Lesbók Morgunblaðsins - 13.12.2003, Blaðsíða 7
E
kki er ljóst, hvenær fyrst var far-
ið að kveða barnagælur hér á
landi. Víst verður að telja, að
foreldrar og fóstrur hafi alla tíð
haft á valdi sínu einhverja tón-
list til að koma börnum í svefn.
Hvað það var í heiðnum sið, er
okkur hulið. Trúlega hafa kvæði
þá verið kveðin. Með kristninni komu helgi-
kvæði, Maríuvers og dýrlingakvæði, sem efa-
lítið hafa gegnt þessu hlutverki að róa hið unga
líf og jafnframt að biðja fyrir því. Orðið „barn-
gæla“ kemur fyrir á 15. öld í handriti af Örvar-
Odds sögu og er þar haft um vögguvísu meðal
jötna.1 Þessi vísnagerð hefur verið og er enn í
stöðugri þróun. Nefna má, að mælt er, að sr.
Bjarni hafi einhvern tíma sagt heldur dapur: Í
mínu ungdæmi sungu mæðurnar við börnin
„Bí, bí og blaka“. Nú syngja þær bara „Chi
baba, chi baba“. Síðarnefndi textinn er nú að
verða flestum gleymdur, og svo getur farið um
margt, sem þó er meira virði.
Á bernskuheimili mínu var mikið sungið.
Auk ættjarðarlaganna voru ýmsar barnavísur.
Nokkrar þeirra eru, að sögn foreldra minna og
annarra, eftir frú Stefaníu Siggeirsdóttur
(1842–1905) í Hraungerði í Flóa. Faðir minn,
Ólafur, var fæddur á Ólafsvöllum á Skeiðum og
upp alinn þar og á Mosfelli í Grímsnesi. Móðir
mín, Þóra, var fædd og upp alin á Stokkseyri,
en var einnig mikið í Hellnahjáleigu í Gaul-
verjabæjarhreppi. Þeim var því tiltækt margt
úr menningararfi Árnessýslu, þar á meðal
þessar vísur frú Stefaníu. Sumar þeirra hef ég
hvergi séð á prenti, aðrar breyttar eða þannig,
að eitthvað vantar á.2 Að mínum dómi eru þær
of áhugavert efni til að falla í gleymsku. Því er
þeim komið á framfæri hér, eins og ég veit þær
réttastar, ásamt frásögn af höfundi og þeim
sem hann yrkir um. Ég lýsi jafnframt eftir
frekari upplýsingum um kveðskap frú Stefan-
íu, leiðréttingum, fleiri ljóðum og hvort þau eru
til á prenti.
Frú Stefanía var dóttir sr. Siggeirs Páls-
sonar (1815–1866) á Skeggjastöðum og fyrri
konu hans Önnu Ólafsdóttur (1823–1891), syst-
ur Páls Ólafssonar skálds. Stefanía hafði skáld-
gáfuna úr báðum ættum. Hún var eiginkona sr.
Sæmundar Jónssonar (1832–1896) í Hraun-
gerði. Þeim varð þriggja sona auðið. Ólafur
(1865–1936) var elstur og tók við prestsskap í
Hraungerði af föður sínum, fyrst sem aðstoð-
arprestur 1889 en svo að fullu eftir lát sr. Sæ-
mundar. Næstur var Geir (1867–1927) vígslu-
biskup á Akureyri, en yngstur var Páll
(1874–1961), sem bjó í Kaupmannahöfn og varð
skrifstofustjóri í danska fjármálaráðuneytinu.3
Frú Stefanía lifði mann sinn og var hjá sr.
Ólafi syni sínum og eiginkonu hans Sigur-
björgu Matthíasdóttur (1865–1930). Þau áttu
tvær dætur, Stefaníu (1899–1965), sem var
kennari á Siglufirði og í Reykjavík, og Fríðu
(1903–1985) ljósmyndara í Reykjavík, sem
gjarnan gekk undir gælunafninu Lilla. Þau
tóku einnig fósturdóttur, Stefaníu Gissurar-
dóttur (1909–1989) frá Byggðarhorni. Hún hét
eftir frú Stefaníu, og það átti fyrir henni að
liggja að verða prestsfrú í Hraungerði, eig-
inkona sr. Sigurðar Pálssonar (1901–1987) síð-
ar vígslubiskups. Sr. Sigurður, sonur þeirra,
núverandi Skálholtsbiskup, tók við hinu forna
Hraungerðisprestakalli, sem fengið hafði nafn-
ið Selfossprestakall, af föður sínum. Er hann
var kallaður til Skálholts 1994, höfðu fjórir ætt-
liðir sömu fjölskyldu þjónað þessu prestakalli í
134 ár.4
Skal nú vikið að vísunum. Stefaníu voru, sem
öðrum, nærtækir bragarhættir sálmanna. All-
nokkuð var að því gert, hér á árum áður, að
yrkja fyrir börn undir sálmalögum. Börnin
voru fljót að læra þau við texta, sem voru við
þeirra hæfi, og gátu síðan tekið undir sálma-
sönginn í messunum, er þau voru orðin læs á
bók. Það þótti og ekki passa að syngja sálma
hvar eða hvenær sem var. Því urðu þessar
barnavísur til, sem sums staðar hafa gengið
undir samheitinu „druslur“. Fyrirsögn þess-
arar greinar er úr einni slíkri. Hún er ort um
Ólaf son Stefaníu, ungan, undir laginu „Sá
krossfesti Kristur lifir“, sem við syngjum við
páskasálminn „Dauðinn dó, en lífið lifir“. Hann
er nr. 156 í Sálmabókinni og í útgáfunni frá
1997 fylgja honum nótur.5 Vísan er þannig í
upphaflegri mynd:
Tunglið má ei taka hann Óla
til sín upp í himnarann.
Þá fer hún mamma að gráta og góla
og gerir hann pabba sturlaðan.
Ég held því best um hátíð jóla
að halda sér í rúmstólpann.
Þessa vísu þekkjum við reyndar betur í
styttri mynd, þ.e. aðeins fyrstu fjórar línurnar,
sem þá falla vel að laginu, sem sungið er við
„Oh, my darling, Clementine“. Þannig er hún
t.d. í barnabókinni Klappa saman lófunum,
barnagælum sem Ragnheiður Gestsdóttir
valdi og myndskreytti og kom út í Reykjavík
1992.
Stytting vísunnar er trúlega þannig til kom-
in, að eitt sinn, er Ólafur Þorgrímsson (1902–
1989)6, síðar hæstaréttarlögmaður, var dreng-
ur, kom Símon Bjarnarson Dalaskáld (1844–
1916)7 að Laugarnesi hér við Reykjavík, þar
sem foreldrar Ólafs bjuggu. Ólafur bað þá Sím-
on um vísu. Símon, sem var orðinn aldraður og
hefur kannski ekki ætíð munað, hvað hann orti
og hvað aðrir, fór þá með þennan vísupart.
Fólkið í Laugarnesi var allt söngvið og hefur
verið fljótt að finna lag, sem féll að textanum.8 Í
áðurnefndri barnabók eignar Ragnheiður
Gestsdóttir, bróðurdóttir Ólafs, Símoni vísuna.
En vísan er örugglega eftir frú Stefaníu og
um Ólaf son hennar. Faðir minn, Ólafur Steph-
ensen, var ellefu árum yngri en nafni hans í
Hraungerði og feður þeirra nágrannaprestar.
Hann lærði þessa vísu ungur, var enda hugg-
aður með efni hennar, er hann óttaðist „karlinn
í tunglinu“.
Önnur slík „drusla“ er til, sem eignuð er frú
Stefaníu, og tengist einnig jólum. Hún er ort
undir sálmalaginu „Dýrleg dagsól hlær“. Þær
nótur fylgja messuupphafssálminum „Himna-
faðir hér“ nr. 218 í Sálmabókinni, útgáfunni frá
1997.9 Fæstir geta varist brosi, þegar þeir
íhuga um hvað sungið er við hið hátíðlega
sálmalag:
Heitan blóðmör, hæ,
hangiket ég fæ,
líka fá menn lummur um blessuð jólin,
kaffi og kerti rauð,
kökur, sykur, brauð.
Og svo fer hún Lilla í sunnudagakjólinn.
Lilla var gælunafn á Fríðu, dóttur sr. Ólafs,
en því hefur, í meðförum fólks, gjarnan verið
breytt í nafn þeirrar telpu, sem við er sungið
hverju sinni. Um syni sína, sem áður voru
nefndir, orti Stefanía þetta:
Óli, Palli og Geiri,
ekki á ég drengina fleiri,
er það yfrið nóg.
Allir eru þeir góðir,
ungir, hýrir og rjóðir.
Bestur er yngsti bróðirinn þó.
Í Hraungerði var lengi tökudrengur, Þor-
varður Valdemar Jónsson (1895–1937) frá
Garðbæ á Eyrarbakka, síðast sjómaður hér í
Reykjavík.10 Hann var kallaður Valli. Einhvern
tíma lá illa á honum. Þá var kveðið til hans und-
ir sama lagi og til sonanna þriggja:
Valla grey, vertu ekki að væla,
við skulum hætta að skæla,
komdu og kysstu mig.
Við skulum sitja hér saman,
syngja, það er svo gaman.
Flýttu þér, láttu ekki flengja þig.
Síðast en ekki síst eru hér svo nokkrar vísur,
sem Stefanía orti í orðastað dætra sr. Ólafs.
Það lá illa á Fríðu og Stefanía, eldri systir
hennar, reyndi að hugga hana. Hún á alltaf
fyrripartinn, en Fríða seinnipartinn af vísun-
um, og svo kemur mamma þeirra til sögu undir
lokin með spurningu til Stefaníu, sem þá svar-
ar:
S: Hættu að gráta, heillin mín,
hérna kem ég með gullin þín.
F: Ég vil ekki gull, ég vil fara út,
æ, viltu ekki lána mér hettuklút.
S: Hann boli er úti og bítur þig,
hann baulaði áðan og hræddi mig.
F: Ég hræðist ei bola, ég hræðist hann ei.
ég hef þá með mér hann Valla grey.
S: Hann Valli er kjarklaus og kraftasmár,
karlmennskulítill og ráðafár.
F: Ég held, að hann pabbi minn hjálpi mér,
ég hlusta ekki á þetta bull í þér.
S: Þú átt enga sokka, þú átt enga skó,
en úti er bleyta og forin nóg.
F: Ég stekk yfir bleytu, ég stikla yfir for,
á stekkinn kem ég með þér í vor.
S: Þú átt ekkert lamb, þú átt enga á,
en áðan gaf pabbi mér tvö lömb grá.
F: Æ, gefðu mér annað góða mín,
og gleymdu ekki að ég er systir þín.
En þá kom hún mamma í þessu inn:
M: Æ, því er hún Fríða með grátna kinn?
S: Hana langar svo út að leika sér,
hana langar að tína blóm með mér.
Svo fékk hún Fríða sokka og skó,
svo varð hún kát og skellihló.
Svo leiddust þær út og léku sér,
leituðu að blómum og tíndu ber.
Ekkert af þessu er dýrt kveðið, en allt svo
leikandi létt og skemmtilegt, þannig að það
hrífur barnshugann og reyndar hvern ljóðelsk-
an mann. Ég lýk þessari frásögn með því að
vitna til erindaflokks, sem sr. Garðar Svavars-
son fyrrum sóknarprestur í Laugarnesi flutti á
kvöldvökum í Ríkisútvarpinu 1981 um sumar-
dvöl á bernskuárum sínum í Hraungerði. Hann
segir þar um frú Stefaníu: „Hún var leikandi
greind og hagmælt vel. Gjörði bjartar vísur, –
jafnvel um daglega viðburði heima á bænum –
og líktist þar sannarlega stundum Páli skáldi
Ólafssyni, móðurbróður sínum.“11
Neðanmálsgreinar:
1Jón Samsonarson 1981: „Vaggvisor“, 427–428. Kultur-
hist. Leks. for nord. Middelalder 19.
2 Þjóðólfur 20. árg. Selfossi 1981, 21. tbl. s.7 og 41. Ragn-
heiður Gestsdóttir 1992: Klappa saman lófunum, barna-
gælur.
3 Gunnlaugur Haraldsson 2002. Guðfræðingatal 1847–
2002 II, s. 844–845.
4 Gunnlaugur Haraldsson 2002. Guðfræðingatal 1847–
2002 II, s. 844, 690, 775. Sjá einnig bréfasafn í vörslu Sig-
urðar Sigurðarsonar Skálholtsbiskups.
5 Sálmabók íslensku kirkjunnar, Skálholtsútgáfan,
Reykjavík 1997.
6 Dögg Pálsdóttir o. fl. 1993. Lögfræðingatal 1763–1992,
s. 140.
7 Páll Eggert Ólason 1951. Íslenzkar æviskrár IV, s. 282,
8 Frásögn hjónanna Sigrúnar Guðjónsdóttur og Gests
Þorgrímssonar frá Laugarnesi í samtali við höfund.
9 Sálmabók íslenzku kirkjunnar, Skálholtsútgáfan,
Reykjavík 1997, nr. 218.
10 Þ.Í. Prestsþjónustubækur og sóknarmannatöl, IV. Ár-
nesprófastsdæmi. Hraungerði, sóknarmannatal 1892–
1907. Víkingslækjarætt.
11 Garðar Svavarsson 1981. Handrit í eigu Jónu Garð-
arsdóttur hjúkrunarfræðings, Reykjavík.
Höfundur er fyrrverandi dómkirkjuprestur.
Í þessari grein er fjallað
um barnagælur eftir frú
Stefaníu Siggeirsdóttur
í Hraungerði en að
dómi höfundar eru
þær of áhugavert efni til
að falla í gleymsku.
Fríða Ólafsdóttir
ljósmyndari, „Lilla“.
Páll Sæmundsson
skrifstofustjóri,
„Palli“.
Frú Stefanía
Siggeirsdóttir
í Hraungerði.
Stefanía Ólafsdóttir
kennari.
Sr. Ólafur Sæmunds-
son prestur í
Hraungerði, „Óli“.
Sr. Sæmundur Jóns-
son í Hraungerði,
maður Stefaníu.
Hraungerði í Flóa snemma á síðustu öld.
Sr. Geir Sæmunds-
son vígslubiskup,
„Geiri“.
TUNGLIÐ MÁ EI TAKA HANN ÓLA
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 13. DESEMBER 2003 7
E F T I R Þ Ó R I S T E P H E N S E N