Lesbók Morgunblaðsins - 11.10.2003, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 11.10.2003, Blaðsíða 13
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 11. OKTÓBER 2003 13 Á STRALINN Murray Bail segist aldrei fara á bók- menntahátíðir, en hann hafi ekki getað slegið hendinni á móti því að koma til Íslands. „Ég minnist þess í landafræði- tímum bernsku minnar að hafa horft á þennan litla blett sem var svo langt í burtu, úti á ballarhafi og með þetta ótrúlega kuldalega nafn, og velt því fyrir mér hvað væri þar að finna. Ég varð því að koma.“ Annars er ljóst að þeir eru margir, þræðir til- viljananna sem toguðu hann í þessa átt og blaðamaður biður hann því að rekja þá sögu er hann sagði að nokkru leyti í Norræna hús- inu á meðan á hátíðinni stóð. „Ég held ekki að heppni leiki stórt hlutverk í bókmenntum eða listum yfirleitt. Mín trú er sú að sterkustu og bestu verk hvers höfundar standi upp úr og lifi að lokum af. Þó höfundar eigi í tímabundnum erfiðleikum með að koma verkum sínum á framfæri þá kemur að því að þau öðlast viðurkenningu – jafnvel eftir dauða höfundarins. Ítalska skáldið Eugenio Montali skrifaði eitt sinn litla ritgerð, The Second Life of Art eða „Síðara líf listaverks“, um þetta málefni. Þar segir hann að skáldsaga – segj- um t.d. eftir Laxness – eigi sitt fyrsta líf þegar höfundurinn situr við og skapar hana, en um leið og verkið fer út úr húsi skáldsins, þá eru örlög þess ekki lengur í hans höndum. Verkið á líf sitt í framtíðinni undir fólki sem laðast að því. Það skiptir t.d. miklu máli að seinni tíma rithöfundar glæði verkið nýju lífi með lestri, og síðan skipta auðvitað bókabúðir, ritstjórar, gagnrýnendur, bókasafnsfræðingar, fræði- menn og fleiri máli – og síðast en ekki síst al- mennir lesendur. Allt þetta fólk gefur bók- menntaverki sitt annað líf. Flest verk ná því þó aldrei að vera vakin til lífsins á nýjan leik eftir að hafa horfið af vett- vangi. Oft á tíðum eru ágætar skáldsögur horfnar af sjónarsviðinu eftir rúmt ár og hafa litla þýðingu þaðan í frá. Ég lít á slík verk sem einskonar meið af því sem skrifað er í tímarit – því þau vega ekkert þyngra en slík skrif. Mér finnst því mjög heillandi að skoða hvern- ig góð bókmenntaverk hafa lifað af, oft fyrir tilstilli þýðinga. Og þá skiptir í raun engu hvaðan slík bókmenntaverk koma – ef þau eru góð, munu þau lifa. Létu illum látum yfir Laxness En ástæðan fyrir því að ég nefndi Laxness hér áðan er auðvitað sú að hann sannar gildi þessarar kenningar – í það minnsta fyrir mig,“ heldur Murray brosandi áfram. „Sú saga nær allt aftur til þess er ég las bók Aud- ens, Letters from Iceland, eða Bréf frá Ís- landi, þar sem hann situr í rútu á leið út í buskann og sér út um gluggann hvernig snjórinn hefur brætt það sem hann kallaði „kort af Ástralíu“ við vegkantinn. Við lestur þessarar lýsingar var ég í raun þegar staddur hér í kuldanum, þrátt fyrir að Ástralía sé mjög heitt land. Eftir þetta fór ég að lesa fornsögurnar sem urðu næstu kynni mín af Íslandi, allt þar til ég rakst á grein eftir Brad Leithauser í The New York Review of Books, þar sem hann lofaði Sjálfstætt fólk í hástert þrátt fyrir að verkið væri ekki fáanlegt á prenti. Hann keypti eldri útgáfur hvar sem hann komst yfir þær hjá fornbókasölum og gaf öllum vinum sínum. Leithauser rakti síðan söguþráðinn, söguna af frekar frumstæðum föður og sambandi hans við sterka dóttur sína – sem er sígildur og afar áhugaverður efnivið- ur. Á þessum tíma var ég sjálfur að skrifa skáldverkið Myrtusviðinn [nýkomin út á ís- lensku í þýðingu Ólafar Eldjárn] sem einnig fjallar um sambandið á milli föður og dóttur, svo þetta vakti athygli mína. Tveimur dögum seinna þurfti ég að fara til tannlæknisins, og leit við hjá fornbókasala til að kanna hvort Laxness væri fáanlegur þar – og viti menn þarna sat bók eftir hann í einni hillunni, í einhverju ljótasta bandi sem ég hef séð. Þetta reyndist vera gömul útgáfa af Brekkukotsannál, er kom út á ensku árið 1966. Ég stóð þarna, fletti að fyrstu síðu og las fyrstu línuna, „Vitur maður hefur sagt …“ Þetta er einhver áhrifamesta byrjun á bók sem ég hef séð. En ég fór sem sagt heim með bókina eftir að hafa heimsótt tannlækninn og las hana á næstu dögum og naut hennar mjög. Hún var fyndin, gáfuleg og sagði af heimi sem ég þekkti ekki áður. Sá heimur er ef til vill um margt líkur öðrum heimum annars staðar, en er einnig mjög sérstakur og skrýtinn. Ég hafði samband við útgefandann minn í London, hjá Harvill Press, og hélt síðan áfram að demba yfir hann símbréfum, símtölum og bréfum um kosti þessa íslenska skálds, og það vildi svo til að á sama tíma var annar rithöf- undur Harvill Press að láta sömu illu látunum yfir Laxness,“ segir Murray og hlær, „– eng- inn annar en Nicholas Shakespeare. Hann hafði þó ekki farið til tannlæknisins til að kynnast Laxness, heldur gifst íslensk-kanad- ískri konu. Útgefandinn gat ómögulega stað- ist þennan þrýsting, sem í raun var að blása nýju lífi í bók sem hafði ekki verið fáanleg á prenti í Englandi í 30 ár. Bókin var eins og kolamoli sem roðnar er blásið er í glæðurnar. Brekkukotsannáll vakti síðan mikla athygli í Ástralíu er hann var gefinn út á ný, ekki síst meðal skálda og nú er hægt að finna bækur Laxness í öllum góðum bókabúðum þar.“ Vill réttlæta skrif sín Þú sagðir að Laxness hefði vakið áhuga þinn á þeim tíma sem þú varst að skrifa Myrt- usviðinn, af því hann hafði rannsakað sam- bandið á milli föður og dóttur í Sjálfstæðu fólki. „Já, sambandið á milli föður og dóttur er auðvitað eitt elsta þema bókmenntanna, og minnið úr Lé konungi verður klassískt um all- an aldur. Mín saga er viljandi byggð upp eins og dæmisaga vegna þess að ég hef enga trú á því að það þjóni tilgangi að bæta í hrúgu heimsbókmenntanna. Við megum ekki gleyma hvað búið er að skrifa margar skáldsögur í heiminum, né heldur hversu margar er verið að skrifa rétt á meðan við tölum saman. Þetta eru þúsundir eða jafnvel milljónir bóka. Ég er ekki að halda því fram að skáldsagan sé liðin undir lok, heldur aðeins að vekja athygli á því að við erum með ótrúlega umfangsmikla hefð að baki. Því finnst mér tilgangslaust að skrifa nema manni takist að gera það með nýjum og óvæntum hætti – bæði hvað form og innihald varðar – sem réttlætir skrifin. En viðfangsefni Myrtusviðarins lét mig ekki í friði, svo ég neyddist til að takast á við það. Og ég ákvað því að fara langt aftur í bók- menntasögulegu samhengi, til þess að geta svo að lokum stigið skref fram á við í sam- tímaskáldskap. Svo ég einfaldi nú hlutina stórlega, þá má segja að allar dætur þurfi að yfirstíga ákveð- inn vanda gagnvart föður sínum, og það sama á við um syni og samband þeirra við móður sína. Þegar dóttir kemur heim með vonbiðil, bregðast margir feður fjandsamlega við hon- um. Jafnvel þeir sem ekki gera það, tillits- sömu, góðu og umburðarlyndu feðurnir, þeim líkar það heldur ekki þó þeir grafi þær tilfinn- ingar innra með sér. Þetta er grundvallar inn- rás inn í sálarlíf þeirra. Í goðafræðinni, ekki síst í grísku goðafræðinni, hafa feður búið til ótrúlegar þrautir sem vonbiðlarnir verða að ráða fram úr til þess að vinna hönd dótt- urinnar. Að mínu mati gera allir venjulegir feður eitthvað áþekkt; þeir setja í gang ósýni- legt prófferli sem aumingja mennirnir verða að ganga í gegnum án þess jafnvel að vita það. Í Myrtusviðnum er slíkur faðir, sem leggur þraut fyrir vonbiðlana. Hann ræktar ekki sauðfé, eins og algengast er í Ástralíu, heldur myrtusvið. Allir vilja eignast dóttur hans, en enginn getur fengið hennar nema nefna nöfn allra myrtustrjánna, sem er eiginlega ómögu- legt. Þó sagan eigi sér stað í samtímanum þá vildi ég nota þessi áhrif úr goðsögnum, til að koma þeim skilaboðum á framfæri að þessi faðir – rétt eins og flestir feður – vill í raun- inni þann tengdason sem er líkastur honum sjálfum. Dótturinni er alveg sama þó allir vonbiðlar hennar falli á prófinu, af því hún hefur engan áhuga á þeim. Viðhorf hennar breytist ekki fyrr en hún hittir mann er töfrar hana með sögum sínum. Hún heldur áfram að koma til hans eftir fleiri sögum og áttar sig á því að einhver sem hún vill alls ekki eyða ævinni með gæti í raun og veru unnið hönd hennar, henni þvert um geð.“ Lögmál dæmisögunnar En á hún aldrei neitt frumkvæði að því að stýra lífi sínu sjálf? „Ef þetta væri raunveruleg persóna, þá myndi hún auðvitað hafa skoðanir á þessu, sitt eigið sjónarhorn og berjast gegn þessu ofríki. En í dæmisögunni er þessu öðruvísi farið. Í fyrsta uppkasti að sögunni hafði ég stúlkuna mun sjálfstæðari en svo rann upp fyrir mér að því meira hjálparvana sem hún er, þeim mun hræðilegri er sagan – þeim mun meira knýr hún á. Ef stúlkan væri harðsoðinn femínisti þá hefði sagan einungis eina vídd, þá félagslegu. Sagan er í rauninni einungis rökrétt útfrá til- finningalegu sjónarmiði – rétt eins og sagan af Lé og dætrum hans – og það var markmið mitt.“ Nú skrifaðir þú fyrstu söguna þína „Home- sickness“ eða „Heimþrá“, um ákveðið rými sem hefur orðið áberandi í samtímanum – um einskonar limbó eða stað þar sem fólk þarf að takast á við sjálft sig af því umhverfið er svo hlutlaust. Við þekkjum öll svona staði enda eru þeir eins sama hvar maður er í heiminum; hótelkeðjur, biðsalir flugvalla og áþekkir stað- ir. Hvað vakti áhuga þinn á þessu sögusviði? „Bókin fjallar um fólk sem fer einskonar heimsreisu í pakkaferð. Þau flakka um til að heimsækja söfn sem ég bý til, því í rauninni fjallar bókin um þekkingu eða ef til vill þekk- ingarleysi. Hugmynd mín mótaðist af gömlu orðatiltæki sem segir að ferðalög geri mann þröngsýnan. Að hluta til vísar þetta orða- tiltæki til þess sem maður skilur eftir heima; ef maður fer t.d. til Frakklands og pantar te- bolla, þá verður manni fljótt ljóst að teið í Ástralíu er miklu betra og þar með hefur maður fengið upplýsingar sem staðfesta eitt- hvað um manns eigin þrönga heim frekar en að upplýsa mann um Frakkland. Sagan mín fjallar eiginlega um það að maður getur orðið sér úti um mjög miklar upplýsingar, en þær koma samt sem áður ekki til með að breyta miklu um hver maður er. Þegar ég var ungur þótti mér mjög gaman að ferðast, ekki síst til erfiðra og framandi staða. Ég var viss um að ferðalögin gerðu mig vitrari. En ég er ekki svo viss lengur – kannski er það bara vegna þess að ég er að eldast. Það kemur að því að maður verður að vera kyrr einhvers staðar, ekki síst ef maður er rithöfundur, þá þarf maður kannski að eyða tíma sínum meira og minna í einu herbergi.“ Sálfræðilegar bókmenntir eins og faraldur Er það ef til vill þess vegna sem þú hneigist til að nota fantasíu eða súrrealísk einkenni í þínum skrifum í stað þess að endurskapa bara það sem er þegar til staðar? „Já, mér finnst það mikilvægt. En samt sem áður vil ég líka halda mig við raunveru- leikann upp að vissu marki – eða í það minnsta sannleikann. Það sem ég hef ekki lengur áhuga á er allur þessi ótrúlegi fjöldi af skáldverkum sem einungis reyna að fylgja sálfræðilegum ferlum. Við erum öll búin að lesa þessar sögur áður í ýmsum formum og mér finnst þetta nánast vera eins og faraldur í bókmenntum samtímans – flestir útgefendur myndu reyndar staðfesta þetta viðhorf. Með þessum hætti er einungis verið að þróa hinn huglæga veruleika skáldskaparins, formið og allt annað verður útundan. Bækur af þessu tagi líkjast mjög lífinu sjálfu og eru að mínu mati aðeins tímaritsskrif tekin skrefinu lengra. Með einum eða öðrum hætti verður skáldsaga að mínu mati að ná inn á goð- söguleg svið – þó ekki endilega í bókstaflegum skilningi.“ BÆTIR EKKI Í HRÚGU HEIMSBÓKMENNTANNA Murray Bail, einn þátttakenda á nýliðinni bók- menntahátíð, heldur því fram að ef bókmennta verk eru góð þá muni þau ganga í endurnýjun lífdaga fyrir tilstilli áhugasamra lesenda. Önnur verk segir hann hafa litla þýðingu, álítur þau eins- konar meið af því sem skrifað er í tímarit. FRÍÐA BJÖRK INGVARSDÓTTIR ræddi við Bail daginn sem hann hélt af landi brott. Morgunblaðið/Árni Sæberg Bail segir sálfræðileg ferli vera eins og faraldur í bókmenntum samtímans. fbi@mbl.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.