verið algengara að hluta og salta á blóðvelli. Þar var fallið oft þurrsaltað volgt í gærunni. Salti blönduðu með saltpétri var núið um kjötið og skurðir gerðir í læri og stóra vöðva þar sem saltinu var þrýst í og kjötið látið bíða þar til það „rann í“, en það gat tekið nokkra daga. Þá tíðkaðist að sprautusalta með stórgri- pasprautum. „Eitthvert besta hangikjöt sem ég hef smakkað var saltað þannig að saltpækli var sprautað í kjötið á meðan það var volgt,“ sagði einn heimildarmanna. Sums staðar var kjöt lítið saltað undir reykingu, aðeins gerðir skurðir hér og þar og salti troðið í. Fyrr á öldum á meðan salt var torfengnara hefur hangikjöt væntan- lega verið lítið sem ekkert saltað en aftur á móti meira reykt og þurrkað. Mér sýnist að hangi- kjöt hafi verið lítið saltað sums staðar, einkum á Suðausturlandi, framan af 20. öld en þar var það aftur á móti harðreyktara og jafnvel etið hrátt. Pækilsöltun tók að einhverju leyti við af þurr- söltun, fyrst mældu menn pækilinn – eða „pekil- inn“ eins og sumir sögðu vestra – þannig að það átti að fljóta í honum „meðalstór“ kartafla þegar hann var hæfilega sterkur. Þeir sem vildu hafa hann sterkan settu nagla í kartöfluna. Nú hafa menn pækilmæla og nákvæmar uppskriftir þar sem við sögu koma nítrítsalt, sykur, C-vítamín og sitthvað fleira. Margar slíkar uppskriftir, gamlar og nýjar, hafa hafnað á þjóðháttadeild í þessari söfnun. Í dag er algengt að laga pækil og pækla í plasttunnum eða fiskkörum og enn þurrsalta sumir, t.d. í stórum plastpokum sem velt er reglulega. Saltpétursnotkun virðist nær horfin en sykur hefur aftur á móti aukist. Eftir söltun er kjötið yfirleitt látið hanga um tíma, einkum ef það hefur legið í pækli, og síðan er kveikt upp. Reykingartími er mjög mismunandi og spila þar ýmsir þættir inn í, svo sem veðurfar, hús, hversu oft kveikt er upp og hve langur tími er látinn líða á milli uppkveikja. Sumir lofta húsið inn á milli. Oft var slátrað lambi til gangnanna og það léttreykt – „látin fljúga í það hengja“ eins og sagt var. En almennt hékk kjöt mun lengur í reyk á fyrri hluta aldarinnar og síðan lengi í reykhúsunum eða köldum geymslum eftir að hætt var að kveikja upp, stundum allt fram á sumardaginn fyrsta. Sumir heimildarmanna gerðu skýran greinarmun á slíku kjöti – „forn- keti“, „hangiketi“ – og því sem nú tíðkast að verka, eða „léttreyktu saltkjöti“ eins og einhver orðaði það. Á tímum opinna matelda var langaalgengast að matvæli væru reykt í eldhúsum. Þau héngu uppi í „rótinni“ eins og rjáfur hlóðaeldhúsa var kallað. „Að eiga eitthvað í rótinni“ þýddi í þá daga að vera efnaður. Í lok 19. aldar og framan af þeirri 20. eru eldavélar að leysa hlóðir af hólmi og jafnframt eru torfbæir að leggjast af. Hlóðaeldhús voru áfram notuð til svokallaðra stórelda þó að eldavélar tækju við daglegri elda- mennsku, þar var t.d. soðið slátur, þvegnir þvottar, sviðin svið og reykt matvæli. Algengt var að nota tækifærið og seyða rúgbrauð í hlóð- unum meðan reyking stóð yfir. Víða er það ekki fyrr en hlóðaeldhúsin eru ónýt að kofarnir sem kofareyking er nú kennd við koma til sögu. Þá tóku menn oft kofa sem fyrir voru á bæjum til þessara nota, stundum hesthús eða hrútakofa, smiðju, súrheysgryfju eða súrheysturn. Reyk- ingahefðir hvers bæjar voru aðlagaðar því hús- næði sem bauðst og sums staðar voru byggðir sérstakir reykkofar. Það gerðu jafnvel nokkrir bændur í félagi. Þegar heimildir um þessa verk- hætti eru skoðaðar vekur fjölbreytnin athygli. Sumir vara við því sem aðrir telja vera hið eina rétta og best kemur þetta fram í skoðunum á eldsmat. Hér er ekki allt sem sýnist því vara- samt er að taka einn þátt út úr svo flóknu ferli sem geymsluverkun matvæla er þar sem tengslum rakastigs, hitastigs, sýrustigs og súr- efnismagns þarf að vera varið ákveðinn hátt. Það sem ekki gengur hjá einum getur alveg heppnast í öðruvísi reykhúsi, við annars konar söltun, ólíkt veðurfar, annað eldsneyti, öðruvísi umsjá. Kaldreykingarbúnaður kallast hér þegar reykur er leiddur í stokk eða röri inn í rýmið þar sem matvælin hanga. Á þeirri leið losar hann sig við varasöm tjöruefni og sót. Þetta kælir vissu- lega reykinn en venjuleg íslensk reyking, hvort sem eldstæðið er utan- eða innandyra, flokkast undir það sem kallað er kaldreyking í hand- bókum, þ.e. reykurinn sem leikur um matinn er yfirleitt undir 30°C. Ýmsir nefndu brunahættu sem ástæðu fyrir því að hafa eldstæðið utan- dyra, en það reyndist ekki alltaf nægja. Fjöl- margar sögur bárust um reykhúsabruna með meira eða minna tjóni. Í einu tilfelli tókst að bjarga hangiketinu úr brennandi kofanum, var það svo etið ósoðið og reyndist afbragðs sæl- gæti. Kaldreykingastokkar eru stundum að reyk- húsum en einnig er hengt upp í tunnur, kistur eða kassa sem reykur er leiddur inn í. Sumir sem eru með reykhús heima hjá sér eiga líka slíkan búnað þar sem þeir léttreykja kjöt eða til- fallandi smáræði, einkum vatnafisk og síld. Eft- irminnilegasti búnaður af þessu tagi sem ég hef rekist á var hús af gömlum Bedford fullt af sauðarlærum. Það tróndi uppi á hól en í brekku- rótunum sat eldstæðið og reykleiðsla í jörð á milli. Í sumum byggðarlögum höfðu menn ekki kynnst „kaldreykingu“, í öðrum hafði hún verið algeng áður en hún lagðist af og enn var til að þessi aðferð hefði alveg náð yfirhendinni. „Galdurinn við að reykja matvæli er að blanda eldsneytið þannig að það gefi sem minnstan hita en mestan reyk,“ sagði einn af heimildarmönnum. Flestir sem reykja hafa ákveðnar hugmyndir um hvaða eldsneyti eigi að nota og hvernig skuli blanda það. Og fæstir efast um að þetta skipti miklu máli fyrir bragð- ið. Menn vilja hafa sinn keim af kjötinu og reyna að nota svipuð efni og áður var brennt í hlóða- eldhúsinu á bænum. En þar blönduðust gufur frá daglegri eldamennsku reyknum og slíkt krydd endurskópu menn ekki í reykkofunum. Ekki var laust við að sumt af því sem búið var til í „kafeldhúsum“ yrði eins og hálfreykt. Heimild- arkona minnist þess að eftir að hætt var að elda við hlóðir hafi hún saknað þess mjög að ekki var lengur reykbragð af grjónagrautnum. Eftir að eldavélar komu voru reyndar dæmi um reyk- háfa með sérstökum hólfum sem hægt var að reykja í við mateldana – en þá urðu menn að gæta að því hverju var brennt dagana sem mat- ur var í hólfinu. Það máttu t.d. ekki vera kol. Ýmislegt var notað til að verja matvælin sóti, þau voru sett í grisjur og klædd í nælonsokka og önnur klæðisplögg, eða að strigi var strengdur milli eldstæðis og kjöts. Tað er oftast nefnt sem reykgjafi, næst mór og birki. Áberandi er að margir leggja ennþá töluverða vinnu í að afla rétta eldsneytisins. Menn skafa af fjárhúsgrindum, stinga út, kljúfa og þurrka tað, hafa jafnvel fé í grindalausum kofum í þessum eina tilgangi, verka mó, skera mýratorf, slá melgras, brok og stör, verka klín- ing, safna rekamori og þurrka þang til að leggja á eldinn, rífa lyng og hrís, eini, hreindýramosa, víði eða hvaðeina sem viðkomandi notar til að krydda reykinn. Menn eru á samningi við garð- eigendur um að fá afklipptar greinar og aðrir kaupa tilbúinn við eða beykisag, en slíkt er að aukast á kostnað hefðbundnari aðferða. Flestir geta lýst því nákvæmlega í hvaða röð eldsneytið er í hrúgunni þegar kveikt er upp (gjarnan með Morgunblaðinu). Þetta eru handtök sem gleym- ast ekki. Vísindi gömlu eldhúsanna frá því fyrir daga eldspýtnagnægða lifa sums staðar enn í reykhúsunum. „Best er að nota aldrei meira en eina eldspýtu á reykingatímabilinu,“ sagði einn af heimildarmönnum – og átti þá við að glóðina ætti að búa þannig að hún héldist lifandi allan tímann og ekki þyrfti annað en „leggja að“ dag- lega til að fá reyk. Aðferðin við að halda glóð í eldsneytinu og fá jafnan reyk var víða sú sama og þegar eldur var falinn í hlóðum yfir nótt, yfir glæðurnar var lögð hálfþurr – deig – taðflaga og moði eða ösku síðan mokað yfir. Raka taðið heldur glóðinni lifandi tímunum saman, moðið gefur mikinn og þéttan reyk, þó að menn væru ekki alveg sammála um gæði „moðreyks“. Sum- ir fóru landshluta í milli til að verða sér úti um tað í reykhúsið, aðrir vildu ekki sjá tað t.d. vegna þess að: „… nútíma tað er stækara og gefur verra bragð en það sem kom í grindalaus hús á meðan fé var beitt úti hér áður.“ Þessi tað- andstæðingur hjó sérstaklega á haustin birki og víði til að reykja við. Þá var haft sérvalið moð frá fyrra vetri, ljámýs og puntur frá sumrinu og hálfþurrt mosatorf, sem rist var síðsumars til þessara nota. Þó nokkuð er um að menn taki upp og þurrki mó til að reykja við og er það t.d. algengt á Vestfjörðum. Algengt hefur verið að þeir sem fá reykt hjá öðrum leggi til eldsmat með kjötinu og komi með það saltað. Eldstæðin bera oft vitni um hugmyndaauðgi þó að algengt sé að hafa eldinn í gömlum pottum eða járnstömpum og leggja járnplötu yfir til að dreifa reyknum. „Fyrir nokkrum árum útbjó ég langar rennur úr járni sem ég set tað í og kveiki upp í öðrum endanum, þá færist glóðin smám saman og rýkur lengi …“ Það var algengt að menn tækju niður úr reyk á jólaföstunni. Fyrir austan og norðan var þessi atburður oft tilefni veisluhalda en eins og í dag tóku menn forskot á jólin áður fyrr. Þá prófuðu menn hangikjötið og fleira góðgæti var fram borið. Þessar veislur hétu vökustaur eystra en fyrir norðan voru þær kallaðar kvöldskattur. Hann átti helst að bera fram öllum að óvörum og þess eru dæmi að hangikjötið hafi verið soðið í útihúsi til að hafa sem mesta launung. Syðra og vestra var tilhald á Þorláksmessu algengara en veislur fyrr á föstunni, kæst skata og fleira fisk- meti var þá oft soðið í hangikjötssoði og flotið notað sem viðbit. Margir suðu t.d. Þorláksmes- suskötuna í hangikjötssoðinu og stöppuðu sköt- una með hangifloti. Á sunnanverðum Vestfjörð- um var alsiða – og tíðkast sums staðar enn – að hanginn bringukollur fylgdi Þorláksmessusköt- unni. Pokabaunir, gular baunir í poka sem soðn- ar voru með hangikjötinu, voru Þorláksmessu- réttur í Öræfunum. Um allt land þekktist að sjóða hangikjöt til jólanna á Þorláksmessu og gefa heimilisfólki ögn að smakka. Í eldri tíð þeg- ar allt feitmeti þótti sælgæti var stundum gefinn spónn af hangikjötsfloti með kjötbitanum, „ádrepa og brytjingarbiti“. Þegar búið var að nota hangikjötssoðið eins og þurfti við eldamennskuna voru tréílát oft þvegin með því, en af þessu þóttu þau verða einkar falleg. Það voru jafnvel dæmi um að tau væri þvegið upp úr hangikjötssoðinu á Þorláks- messu. „Alltaf er gaman að sjá það sem hvítt er og hreint,“ varð karlinum að orði þegar hann horfði á konu sína vinda rekkjuvoðina þeirra upp úr hangikjötssoðinu. Það er misjafnt hvort hangikjötið var haft á aðfangadagskvöld eða jóladag. Algengt var að slátra kind, eða veiða rjúpur, til þess að geta haft nýmeti á aðfangadagskvöld. Stóra jóla- skammtinum, sem átti að endast út jólin, var jafnframt oft útbýtt á aðfangadag og þar var mikið hangikjöt. Á jóladag var víða borðað heitt hangikjöt. Áður fyrr höfðu menn rúgbrauð, flat- brauð eða laufabrauð sem meðlæti en síðustu hundrað árin hefur kartöflujafningur eða upp- stúfur verið langtum algengastur. Sumir krydd- uðu jafninginn með hangifloti eða soði. Svo komu grænar baunir, seinna rauðkál, ítalskt sal- at, appelsín- og maltblandan. Kartöflumús sem hangikjötsmeðlæti varð ég víða vör við á Vest- fjörðum. Eggjahræra, sem Danir nota mikið með reyktum mat, hefur á einstaka heimili orðið hið hefðbundna hangikjötsmeðlæti, ávaxtasalat í sýrðum eða þeyttum rjóma var sums staðar með og fleira mætti telja. Í seinni tíð sést hrátt hangikjöt oft sem forréttur á fínum veitinga- húsum. Á Suðausturlandi hafa menn lengi etið hrátt hangikjöt, það var t.d. algengt sem álegg og nesti. „Þunnar sneiðar af hráu hangikjöti, snöggbrúnaðar í smjöri og með heitri eggja- hræru, eru algert sælgæti“, sagði heimildar- maður af þessu svæði. Og því trúi ég vel. Fleira en Þorláksmessusjómeti var soðið með hangikjötinu eða í soðinu til að nýta það sem best. Saltkjöt og hangikjöt var gjarnan soðið saman, kemur þá létt reykbragð af saltkjötinu. Margt fleira var nefnt. Vestmannaeyingur sýð- ur t.d. alltaf hangikjöt og nýjan lunda saman fyrir þjóðhátíð. Þá dýfðu menn í heitt soð eða flot t.d. rúgbrauði eða rófum. Hangiflot hefur verið mikið notað út á fisk, ekki síst saltfisk. Annars var hangikjöt fastur hátíðamatur á flestum helstu tyllidögum ársins áður fyrr, ný- ársdag, bóndadag, sprengidag og páskadag. „Ef páskadaginn bæri upp á jóladag, þá yrði mikil hangiketshátíð,“ sagði kerlingin forðum. HANGIÐ SKAL Á HÁTÍÐ KET „Ef páskadaginn bæri upp á jóladag, þá yrði mikil hangiketshátíð,“ sagði kerlingin forðum. Í þessari grein er fjallað um vinnsluaðferðir, neyslu, siði og fleira sem tengist þessum hátíðamat. „Reyking sem geymsluaðferð hefur verið þekkt frá því að sögur hófust.“ Höfundur er starfsmaður á Þjóðminjasafni Íslands. E F T I R H A L L G E R Ð I G Í S L A D Ó T T U R

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.