Lesbók Morgunblaðsins - 24.05.2003, Qupperneq 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 24. MAÍ 2003 5
skapað heim furðufígúra – satýra, risa, dans-
meyja og fjöldamorðingja svo eitthvað sé nefnt
– og oftast er hann í aðalhlutverkum, leysir erf-
iðar þrautir, klífur lyftuturna, situr naut, eða
stekkur fram af brú í Búdapest. Í kvikmynd-
unum eru langar, glæsilegar senur, þar sem
leikið er umhverfis skúlptúra og afar mikil
áhersla lögð á liti og form. Gagnrýnendur hafa
sagt þetta list 21. aldarinnar og Barney hlær
bara þegar ég spyr hann að því hvort svo sé.
Að finna umbúðir fyrir verkið
En það er í eðli manna að reyna að fanga frá-
sögn þar sem hana er að finna en einn þeirra
þátta sem virðist hrífa marga við Cremaster, er
að áhorfandinn er aldrei alveg viss um hver frá-
sögnin er. Þetta er innilokaður heimur óhamins
hugarflugs en hvernig skyldi Barney hafa kom-
ið honum saman.
„Fyrst valdi ég staðina. Fór svo og rannsak-
aði þá á fjölbreytilegan hátt, með því að upplifa
þá, innbyrða menninguna. Ég þurfti að finna
umbúðir sem eru eins og klæðnaður verksins
og ég þurfti að halda aftur af mér þegar
ákveðnum punkti var náð, að sökkva mér ekki
um of í tiltekin atriði. Ég lærði þannig um frí-
múrarahreyfinguna að þeim punkti að ég gat
verið nákvæmur í lýsingum á siðum þeirra en
hætt áður en verkið færi að verða um frímúr-
arana. Þetta er næstum eins og hjátrú: ef mað-
ur fer of nálægt hlut þá breytist maður í hann.“
Glæsileg sýningarskráin sem Guggenheim
gaf út á dögunum og vegur þrjú og hálft kíló,
útskýrir verklag Barneys vel.
„Frásagnarlínan er venjulega sett upp á
vegg, skipulögð eftir tökum og senum; er sam-
bland af teiknuðum römmum, úrklippum og
póstkortum. Línan er nógu mótuð til að kvik-
myndatökumaðurinn og sumt fólkið sem kem-
ur nærri þróun verksins frá upphafi, getið kom-
ið inn og lesið hana. Þetta eru ekki dæmigerðar
frásagnarlínur fyrir kvikmyndir, en strúktúrn-
um sem ég legg upp er fylgt þegar í tökur er
komið. Tónlistin læsir formið niður enn frekar.
Cremaster 4 og 1 höfðu mikið af tónlist en hún
var fundin hér og þar. Cremaster 5 vann ég
með tónskáldinu Jonathan Bepler, þá var tón-
listin skrifuð fyrst og svo þurftu leikarar að
syngja með og hljómsveit spila í mynd. Það var
upphafið að því að hafa tónlist sem virkaði eins
og samtal. Cremaster 2 og 3 fylgdu síðan svip-
uðu ferli, þótt þær hefðu í raun ekki þurft þess.
Þar var tónlist Jonathans til fyrir kvikmyndina
og njörvaði þannig niður lengd atriðanna.“
Mitt hlutverk
að kalla leikkerfin
– Kvikmyndun er fag sem byggist á hóp-
vinnu fjölda fólks, ólíkt vinnu skúlptúristans
sem er einn á vinnustofu sinni.
„Þetta er miklu nær hópíþróttum eins og
þeim sem ég ólst upp við að leika. Það snýst um
að allir taki virkan þátt í þeim og mér líður
miklu betur þegar ég vinn á þann hátt.“
– Þú varst leikstjóri í ruðningi.
„Já,“ segir hann og brosir: „og ég er enn að
kasta boltanum eða rétta hann öðrum. Það er
mitt hlutverk að kalla leikkerfin.“
– Það færir okkur að grunnþætti verkanna,
sem er mannslíkaminn. Hvers vegna er hann
alltaf grunnur sköpunarferilsins?
„Vegna þess að ég hef alltaf lært hluti gegn-
um líkama minn. Líkaminn hefur verið mitt
tæki, fyrst þegar ég var íþróttamaður og svo
tóku eiginlega strax við einskonar performans-
ar sem ég gerði sem listamaður. Ég hef alltaf
upplifað heiminn í gegnum líkama minn.“
– Skúlptúrar þínir hafa jafnvel líkamleg ein-
kenni; eru oft eins og klæddir húð. Og svo not-
astu mikið við vaselín og gerviefni.
„Þegar þú eyðir æsku þinni í hlífum eins og
fylgja ruðningi,“ segir hann og brosir, „ert í
frauði, latexi og púðum úr plastefni, þá verða
þessi efni virkilega hluti af líkama þínum. Eins
og framlenging af honum. Og það er það sem
gerðist með þessi efni hjá mér. Í verkunum
voru þau leið til að nota líkamann sem upphafs-
reit en láta hann síðan þenjast út, byggja við
hann, breyta hlutföllunum. Önnur efni geta
þrifist inni í líkamanum, eins og sílikon og tefl-
on, ég nota þau líka. Einn þráður í verkunum er
einmitt hvernig efni geta farið frá innra rými til
ytra rýmis.“
Cremaster hringurinn byrjar með og snýst
um hugmyndir um endurnýjunarlíffæri manns-
ins; er eins og rannsókn á starfsemi þeirra og
útliti.
Kjarninn er í skúlptúrunum
„Það eru þeir þættir sem ég er að einblína á
og það eru módelin sem ég hugsaði um þegar
ég skipulagði verkið sem heild. Þættir eins og
uppbrot endurnýjunarkerfisins; að reyna að
finna í líffræðilegu módeli mannsins stað þar
sem þróun forms er í einskonar efa; limbói. En
ég held að verkið sem heild sé ekki endilega um
það. Það er önnur leið og einfaldari og það er að
líta á hringinn sem líf hugmyndar. Cremaster 1
er þá augnablikið þegar þessi hugmynd gneist-
ar, þegar hún kemur fyrst í hugann; verk 2 er
fyrsta augnablik efasemda, þar sem hugmynd-
inni er hafnað, verk 3 myndi vera þar sem hug-
myndin verður ástfangin af sjálfri sér, eins-
konar narsissískt svæði; númer 4 einskonar
panik, hugsun um að það hljóti að vera til þriðja
leiðin, einhver staður á milli hugmyndar sem
formast ekki og hugmyndar sem tekur á sig
form. Og 5 er þá þessi endanlega skilgreining á
hugmyndinni – og þar með er hún dauð. Þar er
ákveðin panik undirliggjandi því það er um það
bil verið að stíga lokaskrefið. En endirinn gæti
líka snúið hringnum aftur að fyrsta hlutanum.
Þá yrði verkið eins og sporbaugur, sköpunar-
ferlið samfellt og endurlífgandi.“
– Líturðu á hliðarafurðir eins og ljósmyndir
og bækur sem sjálfstæð verk eða heimild um
hringinn?
„Ég held að ljósmyndirnar virki á annan hátt
en skúlptúrarnir. Ljósmyndirnar og bækurnar
eru þessi aukaform sem eru gagnleg á þann
hátt að þau frelsa karakterana og leggja
áherslu á ákveðin smáatriði sem eru ekki læsi-
leg í kvikmyndunum. Þannig eru margar teikn-
inganna gagnlegar því þær flytja áfram hluta
textans, frásagnarþráðinn sem er fljótandi í
kvikmyndinni. Og í skúlptúrunum reyni ég að
ná kjarnanum úr karakterum verksins eða
kjarna hinna stærri forma heildarverksins, það
er fyrir mig áhugaverðasta ferlið. Það gerist
líka mikið í teikningunni. Þegar tekst að ná
kjarna þessa viðamikla verks í teiknaða línu, þá
er ég mjög ánægður – það finnst mér mjög
spennandi. En það er erfitt.“
Verk á milljón og upp úr
Framleiðslukostnaður tröllvaxins verkefnis
eins og Cremaster-hringsins er mjög mikill, en
verkið hefur verið fjármagnað með verðlaunum
og styrkjum og af gallerista Barneys í New
York, Barbara Gladstone. En samkvæmt upp-
lýsingum frá galleríinu næst kostnaðurinn að
miklu leyti inn með sölu verka sem tengjast
hringnum. Og þau kosta líka sitt: ljósmyndir
800.000 til 5,2 milljónir króna, teikningar 3,2
milljónir. Skúlptúrar úr efnum eins og vaselíni,
salti og plasti kosta umtalsvert meira. Ílát sem
tengist nýjustu kvikmyndinni, með litlum hlut-
um og myndinni á DVD-diskum, var gert í tíu
eintökum og seldist upp, á 32 milljónir króna
hvert.
Barney hefur stundum verið lýst sem afar
bandarískum listamanni; er hann meðvitað að
endurspegla Ameríku?
„Reynsluheimur minn er að mestu amerísk-
ur og hann hefur svo sannarlega fundið sér leið
inn í verkin. En ég hugsaði verkin aldrei sem
endurspeglun ytri aðstæðna. Ég var alltaf að
reyna að lýsa þessu innra rými. Ég fékk lán-
aðan arkitektúr og landslag til að reyna að
skapa stærri heim – til að lýsa innra rými. Ég
vissi allan tímann að minn eigin líkami væri
ekki nógu stór,“ segir hann og hlær.
Hef ekki hugmynd um framhaldið
– Nú hefurðu lokið Cremaster-hringnum og
við erum að sjá hér einskonar samantekt heild-
arinnar. Hvað ferðu að gera nú, eftir þetta
tröllvaxna verkefni?
„Ég mun líklega halda áfram að vinna á svip-
aðan hátt. Mér finnast þær vinnuaðferðir sem
ég hef þróað við þetta verkefni ennþá vera frjó-
ar. Ég er því ekki reiðubúinn að hætta við þetta
samtal kvikmyndar og sköpunar þrívíðra hluta.
Ég held ég geti fengið meira útúr því að vinna á
þennan hátt. Á hinn bóginn hef ég enga hug-
mynd um hvaða form það verk mun taka. Ég
hef ekki hugmynd um hvert næsta verkefni
mun verða – og ég nýt þeirrar tilfinningar!“
Matthew Barney í einu hlutverka sinna í Cremaster 5, sem risi drottningarinnar.
efi@mbl.is
UMFJÖLLUN fjölmiðla um yfirlitssýningu
Matthews Barneys, Cremaster-hringinn,
sem stendur nú yfir í Guggenheim-safninu,
hefur verið afar lofsamleg. Inni á milli
heyrast þó raddir sem þykir nóg um at-
hyglina sem verkin hafa hlotið og kvarta
undan ofhlæði og torskildu táknmáli verk-
anna. Hér eru dæmi um skrif gagnrýn-
enda:
***
„Það næsta sem við komumst [því] að
eiga í listaheiminum stjörnu sem nær út fyr-
ir myndlistina, er Matthew Barney … Í ára-
tug eða lengur hefur ekki verið beðið eftir
neinni listsýningu með viðlíka spennu …
Hann er nú, án efa, rétt tæplega 36 ára
gamall, kröftugasti og frumlegasti listamað-
ur sem komið hefur fram á sjónarviðið árum
saman.
„Cremaster“ …færir okkur hrífandi við-
mið hvað metnað varðar, víðfeðmi og ber-
orða ögrun fyrir list á þessari nýju öld.“
Michael Kimmelman, The New York
Times, 2003.
***
„Það er makalaus upplifun [að sjá Cre-
master-myndirnar allar], og þetta er maka-
laust verk þótt það gangi ekki algjörlega
upp … ákveðin atriði úr [Cremaster 3]
ásækja mig, jafnvel þótt mér auðnist ekki að
átta mig á merkingu þeirra, frekar en
verksins í heild …
…hringurinn býr yfir augnablikum mik-
illa töfra. Árangurinn er óviss en engu að
síður eitthvað sem allir sem áhuga hafa á
samtímalist verða að takast á við.“
Arthur C. Danto, The Nation, 2003.
***
„Að mestu leyti virkar bíó-Barney best í
lengd tónlistarmyndbanda …
Sem skúlptúristi er Barney bestur þegar
hann rústar öllu …Ólíkt öðrum hlutum
hringsins hefur Cremaster 3 sönn afkáraleg
gæði. Og það sem er merkilegra; þau lúta
einhverri stjórn.“
J. Hoberman, The Village Voice, 2003.
***
„Í einstaklega persónulegri sýn, birtist í
Cremaster-ópusinum síbreytilegasta ímynd-
unarafl listarinnar í dag.“
Steven Henry Madoff, The New York
Times, 2003.
***
„Hann gerir hluti sem enginn hefur
nokkru sinni gert í kvikmyndum. Það er
vonlaust ef fólk vill fylgja söguþræðinum;
það fólk hatar verkin. En svo mikil er ákefð
skynjunarinnar, og mögnuð þessi innvortis
upplifun sem þú verður fyrir við að horfa á
þetta „stöff“, að það er engu öðru líkt.“
Norman Mailer í The New Yorker, 2003.
***
„ … Matthew Barney [er] gulldrengur
hins alþjóðlega listheims …
Svo sannarlega eru [Cremaster-verkin]
veisla fyrir skynfærin …
…að hafa ráðist í annað eins verkefni
sýnir hugsun sem er nánast einstök í sjálf-
hverfum listheimi nútímans …
Að vera myndarlegur og njóta velgengni
og dirfast að nota hvort tveggja til að kanna
eitthvað miklu dýpra, er aðdáunarvert. Og
að hafa næstum tekist ætlunarverkið er
hreint makalaust.“
Lynn MacRitcie, Financial Times, 2002.
***
„Ekki síðan Jasper Johns kom fram á
sjónarsviðið, seint á sjötta áratugnum, hafði
ungur listamaður viðlíka áhrif.“
Calvin Tomkins, The New Yorker, 2003.
***
„ … [Cremaster 3 er] sjónarspil bland-
aðra efnisþátta, sem eru færðir saman í
formi róttækrar nýrrar listar …
Margbrotin og á stundum óljós frásögnin
heldur jafnvægi með blöndu af heillandi feg-
urð, dramatík, kunnáttu skemmtikraftsins
og einhverjum undarlegustu tilfellum kvik-
myndasögunnar af sjónrænu ofhlæði hvað
varðar búninga, gervi og kvikmynda-
töku …“
Roberta Smith, The New York Times,
2002.
***
„Það er frábært að geta sagt að sýning [í
Guggenheim-safninu] sé stórkostleg. Lík-
lega myndi engin önnur stofnun í New York
eftirláta 36 ára bandarískum listamanni við-
líka rými eða gefa út jafnglæsilega og vel
ritstýrða 525 síðna sýningaskrá …
… sýningin er eins og stormsveipur sem
lyftir þér upp gegnum hið fallega og undar-
lega fantasíusjónarspil Cremaster-
söguljóðsins …
Margir segja að frásögn Barneys sé
óskiljanleg og engin leið að fylgja henni eft-
ir. En rétt eins og með hring Wagners felst
hluti ánægjunnar við Cremaster-hringinn í
að sökkva sér í hann og bera saman tákn og
þemu … Eins og öll mikil list lifir list Barn-
eys handan tungumálsins …
Nú er svo komið að hann hefur skapað
fagurfræðilega vél sem spýtir út úr sér sög-
um og karakterum sem ég ímynda mér að
hann geti ekki einu sinni séð fyrir …“
Jerry Saltz, The Village Voice, 2003.
VIÐMIÐ FYRIR LIST Á NÝRRI ÖLD