Lesbók Morgunblaðsins - 13.12.2003, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 13.12.2003, Blaðsíða 5
þraut … fyrstu sex bitana fiskar maður bara einhvers staðar upp úr bunkanum.“ Lykilverk í fræðunum Þú nefnir að þessar bækur myndu geta flokkast undir póstmódernísk fræði sem þýðir kannski umfram allt að þær séu hluti af gríð- arlega umfangsmikilli endurskoðun hugvís- inda síðustu áratugi sem hefur bæði breikkað aðferðafræðilegan grundvöll þeirra og fjölgað mjög viðfangsefnunum. „Já, ég ræði stuttlega þá sprengingu sem orðið hefur á sviði kvikmyndafræða í inngangi mínum að Áföngunum, en verksvið eða við- fangsefni kvikmyndafræðanna hefur marg- faldast á aðeins 30 árum. Svona er þessu einnig farið á öðrum sviðum hugvísinda, sérstaklega í bókmenntafræðinni. Í Þýðingaritröðinni eru það helst Saga kvikmyndalistarinnar og svo kannski Tóma rýmið sem ekki myndu teljast póstmódernísk rit. Skrifað við núllpunkt eftir Barthes á hálfrar aldar afmæli á þessu ári og það var því vel við hæfi að hún kæmi út núna, en hana má kannski kalla núllpunkt eða upphaf póstmódernismans, áhrifasaga hennar er því- lík. En svo var hún líka ein fyrsta bókin sem ég las í bókmenntafræði þá aðeins 18 ára gamall, en Matthías Viðar Sæmundsson gerði það af skepnuskap sínum að gera hana og önnur níð- angurslega þung verk að skyldulesefni fyrir nýnema í íslensku fyrir 20 árum. Ég er enn að jafna mig. Bækur Derrida, Metz og Virilio eru líka hver um sig lykilverk í fræðunum og stór- fenglegt að fá þær loks á íslensku. Annars er það með þetta eins og annað að þessi vinna hef- ur einvörðungu gildi ef henni er fylgt eftir með fleiri þýðingum. Ef allt gengur að óskum verða bindin í Þýðingaflokki Bókmenntafræðistofn- unar orðin 20 árið 2007.“ Mætti ekki halda því fram að þrátt fyrir að þessi uppstokkun á fræðunum hafi haft mikil áhrif hér á landi, eins og víðast annars staðar, þá hafi póstmódernísk fræði verið afskaplega lítið þýdd? „Jú, þau hafa nánast ekkert verið þýdd á ís- lensku og það gætir ákveðins misskilnings hér á landi um eðli og áherslur póstmódernisma. Nú geta menn bara lagst í þessa texta milliliða- laust og gert upp við sig hvert gildi þeirra er. Svo er það líka umhugsunarefni hvers vegna svona lítið er til af þýðingum á helstu fræðirit- um hefðbundinna húmanískra vísinda á ís- lensku.“ Undarleg þversögn? Það að ekki skuli mikið vera til af þýðingum á helstu fræðiritum húmanískra vísinda á ís- lensku virðist stangast á við þá áherslu sem Ís- lendingar hafa lagt á tungu sína, sjálfstæði hennar og viðgang. Á sama tíma og íslenskir fræðimenn og ráðamenn hafa óskapast yfir áhrifum enskunnar í íslensku samfélagi þá hafa þeir ekki sinnt því að þýða helstu verk á íslensku, verk sem íslenskir fræðimenn og nemendur þurfa á að halda til þess geta hugsað um hugvísindi á íslensku. Er þetta ekki und- arleg þversögn? „Jú, eflaust. Kannski liggur þversögnin í því að við áttum lengst af ekki kost á því að vinna markvisst að því að þýða helstu rit hugvísind- anna á íslensku. Fræðimennirnir voru einfald- lega of fáir til þess að geta bæði sinnt rann- sóknum og því mikilvæga starfi að færa erlend hugvísindi inn í íslenskt samhengi með þýð- ingum. Það þarf mikinn og vel menntaðan mannafla til þess að halda úti slíku starfi. En nú erum við loksins að verða svo vel stödd að hafa yfir þessu fólki að ráða. Háskóli Íslands hefur á undanförnum árum verið að leggja meiri og meiri áherslu á framhaldsnám, bæði til meistara- og doktorsprófs. Þetta hefur verið skýr stefna Páls Skúlasonar, rektors, síðast- liðin ár og mun án efa skila sér í því að nú og á næstu árum útskrifast fleiri en nokkru sinni fyrr með framhaldspróf í hugvísindum frá skólanum. Og það gerir okkur kleift að leggja í verkefni á borð við þá þýðingaritröð sem hér um ræðir.“ Vinnumatskerfið fjandsamlegt vinnu við þýðingar En hefur kannski einnig vantað hvata innan Háskóla Íslands til þess að leggja þýðingar fyrir sig? Og hefur kannski vantað hvata til þess að fræðimenn sinni útgáfustarfsemi eða ritstjórn á borð þá sem þú hefur verið að sinna? „Jú ég verð að viðurkenna það. Satt að segja er vinnumatskerfið í skólanum fjandsamlegt vinnu við þýðingar og raunar ennfrekar vinnu við ritstjórn. Kerfið tekur fyrst og fremst mið af rannsóknarframlagi sem felst í greina- og bókaskrifum. Það er nánast eins og gert sé ráð fyrir því að í þýðingum og ritstjórn felist ekki framlag til íslenskra rannsókna og að ritstjór- inn sé óvirkur þátttakandi í þekkingarsköp- uninni. Þetta er afskaplega gamaldags hugsun. Vinna við þýðingaverkefni eins og Áfangana mun að öllum líkindum hafa mótandi áhrif á rannsóknarvinnu í framtíðinni og skapandi rit- stjórn getur stýrt og mótað þekkingarleit. Eins og ástandið er núna vinna menn svona vinnu vitandi að það þýðir hreinlega launa- skerðingu og því fást fáir í starfið og endast illa í þessu nema þetta sé þeim mun meira hug- sjónamál. Þetta hefur svo neikvæð áhrif á af- köstin í fræðasamfélaginu og við missum af mörgum tækifærum til að auðga íslensk fræði og menningu. Það væri til að mynda hægt að gefa út fjöldann allan af greinasöfnum um ákveðin efni innan fræðanna en það þarf að leggja vinnu í að velja viðfangsefnið, finna hæfa fræðimenn sem annaðhvort þýða eða frumsemja texta, síðan þarf að ritrýna text- ann, o.s.frv. Slík greinasöfn geta haft gríðar- lega mikið gildi. Í þeim felst mikil ögrun fyrir lesendur sem þurfa ekki aðeins að taka afstöðu til skoðana eða sýnar eins fræðimanns heldur margra. Og við slíkan lestur verður iðulega til einhver ný hugsun, nýr skilningur. Hér finnst mér grunnur þekkingar í hugvísindum liggja. Svona greinasöfn eru gríðarlega algeng á er- lendum markaði og á bak við þau liggur iðu- lega vönduð ritstjórnarvinna. Það var þetta sem ég hafði í huga þegar ég ræddi við Jón Ólafsson á sínum tíma um að stofna nýtt tíma- rit við hugvísindastofnun og Ritið er afrakst- urinn. Þar er skapaður vettvangur þar sem eitt fræðilegt viðfangsefni er kynnt í frumsömdum greinum og þýðingum.“ Skortir ekki nokkuð upp á að útgáfumál séu í lagi í Háskólanum? „Jú, Háskóli Íslands er öflugur rannsókna- háskóli en markmiðið á einnig að vera að gera hann að öflugum útgáfuháskóla. Ein af rann- sóknarforsendunum er sú að rit eftir kennara skólans séu ritrýnd á markvissan hátt. Nú er reyndar von á nýrri ritröð þar sem þetta verð- ur einmitt gert en þó finnst mér vanta verulega á hvatann til að koma upp slíku kerfi.“ Og væntanlega þarf einnig, að þínu mati, að efla áhuga á þýðingum innan skólans? „Já. Þessi árátta þrjú hundruð þúsund manna þjóðar að íslenska alla hluti þykir sum- um óskiljanleg. Sumum þykir óþægilegt að geta ekki bara notað ensku hugtökin sem auð- velda oftast samskipti við erlenda fræðimenn. En ég tel að í þessu þýðingarstarfi okkar geti búið fræðilegur og vísindalegur styrkur. Ég held að allir sem hafa lesið hugvísindi á er- lendri tungu kannist við þann ávinning sem felst í því að þurfa síðan að íslenska þau fræði. Ég fann það líka sjálfur í doktorsnámi í Banda- ríkjunum að tungumál þessara fræða á ensku er orðið svo sérhæft og fyrirsjáanlegt að text- inn kom næstum því sjálfkrafa á köflum. Málið var fullt af frösum sem maður gleymdi á köfl- um að velta fyrir sér. Maður þekkti kannski eitthvert ákveðið hugtak í bak og fyrir, kunni skilgreiningu þess utan að en hafði samt aldrei brotist almennilega inn fyrir yfirborð þess. En það er einmitt það sem við þurfum að gera þeg- ar við þýðum hugtök á íslensku, við þurfum að brjóta þau upp, endurhugsa þau og skilja upp á nýtt. Annars er hætt við að við tökum upp það steinrunna og dauða tungumál sem því miður einkennir skrif alltof margra erlendra fræði- manna. Við getum unnið gegn þessu með því að þrjóskast við að tala og skrifa og hugsa á okkar eigin tungumáli og án þess að leitast við að líkja eftir þessu tungumáli meira en nauð- syn krefur.“ Tungumálakunnátta landsmanna helsta ógnin En við erum eiginlega stödd á hinum enda þessa áss, við eigum ekki íslensk orð yfir mörg þessara hugtaka. „Já, það er rétt. Og kannski hefur þróunin verið fullmikið í þá átt að skrifa fræðitexta á al- þýðlegu máli. En við megum ekki lenda í því að fræðin séu skrifuð á tungumáli sem aðeins inn- vígðir skilja. Það yrði sorgleg niðurstaða. Glíman við hugsunina og hugtökin á að vera eina fyrirstaðan. Annars tel ég að helsta ógn íslenskunnar nú til dags sé tungumálakunn- átta landsmanna. Þegar fólk er flest farið að tala tvö eða þrjú tungumál virðist ef til vill ekki vera nein ástæða til að þýða erlenda texta. En það er misskilningur. Mikilvægasta verkefni okkar nú er að virkja þá tungumálaþekkingu sem þjóðin býr yfir á réttan og skapandi hátt, til dæmis í þýðingum.“ throstur@mbl.is Morgunblaðið/Árni Sæberg „Satt að segja er vinnumatskerfið í Háskólanum fjandsamlegt vinnu við þýðingar og raunar ennfrekar vinnu við ritstjórn,“ segir Guðni Elísson sem hér er ásamt dóttur sinni Steinunni Kristínu. Annars tel ég að helsta ógn íslenskunnar nú til dags sé tungu- málakunnátta landsmanna. Þegar fólk er flest farið að tala tvö eða þrjú tungumál virðist ef til vill ekki vera nein ástæða til að þýða erlenda texta. En það er misskilningur. Mikilvægasta verkefni okkar nú er að virkja þá tungumálaþekkingu sem þjóðin býr yfir á réttan og skapandi hátt, til dæmis í þýðingum. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 13. DESEMBER 2003 5

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.