Lesbók Morgunblaðsins - 29.03.2003, Blaðsíða 11
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 29. MARS 2003 11
Hver er mesti hraði sem
mannvera getur náð
án þess að deyja?
SVAR: Svarið er í stuttu máli það að hraði drep-
ur engan; það er svokölluð hröðun eða hraða-
breyting sem getur hins vegar vissulega verið
lífshættuleg.
Þegar við sitjum í flugvél sem hefur náð full-
um hraða og er komin í lárétt flug finnum við yf-
irleitt ekkert fyrir hraða flugvélarinnar. Engu
að síður er hann mörg hundruð kílómetrar á
klukkustund. Hið sama gildir ef við sitjum í
góðri járnbrautarlest. Þó að hún sé á fullri ferð
getum við meira að segja gengið um gólf, leikið
okkur með bolta og gert hvers konar kúnstir
rétt eins og við værum í stofunni heima hjá okk-
ur. Þetta á líka við um bíla ef vegurinn er nógu
góður og misfellulaus, en það er hins vegar
sjaldgæft, einkum hér á Íslandi.
Ef við færum í boltaleik inni í flugvél í flug-
taki eða lendingu mundi hreyfing vélarinnar
hins vegar segja til sín í undarlegri hegðun bolt-
ans. Ef við sæjum ekkert út úr vélinni og viss-
um ekkert um flugáætlunina gætum við snúið
dæminu við og ályktað af hreyfingu boltans og
öðrum fyrirbærum inni í vélinni að nú væri hún
að takast á loft eða að undirbúa lendingu.
Þegar bíll fer snöggt af stað finnum við
hraðabreytinguna eða hröðunina með því að við
þrýstumst niður í sætunum og á sama hátt leita
lausir hlutir í bílnum fram á við þegar hemlað er
snögglega. Í árekstrum verður hröðunin enn
miklu meiri; hraði bílsins breytist þá mjög veru-
lega á örskömmum tíma. Það er þessi hröðun
sem veldur tjóni á mönnum og öðrum lausum
hlutum í árekstrinum. Þegar við sögðum í upp-
hafi máls að hraði dræpi engan var það sem sé
ekki meint sem hvatning til að aka hraðar því að
hraðabreytingin við árekstur, til dæmis á ljósa-
staur eða vegg, verður auðvitað þeim mun meiri
sem hraðinn var meiri fyrir áreksturinn.
Í öflugum og hraðskreiðum flugvélum, svo
sem herþotum, verður hröðun oft veruleg í flug-
taki og lendingu, til dæmis þegar slíkar þotur
lenda á stuttum brautum á flugmóðurskipum.
Þessi hröðun getur valdið verulegu álagi á lík-
ama manna og enn meiri verða þessi áhrif í
geimferðum, til dæmis þegar geimför takast á
loft. Þetta er ein ástæðan til þess að geimfarar
þurfa að vera afar vel á sig komnir líkamlega.
En sem sagt: Mikill hraði hefur í sjálfu sér
engin áhrif á menn en breytingar á hraða geta
verið varasamar. Og að lokum má minna á að
við erum á stöðugri hringferð um sól með hrað-
anum 30 kílómetrar á sekúndu, sem er ógn-
arhraði miðað við flest sem við eigum að venj-
ast. Engu að síður finnum við ekkert fyrir
þessum hraða og leiðum örsjaldan hugann að
honum!
Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor
í vísindasögu og eðlisfræði við HÍ.
Hver eru sérsvið
afbrotafræðinnar?
SVAR: Afbrotafræðin er ein grein félagsvísinda
sem styðst við viðurkenndar aðferðir til rann-
sókna á afbrotum og viðbrögðum samfélagsins
við þeim. Afbrotafræðin er vísindaleg rannsókn
á afbrotum, afbrotahegðan og viðurlögum. Mik-
ilvægt einkenni afbrotafræðinnar er þverfag-
legt eðli hennar. Afbrotafræðingar koma úr
ýmsum fræðigreinum, svo sem félagsfræði, sál-
fræði, lögfræði, hagfræði og jafnvel úr nátt-
úruvísindum. Sem dæmi má taka Ítalann Ces-
are Lombroso (1835–1909) sem nefndur hefur
verið „faðir afbrotafræðinnar“ en hann var
læknir að mennt og starfaði sem fangelsis-
læknir.
Viðfangsefni og sérsvið afbrotafræðinnar eru
fjölbreytt. Mælingar á tíðni afbrota (e. criminal
statistics) eru þekkt undirsvið þar sem meðal
annars er stuðst við gögn lögreglu eða dóma til
að meta tíðni afbrota eins og hún birtist í op-
inberum gögnum. Skýringar á afbrotum (e.
etiology of crime) leitast við að varpa ljósi á
hvers vegna afbrot eru framin. Hinn þverfag-
legi bakgrunnur afbrotafræðinnar kemur hér
skýrt fram. Sem dæmi má taka að sál-, líf- og
læknisfræðin gefa einkum gaum að ein-
staklingsbundnum einkennum brotamanna, en
félagsfræðin beinir sjónum einkum að fé-
lagstengslum þeirra og félagslegu umhverfi.
Hvað gera eigi við lögbrjóta og hvernig bæta
eigi fyrir afbrot er annað sérsvið (e. penology). Í
meginatriðum snúast rannsóknir á þessu sviði
um áhrif refsinga og mat á ólíkum úrræðum til
að sporna við afbrotum. Fórnarlambafræði (e.
victimology) er vaxandi svið innan afbrotafræð-
innar sem beinir sjónum að þolendum afbrota
og einkennum þeirra. Fleiri undirsvið má nefna
til viðbótar eins og rannsóknir á afbrotum ung-
menna, hlutdeild kvenna í afbrotum og sam-
anburðarafbrotafræði þar sem leitast er við að
bera afbrot saman milli landa.
Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði við HÍ.
Hvernig myndaðist Hvalfjörður
og hversu langt er síðan?
SVAR: Hvalfjörður, ásamt dölum og fjöllum í
kring, er dæmigert sköpunarverk ísaldarjökla.
Við upphaf ísaldar, fyrir um það bil tveimur
milljónum ára, var landslag þar líkt því sem nú
er í Ódáðahrauni, flatlent hraunaflæmi og
sennilega alllangt til sjávar. Smám saman surfu
skriðjöklar síðan Hvalfjörðinn og dalina í kring
niður í blágrýtisstaflann.
Aldursgreiningar sýna að vestasti hluti Esj-
unnar er um þriggja milljóna ára gamall og
Hvalfjarðarströndin „yngist“ til austurs í átt að
gosbeltinu. Sé gert ráð fyrir að rekhraðinn sé
einn cm á ári (sem jafngildir tíu km á milljón ár-
um) hefur þetta svæði (Hvalfjörður) verið ná-
lægt gosbeltinu og fjarri sjó við upphaf ísaldar,
en rekið til vesturs og fjarlægst gosbeltið með-
an á ísöldinni stóð. Þar sem rof jökla er mest
fjærst ákomusvæðum þeirra má ætla að rofið
og þar með landmótunin á þessu svæði af völd-
um skriðjökla hafi aukist eftir því sem svæðið
rak til vesturs og verið hraðast á síðasta kulda-
skeiði ísaldar, sem stóð frá því fyrir um það bil
100.000 árum til 10.000 ára.
Sigurður Steinþórsson, prófessor
í jarðfræði við HÍ.
HVER ER MESTI
HRAÐI
MANNVERU?
Af hverju fær maður kvef, hversu hratt breiðast
áhrif þyngdarafls út, hvað eru byrkningar og út á
hvað gengur réttarlíffræði? Þessum spurningum og fjölmörgum öðrum
hefur verið svarað að undanförnu á Vísindavefnum.
VÍSINDI
Í Hvalfirði.
uðu máli gegnir um flest atvikin og sagnirnar
sem herma frá þeim, að þau tengjast byggða-
þróun í víðum skilningi: Húsbyggingu, út-
færslu bæjar- og borgarmarka, vega- og gatna-
gerð, byggingu verksmiðja og öðrum
framkvæmdum sem þétta byggðina eða
stækka hana. Þau atvik sem hæst hefur borið á
síðustu árum staðfesta þetta mynstur. Grá-
steinn við Vesturlandsveg var fluttur árið 1999
vegna breikkunar þessarar samgönguæðar
milli höfuðborgarinnar og bróðurparts lands-
byggðarinnar, en um þann flutning spunnust
miklar deilur í fjölmiðlum þótt hann gengi síð-
an áfallalaust fyrir sig þegar á reyndi. Þá lentu
jarðýtur og trukkar í stökustu vandræðum
vegna framkvæmda í Leirdal í Smárahvamms-
landi Kópavogs árið 1996, þegar tún sem áður
voru heyjuð voru lögð undir verslunarmið-
stöðvar, íbúðarbyggð og framtíðarkirkjugarða
höfuðborgarsvæðisins. Nú nýlega hefur síðan
heyrst að einhverjir húsbyggjendur í nýju
hverfunum milli Reykjavíkur og Mosfellsbæj-
ar hafi lent í vandræðum vegna meintra álfhóla
á þeim slóðum.
Sagnir af landvörnum álfa og mótspyrnu
þeirra gegn framkvæmdum bera þannig vitni
um yfirnáttúrulega andstöðu gegn byggðaþró-
un. Álfarnir verjast semsé ásókn nútímatækni,
sem birtist í mynd jarðýtunnar og skurðgröf-
unnar, steypunnar og malbiksins. Í frásagn-
arhefðinni standa vættirnar í reynd vörð um
dreifða byggð. Af þessu má draga þá ályktun
að álfasagnir samtímans beri vott um heilmikla
nostalgíu í íslensku samfélagi og jafnvel vott af
sektarkennd vegna þeirra miklu og öru sam-
félagsbreytinga sem hér áttu sér stað á 20. öld.
Sagnahefðin gefur fólki tækifæri til að fást við
áhyggjur af þessum toga með því að endur-
móta þær í frásagnarformi og gera þær þannig
áþreifanlegar.
Hjálækningar og tattú
Hjálækningar eru sígilt rannsóknarefni í
þjóðfræði, en þær ganga líka m.a. undir nöfn-
unum alþýðulækningar og óhefðbundnar lækn-
ingar (þótt þær tilheyri í mörgum tilvikum
aldagamalli hefð). Til þess að skilja uppgang
hjálækninga síðustu tvo áratugi er óhjákvæmi-
legt að líta til kenninga um hnattvæðingu ann-
ars vegar og kenninga um póstmódern menn-
ingarástand hins vegar. Það gefur augaleið að
samþætting manna á indverskri hugleiðslu,
japönsku reiki, kínverskum nálastungulækn-
ingum og íslenskum fjallagrösum verður ekki
skýrð án þess að horfa til hnattvæðingar á
hversdagsmenningu. Sá háttur að velja saman
tákn, siði og efni úr gerólíkum áttum og ólíku
samhengi og blanda þessu saman eftir smekk
er síðan dæmi um þá fjölhyggju og afstæðis-
hyggju sem kenndar hafa verið við menningar-
ástand eftirnútímans, póstmódern ástand.
Tattú eru annað afbragðs dæmi um hnatt-
vædda hversdagsmenningu. Þar nægir að
nefna að þau eru upprunnin í Eyjaálfu, náðu út-
breiðslu á Vesturlöndum með auknum sam-
göngum á tuttugustu öldinni, en síðustu einn til
tvo áratugina hefur síðan orðið sannkölluð
tattúvakning. Tattúkúltúr samtímans má segja
að sé leikur að táknum, þar sem tákn eru valin
úr ýmsum ólíkum áttum og frá ólíkum heims-
hornum og þar sem mismunandi merkingar-
sviðum er blandað saman eftir geðþótta – eftir
því hvað hverjum og einum þykir flott. Mörg
tattú sem við sjáum hér á Íslandi eru ýmist
með japönsku eða kínversku letri, önnur eru
svokölluð „tribal“ mynstur (sem eiga að vera
„frumbyggjaleg“), enn önnur sækja í þjóðlegan
arf, s.s. galdrastafir og Þórshamrar. Úrvalið er
svo að segja óþrjótandi. Þessi tattú öll eru svo
sannarlega til merkis um breyttan tíðaranda,
en það sést best í samanburði við tattú sem
menn fengu fyrir tíma þessarar vakningar.
Tattú fyrri tíma tilheyrðu fastskorðuðu tákn-
kerfi. Þau voru stéttbundin og tilheyrðu fyrst
og fremst sjómönnum, meðlimum í mótorhjóla-
og öðrum gengjum, og loks föngum. Þau mátti
lesa nánast eins og stafi á bók, að því gefnu að
maður skildi táknkerfið. Hérlendis þýddi tattú
lengi vel einfaldlega að maður hefði verið til
sjós.
Þær breytingar hafa átt sér stað á síðustu
árum og áratugum að þetta táknkerfi hefur lið-
ast í sundur. Eftir standa stök tákn, án sam-
hengis eða fastrar merkingar. Þetta er svona
eins og að hafa fyrir framan sig staka stafi, en
að málið sem þeir tilheyrðu eitt sinn sé liðið
undir lok. Í stað þess að vera kerfisbundin og
þar með skiljanleg öllum sem á hana eru læsir
er merking þeirra nú orðin einstaklingsbundin.
Hér er á ferðinni eins konar einkavæðing
merkingarheimsins. Þessi einkavæðing helst
auðvitað í hendur við einstaklingshyggju sam-
tímans. Áður fyrr vildu menn sverja sig í
ákveðinn félagsskap með tattúum; þau voru
stéttbundin og sýndu hvað sá tattúveraði átti
sameiginlegt með öðrum. Nú vilja hins vegar
allir fá tattú sem er „dálítið júník“, og einstak-
lingar velja sér tattú og hanna þau með tilliti til
þess að enginn sé með alveg eins mynd og þeir.
Í stað fastrar merkingar kemur fagurfræði.
Annað samhengi sem rétt getur verið að
setja tattúvakninguna í er þjónustusamfélagið,
en með því hugtaki er vitaskuld verið að vísa til
þess hvernig atvinnuskipting landsmanna og
reyndar Vesturlandabúa allra hefur gerbreyst
á síðustu áratugum. Nú vinnur drjúgur meiri-
hluti fólks við þjónustustörf, sérstaklega í
borgum. Þar af situr stór hluti við skrifborð all-
an daginn og líkami þess, að fingrunum und-
anskildum, gerir ekki mikið meir en að þvælast
fyrir við dagleg störf. Samfélagsbreytingarnar
sem hér um ræðir hafa með öðrum orðum gert
líkamann svo að segja óþarfan fyrir mikinn
fjölda fólks í daglegu lífi þess.
Tattúvakningin á síðustu tveimur áratugum
gerir líkamann að myndfleti sínum og hefur
þess vegna verið sett í samhengi við þessar
breytingar. Líkamsræktarhreyfingin sem kom
fram á mjög svipuðum tíma hefur sömuleiðis
verið tengd breyttum atvinnuháttum, en hvort
tveggja má túlka sem tilraunir til að endur-
heimta líkamann á elleftu stundu, á þeirri
stundu sem hann er að hverfa sem mikilvægur
þáttur í daglegu lífi í þjónustusamfélaginu.
Félagsvísindi hins smáa
Allt eru þetta dæmi um hversdagslegar birt-
ingarmyndir stórra hugmynda. Um þessar
samfélagsbreytingar er yfirleitt rætt í miklu
stærra samhengi og með mun óhlutbundnari
hætti. Að mínu viti helgast erindi þjóðfræð-
innar í þessa umræðu einmitt af því að þjóð-
fræðingar eiga gott með að hlutbinda hana, að
tengja kenningar um stór ferli og breytingar
við hversdaginn.
Þjóðfræðin snýst um hversdagsmenningu.
Hversdagsmenning er mikilvæg vegna þess að
hversdagurinn er vettvangur alls þess sem
gerist; hvort heldur það er stórt eða smátt í
sniðum gerist hvaðeina í daglegum samskipt-
um manna. Í þjóðfræðaefninu sem tilheyrir
þessum daglegu samskiptum tjá hópar fólks
sig um það sem er að gerast, um það sem
brennur á fólki.
Þjóðfræðin má þannig segja að sé félagsvís-
indi þess smáa. Þjóðfræðingar tengja smáatvik
og tjáningarform hversdagsmenningarinnar
við stóra samhengið. En þegar grannt er skoð-
að samanstendur þetta stóra samhengi auðvit-
að ekki af neinu öðru en mörgu smálegu. Það er
bæði gömul saga og ný að margt smátt gerir
eitt stórt.
Morgunblaðið/Ásdís
„Það gefur augaleið að samþætting manna á indverskri hugleiðslu, japönsku reiki, kínverskum
nálastungulækningum og íslenskum fjallagrösum verður ekki skýrð án þess að horfa til hnatt-
væðingar á hversdagsmenningu.“
Höfundur er þjóðfræðingur.