Lesbók Morgunblaðsins - 12.04.2003, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 12.04.2003, Blaðsíða 13
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 12. APRÍL 2003 13 KAMMERKÓRINN Vox academica og gleði- sveitin Rússíbanarnir halda tónleika í Salnum í Kópavogi annað kvöld kl. 20, ásamt sópr- ansöngkonunni Sigrúnu Hjálmtýsdóttur og fiðlu- leikaranum Sigrúnu Eð- valdsdóttur. Efnisskrá tónleikanna er fjölbreytt en þar ber sérstaklega til tíðinda frumflutning á glænýju tónverki Hróðmars Inga Sigurbjörnssonar. Verk- ið, sem er samið sér- staklega fyrir þessa tón- leika, er fyrir kammerkór, hljómsveit, einleiksfiðlu og sópr- ansöngkonu og er tónmynd sjö ljóða Ísaks Harðarsonar úr nýjustu ljóðabók hans, Hjört- urinn skiptir um dvalarstað. Verkið ber yf- irskriftina Hjörturinn. „Þetta er tónverk byggt á sjö af ljóðunum í bók Ísaks,“ segir tónskáldið. „Sum ljóðin eru mjög trúarleg en önnur mjög persónuleg. En eins og hjá Ísak er líka í þeim mikill húmor og hlýja, og ég reyni að skapa svolitlar andstæður úr ólíkum ljóð- um og nota stundum allan hópinn saman og stundum bara Diddú og Rússíbanana, og stundum bara kórinn – reyni að nýta alla möguleikana.“ Fyrir nokkrum árum samdi Hróðmar stórt verk, byggt á Stokkseyr- arljóðum Ísaks. „Þá ákváðum við að vinna ein- hvern tíma saman aftur. Í sumar gaukaði hann svo að mér ljóðabunka og ég fór að skoða það. Þegar ég var svo beðinn að semja verk fyrir Vox academica ákvað ég að nota þessi ljóð. En það var svo skemmtilegt að ég byrjaði á þessu í sumar. Fyrir ljóðin fékk ég svo ljóðabókina þegar hún kom formlega út. Þá voru sum ljóðin ekki lengur eins og þau voru um sumarið. Í sumum tilfellum er því allt annað sungið en er í ljóðabókinni og í einu til- felli er hann búinn að taka út texta sem ég notaði sem viðlagið í laginu, það er bara ekki lengur í ljóðinu. Ég hafði mjög gaman af þessu, því það er líka heimild um vinnu skáldsins og þróunina í ljóðasmíðinni.“ Hróð- mar lýsir tónlistinni sem nostalgíu sem teng- ist mörgum hlutum. „Í fyrsta lagi tileinka ég verkið minningu Einars Kristjáns Ein- arssonar stofnanda Rússíbananna, en við lærðum saman á gítar í Tónskóla Sigursveins fyrir 25 árum, með Kristni Árnasyni sem spil- ar núna með þeim. Þannig er þetta nostalgísk minning um þá tíma, þegar við vorum að hugsa um alls konar rokkmúsík og fram- úrstefnupopp. Ég leik mér svolítið að því að fara til baka á þann hátt líka. Það spillir held- ur ekki fyrir að hafa Diddú með, en ég hef ekki samið fyrir hana áður. Hún var æðisleg í Spilverkinu og ég neita því ekki að ég er svo- lítið að leita á þau mið. Ég er að gæla svolítið við þjóðlagarokk eða eitthvað þess háttar.“ Ljóðabók Ísaks Harðarsonar, Stokkseyri, varð sem fyrr segir neistinn að öðru verki eft- ir Hróðmar. „Það sem kveikir í mér er það að mig langi til að syngja ljóð sem ég les – enda sem ég mikið fyrir söng. Mig langar oft til að syngja ljóð Ísaks. Það er svo mikil breidd í ljóðunum hans, hlýja, sársauki og húmor, þetta finnur maður mjög sterkt. Ljóðin hans eru oft líka mjög persónuleg og skýr og það hentar vel í söng.“ Auk Hjartarins verður á efnisskránni blönduð tónlist fyrir kórinn a capella, söng- konuna, hljómsveitina og einleikarann, þar á meðal klezmer-tónlist, íslensk þjóðlög og Napólísöngvar. Rússíbanana skipa þeir Guðni Franzson, Jón Skuggi, Kristinn Árnason, Matthías Hemstock og Tatu Kantomaa en stjórnandi á tónleikunum er Hákon Leifsson. Vox academica frumflytur verk eftir Hróðmar Sigurbjörnsson „Mig langar oft til að syngja ljóð Ísaks“ Morgunblaðið/Árni Sæberg Hjörturinn æfður. Vox academica, Rússíbanar og Diddú undir stjórn Hákons Leifssonar. Hróðmar I. Sigurbjörnsson Á VEL sóttum tónleikum söng kvennakór- inn Vox Feminae annars vegar Rómönsur eftir Schumann, og hins vegar Ástarljóð- avalsa (Liebesliederwaltzer) eftir Brahms. Tónleikarnir báru yfirskriftina: Til Klöru, – Klara var eiginkona Schumanns og vinkona og sálufélagi Brahms og hafði mikil áhrif á þá báða og verk þeirra, enda framúrskarandi tónlistarmaður sjálf. Þetta verkefnaval er metnaðarfullt; – býsna erfið verk og vand- sungin. Léttleikinn er ekki alltaf það auðveld- asta að glíma við. Vox feminae er prýðilegur kór og í nokkuð góðu formi um þessar mundir. Sérstaklega eru innraddirnar, – 2. sópran og 1. alt skín- andi góðar. 2. alt er fulldaufur, og vantar meiri hljóm, en syngur þó ágætlega. 1. sópr- an stendur höllum fæti í samanburði við aðr- ar raddir kórsins, ekki síst þegar kemur að hæstu hæðinni. Þar er söngurinn oft sár og klemmdur. Góð raddþjálfun gæti hiklaust lagað þetta. Í upphafi tónleikanna virtist kór- inn fremur spenntur, og söngurinn var of haminn, – of lítil músík í honum. Smám sam- an hvarf þetta. Rósmarín var eitt best sungna lagið á fyrri hluta tónleikanna, mjög músíkalskt og vel og vandlega unnið hvað snerti styrkleikabreytingar. Túlkunin á þessu lagi var áhrifamikil og falleg. Í laginu um Tambúrínuleikarann var það sama uppi á teningnum, – ljóst að mikil vinna hafði verið lögð í túlkun og músíkalska útfærslu, en þar var 1. sópran hljómlítill og óhreinn í hæðinni. Inn á milli virtist kórinn svo detta í með- almennsku og söng sem var ekki nógu góður. En þau augnablik, þar sem maður fann hvers kórinn er virkilega megnugur voru þó nokkur og sérskatlega falleg. Lítið dæmi: niðurlag lagsins um Hina yfirgefnu yngismær var yndislega fallega sungið, – þar sem kórstjór- inn dró afar músíkalskt úr styrk og hraða á áhrifamiklu augnabliki í textanum, – sérdeilis vel gert; – en strax í næsta lagi náðist ekki upp nokkur stemning í allt of hægum og lit- lausum söng. Í lokaerindi lokalagsins var líka að finna eitt að þessum ljúfu augnablikum, þegar kórinn söng veikt í upphafi og galdraði fram óhemju dramatíska og flotta þögn áður en viðlagið var sungið síðasta sinni. Þessi góðu augnablik voru bara of fá, og hefðu átt að ná til alls verksins í heild sinni. Kórinn hefur alla burði til að halda uppi fallegum og músíkölskum söng, og vel má heyra að í mörgu liggur mikil músíkvinna að baki. Út- haldið er bara ekki nægt og heildarsvipurinn geldur fyrir það. Ástarljóðavalsar Brahms voru alla jafna betur sungnir, – kórnum skipt upp í minni kór og stærri og jafnvel einsöng. Annað lag flokksins um dunandi stórfljót var kraftmikið og ólgandi í túlkun kórsins, og í því næsta var valstakturinn sérdeilis vel útfærður. Í laginu Nei, það er óþolandi, var taumnum sleppt lausum og kórinn söng feiknarvel og músíkalskt. Annars var þetta eins og fyrir hlé að góðu augnablikin voru of fá. Í Brahms olli staða píanósins bak við kórana nokkrum erfiðleikum, – píanóleikararnir fylgdu söngn- um ekki nógu vel eftir. Þetta var mest áber- andi í einsöngslaginu: Hve unaðslegt var líf mitt fyrrum, þar sem söngkonan hefði ein- mitt þurft betri fylgni. Það var óskiljanlegt að kórstjórinn skyldi ekki nýta sér stjórnandapall sem til staðar er í húsinu, heldur sitja á stól neðan við sviðið. Það hlýtur að vera erfitt að ná augnkontakt og góðu sambandi við svo stóran kór úr þeirri stöðu, – með nótur fyrir framan sig og kórinn á pöllum talsvert ofar. Það má ímynda sér að á þann hátt geti ýmislegt misfarist sem búið er að leggja vinnu í, – í það minnsta er þetta afar óeðlileg staða fyrir kórstjóra andspænis kór. En hvað um það. Það vantar herslumun á að Vox feminae nái besta árangri. Betri radd- þjálfun er nauðsynleg, og meira úthald í mús- íkölskum söng. Þar er þó hæfileikinn greini- lega til staðar. Vantar herslu- mun TÓNLIST Tónlistarhúsið Ýmir Kvennakórinn Vox feminae söng Rómönsur op. 69 og 91 eftir Róbert Schumann og Ástarljóðavalsa op. 52 eftir Jóhannes Brahms. Píanóleikarar voru Arn- hildur Valgarðsdóttir og Ástríður Haraldsdóttir, stjórnandi var Margrét J. Pálmadóttir. Miðvikudag- inn 2. apríl kl. 20.30. KÓRTÓNLEIKAR Bergþóra Jónsdóttir FIMMTÁN ár munu liðin frá því er Helga Ingólfsdóttir, stofnandi og listrænn stjórnandi Sumartónleika í Skálholti, lék síðast einleik á höfuðborgarsvæðinu. Ef rétt er skilið nýlegt Lesbókarviðtal við semballeikarann virðist að hluta mega skrifa þá löngu bið á skort á hent- ugum salarkynnum fyrir sembalinn, sem eins og kunnugt er lágvært hljóðfæri og háðara gjöf- ulli ómvist en slaghörpur nútímans, enda var 1988 tekið fyrir tónleikahald í Kristskirkju í Landakoti sem næst kemst nafntoguðum hljómburði Skálholtskirkju. Það lá því ákveðin spenna yfir upphafi tónleikanna sl. sunnudags- kvöld um hvort heyrðin í Tónlistarhúsi Kópa- vogs, sem þegar þykir hafa sannað sig sem af- burða píanósalur, stæðist einnig vonir og væntingar fyrir smágerðari hljóm sembalsins. Ekki var annað að heyra, a.m.k. ofan af hlið- arsvölum, en að svo væri. Þó að endurómur Sal- arins væri vitaskuld ekkert í líkingu við kirkju- akússtík, heyrðist vel og skýrt í forláta plokkhörpu Helgu, eftirgerð meistarahljóðfæris frá ofanverðum miðbarokktíma, og m.a.s. með furðugóðri fyllingu. Og þó að hægferðugustu legatóhendingar hefðu ugglaust notið góðs af lengri ómtíma, kom óviðjafnanlegur tærleiki á móti sem skilaði jafnvel hröðustu tónarunum eins og perlum á bandi. Helga hóf leik sinn með fallegri angurværri Pavönu í fís-moll eftir Louis (1626–61), elztan hinna þekktari tónskálda frönsku Couperin- ættarinnar er náði hátindi með François „Le Grand“ (d. 1733). Stykkið var samið fyrir til- komu tempraðrar stillingar og hefði verið gam- an að heyra hina (þá) óvenjulegu tóntegund í náttúrustillingu, hefðu ekki nútímaverkin sem á eftir komu gert aðrar kröfur. Fyrst meðal þeirra var stutt en hnitmiðuð sjávarlagsmynd í tónum frá 1988 eftir Hafliða Hallgrímsson kennd við Strönd, heimili flytjandans á Álfta- nesi. Næsta verk, Taramgabadi (1998) eftir El- ínu Gunnlaugsdóttur, var sömuleiðis innblásin af sjávarsetri, en á öllu suðlægari breiddargráð- um við Bengalflóa; nokkru lengra verk, spar- neytnara og kyrrstæðara, líkt og í hitamollu. Lengst (um 7 mín.) var Lamento (2002) eftir Oli- ver Kentish er unnið var upp úr Kantötu hans fyrir Skálholt 1992; hugmyndaríkur „epísódísk- ur“ harmsöngur, dulítið í anda fancy hljóm- borðsgreinar brezkra virginalista á síðendur- reisnartíma, en á nútíma tónmáli. Síðast fyrir hlé kom svo hin stórbrotna Krómatíska fantasía og fúga J.S. Bachs í d-moll, að líkindum frá 1720 og e.t.v. meðal fyrstu sembalverka hans gagn- gert fyrir tempraða stillingu (I. hefti Velstillta hljómborðsins kom út 1722). Helga, sem leikið hafði hið undangengna af mikilli en sveigjan- legri natni, fór hér á kostum, greinilega á ást- sælum heimavelli, og dró fram höfuðlínur meist- araverksins með látlausri mýkt hins innsæja listamanns. Vorvísa nefndist allviðamikið rapsódískt verk eftir Karólínu Eiríksdóttur frá 1991 er hljómaði fyrst eftir hlé. Skiptust þar skemmtilega á snarpar andstæður hrynrænt skoppandi örkafla við spyrjandi hugleiðslubrot í anda vorleysinga og spírandi tillífunargleði. Að síðustu komu tvö verk eftir miðbarokkmeistarann Georg Böhm (1661–1733), Jóhanneskantor í Lüneburg og ásamt Buxtehude í Lübeck meðal fremstu áhrifavalda hins unga Bachs, ekki sízt í grein kóralpartítna. Fyrra verkið var af líkum toga, 7 tilbrigði um sálminn Ach wie nichtig, ach wie flüchtig; vönduð tónsmíð og furðufrjálsleg í meðferð sálmalagsins þar sem kenndi m.a. hrynþrifa frá veraldlegum svítudönsum. Seinna verk Böhms var þríþætt, Forleikur, fúga og eft- irleikur í g-moll, frekar stutt en óhætt að segja magnað verk, sem Helga Ingólfsdóttir túlkaði með sannkölluðum glæsibrag. Innsæ þekking, látlaus mýkt Ríkarður Ö. Pálsson TÓNLIST Salurinn Verk eftir L. Couperin, Hafliða Hallgrímsson, Elínu Gunnlaugsdóttur, Oliver Kentish, J.S. Bach, Karólínu Eiríksdóttur og G. Böhm. Sunnudaginn 6. apríl kl. 20. EINLEIKSTÓNLEIKAR Helga Ingólfsdóttir: Látlaus mýkt hins innsæja listamanns.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.