Lesbók Morgunblaðsins - 18.01.2003, Qupperneq 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 18. JANÚAR 2003
L
ARS Nittve, forstöðumaður Mod-
erna-safnsins í Stokkhólmi, var við
stjórnvöl hins fræga Tate Modern-
safns í Lundúnum er það opnaði
dyr sínar fyrir almenningi árið
2000. Allt frá þeim tíma hefur Tate
Modern notið gífurlegrar athygli
auk þess sem ljóst virtist alveg frá
upphafi að aðsókn færi fram úr björtustu von-
um, en sem dæmi um það má nefna að áætl-
anir safnsins gerðu ráð fyrir 2,5 milljónum
gesta fyrsta árið, en á fyrstu tíu mánuðunum
urðu gestirnir 4,6 milljónir. Nittve staldraði
þó ekki lengi við þar, heldur söðlaði um og
sneri aftur heim til Svíþjóðar. Þar stýrir hann
nú Moderna-safninu í Stokkhólmi á tímum
mikilla umskipta þar sem aðalsafnhúsið er lok-
að til ársins 2004 vegna endurbóta og breyt-
inga. Í haust kom hann hingað til lands til að
fylgja Carnegie-sýningunni í Hafnarhúsinu úr
hlaði og blaðamanni gafst þá tækifæri til að
ræða við hann um safnaumhverfi samtímans,
breytt hlutverk safna og kröfuna um að þau
þjóni ekki bara menningarelítunni á hverjum
stað fyrir sig, heldur standi sig í vaxandi sam-
keppni um athygli alls almennings með fræð-
andi og stefnumótandi starfsemi, sem jafn-
framt er góð afþreying.
Markaðssetning er lykilatriði
Nú er þinn bakgrunnur í listheiminum mjög
fjölbreyttur, þú starfaðir fyrst í Svíþjóð, síðan
í Louisiana-safninu í Danmörku og loks við
Tate Modern í London, svo þú hefur haft góð
tækifæri til að kynna þér það sem er að gerast
á alþjóðavettvangi. Hvaða ástæður telur þú
liggja að baki þeirri velgengni sem breskir
samtímalistamenn hafa átt að fagna, en svo
virðist sem Bretum hafi tekist betur en öðrum
að markaðssetja sína ungu listamenn?
„Að mínu mati er markaðssetning einmitt
lykilatriði, þetta snýst allt um hana. Í Bret-
landi tókst að koma listinni í þær umbúðir sem
þurfti til að ná til áhorfenda. Ef maður virðir
fyrir sér þennan hóp sem nefndur hefur verið
„YBA“ [Young British Artist eða ungir bresk-
ir listamenn] þá er auðvitað augljóst að þau
eru ekki svo ung lengur – öll í kringum fer-
tugt. Ekki má heldur gleyma að hér virðist
ekki vera um hóp að ræða sem á sér sameig-
inleg markmið, heldur virðast umbúðirnar –
eða umhverfið sem þau hrærast í, vera það
sem þau eiga sameiginlegt. Þau hafa t.d. ekki
sameinast um stefnumótun eða „isma“ af
neinu tagi, enda virðast þeir tímar vera liðnir í
listum.
Ég hef þurft að velta því sem gerðist í Bret-
landi töluvert fyrir mér, vegna þess að ég stóð
frammi fyrir þeirri spurningu af hverju
grundvöllurinn fyrir því að setja Tate Modern
á stofn var til staðar núna, en ekki fyrir tutt-
ugu eða þrjátíu árum – t.d. þegar var verið að
opna Pompidou-safnið í París. Að mínu mati
má í fyrsta lagi rekja þessa tilhneigingu í
Bretlandi til þess að tveir allra líflegustu stað-
irnir í heiminum á sviði samtímalista síðast-
liðin tíu ár voru London og Los Angeles. Það
sem gerir þessa staðreynd svo áhugaverða er
að báðar þessar borgir stóðu algjörlega utan
við uppgang módernismans, hvorug þeirra gat
af sér áhugaverðar listhreyfingar, né heldur
marga stórkostlega listamenn. Þessar borgir
stóðu utangarðs þrátt fyrir að vera stórar og
það þó að t.d. London væri mjög nálægt hinu
gamla hjarta Evrópu. Það er því athyglisvert
að borgir sem voru í útjaðri hinnar módern-
ísku hreyfingar skuli nú vera orðnar svo virk-
ar í listheiminum, því þær eiga sér nánast
enga sögulega hefð á þessu sviði.
Í Bretlandi varð fyrsta uppsveifla myndlist-
arinnar í upphafi níunda áratugarins, þegar
Tony Cragg og Richard Wentwood komu fram
á sjónarsviðið ásamt Anish Kapoor nokkru
seinna. Að mínu mati var það í fyrsta sinn í
Bretlandi í nánast í heila öld sem litið var á
ákveðinn hóp listamanna sem sterka heild, eða
sem hreyfingu, frekar en að litið væri á þá sem
sterka einstaklinga eins og gert var í tilfellum
Henry Moore og Francis Bacon. Sú þróun
varð til þess að styrkja næstu kynslóð lista-
manna til mikilla muna. Í fyrsta lagi hvað
varðar sjálfsmynd þeirra og tilfinningu fyrir
því hvernig hægt væri að nýta þau tækifæri
sem gefast, og í öðru lagi varð þeim ljóst á
meðan þau voru enn í skóla að ekki væri hægt
að bíða með að huga að sjálfum starfsferlinum.
Á þessum tíma var mikil kreppa í myndlist-
arlífi í öllu Bretlandi og auðvitað einnig í
London, galleríum var unnvörpum lokað og
listastofnanir höfðu mjög óljóst hlutverk.
Segja má að einn maður hafi skipt sköpum
við að breyta ástandinu, Michael Craig-
Martin, en hann var prófessor við Goldsmith-
listaháskólann og mjög athugull í öllum þeim
góðu athugasemdum sem hann gaf nemendum
sínum. Ég held að hann hafi sagt nemend-
unum að enginn úti í hinum stóra heimi myndi
koma þeim til hjálpar við að koma verkum sín-
um á framfæri. Hann benti þeim á að ef þau
tryðu á það sem þau væru að gera og að það
væri hljómgrunnur fyrir því sem þau sköpuðu,
þá bæru þau sjálf ábyrgð á að koma því á
framfæri. Kynslóð listamanna, á borð við
Damien Hirst og hans vini, sagði því við sjálfa
sig að markaðurinn fyrir verk hennar væri
fyrir hendi og til þess að ná til fólksins yrði
hún að halda sínar eigin sýningar. Vegna efna-
hagskreppunnar á þessum tíma var mikið af
auðu verksmiðjuplássi í London sem var til-
valið til sýningarhalds og listamennirnir nýttu
sér slík rými til að koma sér á framfæri. Með
sínum eigin sýningum tókst þeim að komast
að fólkinu, áhorfendunum sjálfum og það
skipti sköpum – en þau áttu frumkvæðið al-
gjörlega sjálf.
Annað sem Craig-Martin benti þeim á var
nauðsyn þess að kunna að nýta sér fjöl-
miðlana. Þessi hópur lærði öll þau brögð sem
þarf að kunna til að markaðssetja sig. Þau
vissu því upp á hár hvað þurfti til þess að
breski fjölmiðlaheimurinn, sem er mjög sér-
stakur, tæki við sér. Ef við tökum dæmi, eins
og t.d. málverk Chris Ofili sem unnið er með
fílaskít, þá er alveg ljóst að Cris myndi tæpast
viðurkenna að fílaskíturinn væri ekki mik-
ilvægur í verkinu. En í hreinskilni sagt þá er
ég viss um að ef ég legði hart að honum seint
um kvöld, þá myndi hann játa að skíturinn
væri ekki þungamiðja verksins, heldur það afl
sem fær fjölmiðlaheiminn til að hringsnúast
og verður þar með til þess að þeir uppgötvi
málverkið. Hneyksli eru svo sterkt afl í bresku
pressunni, að svo virðist sem eina leiðin sem
listamönnum í Bretlandi er opin til að fá at-
hygli sé að gera eitthvað hneykslanlegt. Þessi
hópur listamanna varð að lokum mjög laginn
við að spila á þessa tilhneigingu, en þeir nýttu
sér m.a. ráðleggingar markaðsfræðinga til
þess að búa til grundvöll fyrir verkin sín. Með
þessum hætti fengu þeir hjólin til að snúast
sér í hag.“
Telur þú að stefna stjórnvalda í Bretlandi
hafi átt sinn þátt í því að skapa þessu fólki
grundvöll til að vinna á?
„Nei, svo sannarlega ekki. Við megum ekki
gleyma því að Verkamannaflokkurinn hefur
ekki verið lengi við völd í Bretlandi og þetta
tímabil í breskum listum hófst þegar Thacher
var enn við stjórnvölinn og listamenn fengu
hreint engan stuðning frá stjórnvöldum. Þeir
þurftu þvert á móti að reiða sig algjörlega á
sitt eigið frumkvæði. Þessi ákveðni hópur fann
sína leið að settu marki og ég áfellist hann alls
ekki fyrir þær aðferðir sem hann hefur notað.
Tímarnir voru einnig þannig þá að margir
þessara listamanna samsömuðu sig ungu fólki
á öðrum sviðum, svo sem hönnuðum, tónlist-
arfólki og svo framvegis. Af því leiddi að
flæðið á milli ólíkra heima varð mun meira og
skörunin sjálf varð að efniviði listanna.
Nú til dags er ástandið þó allt annað og mun
betra því stjórnvöld leggja mikla áherslu á
uppeldi fólks á sviði lista í menntakerfinu.
Eins og Tessa Blackstone, ráðherra lista í
Bretlandi, hefur réttilega bent á, mun það
hafa mikil áhrif þegar frá líður. Hvað list-
menntun og listfræðslu varðar, svo sem á veg-
um safnanna, standa Bretar sig nú fram-
úrskarandi vel, en það er nýtilkomið. Sum
safnanna í London, eins og t.d. Tate Modern,
eru líklega með bestu og metnaðarfyllstu dag-
skrá á sviði uppfræðslu sem þekkist í Evrópu,
en mörg söfn í Bandaríkjunum standa sig
einnig vel. Það tengist auðvitað þeirri stað-
reynd að í Bretlandi er söfnunum hreinlega
ætlað að þjóna öllum almenningi. Hlutverk
þeirra er fyrst og fremst að sinna gestunum.“
En ekki að vera fyrst og fremst geymslu-
stofnanir?
„Einmitt.“
Framleiðsla á merkingu
Nú hefur hlutverk safna í þjóðfélaginu
breyst ákaflega hratt á síðustu 20 árum, öll
söfn í dag keppa við aðrar tegundir afþrey-
ingar; kvikmyndahús, sjónvarp, myndbönd,
tónleika o.s.frv. Telur þú að þessi þróun sé af-
leiðing af þeirri samkeppni?
„Já, það er alveg ljóst. Eins og þú segir þá
verða öll söfn í dag að skapa sér sinn starfs-
vettvang í samkeppni við annað í dag. Þau
verða að vega og meta stöðu sína og taka tillit
til fjöldaframleiddrar afþreyingar ekki síður
en annarra þátta. Að mínu mati þurfa söfnin
ekki að útiloka eitt með því að opna fyrir ann-
að, því menningarlandslagið er orðið svo fjöl-
breytt. Söfnin leggja sig meira fram og tekst
mun betur að höfða til gesta sinna en áður.
Svo eru aðrar ástæður fyrir því að almenn-
ingur sýnir listasöfnum aukna athygli. Ein er
sú að fólk hefur uppgötvað kraftinn sem felst í
því að standa fyrir framan listaverk á safni og
hugsa með sér; ég get hvergi upplifað þetta
verk nema hér og nú. Sú reynsla er einstök og
það er erfitt að öðlast hana öðruvísi því nánast
allt sem við aðhöfumst er með einum eða öðr-
um hætti miðlað til okkar í gegnum einhvers
konar millilið; tölvu, sjónvarp, hljómflutnings-
tæki o.s.frv.
Ég gæti talað um þetta svo klukkustundum
skipti enda er þetta uppáhaldsumræðuefnið
mitt og einmitt það sem vinna okkar snýst um
á söfnunum. Við erum alltaf að dansa línudans
á milli þessara tveggja heima og núna erum
við í Moderna-safninu t.d. að velta því fyrir
okkur hvernig við viljum að safnið okkar starfi
þegar það verður opnað í nýju húsnæði. Mér
finnst maður aldrei mega gleyma því að safn
er ekki bara hús, innihaldið er það sem skiptir
máli. Starfsemin sem heild er mikilvæg en hún
snýst í rauninni fyrst og fremst um fram-
leiðslu á merkingu.
Moderna-safnið er þó mjög sérstakt og í því
er fólgin áhugaverð þversögn; því það er bæði
safnahús og samtímavettvangur. Hlutverk
þess spannar bæði svið minninganna og sög-
unnar – ekki síst mótun sögunnar. Grundvöll-
ur velgengni safns á borð við Moderna-safnið
felst í því að viðhalda þeirri spennu sem í þver-
sögninni felst, án þess þó að skapa valda-
strúktúr í kringum tengsl samtímans við hefð-
ina. Að mínu mati er einnig mikilvægt að finna
starfseminni farveg án þess að sjálf umgjörð
safnsins sé látin ráða ferðinni. Núna er safnið
t.d. heimilislaust, við höfum bækistöðvar en
rekum starfsemina eins og hjarðmenn, á tíu
mismunandi stöðum eftir efnum og ástæðum.
Samt sem áður rekum við mjög metnaðarfulla
sýningarstarfsemi og höfum ekkert gefið eftir.
Þetta tímabil hefur auðvitað verið erfitt, en
uppskeran hefur verið ríkuleg, við þurftum að
endurhugsa allar starfsaðferðir og vinna þver-
faglega. Ég er viss um að þegar safnið verður
opnað á nýjan leik munum við ekki líta á að-
alsafnahúsið sem sjálft safnið, heldur fyrst og
fremst sem eitt okkar mikilvægustu verkfæra
– en alls ekki það eina. Í gegnum þetta óvenju-
lega ferli hafa því orðið mjög mikilvæg
straumhvörf í stefnumótun safnsins. Við segj-
um t.d. ekki að við séum að opna safnið á nýjan
leik í nýju húsnæði, heldur að nýr möguleiki
bætist við í safnastarfinu. Við erum staðráðin í
að starfa víðar í samfélaginu en þar, eftir sem
áður.“
Algildur sannleikur
er ekki til í listum
Í rauninni má segja að þið finnið styrk ykk-
ar í að ögra viðteknum hugmyndum um hlut-
verk hefðbundins safns?
„Já. Þegar allt kemur til alls er starf okkar
sem vinnum á söfnum það að skapa sameig-
inlegan grundvöll þar sem almenningur, lista-
menn og listaverk mætast undir sem hagstæð-
ustum kringumstæðum fyrir alla aðila. Í Tate
Modern voru kjörorð okkar t.d. „Excellence
and Access“ eða „Ágæti og aðgengi“, en í
„ágæti“ fólst að við sættum okkur ekki við
neinar málamiðlanir í framsetningu listaverk-
anna og meðvitund um að reyna að nálgast
markmið listamannsins með verkinu eins mik-
ið og hægt er þegar það er sýnt – en flest söfn
standa sig reyndar ágætlega á þessu sviði.
„Aðgengi“ vísaði svo til þess að við vildum
einnig gera sem mest úr reynslu safngestsins
– en þar standa flest söfn sig illa. Öll smáatriði
í framkvæmd sýninganna falla undir það sem
lýtur að gestinum, allt frá því hann kemur inn
fyrir safndyrnar. Er t.d. sá sem starfar í mót-
tökunni í einkennisbúningi sem minnir á lög-
regluna eða öryggisvörslu? Er gestinum gert
kleift að átta sig auðveldlega á fyrirkomulagi
sýninganna? Finnur hann sig velkominn þótt
hann hafi aldrei áður komið á listasafn? Eru
upplýsingar sniðnar að þörfum ólíkra gesta til
reiðu? Allt skiptir þetta miklu máli í dag, og ef
ekki er hugað að þessum þáttum mun safnið
ekki geta þjónað almenningi. Í dag skiptir
ekki síst máli að fá gesti listasafna til að hætta
að vera á varðbergi, auk þess sem alltaf verð-
ur að hafa í huga að því meira sem fólk veit,
því meira sér það. Einn þeirra þröskulda sem
hægt er að fjarlægja er aðgangseyririnn, við
erum að vinna að því í Svíþjóð að fá hann felld-
an niður til þess að opna safnið fyrir þeim sem
annars telja sig ekki hafa neitt þangað að
sækja.
Söfn verða stöðugt að vera í endurnýjun ef
þau ætla að skipta samfélagið máli, og hvað
ástandið í Bretlandi varðar þá held ég að okk-
ur hafi tekist ákaflega vel að vinna með það
sem var á vogarskálum samtímans þegar Tate
Modern var opnað. Sú velgengni sem safnið
hefur átt að fagna er hreint ótrúleg – en auð-
vitað mjög ánægjuleg. Auðvitað skiptir listin
sem sýnd er sköpum, en í því sambandi tel ég
mikilvægast að átta sig á því að engin ein
stefna, aðferð eða leið felur sannleikann í sér.
Við verðum að viðurkenna að í listinni þrífst
allt í einu og ólíkar leiðir skarast og tengjast
með öllum mögulegum hætti. Algildur sann-
leikur er ekki til í listum, heldur einungis opn-
ir möguleikar – þess vegna eru listirnar svona
spennandi.“
SAFN ER EKKI BARA HÚS
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Lars Nittve segir innihald safnanna skipta mestu máli: „Starfsemin sem heild er
mikilvæg en hún snýst í rauninni fyrst og fremst um framleiðslu á merkingu.“
fbi@mbl.is
Umhverfi og hlutverk íslenskra listasafna hefur verið nokkuð til umræðu að undanförnu, enda hafa kröfur til safna
breyst mikið á síðustu árum. Lars Nittve, einn frægasti safnstjóri Norðurlanda, kom hingað til lands sl. haust og FRÍÐA
BJÖRK INGVARSDÓTTIR fékk hann til að ræða þá nýju hugmyndafræði sem sýningar- og safnstjórar hafa þurft að
tileinka sér til að starfsemi safnanna standi undir þeim fjölþættu væntingum sem gerðar eru til þeirra í samtímanum.