Lesbók Morgunblaðsins - 07.06.2003, Page 16

Lesbók Morgunblaðsins - 07.06.2003, Page 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 7. JÚNÍ 2003 L EIKFÉLAG Reykjavíkur og Íslenski dansflokkurinn standa að keppninni um ný dansleikhúsverk, en fyrr í vetur efndu þau til samkeppni um frumsamið dans- leikverk eða verk sem flokkast gæti sem dansleik- hús. Tuttugu hugmyndir bárust en af þeim voru níu valdar til áframhaldandi þróunar og verða þessi níu 10 mínútna löngu verk frumsýnd á Stóra sviðinu í kvöld. Dansarar Íslenska dansflokksins, leikarar Leikfélags Reykjavíkur auk fleiri lista- og leikmanna fara með hlutverk í dansverkunum, alls um þrjátíu manns. Fimm manna dómnefnd mun veita þrenn verðlaun en að auki verða sérstök áhorfendaverðlaun veitt, því í kvöld gildir leik- húsmiðinn einnig sem kjörseðill. Dómnefndin er skipuð þeim Samuel Wuersten, rektor dansakademíunnar í Rotterdam og stjórnanda Holland Dance Festival, sem er formaður dóm- nefndar, Aino Freyja Järvelä leikara, leikstjórunum Baltasar Kormáki og Kjartani Ragnarssyni auk Láru Stefánsdóttur, dansara og danshöfundar. Á meðan dómnefndin ræður ráðum sínum og atkvæði leikhúsgesta eru talin verður slegið upp reglu- legri veislu því DJ Daddi diskó mun halda uppi fjörinu í for- salnum og að verðlaunaafhendingu lokinni verður slegið upp balli á Nýja sviðinu þar sem gestum gefst kostur á að stíga dans. Kynning keppninnar er í höndum leikaranna Bergs Þórs Ing- ólfssonar og Halldóru Geirharðsdóttur. Fyrsta verk kvöldsins er Háreysti bönnuð eftir þá bræður Ólaf Egil Egilsson leikara, og Gunnlaug Egilsson dansara. Að sögn Ólafs Egils kviknaði hugmyndin að verkinu í sundferð þeirra bræðra. „Við unnum verkið í lögum. Fyrst kom Gunn- laugur og útfærði smá af dansi og svo kom ég og fékk að fikta svolítið í því. Til að byrja með unnum við bara með dansinn, en síðan fékk ég að leika mér með ljós og aðstæður verksins og setja inn litla baðvörðinn,“ segir Ólafur Egill. Aðspurður segir hann keppnina leggjast afar vel í sig. „Mér finnst frábært að það verði ball á eftir þar sem hægt verður að skiptast á skoðunum. Þetta eru mjög ólík verk og því verða væntanlega mjög ólíkar skoðanir og nóg að tala um fram eftir kvöldi.“ Dansarar eru svo spennandi Verk Árna Péturs Guðjónssonar leikara, nefnist Connections og byggist að hluta á Vinnukonunum eftir Jean Genet. „Ég er búinn að ganga með Vinnukonurnar í maganum lengi. Í því verki er alltaf verið að reyna að drepa frúna og ég læt það loks- ins takast. Vinnukonurnar eru sífellt að leika frúna, leika hvor aðra að leika frúna og þess vegna eru í raun tvær útgáfur af vinnukonunum, þ.e. tvö pör,“ segir Árni Pétur, en eitt af að- almarkmiðum hans með keppninni er að fá dansara til þess að leika. „Mér finnst dansarar svo spennandi og ég er mikið fyrir líkamlegt leikhús. Dansarar hafa svo margt af því sem ég vil helst að leikarar hafi líka, þ.e. svona rosalega miklu orku. Ég held raunar að það sé auðveldara að fá dansara til að leika held- ur en leikara til að dansa,“ segir Árni Pétur. Þriðja verkið í kvöld er Open source eftir Helenu Jónsdóttur danshöfund og Þorvald Þorsteinsson rithöfund. Helena segir hugmyndina að verkinu hafa kviknað við vinnu hennar í Þýska- landi þar sem hún heyrði fyrirlestur manns að nafni Florian Kramer um opnar heimildir. „Hann var að tala um hvaðan þú færð hugmyndirnar, hverjar eru stolnar, fengnar að láni og úr hvaða miðli því það hefur allt áhrif á þig þegar þú ert að skapa. Mér finnst hugmyndin um opnar heimildir afar spennandi við- fangsefni því ég held að það sé mjög erfitt að uppgötva hjólið aftur. Við fáum alltaf lánað og verðum fyrir áhrifum hvert frá öðru,“ segir Helena og bætir við að kannski megi segja að frum- leikinn núorðið felist fyrst og fremst í samsetningunni. „Stundum spyr ég af hverju maður fer í svona keppni, en ég lít fyrst og fremst á þetta sem æfingaferli og vinnslu, tækifæri til að nýta sér Borgarleikhúsið, Íslenska dansflokkinn og Leik- félag Reykjavíkur og allt hæfileikafólkið sem er hér. Þetta er frábært tækifæri til þess að halda danshöfundum í þjálfun eða prófa nýja hluti.“ Jóhann Freyr Björgvinsson danshöfundur er í verki sínu Blá- skegg að vinna með samnefnda sögu. „Mig langaði að gera verk með hurðum og fór því að leita að sögu þar sem væri mikið af hurðum í og þannig byrjaði þetta. Sagan um Bláskegg snýst ein- mitt um lykla og hurðir. Hann er svo ljótur að það vill hann eng- in kona. Þegar hann hefur hins vegar fundið sér konu fer hann í leik við hana sem snýst um traust þar sem hann leyfir henni að fara í öll herbergin í höll sinni nema eitt,“ segir Jóhann. Guðmundur Helgason danshöfundur segir að dansleikverk sitt, Party (‘p:t)n.,pl.-ties.1.a. a social gathering for pleasure often held as a celebration b. (as modifier): party spirit …, hafi kviknað í tengslum við safn platna sem honum áskotnuðust sem ungur drengur. „Ég er búinn að eiga tónlistina sem ég nota í verkinu mjög lengi á plötum. Svona gömul tónlist myndar skemmtilegan hljóðheim. Mér áskotnuðust þessar plötur þannig að pabbi vinar míns var að vinna uppi á Keflavíkurflugvelli og þessum plötum hafði verið hent úr Kanaútvarpinu. Á þeim stendur að þær séu eign bandarískra yfirvalda,“ segir Guð- mundur kíminn. „Mér finnst yfirleitt skemmtilegra þegar finna má smásögu eða andrúmsloft í dansverkinu, það sé ekki bara hreyfing hreyfingarinnar vegna.“ Ógerningur að dæma list Síðasta verkið fyrir hlé er Flight anxiety eftir Peter Anderson danshöfund en hann segir að sér sé ofarlega í huga hvað flug- samgöngur hafa breyst mikið síðan 11. september. Þannig er hann sjálfur mun oftar stöðvaður við öryggishliðið en var áður. „Vinir mínir eiga líka erfitt með að komast gegnum öryggiseft- irlitið í Bandaríkjunum. Verkið er sett saman af mörgum litlum frásögum sem ég hef heyrt. Auk þess byggist verkið á minni eig- in flughræðslu. Í fjölmiðlunum er mér sýnt hvað ég eigi að hræð- ast. Ég stend sjálfan mig að því að hræðast allt í einu ákveðnar manngerðir sem ég sé á flugvöllum, því mér hefur verið sagt að ég eigi að hræðast ákveðið fólk. Mér finnst athyglisvert hvernig við flokkum ógrynni einstaklinga út frá nokkrum litlum at- hugasemdum. Mig langaði því til að skoða það nánar og hæðast svolítið að þessu,“ segir Peter. Aðspurður hvernig honum lítist á keppnina segist hann ekki þola samkeppnir. „En þetta var einstakt tækifæri og því ekki hægt að neita þessu. En að mínu viti er ógerningur að dæma list, því hún er afstæð eftir því hver horfir þar sem fólk upplifir listina á svo margvíslegan hátt. En vissulega er maginn á mér í hnút af kvíða.“ Gísli Örn Garðarsson leikari er höfundur verksins Fjöl- skyldukærleikur. „Ég hef ekki hugmynd hvað nákvæmlega telst dansleikhús. Þetta er alla vegna mitt dansleikhús. Það er gaman við þessa vinnu hvað hugmyndirnar geta verið frjálsar. Maður er ekki bundinn við eitthvert leikverk, heldur er þetta er súpa af skemmtilegum hugmyndum sem maður fær. Mér hefur oft dott- ið ýmislegt í hug sem væri skemmtilegt að gera á Stóra sviðinu og nú er ég sem sagt að prófa eitthvað af því,“ segir Gísli Örn, sem líst afar vel á keppnina og vildi óska að það væri meira um slíkar uppákomur. Flugtak nefnist verk Ólafar Ingólfsdóttur danshöfundar. Að- spurð um efni verksins segir Ólöf að sér hafi verið ofarlega í huga að ekki verður bæði sleppt og haldið. Í búningunum, sem Ólöf hannar sjálf er naflastrengurinn afar áberandi og leikið á hann. „Naflastrengurinn getur bæði virkað sem tenging við for- tíð okkar, við gærdaginn eða einhverja hugmynd sem við höld- um ennþá í. En naflastrengurinn tengist líka fæðingunni því þegar maður hefur einu sinni fæðst þá er ekki aftur snúið. En það er eiginlega þannig með allt því það er aldrei hægt að taka hlutina aftur sem hafa gerst,“ segir Ólöf. Hún býst við afar skemmtilegu kvöldi því af fenginni reynslu myndast alltaf mikil stemning á svona keppnum. „Það verður örugglega mjög mikil stemning í kvöld, þó að hugmyndin um að keppa í listum sé dálít- ið undarleg. Það er erfitt að finna mælikvarða á listir, hvað er best og hvað næstbest. Keppnin verður mjög fjölbreytt og þú færð sýnishorn af hugmyndum margra,“ segir Ólöf. Áhugaverðar hreyfingar Lokaverkið á dagskránni er eftir þær Evu Maríu Jónsdóttur sjónvarpskonu, Mörtu Nordal leikkonu og Valgerði Rúnars- dóttur dansara og ber heitið Beðið eftir strætó. Útgangspunkt- urinn í vinnu þeirra er sótt í hugmynd danshöfundarins Merce Cunningham um að hreyfing geti verið áhugaverð áður en hún verður falleg. „Við hentum þessum orðum hans á loft og veltum þeim fyrir okkur. Ef þetta er satt hjá honum hlýtur að vera hægt að setja upp nútímadansverk með fólki sem hefur enga tækni, enga reynslu, enga sviðskunnáttu, en getur engu að síður framkvæmt áhugaverðar hreyfingar,“ segir Eva María, sem var ekki bara með í að semja verkið heldur dansar líka. „Við vildum gera styrk hins ólærða að aðalatriði og kanna hversu langt við kæmumst með ólærða einstaklinga,“ bætir Marta við. Samuel Wuersten, formaður dómnefndar, telur gildi keppn- innar í kvöld felast í því að ólíkir hópar og listamenn hafi tæki- færi til þess að hittast og skapa vettvang fyrir dansinn og kveikja áhuga nýrra danshöfunda sem sé afar mikilvægt fyrir þróun danslistarinnar. „Aðalatriðið fyrir mér snýst ekki um það hver stendur uppi sem sigurvegari vegna þess að listrænt séð er nær ómögulegt að segja að eitt verk sé öðru fremri. En ég tel af- ar mikilvægt að danshöfundar fái tækifæri til þess að sýna verk sín og fyrir áhorfendur að sjá þessi verk,“ segir Samuel. Aðspurður hvaða kröfur dómnefndin muni gera og eftir hverju hún muni horfa segir Samuel að auðvitað verði gerðar listrænar kröfur og horft til þess hvernig verkin eru framsett. Þess má geta að áhugi á keppninni hefur borist út fyrir land- steinana því John Ashford, stjórnandi The Place í Lundúnum, sem er leikhús sem tekur á móti danssýningum og dansflokkum alls staðar að úr heiminum, og stofnandi Airowaves-danskeppn- innar, sem er einn helsti vettvangur ungra danshöfunda í Evr- ópu, verður sérstakur gestur samkeppninnar í kvöld. NÝSTÁRLEG DANSKEPPNI Dansleikhúskeppni verður haldin á Stóra sviði Borgarleikhússins í kvöld. SILJA BJÖRK HULDU- DÓTTIR brá sér á æfingu og tók danshöfundana og Samuel Wuersten, formann dómnefndar, tali. Morgunblaðið/Sverrir Markús Þór Andrésson, Sigurður Sveinsson, Pétur Blöndal, Eva María Jónsdóttir og Sigríður Eyþórsdóttir í verki Evu Maríu, Mörtu Nordal og Valgerðar Rúnarsdóttur, Beðið eftir strætó. Morgunblaðið/Arnaldur Árni Pétur Guðjónsson í hlutverki vinnukonu og Steinunn Knútsdóttir í hlutverki frúarinnar í verki Árna, Connections. Morgunblaðið/Arnaldur Ívar Örn Sverrisson og Lovísa Gunnarsdóttir í verkinu Háreysti bönnuð eftir þá bræður Ólaf Egil og Gunnlaug Egilssyni. silja@mbl.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.