Lesbók Morgunblaðsins - 18.01.2003, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 18.01.2003, Blaðsíða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 18. JANÚAR 2003 5 og félagar voru ítrekað yfirheyrðir í þaula af umflakkandi sovétagentum í Lundúnum, en endurteknar hollustuyfirlýsingar þeirra gerðu ekki annað en auka á grunsemdir Sovétmanna. Vænisýkin er innbyggð í leyniþjónustustarf- semi, því löngu síðar, þegar breska leyniþjón- ustan þjarmaði að Blunt á sjöunda áratugnum, urðu mótbárur hans einungis til að sannfæra viðmælendur hans um að njósnanetið í Bret- landi hefði verið mun víðfeðmara en það var í raun og veru. „Undir handarjaðri Sovétnjósnara“ Afhjúpun Anthonys Blunts úti í Lundúnum varð forsíðufrétt í Dagblaðinu hér uppi á Ís- landi hinn 16. nóvember 1979. Þar á bæ hafði blaðamanni hugkvæmst að hringja í undirrit- aðan, sem verið hafði námsmaður við Court- auld Institute á árunum 1972–74, til að spyrja álits á tíðindunum. Þær upplýsingar að þrír Ís- lendingar, Björn Th. Björnsson, Hannes Háv- arðarson, sem síðan ílentist í Bretlandi, og undirritaður, hefðu allir stundað nám undir handarjaðri þessa Sovétnjósnara urðu síðan vatn á myllu Indriða G. Þorsteinssonar – Svarthöfða – sem fékk það þar með staðfest sem hann hafði lengi grunað, að íslenskir list- fræðingar væru kommadindlar. Indriði þóttist þá eiga harma að hefna, þar sem þessir sömu fræðingar höfðu nýlega samþykkt að mótmæla þeirri ráðstöfun Reykjavíkurborgar að fela honum að rita ævisögu Jóhannesar Kjarvals. Bók Miröndu Carter varð til þess að ég fór að rifja upp minningar frá námi mínu við Courtauld Institute. Þar er ítarlega lýst því andaktuga andrúmslofti sem ríkti í stofnuninni síðustu árin sem Blunt var þar við stjórnvöl- inn. Hún var þá til húsa við Portman Square, steinsnar frá Oxford-stræti, í glæsilegri 18. aldar byggingu eftir breska arkitektinn Ro- bert Adam, einn af meisturum klassískrar endurreisnar. Hjarta byggingarinnar er mik- ilfenglegur bogastigi; meðfram honum eru styttur og margbrotið veggskraut og hvelfing í nýklassískum stíl kórónar sköpunarverkið. Daglega gengu helstu listfræðingar Breta upp og niður þennan stiga, til dæmis John Shear- man, sérfræðingur í 16. aldar list, John Gold- ing, sérfræðingur í kúbisma og náinn vinur nokkurra helstu listamanna á Bretlandi, Alan Bowness, síðar forstöðumaður Tate-safnsins, Anita Brookner, sérfræðingur í franskri 18. aldar myndlist og síðar skáldsagnahöfundur, Michael Hirst, sérfræðingur í verkum Mich- elangelós, og fleiri átórítet sem aðkomumaður þekkti einungis af bókum. Á vordögum ársins 1972 var aðkomumaður ofan af Íslandi ekki sérlega upplitsdjarfur inn- an um þessar vitsmunaverur. Tilhugsunin um munnlegt inntökupróf hjá sjálfum æðstaprest- inum, Anthony Blunt, varð heldur ekki til að auka á sálarfrið undirritaðs. Mér var vísað inn í hátimbraða skrifstofu hans, þar sem ég þótt- ist þekkja fyrir málverk eftir Renoir, Cézanne og Picasso. Flest annað var þar á rúi og stúi, og baðst Blunt forláts á óreiðunni af fágaðri kurteisi. Blunt hafði orð á sér fyrir að vera stundum kaldranalegur við kollega sína, en viðmótsþýð- ari – „hann sjálfur“ – þegar nemendur áttu í hlut. Það var og reynsla mín af honum. Hann var hávaxinn og krangalegur að sjá, með ílangt og tálgað andlit, há kollvik og sérkennilega sveipi í gráspengdu hári, eins og algengt er um breska karlmenn af yfirstétt. Hins vegar var útgangurinn á honum ekki sérlega yfirstétt- arlegur, því yfir teinóttri skyrtunni var hann í stagbættri peysu. Af buxum Blunts að dæma var straujárn heldur ekki mikið notað í hans ranni. Handaband Blunts var laust, en mér þótti hann spyrja af áhuga um hagi mína með sinni lágu og íðilbresku röddu. Sagðist hann lengi hafa haft áhuga á að koma til Íslands, og nefndi m.a. kynni Audens vinar síns af landinu og tvo Íslendinga sem verið höfðu við nám við Courtauld, átti þá sennilega við áðurnefnda Björn Th. og Hannes Hávarðarson. Sjálft munnlega prófið tók fljótt af. Ég naut þess að hafa verið í Flórens mánuðina þar á undan og gat spjallað af skynsamlegu viti um eina af uppáhaldskirkjum Blunts þar, Orsan- michele. Auk þess tókst mér að bera kennsl á vatnslitamyndir af skýjabólstrum eftir Con- stable sem Blunt var þá með undir höndum. Þetta nægði til að fleyta mér inn í háborg list- sögurannsókna í Bretaveldi. Gömul róttækni Þetta var síðasta ár Blunts við Courtauld, og því var kennsluskylda hans í lágmarki. En andi hans sveif alls staðar yfir vötnunum. Hann hafði tekið þátt í að koma ýmsum sam- kennurum sínum til manns og móta námsefni þeirra, auk þess sem hann hafði samið ýmsar af þeim fræðibókum sem stuðst var við í að- skiljanlegum kúrsum, t.d. um hugmyndasöguna að baki ítalskri myndlist, um franska myndlist á 16. og 17. öld, um bar- okk mynd- og byggingarlist á Ítalíu, um breska fjöllistamanninn William Blake og loks um Picasso. Ég var ekki einn um að skynja í umfjöllun Blunts um Picasso nokkuð aðra „nálgun“ en ég bjóst við, miðað við þá miklu áherslu á hlut- læga athugun á öllum aðstæðum listamanna sem nemendum við stofnunina var innprentuð. Í tveimur bókum Blunts um Picasso, sem rit- aðar voru á sjöunda áratugnum, var skynjun hans á verkum listamannsins til dæmis ekki al- veg laus við díalektíska efnishyggju í marx- ískum dúr, áherslur á mótandi áhrif þjóð- félagsins. Nokkrir skólabræður mínir, öllu næmari á vitsmunaleg blæbrigði en ég, þóttust einnig finna fyrir gamalli róttækni í árlegum fyrir- lestri Blunts um fræga veggmynd Picassos, Guernicu, þar sem hann talaði af óvenjulegri ástríðu um útbreiðslu fasismans og borgara- stríðið á Spáni á fjórða áratugnum. Yfir sérrí- glasi í kjölfar fyrirlestrarins tjáði Blunt for- vitnum nemanda að hann hefði heitið að ferðast ekki til Spánar meðan Franco væri of- ar moldu. Í kaffitímum nemenda var ævinlega mikið skeggrætt um menn og málefni. Pólitísk fortíð Blunts var hins vegar aldrei nefnd í mín eyru, enda höfðu fáir þá vitneskju um hana. Hins vegar höfðu eldri nemendur uppi ýmislegt glens um kynhneigð hans og áhuga á ungum rustum. Þá hitti hann á búllum samkyn- hneigðra og dró með sér heim um miðnæt- urbil. Þar sem heimili Blunts var á efstu hæð stofnunarinnar lenti það oftar en ekki á dyra- verðinum, ljúfmenni sem mig minnir að héti George, að bjarga húsbónda sínum úr klóm þeirra að „viðskiptum“ loknum eða sjá til þess að þeir hefðu ekki með sér verðmæti úr íbúð hans þegar þeir fóru. Einu sinni á ári var nýnemum boðið í sérrí upp á loft til Blunts. Þar vakti athygli margra ósamræmið milli listaverkanna á veggjunum og innréttinga í íbúðinni. Á gólfi var slitinn gólfdúkur, teppi voru trosnuð og húsgögn bæði lúin og sundurleit, en á veggjum hengu ómetanleg listaverk eftir Poussin, Tintoretto og Picasso. Fæst þeirra átti Blunt sjálfur, heldur mun hann hafa fengið þau að láni hjá vinum og kunningjum. Í okkar hóp var hús- bóndinn gestrisnin uppmáluð og fús að ræða hvaðeina sem bryddað var upp á. Um lista- verkin á veggjunum ræddi Blunt af ungæð- islegri ákefð sem kom á óvart þeim sem heyrt höfðu sögur af kuldalegu viðmóti hans. Sérrí- glös voru fram borin af „einkaþjóni“ Blunts, þéttum og dökkbrýndum ungum manni sem ekki sagði aukatekið orð og lét sig hverfa að uppáhellingu lokinni. Í bók Miröndu Carter kemur fram að þessi sambýlismaður Blunts hét John Gaskin og var fyrrverandi hermaður af írskum ættum. Afdrif hans urðu raunaleg, því meðan þeir Blunt fóru huldu höfði í kjölfar uppljóstrunarinnar 1979 reyndi hann að fyr- irfara sér með því að kasta sér niður af svölum, en var þá bjargað. Árið 1988, fimm árum eftir dauða Blunts tókst Gaskin ætlunarverk sitt, fleygði sér þá fyrir lest. Dyravörðurinn En kannski eru mér minnisstæðust þau skipti sem Blunt leysti af vin sinn, George dyravörð, og tók að sér að gæta útidyra og fylgjast með því að nemendur sem unnu fram eftir á bókasafni stofnunarinnar tækju ekki bækur með sér heim í leyfisleysi. Það var engu líkara en sjálfur prófessorinn gengist upp í þessum lítilmótlega starfa, því hann fór sér í engu óðslega og rabbaði góðlátlega um daginn og veginn meðan hann gaumgæfði bókaúttekt- ir nemenda, lét jafnvel nokkur orð falla um stakar bækur og höfunda þeirra. Oftar en ekki flökraði að mér að Blunt væri að þessu fyrir einmanaleika fremur en nauðsyn. Í dag renna minningarnar um þessa dyravörslu Blunts hins vegar saman við lýsingar Miröndu Carter á því hvernig yfirstéttardrengirnir fjórir smygluðu leyniskjölum framhjá dyravörðum bresku leyniþjónustunnar forðum daga. Við- leitni Blunts virðist hafa verið álíka árangurs- rík og leyniþjónustunnar, því bókaverðir við Courtauld voru stöðugt að lýsa eftir horfnum bókum. Í bókinni um Blunt kemur fram að hann um- bar úskúfun sína með allt að því stóísku jafn- aðargeði, og höfðu sumir orð á því að upp- ljóstrunin hefði verið honum léttir. Hann hélt ótrauður áfram rannsóknum sínum á barokk- myndlist. Aldrei kvartaði hann yfir hlutskipti sínu, og í þau fáu skipti sem hann lét í ljós gremju beindist hún að þeim sem reynt höfðu að níða niður vini hans og kunningja, einkum og sérílagi að gulu pressunni. Gömul vinkona, Margot Wittkower, sem ekki gat fengið af sér að afneita Blunt eftir 40 ára vináttu, var ein af fáum sem fengu hann til að tala opinskátt um margskiptan feril sinn. „Hvernig gastu um- borið að þjóna svona mörgum herrum í einu?“ spurði hún eitt sinn. Blunt lyfti viskíglasi sínu og sagði: „Með þessu hér, með vinnu og enn meiri vinnu.“ Anthony Blunt lést skyndilega úr hjarta- slagi, 75 ára að aldri, hinn 26. mars 1983. Við bálför hans voru blaðamenn fleiri en syrgj- endur. Heimildir: Miranda Carter – Anthony Blunt – His Lives, 590 bls., Macmillan, 2001. Höfundur er listfræðingur. Blunt svarar spurningum blaðamanna The Times 1979. Anthony Blunt í sumarskóla í Þýskalandi árið 1974. Frá vinstri talið: David Thompson, Geoffrey Ashton, Pauline Plummer, Blunt sjálfur og John Howard. Í bókinni um Blunt kemur fram að hann umbar útskúfun sína með allt að því stóísku jafnaðargeði, og höfðu sumir orð á því að uppljóstrunin hefði verið honum léttir.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.