Lesbók Morgunblaðsins - 29.03.2003, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 29.03.2003, Blaðsíða 4
4 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 29. MARS 2003 Í NÝRRI og bjartri vinnustofu Georgs Guðna standa fjögur stór málverk upp við veggina. Þau eru tæplega þriggja metra há og hann keppist við að ljúka þeim áður en yfirlitssýningin verður opnuð í listasafninu, segir mikilvægt að hafa alveg nýjar myndir þar með þeim eldri. Þessi verk eru afar voldug, bláleit, og í þeim óræða anda sem meira og meira hafa einkennt verk Georgs Guðna síðustu misserin. Ég spyr hvort við séum að horfa út á haf eða yfir land. „Það heillar mig hvað þetta er orðið óskil- greinanlegt,“ segir Georg Guðni. „Mér finnst þetta geta verið hvoru tveggja.“ Hann gengur að einu verkinu og bendir: „Þetta byrjaði sem einskonar hálendisöldur en getur nú verið hvort sem er, öldur á hafi eða á jörð. Í fyrra sýndi ég stórt verk í Skaftafelli, menn- ingarmiðstöðinni á Seyðisfirði, og menn töluðu ýmist um að í því væri horft til lands af sjó, horft frá landi eða það væri af hálendisvíðáttu. Ég set skynjunina ekki fram heldur býr fólk hana til eftir því hvað það hefur upplifað, eða einfald- lega eftir því sem það ímyndar sér. Augað leitar að einhverju þekkjanlegu en ef það festir ekki við neitt fyllir hugurinn í eyðurnar. Það er ekki mitt að segja fólki hvað það á að sjá í verk- unum.“ – Hvert er þá þitt hlutverk? Georg Guðni hlær. „Áhorfandinn er í sömu sporum og ég, nema hann málar ekki verkið. Ég bý til sjónrænar aðstæður, þær mynda ákveð- inn tíma sem fólk staldrar við. Þegar þú staldr- ar við þessi verk geturðu lent í svipuðum að- stæðum og þegar þú starir út um glugga. Ert að horfa en samt hættur að horfa á eitthvað ákveð- ið. Þá snýr sjónin við, fer inná við. Það gerist ef þú ferð að horfa hérna.“ Hann gengur að einu verkinu og bendir á miðflötinn, þar sem er eins- konar óviss og loftkenndur sjóndeildarhringur. „Við náum ekki að festa sjónina á neinu ákveðnu, hún fer þá til baka og hugsunin fer að búa til myndir á eigin tjaldi.“ – Þú ert alltaf með náttúrutengingu í verk- unum, þótt þau séu allt að því óhlutbundin. „Já, náttúran kemur alltaf upp í þeim en á ákveðnum tímapunti öðlast málverkið sjálf- stæði. Þá skiptir meira máli sjálf glíman við málverkið en að fjalla um einhver náttúrufyr- irbrigði, ljós, veður eða slíkt. Þeir þættir koma sjálfkrafa inn, þeir eru ein- hver fasi sem alltaf er til staðar. Ég legg upp með eitthvað ákveðið en það er síðan sífellt að breytast. Ég byrja að mála í einu horni, síðan kemur annað lag, þriðja lagið og það getur verið orðið eitthvað allt annað. Ég hleð verkin þannig upp og þá kemur inn annar mikilvægur þáttur, sem er tíminn. Það er eins og fyrst renni hraun og myndi lag, yfir það fýkur sandur, þá skýtur gróður rótum, svo rennur annað hraun yfir allt saman. Gróðurinn og mölin eru eins og hugs- anirnar milli laga. Hvert nýtt lag getur verið þróun í ákveðna átt en getur einnig verið skref aftur. Þannig hleðst málverkið upp.“ – Og í verkunum er ákveðið gegnumskin, áhorfandinn skynjar það sem er undir yfirborð- inu. „Þú skynjar fortíðina. Þetta er tímalína, sam- bærileg við að fara gegnum jarðlög eða lög jökl- anna. Þetta er sköpunarsaga.“ Losna aldrei við náttúruvísanir Georg Guðni vakti strax athygli þegar hann lauk námi fyrir tæpum tuttugu árum, fyrir myndir af fjöllum. Með tímanum leystust fjöllin upp í geómetrísk form, þá komu fram dalir og síðustu árin hefur landið verið að fletjast út, í ónafngreint landslag sem er frekar skynjað en skilið. „Ég byrjaði að mála ákveðin þekkjanleg fjöll sem alltaf báru nafn. Þar var ákveðin tenging í gamla landslagsmálverkið, þar sem oft var byggt á ákveðnum fjöllum sem táknum. Svo þróuðust verkin yfir í tiltölulega geómetrískt landslag eða náttúrumyndir. Þá var ég hættur að styðja mig við ákveðið þekkjanlegt land en formið losnaði samt aldrei við náttúruvísanir. Verkin hafa aldrei orðið eins og abstraktmál- verk sem áttu að vera laus við öll tengsl við þekkjanlegar fyrirmyndir. Þegar ég þokaði mér úr geómetríunni yfir í þekkjanlegra landslag var það á ákveðnum for- sendum sem þróuðust úr geómetríunni. Þá komu inn dalir sem byggðu á mjög sterkri mál- unartækni, gegnsæjum en greinilegum lóðrétt- um og láréttum línum. Ég gekk ofboðslega langt í því, svo langt að mér fannst að lokum að ég yrði að brjótast undan því. Það var orðið svo, hvað á ég að segja; fullkomið ...“ – Í þeim verkum er eins og horft sé gegnum gagnsætt net. „Já, og mér fannst það orðið truflandi því fólk fór ekki inn fyrir framhlið verkanna, málunar- tæknina. Það truflaði mig þegar fólk var að- allega að velta fyrir sér hvernig þetta væri gert. Ég fór því að rífa þetta niður. Breytti aðferð- unum ekki mikið en málunartæknin varð ekki eins áberandi. Ég mála í tvær áttir, lárétt og lóðrétt.“ Og hann dregur ósýnilega línur út í loftið, máli sínu til stuðnings. „Ég mála ekki á ská og ekki með sveiflum eða krúsídúllum.“ – Þú málar eins og strangflatamálari. „Já, eða öllu heldur eins og húsamálari,“ seg- ir hann og brosir. – Þú sagðir að þekkjanlegt landslag hafi aftur farið að koma inn í verkin, en er það ekki bara þekkjanlegt útfrá þínum verkum? Þetta eru engir ákveðnir staðir. „Nei, en mér finnst reyndar oft að ótrúverð- ugar lýsingar á landi séu hvað sannastar. Ég fer krókaleiðir að áfangastað og kemst oft aldrei þangað sem ég ætlaði. En svo lendi ég kannski þar seinna, í öðru málverki, án þess að hafa ætl- að mér. Þannig vinnur tíminn með mér í þess- um verkum, útkoman er ekki fyrirsjáanleg.“ Upphafning ómerkir landslagið – Einhvern tímann sagðirðu að marg af- myndaðir staðir eins og Þingvellir væru ekki spennandi sem landslag. Áhugaverðasta lands- lagið væri það sem ekki bæri nafn, væri frekar skynjun. „Upphafning á landslagi ómerkir það á viss- an hátt. Upp á síðkastið hefur mikið verið rætt um svokallað sjónrænt mat á landslagi – það er eitthvað sem listamenn hafa stundað hér í á annað hundrað ár. En hvað mönnum finnst áhugavert tekur sífellt breytingum. Um leið og menn hafa notað eitthvað, bundið það niður, þá beinist áhuginn annað. Um leið og landsvæði er gert að þjóðgarði er búið að upphefja það. Víðáttur landsins eru óbyggðir en um leið og FJALLIÐ VAR MÍN SJÁLFSTÆÐISBARÁTTA Morgunblaðið/Einar Falur Síðustu tvo áratugi hafa gagnrýnendur keppst um að lofa málverk Georgs Guðna Haukssonar. Þrátt fyrir að hann sé rétt rúm- lega fertugur hefur hann verið sagður einn af meist- urum íslenska landslags- málverksins. Í dag verður opnuð í Listasafni Íslands yfirlitssýning á verkum Georgs Guðna, en hann er yngsti listamaðurinn sem hlotnast hefur sá heiður. Hann ræddi við EINAR FAL INGÓLFS- SON um feril sinn, náttúr- una í verkunum og þróun afar sérstaks myndheims. Þetta eru ýmiskonar pælingar. Hvernig ég eigi að setja litinn á, hvernig verkið sé laust við tilgerð; maður er sífellt að reyna að einfalda sig, mála á hreinskiptinn hátt, af eins mikilli trúmennsku og hægt er.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.