Lesbók Morgunblaðsins - 24.05.2003, Blaðsíða 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 24. MAÍ 2003
Þ
AÐ er greinilega til hópur fólks í
heiminum sem kallar sig Kúrda.
Enginn efast um það en hvort
þeir geti kallað sig þjóð er aftur á
móti umdeilanlegra. Það helsta
sem vinnur gegn því að þeir geti
talist þjóð er hversu sundurleitur
hópurinn er. Innri og ytri sundr-
andi öfl beinast að þeim úr öllum áttum og
vegna þeirra þykir sumum meira að segja undr-
um sæta að þeir skuli yfirleitt telja sig sérstak-
an hóp. Kúrdar tala hvorki allir sama tungu-
málið né aðhyllast sömu trúna, félagslegt
skipulag þeirra einkennist af mikilli lagskipt-
ingu og almennt séð er menning þeirra nokkuð
misjöfn eftir einstökum hópum. Auk þess hafa
þeir alltaf verið landfræðilega klofnir og dreifð-
ir um önnur ríki sem hefur leitt til þess að þeir
hafa mætt mismunandi þrýstingi innan ólíkra
ríkja. Þessi sundurleitni hefur torveldað Kúrd-
unum að mynda sterka samkennd og trú á sam-
eiginlega hagsmuni, sjálfsmyndir og örlög.
Sundrandi öfl
Það hefur oft verið talað um „kúrdískt tungu-
mál“ en í rauninni er ekkert eitt slíkt til. Eins og
Jack David Eller segir í bók sinni From Culture
to Ethnicity to Conflict (1999) er reyndin sú að
hópurinn talar mörg skyld en ólík tungumál og
mállýskur sem eru innan hinnar vestur-írönsku
málafjölskyldu indó-evrópska málahópsins.
Sum þeirra eru mjög svipuð en sum það ólík að
enginn skilningur er á milli þeirra. Auk þess
tala sumir Kúrdar ekkert af þeim málum sem
talin eru tilheyra hópnum sökum samlögunar
(þvingaðrar eða sjálfviljugrar) við ríkin sem
þeir búa í og því tala margir þeirra einungis
tyrknesku, arabísku eða persnesku. Hópurinn
hefur því eðlilega ekki heldur sameiginlegt rit-
mál og hann hefur notast við þrjár mismunandi
leturgerðir, þ.e. arabíska, latneska og kyrill-
íska. Thomas Hylland Eriksen hefur bent á í
bókinni Ethnicity and Nationalism (1993) að
samræmt menntakerfi sem nær til alls eða að
minnsta kosti stórs hluta almennings skiptir
sköpum fyrir þróun samkenndar meðal með-
lima þjóðar því það gerir þeim kleift að læra
samtímis hvað það þýðir að tilheyra þjóðinni og
hver saga hennar er og einkenni. Þar sem
Kúrdarnir búa ekki yfir sameiginlegu tungu-
máli hafa þeir lítinn grundvöll fyrir kerfi af
þessu tagi sem setur þeim óneitanlega skorður
varðandi samsemd og samkennd. Þar af leið-
andi rennir tungumálið litlum stoðum undir
sameiningu hópsins.
Fjöldi trúarbragða er ekki síður Þrándur í
Götu samheldni hans. Meirihluti Kúrda er
múslimar og íslam er því talin „eðlileg“ trú
hópsins en fjölbreytileikinn innan íslam, ásamt
annars konar trúarbrögðum sem finnast á með-
al Kúrdanna, gerir það að verkum að þeir geta
ekki notað trúna til að stuðla að einingu hóps-
ins. Sú skipting sem einkennir íslam almennt,
þ.e. í súnníta og sjíta múslima, er einnig
ríkjandi hjá Kúrdum. Skiptingin hefur ekki
valdið sérstökum deilum hjá hópnum, frekar en
almennt gerist í íslömskum ríkjum, en hún auð-
veldar að sjálfsögðu heldur ekki sameiningu
hans. Til að flækja málin svo enn frekar
skiptast þessar tvær stefnur í alls konar minni
trúarreglur og -hópa auk þess sem sumir Kúrd-
ar eru kristnir, gyðingtrúar eða aðhyllast
óhefðbundnari trú eins og alevisma og yazid-
isma. Alevismi tilheyrir reyndar íslam en hann
hefur gjarnan verið talinn villutrú sem hefur
leitt til árekstra milli þeirra sem fylgja honum
og þeirra sem fylgja hefðbundnari íslamskri
trú. Yazidismi hefur einnig verið talinn villutrú
en hann er blanda íslam, kristni, gyðingdóms og
heiðindóms. Martin van Bruinessen segir í bók-
inni The Kurds (1992) að þessi trú hafi í gegn-
um tíðina verið misskilin vegna þess að margir
utanaðkomandi telja (ranglega) að ein af ver-
unum sem yazidistarnir dýrka sé Satan en það
hefur leitt til þess að þeir eru taldir djöfladýrk-
endur. Það er því ekkert skrítið að trúin sé ekki
heldur grundvöllur fyrir tilfinningu um einingu
þjóðarinnar. Fáir telja sig eflaust eiga samleið
með „villutrúarmönnum“ og „djöfladýrkend-
um“ og því elur trúin á sundurlyndi hópsins
frekar en að sameina hann.
Fornt ættbálkaskipulag einkennir hópinn og
eins og í svo mörgum ættbálkasamfélögum þá
eru kúrdísku ættbálkarnir í eilífri samkeppni
hver við annan. Kúrdana skortir opinbert
valdakerfi þannig að í staðinn fyrir að fylkja sér
í sameiningu á bak við einn leiðtoga styður fólk
venjulega æðsta mann síns ættbálks. Þetta ger-
ir hollustu mjög persónulega og fólk á því erfitt
með að viðurkenna vald annarra en höfðingja
síns. Hollusta við ættbálkinn er því ríkjandi
meðal Kúrdanna og telja margir að það sé
helsta hindrunin gegn sterkri kúrdískri þjóð-
arvitund. Það er þó ekki bara sambandsleysi
milli ættbálkanna heldur einnig milli íbúa dreif-
býlis og þéttbýlis. Margir Kúrdar, sérstaklega
borgarbúar, hafa misst tengslin við ættbálkinn
sinn og telja sig þess vegna ekki hluta af ætt-
bálkasamfélaginu. Félagslegt skipulag er því
enn eitt sundrandi aflið sem lifir meðal hópsins.
Þar sem Kúrdarnir eru dreifðir um mörg
ríki, þ.e. Tyrkland, Írak, Íran, Sýrland, Armen-
íu og Azerbajdzhan, hafa þeir ekki allir búið við
sömu aðstæðurnar og því orðið fyrir ólíkum
áhrifum. Menning þeirra hefur þess vegna
þróast í margar ólíkar áttir og hún er langt frá
því að vera heildstæð. Þetta hefur leitt til þess
að ósjaldan eiga Kúrdar í til dæmis Írak auð-
veldara með að tengjast Írökum en öðrum
Kúrdum í til dæmis Tyrklandi eða Íran og hefur
það truflað þjóðernishreyfingar þeirra í að ná
að snerta alla meðlimi hópsins í einu og skapa
sameiginlega þjóðarvitund. Ekki nóg með það
að Kúrdarnir séu svona sundurleitir sjálfir eins
og raun ber vitni heldur hafa ríkin sem þeir eru
dreifðir um alið á sundrungu þeirra til að koma
enn frekar í veg fyrir að þeir geti verkað sem
sterk heild. Írak og Íran, sem löngum hafa haft
stirð samskipti sín á milli, vinna meira að segja
saman til að bæla niður þjóðernisvakningu
Kúrdanna. Tyrkir hafa einnig lagt mikið upp úr
því að kæfa þjóðerniskennd þeirra með því að
banna tungumál þeirra, menningu og önnur
kúrdísk einkenni eins og kúrdíska stjórnmála-
flokka sem þeir telja grafa undan einingu tyrk-
neska ríkisins (sbr. frétt í Morgunblaðinu 14.
mars 2003). Miklir hagsmunir eru í húfi fyrir
þessi ríki því ef þjóðernishreyfingar Kúrdanna
yrðu það sterkar að þær gætu sameinað allan
hópinn í öflugri sjálfstæðisbaráttu ættu ríkin á
hættu að missa landsvæði til Kúrdanna og að
öllum líkindum um leið mikilvægar auðlindir
eins og olíu og vatn. Þau vilja því auðsjáanlega
gera sem minnst úr þjóðernishreyfingu kúrd-
íska hópsins.
Sameiningaröfl
Mörk þjóðarinnar afmarka nánasta samfélag
fólks og skilgreina þannig hverjir teljast með-
limir hennar og hverjir ekki, þ.e. greina „okk-
ur“ frá „hinum“. Þjóðernissinnar geta að sjálf-
sögðu ekki búið til þjóðir úr engu og það verður
að vera einhver tenging milli fólksins sem á að
mynda þjóðina þannig að „við“ afmarkist vel frá
„hinum“. Umfjöllunin hér að ofan hefur hins
vegar sýnt að í tilfelli Kúrdanna verður „við“
greinilega stundum að „hinum“ og því hefur
þeim reynst erfitt að nýta mátt þjóðernishyggj-
unnar til að virkja hópinn sem sérstaka þjóð og
uppfylla drauma sína um eigið ríki. Þrátt fyrir
þetta líta Kúrdar á sig sem sérstakan hóp, frá-
brugðinn Persum, Anatólum og aröbum, því
þeir eigi meira sameiginlegt og séu líkari hver
öðrum heldur en þjóðunum í kringum þá. Þeir
telja því að þeir séu annað og meira en bara
minnihlutahópur í margmenningarríkjum.
Þetta er einn af þeim þáttum sem vinna með því
að þeir geti kallað sig þjóð.
Engin ein ákveðin formúla er til fyrir þjóð
(sumar þjóðir skilgreina sig út frá tungumáli,
aðrar út frá trúarbrögðum og enn aðrar út frá
sögu, kynþætti, uppruna, menningu og land-
svæði eða einhvers konar blöndu af þessum eða
öðrum þáttum) en það sem verður þó alltaf að
vera til staðar, ef þjóð á að rísa, er sameig-
inlegur vilji meðlima hópsins. Til að skapa
heildarniðurstöðuna, þ.e. þjóðina, skiptir tilvist
eða fjarvist einstakra þátta ekki máli heldur
bara tilvist fullnægjandi aðstæðna til samskipta
og skilnings. Til dæmis eru fjögur tungumál töl-
uð í Sviss en Svisslendingar eru samt ein þjóð
því hver þeirra hefur lært nógu marga siði,
venjur, tákn, minningar, sögulega atburði og
annars konar tengingar sem í sameiningu gera
þeim kleift að eiga betri samskipti hver við ann-
an en fólk sem tilheyrir annarri þjóð þó að það
tali sama málið. Þetta þýðir að sundurleitni
Svisslendinga er ekki fyrirstaða fyrir tilvist
þjóðarinnar og því þarf sundurleitni Kúrdanna
ekki heldur að vera raunveruleg fyrirstaða fyrir
tilvist kúrdísku þjóðarinnar. Það má því segja
að kúrdíska þjóðin sé allir þeir sem, sökum um-
hverfisins og aðstæðnanna sem þeir búa við,
finna hjá sér ákveðinn skilning um kúrdísk ein-
kenni og tilfinningu um sérstakan félagsskap
sín á milli.
Það eru litlar sannanir til fyrir því að Kúrdar
hafi litið á sig sem einstaka þjóð fyrr en á síðari
hluta 19. aldar eða í byrjun þeirrar tuttugustu.
David McDowall segir í bók sinni A Modern
History of the Kurds (1996) að talið sé að þjóð-
arvitund Kúrdanna hafi komið til þegar ríkin
sem þeir bjuggu í fóru að endurskilgreina sig út
frá þjóðerni og þeim fundist sér neitað um sín
eigin kennileiti í kjölfarið. Kúrdarnir líta til
fornrar sögu og hugmynda um sameiginlega
forfeður (hugsanlega ímyndaðra) til að mynda
samstöðu sem þjóð. Í fjögur þúsund ára göml-
um súmerskum áletrunum er sagt frá hópum
sem hafa verið skilgreindir sem Kúrdar eða for-
feður þeirra og þó hægt sé að efast um áreið-
anleika þessara heimilda breytir það ekki þeirri
staðreynd að Kúrdar nú á dögum geta tengt sig
við þessa ævafornu hópa. Það er vissulega
ómetanlegt fyrir hóp af fólki í baráttu fyrir
sjálfsákvörðunarrétti sínum.
Kúrdar hafa einnig litið á ákveðið svæði, þ.e.
Kúrdistan, sem eins konar staðfestingu á að
þeir séu þjóð. Ríkin sem Kúrdistan sker geta
vel neitað tilvist þess en í augum Kúrdanna er
það ættjörð þeirra. Þjóðernissinnar vísa til þess
að Kúrdar hafa búið á svæðinu frá ómunatíð til
að veita kúrdísku þjóðinni sérstaka tengingu
við það. Auk þess hefur Kúrdistan ákveðna dul-
ræna ásjónu hjá Kúrdum sem „fjallið“ sem er
bæði ímyndaður og raunverulegur staður.
Þrátt fyrir að margir Kúrdar yfirgefi sveitina
og fjallið og flytji til borga eða bæja missir þessi
ímynd um Kúrdistan ekki mátt sinn og samein-
ingarafl. Það er vegna þess að þjóðir eru fyrst
byggðar í huganum áður en þær birtast í hlut-
veruleikanum og Kúrdistan er táknmyndin um
einingu kúrdísku þjóðarinnar.
Ættbálkaskipulagið sem Kúrdarnir búa við
hefur verið uppspretta sundrunar og veikleika
hópsins, eins og áður hefur verið fjallað um, en
þrátt fyrir það hefur skipulagið einnig verkað
sem samloðunarkraftur, meira að segja fyrir
Kúrda í borgum. Michael Ignatieff hefur gert
rannsókn meðal Kúrdanna og segir í bókinni
Blood and Belonging (1993) að fastheldni þeirra
hvað varðar hollustuna við ættbálkinn hafi að
mörgu leyti verndað þá gegn samlögun og inn-
limun í aðra hópa. Þó það sé ansi þversagna-
kennt hefur skipulagið því bæði torveldað og
auðveldað samkennd Kúrdanna. Það er hins
vegar ekki óþekkt að ættbálkaþjóðir styðjist við
ættbálkaskipulagið innbyrðis en þjóðarskipu-
lagið út á við.
Guðmundur Hálfdanarson sagnfræðingur
segir í greininni „Hvað gerir Íslendinga að
þjóð?“ (Skírnir, 1996) að hver þjóð túlki söguna
eftir eigin hentugleika til að skapa sjálfsmynd
hópsins og einingu hans. Samkenndin byggir
þess vegna bæði á því sem menn muna og því
sem menn „gleyma“. Þeir velja að gleyma því
sem sundrar hópnum og muna það sem sam-
einar hann og þess vegna eru minningarnar
alltaf að hluta til sögulegur skáldskapur. Það
skiptir því í rauninni engu máli hvort kúrdískur
hópur hafi verið til í fjögur þúsund ár eða ekki.
Það sem skiptir máli er að Kúrdar nota hann nú
til að skapa sjálfsmynd og einingu hópsins sem
þjóðar. Þetta er hinn sögulegi skáldskapur í
hnotskurn. Í augum kúrdískra þjóðernissinna
er það engin spurning að kúrdíska þjóðin sé
náttúrulegt fyrirbæri (en ekki félagslega sköp-
uð eins og hún raunverulega er) og því ævaforn
og hverjum Kúrda í blóð borin. Kúrdísku þjóð-
ernissinnarnir sjá söguna í ákveðnu ljósi (rétt
eins og allir aðrir þjóðernissinnar) og nota forn-
ar goðsagnir, tákn og sögu til að staðfesta kúrd-
ísk einkenni og sjálfsmyndir. Þannig greina
þeir „okkur“ frá „hinum“.
Niðurstaða
Eru Kúrdarnir þá þjóð eða ekki? Nú þegar
ég hef vegið rökin með því og á móti get ég ekki
annað en svarað þessari spurningu játandi. Að
mínu mati eru þeir þjóð. Þjóðin er margþætt
hugtak því það felur í sér alls konar þætti sem
hafa mismunandi áhrif á fólk og sem það telur
mismikilvæga og túlkar á ýmsa vegu. Þjóðin er
kraftmikil blanda skynjunar og veruleika. Hún
er ekki bara samsafn einhverra einstaklinga
heldur hópur fólks sem hefur ákveðna samloð-
un og samstöðu og er tengt í eina heild í gegn-
um sameiginlega þætti sem það telur skapa sér
sérstöðu sem þjóð.
Það er vissulega margt sem sundrar Kúrdun-
um en sameiningaröflin eru engu að síður til
staðar og þau virðast hafa yfirhöndina. Það má
að vissu leyti líkja aðstæðum Kúrdanna við að-
stæður Bandaríkjamanna. Bandaríska þjóðin
er það sem hefur verið kallað „deigla“ (e. melt-
ing pot) því hún er mynduð úr alls konar ólíkum
hópum (breskum, írskum, ítölskum og fleiri).
Heildin var því sundurleit til að byrja með en
sameiginlegur vilji hópanna til að vera þjóð var
hins vegar yfirsterkari muninum á milli þeirra.
Eins og áður hefur komið fram er þessi sameig-
inlegi vilji grundvallaratriði fyrir tilvist þjóðar
og sú staðreynd að Kúrdarnir telja sig eiga
meira sameiginlegt og séu líkari hver öðrum
heldur en þjóðunum í kringum þá, þrátt fyrir
mikla sundurleitni, finnst mér sanna að þeir
hafi þennan vilja. Þegar kemur að því að flokka
hópinn og finna honum stað í flóknum heimi
gera Kúrdarnir bersýnilega skýran greinar-
mun á sjálfum sér og öðrum þjóðum í kringum
þá. Þjóðernishyggjan, þjóðernishreyfingarnar
og þjóðarvitundin eru kannski veik en það kem-
ur þó ekki í veg fyrir að þeir líti á sig sem þjóð.
Stundum getur minningin um ákveðið tákn í
fortíðinni verið nóg til að skapa og viðhalda
samkennd þjóðar og Kúrdarnir styðjast einmitt
við forna sögu til að færa sönnur á það að þeir
séu þjóð. Sagan, ásamt tengslunum við ættjörð-
ina, gerir þá að þjóð í þeirra augum og þar sem
skoða verður hverja þjóð út frá hennar eigin
forsendum (en ekki út frá því hvernig aðrar
þjóðir skilgreina sig vegna þess að hver hópur
skilgreinir sig sem þjóð út frá sínum þörfum og
því sem hann telur mikilvægast fyrir sig) tel ég
engan vafa á því að þeir séu sérstök þjóð. Sagan
og ættjörðin veita Kúrdunum sameiginlegan
skilning og tilfinningu sem gerir það að verkum
að þeir eiga auðveldara með að eiga samskipti
og skilja hver annan heldur en annað fólk þó
það hafi sömu trú eða tali sama mál og ein-
hverjir þeirra. Þeir finna einingu í gegnum sög-
una og Kúrdistan og eru því tilbúnir að við-
urkenna þau réttindi og skyldur gagnvart hver
öðrum sem gerir meðlimi hóps að þjóð.
Reuters
Kúrdískir hermenn halda fána kúrdíska lýðræðisflokksins á loft í norðurhluta Íraks í apríl sl.
ERU KÚRDAR
ÞJÓÐ?
E F T I R D Ö G G G U Ð M U N D S D Ó T T U R
Kúrdar virðast sundurlaus hópur fólks. Þeir tala ólík
tungumál, aðhyllast mismunandi trú og búa við
mismunandi félagslegt skipulag í nokkrum löndum.
En eru þeir samt þjóð?
Höfundur er nemi í mannfræði við Háskóla Íslands.