Lesbók Morgunblaðsins - 17.01.2004, Side 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 17. JANÚAR 2004 7
B
reski rithöfundurinn John
Mortimer er Íslendingum að
góðu kunnur en hann er höf-
undur Rumpole-bókanna vin-
sælu. Leikarinn Leo heitinn
McKern gerði lagarefnum
Rumpole ógleymanleg skil í
samnefndum sjónvarpsþáttum
sem sýndir voru hérlendis um árið. Mortimer
er ýmislegt til lista lagt. Hann er rithöfundur,
lögfræðingur, leikskáld, blaðamaður, handrits-
smiður og hefur fengist við allt milli himins og
jarðar þess á milli. Nýjasta bókin eftir Morti-
mer nefnist Where There’s A Will og er eins
konar heilræðasafn handa síðari kynslóðum.
Eitt fyrsta heilræðið sem Mortimer veitir les-
andanum er að taka ekki of mikið mark á ráð-
leggingum. Where There’s A Will er ekki síðri
skemmtun en bestu bækurnar eftir Jerome K.
Jerome og P.G. Wodehouse og hver sá sem
bókina les eignast nýjan vin. Blaðamaður átti
samtal við Mortimer þar sem spennusögur bar
fyrst á góma.
Eru svokallaðir gáfumenn ekki gjarnir á að
gera lítið úr spennusögum?
Já, menn líta enn niður á spennusögur. Þær
eru vegnar og léttvægar fundnar enda hefð
fyrir því.
Af hverju er Rumpole svona feikivinsæll?
Rumpole er sá sem er alltaf til vandræða á
skrifstofunni. Ég held að marga langi til að
vera eins og hann.
Hvaða breskum rithöfundum ertu hrifnast-
ur af?
William Shakespeare, Charles Dickens,
Evelyn Waugh og Graham Greene. Sherlock
Holmes var alltaf í miklu uppáhaldi. Mér
finnst Anthony Trollope ansi góður. Faðir
minn kenndi mér að meta Shakespeare.
Þú hefur stundað lögfræðistörf meðfram rit-
störfum og komið heilum herskara af börnum
til manns í framhjáhlaupi. Hvernig ferðu eig-
inlega að þessu?
Ég vakna eldsnemma á morgnana. Auðvitað
var þetta stundum erfitt en sem betur fer er ég
eldsnöggur að skrifa.
Er þetta þá eintómt plat þegar menn þykj-
ast vera rithöfundar í fullu starfi? Eru þeir
ekki bara að horfa á sjónvarpið á daginn og
lesa teiknimyndasögurnar í blöðunum?
Rithöfundar þurfa helst að komast út fyrir
hússins dyr og öðlast einhverja lífsreynslu.
Þeim hættir til að einangrast og hafa gott af
því að fást við störf þar sem þeir kynnast
skuggahliðum mannlífsins. Lögfræðistörfin
komu mér vel sem rithöfundi.
Þú hefur fengist við að semja skáldsögur,
kvikmyndahandrit, sjónvarpsmyndir og leikrit
og allt virðist þetta liggja jafnvel fyrir þér. Er
ekki erfitt að söðla svona um?
Mergur málsins er að segja góða sögu. Þá
skiptir miðillinn sjálfur minna máli. Vandinn
er að finna gott efni. Hitt sér um sig sjálft.
Þú hefur tekið urmul af frábærum viðtölum.
Hver var erfiðasti viðmælandinn?
Það var alltaf skemmtilegast að taka viðtal
við þá sem voru kolbrjálaðir. Þegar ég tók við-
tal við ónefndan stjórnmálamann spurði ég
hann hvort honum leiddist ekki að sitja á þingi
og hlusta á allar ræðurnar. Hann sagðist hvísla
blótsyrði að biskupinum sem sat við hliðina á
honum og reyna að hneyksla hann upp úr
skónum til að stytta sér stundir. Maður fær
alltaf gott viðtal þegar maður talar við svona
karla.
Laurence Olivier lék föður þinn í sjónvarps-
mynd sem gerð var eftir leikritinu Í minningu
föður míns (A Voyage Round My Father) eftir
þig.
Laurence Olivier var alveg eins og faðir
minn. Ég hefði ekki viljað fá neinn annan í
hlutverkið. Hann var uppstökkur eins og
pabbi. Alec Guiness lék hlutverkið áður en var
of mildur á manninn. Ég sagði honum að hann
þyrfti að vera skapstyggari en hann sagðist
vera nýbúinn að brjóta skurnina af harðsoðnu
eggi svo að hann var búinn að fá útrás fyrir
skapstyggðina þann daginn. Ég get ekki hugs-
að mér neinn annan en Laurence Olivier í hlut-
verki föður míns. Þeir tóku upp andlátið í sama
herbergi og faðir minn lést. Mér þótti und-
arlegt að horfa upp á þetta aftur tíu árum síð-
ar. Ég er stoltastur af Í minningu föður míns
(A Voyage Round My Father) af öllu því sem
ég hef skrifað.
Hefurðu nokkurn tímann lent í því að geta
ekki skrifað?
Nei, ég er mjög snöggur. Vandinn er sá að fá
góða hugmynd.
Þú samdir handrit að sjónvarpsþáttunum
Ættaróðalinu (Brideshead Revisited) eftir
samnefndri skáldsögu eftir Evelyn Waugh en
þið eruð býsna ólíkir menn.
Evelyn Waugh var íhaldsmaður en ég hef
alltaf verið hálfgerður kommi. Hann var trúað-
ur en ég trúlaus. Samt fannst mér gaman að
eiga við skáldsöguna. Waugh er svo fyndinn og
mér fannst lýsingarnar á trúarlífi sögupersón-
unnar fallegar. John Gielgud var líka skrambi
góður í hlutverki föður Charles Riders.
Þú snerir líka sögunni The Ebony Tower
eftir John Fowles í sjónvarpshandrit. Mér
fannst myndin eiginlega betri en sagan.
Stelpurnar sem léku í myndinni voru svo
sætar. Ég hitti Fowles skömmu síðar og hann
hefði ekkert út á sjónvarpsmyndina að setja.
Þú hefur leikið á sviði og komst fram í sjón-
varpsþáttunum Ævi og ástir kvendjöfuls (The
Life and Loves of a She-Devil).
Mér bregður fyrir á nokkrum stöðum. Ég
var að stæla Alfred Hitchcock. Mig langaði
alltaf til að verða leikari þegar ég var strákur.
Einhverjir kátir karlar hafa kallað þig
kampavínssósíalista og virðast hafa fengið þá
flugu í höfuðið að menn þurfi að vera kola-
námumenn af langfeðgatali til að vera vinstri-
menn.
Maður þarf ekki að vera fátækur sjálfur til
að hafa samúð með þeim sem minna mega sín.
Ég vil að allir fái kampavín. Heilbrigðisráðu-
neytið ætti að úthluta öllum nóg af kampavíni
ókeypis.
Bretland hefur breyst svo mikið frá því að
þú varst barn. Vildirðu heldur fæðast á morg-
un ef þú fengir einhverju þar um ráðið?
Ég vildi heldur hafa lifað þá tíma sem ég hef
lifað. Auðvitað er margt skemmtilegt við nú-
tímann. Það var svo gaman í stríðinu. Aldrei
hvarflaði að okkur að við gætum tapað því þótt
eftir á að hyggja hafi munað mjóu. Ég á góðar
minningar úr seinni heimsstyrjöldinni þótt það
hafi verið að kasta sprengjum á okkur. Allir
stóðu saman.
Þú hefur skrifað mikið um ellina, um föður
þinn á efri árum og síðan sjálfan þig.
Menn vitkast ekki endilega með aldrinum
heldur verða enn vitlausari. Gamlingjar og öld-
ungar hafa gert einhver verstu axarsköft sem
sögur fara af.
Sumir verða íhaldssamari með aldrinum.
Áttu ekki á hættu að verða heiðursfélagi í
Íhaldsflokknum þegar fram líða stundir?
Nei, þvert á móti. Maður verður bara meiri
byltingarseggur og róttækari með árunum.
Erum við að verða litlausari og leiðinlegri
með hverri kynslóð?
Þetta er tölvunum að kenna. Menn sitja
bara heima hjá sér og skiptast á skeytum í stað
þess að hittast. Auðvitað njóta sumir góðs af
þessum skrapatólum en málfari hefur hrakað
og menn verða meiri dauðyfli fyrir bragðið.
Hvað finnst þér um Tony Blair og félaga?
Eða húsbónda hans Bush?
Ríkisstjórnin sem Tony Blair veitir forystu
er af sama sauðahúsi og Clinton og hans menn
í Bandaríkjunum, vinstrimenn sem gerast
hægrimenn til að vinna kosningar. Þessi rík-
isstjórn hefur valdið miklum vonbrigðum.
Blair er eiginlega alveg eins og Margrét
Thatcher. Mér finnst Bush vera fæðingarhálf-
viti, fáráðlingur. Menn vitna stöðugt í bullið í
honum sér til skemmtunar hér á Bretlandi.
Bandaríkin fara mikinn um þessar mundir en
þeir verða sífellt óvinsælli. Bandaríkjamenn
vilja að allir elski þá út af lífinu. Þegar raunin
er önnur bregðast þeir hinir verstu við.
Bretland virðist líkjast Bandaríkjunum æ
meir?
Já, hættan er sú að Bretland verði líkara og
líkara Bandaríkjunum. En menn eru enn þá
breskir í húð og hár upp til sveita.
Þú ert hrifinn af kviðdómum. Mér finnst
þeir hins vegar minna á alþýðudómstóla í
Kína.
Sem lögfræðingi fannst mér betra að eiga
við almenning frekar en sérfræðinga. Venju-
legt fólk hefur oftast meiri glóru í kollinum en
lögfræðingar.
Hvað finnst þér um réttarhöld í beinni út-
sendingu eins og tíðkast í Bandaríkjunum?
Þetta er skrípaleikur. Réttarhöld eru eig-
inlega eins konar leikrit og þetta gerir illt
verra. Það mætti alveg eins rétta yfir mönnum
á íþróttaleikvangi.
Hvað finnst þér um refsingar á Bretlandi nú
á dögum?
Mér finnst dómskerfið hræðilegt að þessu
leyti. Fangelsin eru smekkfull og við geymum
fleiri menn bak við lás og slá en nokkur önnur
þjóð í Evrópu.
Ef þú værir ákærður fyrir morð vildirðu
heldur láta rétta yfir þér á Bretlandi eða í
Bandaríkjunum?
Heldur vildi ég vera dreginn fyrir rétt á
Bretlandi. Þá gæti ég fengið vini mína til að
verja mig.
Hvað finnst þér um dauðarefsingu?
Mér finnst dauðarefsingin helber villi-
mennska. Þegar síðasta aftakan fór fram á
Bretlandi á sínum tíma faldi ég dagblöðin fyrir
börnunum því að ég skammaðist mín svo mikið
fyrir þetta.
Þinni kynslóð var keppikefli að kollvarpa
stéttaskiptingunni á Bretlandi. Tókst það?
Þetta er góð spurning. Okkur tókst það að
hluta til. Enginn tekur minnsta mark á orðum
og titlum lengur. En nú snýst stéttaskipting
um peninga, sérstaklega í Bandaríkjunum.
Þú gerir mikið grín að pólitískum rétttrún-
aði í bókinni Where There’s a Will.
Nokkuð hefur dregið úr slíku undanfarið.
Mér hefur ávallt fundist að menn eigi að fá að
segja það sem þeim býr í brjósti.
Þú minnist á að einhver ráðherranefnan vilji
ólmur leggja niður klassíska menntun.
Hugsunin er sú að menntun sé eins konar
starfsþjálfun. En menntun á að auðga andann
og gæða lífið en ekki vera eins konar upphitun
fyrir atvinnumarkaðinn.
Bretar eru gjarnir á að standa í biðröð og
ætluðu aldrei að tíma að afnema skömmtunar-
seðla og slíkt eftir stríð. Eruð þið ekki dálitlir
Stalínistar inn við beinið?
Ég stend aldrei í biðröð en það er mjög
sterkt í Bretum að vilja vera eins og nágrann-
inn. Bandarískir uppreisnarseggir eru allir
eins en breskir sérvitringar eru hins vegar
hverjum öðrum ólíkari af einhverjum ástæð-
um.
Þú segist vera trúlaus en er ekki sósíalismi
bara veraldlegur kristindómur?
Já, fyrsta sósíalistarnir voru með mjög svip-
aðar hugmyndir og Kristur. Við eigum margt
sameiginlegt.
Eftir því sem árin líða og dagarnir styttast
heldurðu að þú freistist til að taka trú, svona til
vonar og vara?
Ég dáðist af föður mínum fyrir að láta ekki
frelsast þegar hann missti sjónina. Hann sat
við sinn keip jafnvel þegar hann lá fyrir dauð-
anum. Hann kvaddi þennan heim með orðun-
um: „Ég er alltaf reiður þegar ég er að deyja.“
Nei, ég tek ekki trú á gamals aldri. Ég leita
frekar huggunar í Shakespeare en Biblíunni.
Mörg gömul nýlenduveldi í Evrópu finna nú
til smæðar sinnar og virðast haldin tröllauk-
inni minnimáttarkennd. Þetta á hins vegar
ekki við Breta. Þið kærið ykkur kollótta þótt
heimsveldið sé farið veg allrar veraldar.
Enginn man lengur eftir breska heimsveld-
inu. Ég held samt að við höfum látið margt
gott af okkur leiða á ýmsum stöðum og sum
lönd væru betur komin undir breska heims-
veldinu nú á dögum.
Eins og Bandaríkin?
Ja, frekar mörg lönd í Afríku. Ég held til að
mynda að Indverjar hafi notið góðs af Bretum
að mörgu leyti.
Þú hefur lifað tvöföldu lífi ef svo mætti að
orði komast. Ef þú þyrftir nú að velja milli
þess að vera lögfræðingur eða rithöfundur?
Heldur vildi ég vera rithöfundur. Ég var
frekar rithöfundur sem praktíseraði en lög-
fræðingur sem samdi skáldsögur í frístundum.
En lögfræðibröltið reyndist mér mikill sagna-
brunnur.
Hvernig á maður að bera sig að því að eld-
ast?
Maður á ekki að hugsa of mikið um að verða
gamall; svo umgengst ég mikið rokkstjörnur.
KAMPAVÍN HANDA ÖLLUM
Höfundur er kvikmyndagerðarmaður.
E F T I R J Ó N A S K N Ú T S S O N
„Rumpole er sá sem er alltaf til vandræða á skrifstof-
unni. Ég held að marga langi til að vera eins og
hann,“ segir breski rithöfundurinn John Mortimer um
frægustu sögupersónu sína en í þessu viðtali ræðir
hann einnig pólitík, stríðsárin og menningarástandið.
„Menn vitkast ekki endilega með aldrinum heldur verða enn vitlausari,“ segir John Mortimer.