Lesbók Morgunblaðsins - 02.08.2003, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 02.08.2003, Blaðsíða 13
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 2. ÁGÚST 2003 13 SÉRSTAÐA söngtónleika í samburði við hljóðfæratónleika markast af því að texti er fylginautur tónferlisins og því getur verið nauðsynlegt að hafa með í efnisskrá texta söngvanna og þá helst bæði á frummáli og þýdda, auk þess sem upplýsingar um flytjend- ur, ef um erlenda og sérstaklega þá innlenda, sem eru að hefja sinn listamannsferil, er um að ræða og geta slíkar upplýsingar verið hlust- endum til þæginda. Að þessu leyti var efnis- skrá tónleika Margrétar Hrafnsdóttur og Kar- enar Bandelow, sem haldnir voru í Fríkirkjunni mánudaginn 28. júlí sl., helst til of fátækleg, varðandi upplýsingar um listamenn og efni tónleikanna. Þrátt fyrir þetta er þó að- alatriðið frammistaða flytjenda, en Margrét hóf tónleikana með Le Violette og Karen Bandelow tók við með Gia il sole dal Gange, en bæði þessi lög eru eftir eitt afkastamesta óp- erutónskáld sögunnar, Alessandro Scarlatti. Það gat strax að heyra að Margrét og Karen eru efnilegar söngkonur, búa að fallegum og kraftmiklum raddhljómi og móta tónhending- ar viðfangsefnanna á skýran máta. Næstu tvö viðfangsefnin voru tveir dúettar úr óperunni La clemenza di Tito, óperu sem hefur nokkra sérstöðu meðal síðustu óperuverka Mozarts. þ.e. að vera sú gerð upprunaóperunnar sem nefnist „opera seria“, sem aftur hafði áhrif á tónferlið, er var mun settlegra en í dramatísku og gamanóperum snillingsins. Þennan mun gat að heyra sérlega vel er Karen söng tónles og aríuna Deh vieni, non tardar, aríu Súsönnu úr 4. þætti Brúðkaupsins og Margrét tónles og aríu Fiordiligi, Come scoglio, úr Cosi fan tutte. Í þessum tveimur síðastnefndu aríunum sýndu þær, svo að ekki verður um villst, að þær eru glettilega góðar Mozartsöngkonur og var þessi söngur þeirra hápunktur tónleikanna, er gefur góð fyrirheit um að hér séu á ferðinni efnilegar söngkonur. Lieder-þáttur tónleikanna, þar sem fluttir voru söngvar eftir Wolf og Grieg, var mun daufari, þó Margrét ætti nokkur falleg tilþrif í þýsku söngvunum op. 48, eftir Grieg, sérstak- lega í Dereinst nr. 2 og Zu Rosenzeit nr. 5, en frægastir af þessum söngvum er nr. 1 og 6. Lieder-söngur er erfið list og þar verður að bíða aukins listræns þroska ungu söng- kvennanna, þó þær séu að öðru leyti vel á vegi staddar sönglega séð. Bellini hefur oft verið kallaður Chopin ítölsku óperunnar, sem er vegna skrautlegs ritháttar, er þykir minna á píanóstíl Chopins, með mikilli notkun skreyti- nótna, sem nefnast hljómleysingar og því þykja söngvar Bellinis jafnvel á köflum vera meira í ætt við hljóðfæratónlist en eðlilegan söng og þar með mjög erfið og krefjandi söng- tónlist. Flóttadúett Rómeó og Júlíu, Si fugg- iere, eftir Bellini er vandasamt söngverk er var að mörgu leyti mjög vel sungið, þó merkja mætti nokkra þreytu og erfiðleika varðandi tónstöðu, sem er ekki tiltökumál í svona erfiðu söngverki. Lokaviðfangsefni tónleikanna voru tveir söngvar, La Pesca og La Regata veneziana, eftir Rossini, skemmtisöngvar sem hann samdi og fluttir voru margir hverjir í samkvæmum í París, en hann bjó þar síðustu 13 árin, ríkur og vinsæll af veisluglöðum Parísarbúum. Þessa söngva, sérstaklega La Regata, þarf að syngja með miklum leiktilburðum, bæði í söng og lát- bragði sem voru í heild og látlaust útfærðir en þó vel sungnir. Margrét Hrafnsdóttir og Karen Bandelow eru efnilegar söngkonur og það sem finna mætti að hjá Margréti, var að á lágsviðinu vantar hana enn sem komið er þéttari hljóman, er hefur áhrif á stöðugleika í tónstöðu. Á há- sviðinu er rödd hennar glæsileg og hljómmikil. Karen hefur dökkan og fallega tón á lág- sviðinu, sem gæti bent til þess, að hennar svið yrði í framtíðinni mezzo-sviðið. Þóra Fríða Sæ- mundsdóttir lék vel en sérstaklega reyndi á í bravúra-þættinum í aríu Fiordiligi, sem er býsna erfiður og einnig í La Regata. Auk þess studdi hún vel við sönginn, er minna var um- leikis í píanóinu. Í heild voru þetta góðir tón- leikar er gefa fyrirheit um að hér séu efnilegar söngkonur að hefja ferð sína, söngkonur sem vænta má mikils af í framtíðinni. Tvær efnilegar söngkonur á ferð TÓNLIST Samsöngur Margrét Hrafnsdóttir, Karen Bandelow og Þóra Fríða Sæmundsdóttir fluttu söngverk eftir Scarlatti, Mozart, Wolf, Grieg, Bellini og Rossini. Mánudagurinn 28. júlí 2003. FRÍKIRKJAN Jón Ásgeirsson „VESTFIRÐIR heilla mig,“ segir Kristín. „Fjaran, sjávarflöturinn og fjarðalognið. Klappirnar, þanglitirnir og æðurin með unga sína. Birtan er mjúk og heillandi, þökk sé speglinum sem umlykur svæðið og endurkast- ar henni á björgin, fjallshlíðarnar og brúna- þunga fjallgarðana.“ Kistín hefur farið margar ferðir á Vestfirð- ina til að grípa þessar stemmningar og segist alltaf uppgötva nýjar hliðar hinnar síbreyti- legu náttúru. „Gróðursældin er í fjarðabotnunum og næðingurinn á annnesjunum, og þaðan koma veðurfréttir sem ekkert er að marka. Við ökum yfir heiði og stoppum niðri í firði og mér finnst það gott. Við endurtökum þetta oft því firðirnir eru margir og flottir og ég vil of- aní fjörð í sæluvist fjarðalognsins og mála myndir mínar þar.“ Þar kemur eftir langan tíma og margar Vestfjarðaferðir að samferðamaður Kristínar á ferðum hennar vill breyta atferli þeirra. „Það er logn uppá heiðum. Útsýni. Gróð- urvinjar. Heiðavötn. Og ótrúleg býsn af grjóti sem er svo gamalt að það er hætt að segja frá því að við séum stödd í hrauni. Heiðarnar heilla og við látum okkur detta í hug að sofa þar uppi.Við stöldrum við og njótum þessa einstæða umhverfis; erum ein með sjálfum okkur og meðtökum gjafir náttúrunnar og nýjar myndir verða til.“ Kristín segir útskotin á mjóum malarveg- um Vestfjarðanna enn þjóna dýrmætum til- gangi. „Ég vona sannarlega að útskotin verði aldr- ei aflögð vestur á fjörðum eins og alltof víða hefur gerst á landinu okkar; þess verði gætt við vegauppbyggingu að mögulegt sé að kom- ast á vegaslóðana og gömlu vegina, þar getur ferðamaður á bíl komist í næði, notið þessa einstæða landsvæðis og staldrað við án þess að setja sig og aðra í lífshættu á þjóðveg- inum.“ Um sýninguna á Hrafnseyri í sumar segir Kristín einfaldlega að sér hafi fundist komið að sér að endurgjalda gjöfular stundir á af- lögðum vegaslóðum á Vestfjörðum. „Í boði Hrafnseyrarnefndar sýni ég 24 vatnslitamyndir undir titlinum „Myndir að vestan“ á Hrafnseyri. Ég vona að sem flestir Vestfirðingar skoði hana í sumar og ferðafólk líti við á kaffistof- unni í burstabænum og njóti myndanna um leið og kaffisopans.“ Ljósmynd/Ragnar Th. Sigurðsson „Tálkni og kvöldblíðan…“ Ein af vatnslitamyndum Kristínar Þorkelsdóttur máluð á Sellátranesi í Patreksfirði í júní 2002. Ljósmynd/Hörður Daníelsson Kristín málar gjarnan úti, andspænis viðfangsefni sínu. Hér málar hún í Arnarfirði í júní 2003. Málað í sæluvist fjarðalognsins Á Hrafnseyri við Arnarfjörð stendur yfir sýning Krist- ínar Þorkelsdóttur á vatnslitamyndum frá Vestfjörðum sem hún hefur málað á ferðum sínum á sumrum.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.