Lesbók Morgunblaðsins - 22.11.2003, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 22.11.2003, Blaðsíða 13
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 22. NÓVEMBER 2003 13 I S káldið stikar um bæinn í rauðum jakka með gulköflóttan trefil og gráan bakpoka. Svört húfa hyl- ur dökka, liðaða lokka. Jóhann Árelíuz úr Eyrarvegi 35 virðist frekar fertugur en fimmtíu og eins, meðalmaður á hæð, ögn álútur. Sjálfsagt ætt- gengt. Talar hratt og leggur áherslu á mál sitt með snöggum handahreyfingum. Hefur búið aldarfjórðung í Svíaríki, sneri heim haustið 2001 og var að senda frá sér Eyrarpúkann, skáldverk sem gerist á Eyrinni á Akureyri um miðja síð- ustu öld. Heimurinn Eyrin með barnsaugum. Skáldskaparsannleikur og nöfnum einungis breytt á þremur stöðum. Heimshorn sögunnar mót Ægisgötu og Eyrarvegs 35. – Enda er veröldin víðar en í henni Reykjavík þótt Esjan sé fjólublá og hefði útgefandinn trauðla tilnefnt Eyrarpúkann til Íslensku bók- menntaverðlaunanna, auglýst hana í Bókatíð- indum og sett í dreifingu um allt land áliti hann að hún ætti ekki erindi út fyrir Lónsbrúna. Hafa undirtektir verið góðar, svo í Stokkhólmi sem á Skáni, suður í Garði og á höfuðborgarsvæðinu. Enda er nafla alheimsins ekkert síður hér að finna en í Þórshöfn Heinesens, á Hellissandi eða í Suðursveit Þórbergs, segir Jóhann Árelíuz. – Mér hlýnaði um hjartarætur þegar ég kom þreyttur heim í Hjallalundinn að finna þar bréf frá Ingvari Gíslasyni, fyrrverandi menntamála- ráðherra, sem oft spjallaði við föður minn yfir girðinguna í Eyrarvegi. Hann sendi mér líka þessa fínu limru frá Reykjavík. Enda skáld öðr- um þræði, Ingvar. Þó ekki sé útsýnið vítt er umhverfið mannlegt og hlýtt. Þín lausamálsljóð eru listvæn og góð, úr bernskunnar bláþráðum hnýtt. II – Nú er veður til að skapa, segir skáldið, þar sem við stöndum í logninu á þessu horni heims- ins, og segir bróðurpartinn af sínum skáldskap verða til á gönguferðum. – Öll mín ljóð og textar koma til gegnum ilj- arnar; þannig tengist ég himni og jörð. Eins og í fótboltanum verður maður að hafa augu í hnakkanum í skáldskapnum. Það eru bara tvær tegundir höfundarverks, skrifborðsskrif og göngutúrakompósisjónir. Gerir Árelíuz orð Goethe að sínum, að sú sköpun sem er einhvers virði hafi orðið til á góðri göngu, enda fæddur upp á sama dag og leyndarráðið. Slímseta við skrifborð og tölvu bjargar engu engu ein og sér. – Sumt fólk hér í bæ lítur á mig sem iðjuleys- ingja sem er skrýtið, mann sem er alltaf að vinna! Ég heyri þetta hjá iðnaðarmönnunum í heita pottinum, sem ég kalla stundum þver- hausana en eru bestu skinn og hefur enginn þeirra kvartað undan bókinni. Kímir og snýr sér að öðru. – Bassinn úr Smárakvartettinum er úr þessu húsi, segir skáldið syðst í Ægisgötunni. Við þrömmum niður Eiðsvallagötu og norður Hrís- eyjargötu. Þetta hús byggði afi, segi ég. – Já, og þarna bjó Nói bátasmiður segir hann og bendir á húsið við hliðina á Hríseyjargötu 20. – Ég fékk áfall þegar ég kom hér fyrir hornið eitt sinn, kafandi í bernskudjúpum í sólskini septemberdagsins; engir hjallar, engin hesthús og ekkert Kwaifljót, segir hann þegar við sjáum fyrir horn nyrsta húss Hríseyjargötunnar. – Við nutum lítilla tannlækninga í ungdæmi okkar, púkarnir, og væri ég sennilega tannlaus í dag eftir allt sem ég hef gengið í gegnum nema af því við borðuðum skreið daglega. Það er lúxus nú. En segir svo sem eðlilegt að byggt sé þarna sem annars staðar. Enginn myndi samþykkja hjalla á svæðinu. Nefnir að Norðurgatan hafi verið breiðstræti Eyrinnar í þann tíð og rifjar upp þegar Hjalt- eyrargatan var lögð. – Það var engin smá framkvæmd. Þá kom nú- tíminn hingað. Við skulum gera okkur grein fyr- ir því að stór hluti þessa verks gerist fyrir tíma ísskáps og síma. Og fyrir rafvæðingu í sveitum. Enda er veðursæld Vopnafjarðar gerð hér verð- ug skil í sólríkum heimsóknum í þá fögru dali. Foreldrar mínir fæddust í torfbæjum og fraus á koppnum. – Hér voru hestar í girðingu, segir hann og bendir austur yfir Hjalteyrargötuna. Þar eru nú hestöfl. Bílasala. En engin girðing. III Bókin skiptist í stutta kafla; stakar sögur. Myndir úr orðum. Mikið spurt um heimildavinnu, segir skáldið. Er ekki á móti henni, en þarfnaðist lítt að þessu sinni: – Sagan er sögð frá sjónarhorni lítils snáða. Ég rammaði bara inn andrúmsloftið. Heimildavinnan nú var fólgin í því að sofna tvisvar á Amtsbókasafninu. Yfir Vorinu og Æskunni. – Í stað þess að dotta oftar á Amtinu hef ég leikið við son minn frá fyrstu tíð. Bókin er ekki síst óður til móður minnar og því tileinka ég henni ekki verkið. Ef ætti að tileinka bókina ein- hverjum væri það Jónatan Máni Árelíuz júníor með þökk fyrir innblásturinn! Jónatan er Eyr- arpúki nýrrar aldar. Drengur sem gengur á höndum og dansar í kringum Þórsarana. Það var ágætt að vera KA-strákur á Eyrinni, þótt þeir hafi verið í minnihluta. – Og skipti engu um vináttu milli manna í hvoru félaginu þeir voru. Stöku Þórsara finnst sér ekki gert nógu hátt undir höfði í bókinni. En blómatími Þórs tekur auðvitað við af gullöld KA. Við sjáum til með það… Skáldið boðar sumsé framhald. – Fólk er forvitið um Eyrarpúkann og ég hef hug á að halda áfram. Praktískt er þetta klikkun og væri ég að pæla í peningum myndi ég skrifa ævisögur einhvers frægðarfólks. IV – Köllunin hefur ætíð verið drifkraftur minn við skriftir. Til að geta notað klisjur þarf visst vald yfir málinu og umfram allt auðmýkt fyrir því. Að geta notað venjuleg orð þannig að þau öðlist nýtt líf. – Það versta við mín ritstörf er absúr pen- ingaskortur því það stelur dýrmætum tíma að troða marvaðann útgjaldalega. Kveður skáldið fjölskyldu sína fullsadda á slíku hungri. – Að vera blankur á Íslandi er ævintýri sem ég óska engum. Og án þess að fara út í pólitískt þref verðum við að jafna kjörin ef ekki eiga að búa tvær þjóðir í þessu jöklahreiðri. Mín ósk til landsmanna minna er sú að fólk hætti að fara of- fari. Heldur svo áfram: – Það þyrfti hreinlega að komast í tísku að vera lásí. Það er ekkert flott að vera ræfill – en það er litlu betra að vera flottræfill! – Menn eru að sperra sig að eiga eitthvað sem þeir eiga ekki. V Við hættum okkur austur yfir Hjalteyrargötu og erum komnir niður að sjó á svipstundu. Stöndum í stórgrýttri fjörunni og horfum aust- ur um. – Það var oft góð veiði hér á bryggjunum. Ég verð að koma hingað með soninn. Vaðlaheiðin er falleg. Þegar við snúumst á hæli blasa Súlur við og Hlíðarfjall. – Sjónarhorn Eyrarpúkans er annað en Brekkusnigilsins. Við horfum upp um bæinn, ekki niður á hann, segir Jóhann Einarsson, Ár- elíuz. Við tökum strikið upp eftir aftur. Stíll skálds- ins er eins og göngulag þess. Rennur áfram átakalaust en örugglega. Hvert skref þó út- hugsað. – Galdur góðs stíls er sá að maður tekur ekki eftir honum. Það einfalda er margræðast. Segir minnstan tíma fara í að kasta sögum á blað. Tímafrekast sé að „ydda“ textann og þétta vefinn. Sumar sögurnar eru nánast prósaljóð, segi ég. Skáldið kinkar kolli. Segir sögurnar kyrralífs- myndir á hraðferð. Eyrarpúkinn kom undir á Sigurhæðum, í Vopnafirði, á Gotlandi, í Hveragerði og síðast en ekki síst í Hrísey. Auk Úlfasunda Stokkhólms og Hjallalunds Akureyrar. Fjölskyldan bjó í Hrísey fyrsta veturinn eftir heimkomuna. Þar fann skáldið fjölina eftir margra ára leit vorið 2002. – Hér var gott að vera, segir skáldið þegar við komum að Oddeyrarskóla, enda höfðu menn vart undan að barna konur sínar á hinum frjó- sama neðri parti Eyrinnar þau misserin. – Veturinn í Hrísey var margbrotinn. Mikil breyting að koma úr milljónaborg í 160 manna samfélag úti í fjarðarkjafti. En þar var gott að ganga á skíðum og krakkarnir spjöruðu sig og náðu tökum á íslenskunni í skólanum litla. VI Jöklahreiður gefur bókina út. Árelíuz á það kompaní sjálfur og hefur því nóg fyrir stafni. Kynnir bókina um borg og bí, reynir að hafa upp í kostnað. – Undirtektir eru einróma, segir hann, enda ljóma flestir þegar bernskuna ber á góma. Það var gaman að lifa á Akureyri þegar menn höfðu ekkert suður að sækja, Akureyri var stærstur bæja á landinu og alltaf gott veður! – Svæsnustu Eyrarpúkar kvarta ekki einu sinni. Kannski vegna þess að ég hef farið of mjúkum höndum um þá! Mér skilst það sé verið að lesa úr bókinni í saumaklúbbum, skildi eina eftir í banka hjá gamalli skólasystur og þegar ég kom næst vildu fimm kaupa. Margir hafa lesið hana í einum rykk og ég veit um hjónaerjur. Fullþroska konur elska þessa bók! Karlarnir í heita pottinum hafa keypt hana en þegar ég spyr um viðbrögð varð konan fyrst til að lesa hana! Segir skáldið ánægjulegast við útkomu bók- arinnar heimsóknir og símtöl við gamla Eyr- arpúka: – Ég gæti verið í slíkum fram á aðfangadags- kvöld. En hef ekki tíma til að staldra við svo lengi hjá hverjum og einum. Bæti úr því síðar. Telur sorglegt hve sjaldan maður hitti mann og hafi tíma til að spjalla á götuhorni. – Viðkvæðið er alltof oft Hittumst seinna, sem þýðir Hittumst aldrei. Ég hitti fleiri á Ak- ureyri á meðan ég bjó í Svíþjóð en fyrstu miss- erin á Íslandi. – Það er reyndar athyglisvert að það eru ein- göngu Akureyringar sem hafa komið að yfir- lestri Eyrarpúkans, allt frá Þórarni skáldi í Huldugili, bror Vignir á Blönduósi til Bjargar úr Brekkugötu. svo ég nefni nokkur nöfn Að ógleymdum Brekkusniglinum Goddi, þeim graf- íska prófessor, sem hannaði kápuna af stakri hind. Og allt hefur staðið eins og stafur á bók í samstarfinu við Ásprent í Glerárgötu að ógleymdri faglegri ráðgjöf vina minna í Alprenti enda prentverk þau brátt undir einum hatti. Og vitaskuld hvergi betra að vera en á Akureyri á góðum degi, það vita allir sannir norðanmenn hvar á jarðkringlunni sem þeir eru staddir. Segir skáldið og útgefandinn Eyrarpúkann henta nútímamanninum fullkomlega. Hann tefli einföldu, óbrotnu lífi gegn tölvufári. – Hvað gerir fólk í dag? Allt er að verða ein Playstation. KYRRALÍFSMYNDIR Á HRAÐFERÐ Morgunblaðið/Kristján Jóhann Árelíuz við æskuheimili sitt á Eyrarvegi 35 á Akureyri. Hann kveðst heppinn að hafa búið nálægt hjöllunum: Við nutum lítilla tannlækninga í ungdæmi okkar, og væri ég sennilega tannlaus í dag eftir allt sem ég hef gengið í gegnum nema af því við borðuðum skreið daglega. skapti@mbl.is E F T I R S K A P TA H A L L G R Í M S S O N

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.