Lesbók Morgunblaðsins - 22.11.2003, Page 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 22. NÓVEMBER 2003
B
ókin er enn hinn hefðbundni og
endanlegi búningur ljóða, og
hefur verið síðan prentlistin
kom til sögunnar. Áður til-
heyrði ljóðið munnlegum arfi
og var samið til flutnings að
viðstöddum áhorfendum. En
teikn eru á lofti um að ljóðið
sé í ríkari mæli að brjótast út úr kápunum og
leita annarra leiða til þess að snerta, hreyfa
við, skemmta.
Þessi meinta tilhneiging var ásamt öðru
kveikjan að lítilli málstofu sem efnt var til
undir hatti ljóðahátíðarinnar Dagar ljóða og
víns, sem haldin er árlega í vínræktarþorp-
inu Medana í Slóveníu. Þar leggja ung skáld
frá Mið-Evrópu og víðar fram nýjan skáld-
skap sem lesinn er upp fyrir fjölda áhuga-
samra gesta sem drífur að úr öllum lands-
hornum hins þekkilega lands Slóveníu, en
þar búa um 2 milljónir manna og er þjóðin
orðlögð fyrir virka menningarneyslu.
Skáldin í ár voru rúmlega tuttugu talsins
og lásu fimm þeirra upp á hverju kvöldi há-
tíðarinnar sem stóð í tæpa viku og var
krydduð slavneskri tónlist, danslist, gjörn-
ingum og úrvali nýrra kvikmynda. Nær allir
dagskrárliðir fóru fram undir berum himni, í
lok ágúst, enda varði þá enn hin alræmda
hitabylgja sem gerði sumarið á meginlandinu
eftirminnilegt sumum en erfitt ýmsum.
Birtingin
Nema hvað, miðlun ljóðlistar í óðum sam-
tíma var viðfangsefni málstofunnar – sem
var raunar meira útifundur. Samræðunum
stýrði Franz Hammerbacher, útgefandi í
Vínarborg, sem hóf leikinn á hugleiðingum
um hvort trúin á bókina væri að dvína. Sjálf-
ur taldi hann að slíkt væri þá fremur í orði en
á borði, a.m.k. hefði hann ekki við að taka á
móti handritum svonefndra skúffuskálda í
starfi sínu hjá forlaginu Korrespondenzen.
„Og hver og einn einasti sem bankar vill að
við gefum ljóðin hans út á bók. Þegar ég
bendi þeim á aðrar leiðir, til dæmis birtingu
á Netinu, færist óánægjusvipur yfir fésin og
höfuð eru hrist. – Nei, mig langar að gefa út
bók, segja skáldin og þar við situr.“
Af þessu dró Hammerbacher þá ályktun
að bókin væri enn hinn ímyndaði, endanlegi
áfangastaður þeirra ljóða sem flestir skrifa,
og ljóðin mótuðust af því að þeim væri ætlað
að birtast á pappír, ásamt öðrum ljóðum, til
lesturs í einrúmi.
„Hins vegar sýna sölutölur að ljóðabækur
seljast ekki mikið – stundum jafnvel mjög
takmarkað.“
Aleš Šteger, með efnilegri skáldum Slóv-
eníu, var með tilgátu: „Kannski er ljóðið eina
fyrirbærið í menningargeiranum sem hefur
ekki náð að koma sér upp evrópskum mark-
aði,“ sagði hann og vísaði þar til útbreiðslu
kvikmynda, skáldsagna, tímarita og mynd-
listar yfir landamæri í álfunni. Hann taldi
nauðsynlegt að skáld og útgefendur veltu
fyrir sér hvers vegna útbreiðslan væri jafn
takmörkuð og raun ber vitni – að öðrum
kosti myndi pattstaðan ríkja.
Peter Šulej, skáld og útgefandi menning-
arritsins Vlna í Slóvakíu, rifjaði upp nýlegar
tilraunir til útbreiðslu ljóða á risavöxnum
skiltum, sem m.a. voru sett upp í slóvakísku
höfuðborginni Bratislava og slóvensku höf-
uðborginni Ljubljana. „Svipað var gert í
Berlín og Hamborg, ef ég man rétt, og marg-
ir kannast líka við ljóð sem prýtt hafa neð-
anjarðarlestarstöðvar í London og París.“
Spurt var hvort þetta væri rétta leiðin til
þess að koma ljóðlistinni til fólksins. „Er
ekki verið að misnota ljóðið í þessum til-
fellum, nýta það einungis sem skraut í amstri
hversdagsins?“ spurði efasemdarmaður í sal.
„Vissulega er ljóðalestur í eðli sínu einka-
leg athöfn,“ svaraði Šulej, „en svona tilraunir
vekja kannski áhuga einhverra vegfarenda á
frekara og dýpra bókagrúski. Þetta getur
virkað sem byrjunin á fallegri vináttu við
ljóðið.“
„Einmitt, þetta eru eins konar auglýsing-
ar. Ég meina, allir skapaðir hlutir eru aug-
lýstir, bílar, tryggingar, mjólk, ferðaskrif-
stofur ... af hverju ekki að auglýsa ljóð-
listina?“ bætti við Martin Solotruk, einnig
frá Slóvakíu, og Šulej minnti auk þess á að
ljóðahátíðir eins og þessi væru ein, löng aug-
lýsing.
Stíllinn
Šteger og Hammerbacher vildu næst vita
hvort miðillinn sem ljóðum er valinn, væri á
einhvern hátt að breyta eðli og inntaki
ljóðanna. Sumir vildu meina að slíkt gerðist
óhjákvæmilega. Til dæmis væri ljóð, sem
dreifa ætti með SMS-skilaboðum, þeim tak-
mörkunum háð að geta einungis talið 170
bókstafi. „Þar með þarf að koma sér beint að
efninu, jafnvel skera niður líkingar eða
skúffa endurtekningum,“ var bent á. „Og ef
höfundur skrifar ljóð sem hann veit að mun
fara á auglýsingaskilti í stórborg, þar sem
allir eru á þönum og athyglisbil vegfarenda
er þröngt, þá dettur honum varla í hug að
skrifa langan bálk – segjum eins og Rhyme
of the Ancient Mariner eftir Coleridge.“
Sem sé, ef miðillinn er ákvarðaður fyr-
irfram, hefur hann mótandi áhrif á skrifin.
Þá var einnig nefnt að ef ljóð væru skrifuð
eingöngu til flutnings á sviði, litaði það
gjarnan stíl og yfirbragð. Margir höfðu sög-
ur að segja af svonefndum slamm-ljóðakvöld-
um þar sem ljóðalestur og aðkenning að
múgæsingu rennur saman.
„Ég hef ekkert á móti veggspjöldum sem
birta ljóð á götum borganna. Hver og einn
ræður hvað hann gefur sér mikinn tíma til að
lesa og gatan getur jafnvel verið svolítið fal-
leg umgjörð um stefnumót lesanda og texta,“
viðurkenndi svissneska skáldkonan Sabina
Naef. „En ég á hins vegar í vandræðum með
hið svokallaða ljóðaslamm, þar sem viðbrögð
skipta öllu máli. Ef ljóðalestur byggist á að
æsa, ef hann á að þvinga fram skemmtun, þá
finnst mér að fólk gæti allt eins fundið sér
annað listform.“
Mihail Galatanu frá Rúmeníu, skáld á
fimmtugsaldri og einn af fáum en stoltum
fulltrúum reynslunnar, minnti ungliðana á að
allar hinar „nýju birtingarmyndir væru alls
ekki uppfinningar samtímans heldur bara
gamla góða ljóðið sjálft mætt. „Því ljóð er
ekki smíði, ljóð er ekki vara, heldur inn-
blástur! Og það eru heldur ekki mörg skáld
til, eiginlega er bara til eitt skáld og það er
erkitýpan sjálf. Hún birtist hér á þessari há-
tíð með mismunandi gleraugu, húðlit og hár-
sídd, en er í raun bara erkitýpan og ljóðið er
alltaf ljóð.“
Menn klóruðu sér í höfðinu og héldu svo
áfram.
Ítrekað var að bókin væri framleiðsluvar-
an, tilbúin til neyslu, en upplestur gæti einn-
ig verið eins konar vara. Og gjarnan gilti að
umbúðirnar væru sem skrautlegastar. „Í hin-
um þýskumælandi heimi virðist trixið í það
minnsta vera að setja ljóðin í óvenjulegt
samhengi. Ef menn auglýsa til dæmis 24
tíma maraþonlestur, eða eitthvað slíkt, er
mun meiri von á áhorfendum en ef venjulegt
ljóðakvöld væri auglýst,“ sagði Hammerbac-
her.
„Þannig að þetta snýst um markaðssetn-
ingu. Það þarf að skilgreina markhópinn fyr-
irfram, búa til konsept og auglýsa,“ áréttaði
Martin Solotruk og ýmsir samsinntu.
„Já, og ekki vera feimin. Ég nefni nú bara
sem dæmi að áhugi á NBA-deildinni í körfu-
bolta var aldrei til í Evrópu. Nú er það með
vinsælasta sjónvarpsefni því markaðsöflin
tóku upp á því að ýta því til fólksins. Það þarf
að fara eins að með ljóðin, ýta þeim út til
neytenda og koma þeim á bragðið,“ sagði
Wolfgang Kühn hjá Bókmenntahúsinu í Vín-
arborg.
Salan
Franz Hammerbacher vitnaði þá í kenn-
ingar þess efnis að ljóðaunnendur á hverjum
stað væru eins og talan pí, þ.e.a.s. fasti en
ekki hlutfall íbúafjölda. „Ég held að með-
altalssala á ljóðabók sé yfirleitt í kringum
500 eintök, sama hvað landið er stórt,“ sagði
hann – við undrun margra – og tók sem
dæmi bók eftir sænska stórskáldið Tomas
Tanströmer sem seld var í aðeins 700 eintök-
um á fimm árum í Þýskalandi. „Af fenginni
reynslu er ég viss um að hægt sé að selja 700
eintök af Tanströmer hér líka [í Slóveníu],
jafnvel þótt landið sé margfalt fámennara.“
Þótt kenningin sýnist ganga þvert á stærð-
fræðilega skynsemi, virðist hún staðreynd.
Að minnsta kosti var hún studd með dæmum
frá ýmsum löndum, allt frá íslenskri ljóðabók
sem seldist í tæplega 500 eintökum á fyrsta
ári eftir útgáfu, í 288 þúsund sálna landi, til
svipaðrar sölu Nóbelshöfundar í mun fjöl-
mennara landi á borð við Tékkland.
Sabina Naef vildi ekki hugsa meira um töl-
ur. „Ég held nefnilega að eintakafjöldinn
segi ekki allt þegar kemur að ljóðum. Les-
endur ljóða eru kannski tiltölulega fáir, en
þeir eru raunverulega ástríðufullir. Þeir eru
ekki að lesa ákveðna bók af skyldurækni –
því allir aðrir eru að lesa hana – líkt og
gjarnan er með vinsælar skáldsögur, sem
enda svo að eilífu uppi í hillu. Ljóðaunnend-
urnir falla sjálfir fyrir ákveðnum skáldum og
lesa ljóð ljóðanna vegna, aftur og aftur, en
stilla ekki bókinni upp.“
Áfram var rætt um útbreiðsluna og sjón-
um beint að þýðingum. Flestir voru fylgjandi
því að meiri kraft þyrfti að setja í þýðingar
ljóða og jafnvel útgáfu bóka á fleiri en einu
tungumáli. Hammerbacher minntist á ákveð-
inn lið Culture 2000-áætlunar Evrópusam-
bandsins sem hvetur til útgáfu sömu bóka í
þremur löndum í einu. Þar með er fram-
leiðslukostnaður samnýttur og ljóð ferðast til
fleiri lesenda í einu. „Þetta er góð hugmynd.
Ég held að útgefendur og ljóðskáld ættu að
vera duglegri við að sækja sér stuðning til
útrásar hjá viðeigandi yfirvöldum. Allar
þjóðir leggja sig fram um að rækta menning-
ararf sinn og afhenda með glöðu geði skattfé
sitt í rekstur þjóðleikhúsa, þjóðminjasafna
og listhúsa. Hvers vegna skyldi hið sama
ekki gilda um ljóðlistina? Við þurfum ekki
háar upphæðir, en í staðinn gætum við áreið-
anlega gert rósir.“
Lauk þar með samræðum um hagnýt at-
riði og markað. Af hátíðinni sjálfri er það
hins vegar að segja að áhorfendur skiptu
hundruðum, jafnvel þúsundum þegar talið
var saman eftir vikuna, og myndaðist oft fal-
leg stemning á upplestrarkvöldum. Engin
múgæsing heldur raunveruleg andakt, hlát-
ur, slökun og skemmtun og kom í ljós að ljóð-
list er ekki verri leið en hver önnur til þess
að halda líftórunni í fólki þegar miðevrópsk
hitabylgja er í hámarki.
LJÓÐIÐ GENGUR
Á GLERVEGG
Á ljóðið enn möguleika á að „ná til sinna“ í hrað-
skreiðum samtíma? Þarf kannski að markaðssetja
ljóðlist eins og hvern annan varning? SIGURBJÖRG
ÞRASTARDÓTTIR hermir frá skoðanaskiptum ungra
evrópskra skálda um leiðir til miðlunar.
Morgunblaðið/Jeffrey Young
Í Medana var hefðbundnum upplestri ljóða tekið fádæma vel. Sonata Paliulyte, skáld og leik-
kona frá Litháen, stígur á svið.
sith@mbl.is