Lesbók Morgunblaðsins - 17.01.2004, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 17.01.2004, Blaðsíða 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 17. JANÚAR 2004 Í tímaritinu Skírni 1970 gagnrýndi Sveinn Skorri Höskuldsson prófessor Helgu Kress fyrir að eigna sér verk annarra. Málsatvik voru þau, að í riti um Guðmund Kamban hafði Helga bent á, að skáldsagan Ragnar Finnsson eftir Kamban væri hliðstæð ritinu My Life in Prison eftir Donald Lowrie. Sveinn Skorri sagði, að þessi fróðleikur væri skráður í aðfangaskrá Landsbókasafnsins, en Helga hefði ekki getið þess og látið eins og þetta væri niðurstaða sjálfstæðrar rannsókn- ar. Helga svaraði að bragði og kvaðst ekki hafa lesið aðfangaskrána, heldur komist að þessu með eigin lestri. Sjálfsagt er að taka hana trú- anlega um það, þótt vitaskuld hafi hún hvorki getað sannað það né afsannað. Ég tók líka eftir því, þegar ég las grein Helgu í bókinni Sjö er- indi um Halldór Laxness frá 1973, að þar bregður fyrir keimlíku orðalagi og í verkum Peters Hallbergs um Laxness, án þess að til hans væri vísað í greininni. Það átti auðvitað ekki að koma á óvart. Tveir fræðimenn, sem tala um sama efnið, nota oft svipað orðalag og komast oft að svipaðri niðurstöðu, og þarf það ekki að vera tiltökumál. Ég ætla Helgu Kress ekki það, sem hún ætl- ar mér í grein í Lesbókinni 27. desember síð- ast liðinn, að ég hafi í bók minni, Halldóri, fyrsta bindi ævisögu Halldórs Kiljans Lax- ness, farið ránshendi um rit þeirra Laxness og Peters Hallbergs. Af því tilefni hef ég bent á það opinberlega, að ég geri skýra grein fyrir því í eftirmála bókar minnar, að ég styðjist sérstaklega við rit þeirra Laxness og Hall- bergs. Ég hef líka fjölda tilvísana í þessi rit, 127 í æskuminningabækur Laxness og 84 í bækur Hallbergs um Laxness. Ég hef lagt áherslu á það, að bók mín er ekki ritgerð í bók- menntafræði, heldur ævisaga. Dylgjur Helgu um ritstuld eiga því ekki við nein rök að styðj- ast. Óneitanlega hefði hins vegar verið viðkunn- anlegra, að Helga Kress hefði sagt hreinskiln- islega frá því, að hún ætti beinna hagsmuna að gæta í málinu. Hún hefur um nokkurt skeið verið að vinna að riti um Halldór Kiljan Lax- ness og telur eflaust, að ég taki í bók minni að einhverju leyti af henni umræðuefnið. Helga er líka einn tveggja manna, sem hafa sérstakt leyfi fjölskyldu Laxness til að skoða bréfasafn hans. Hún er því í raun ekki sjálfstæður fræði- maður, óháður fjölskyldu Laxness (eins og ég er), og kann það að skýra ýmislegt í gagnrýni hennar. Furðuleg ónákvæmni Í gagnrýni sinni hér í Lesbókinni gerðist Helga sek um furðulega ónákvæmni. Hún sagði til dæmis um mig: „Þar sem hann t.a.m. fjallar um kvikmyndahandritin endursegir hann svo til orðrétt kafla Hallbergs í Vefarinn mikli I, án þess að annað komi fram en hann hafi farið í frumheimildir og rannsóknin sé eft- ir hann sjálfan.“ Þetta er alrangt. Helga rugl- ast í fyrsta lagi á bókum Hallbergs. Hann sagði frá kvikmyndahandritum Laxness í fyrra bindi Húss skáldsins, en ekki Vefarans mikla. Og ég vísaði einmitt í þetta rit Hall- bergs og aðeins í það, þegar ég sagði efnislega frá kvikmyndahandritum Laxness, svo að aug- ljóst var, að ég fór eftir riti Hallbergs. Þetta sést svart á hvítu á 416. og 594. blaðsíðum bók- ar minnar. Helga nefndi tvö dæmi úr einum kafla bókar minnar um það, hvernig ég tæki texta Laxness úr Í túninu heima og breytti honum eftir þörf- um verksins. Þessi kafli minn heitir „Upp í sveit“ og er þrjár og hálf blaðsíða, frá 18. og að 21. blaðsíðu. Helga sagði, að ég vísaði ekki til texta Laxness. En þetta er rangt. Í þessum kafla eru tvær tilvísanir til bókarinnar Í túninu heima. Ég taldi ekki þörf á því að hafa tilvísun á eftir hverri málsgrein, því að það blasti við, að ég styddist við þessa æskuminningabók skáldsins. Helga hélt því síðan fram, að ég hefði ber- sýnilega ekki lesið smásögu Laxness, „Júdit Lvoff“. Rök hennar voru, að ég endurtæki villu frá Hallberg um hana: Við Hallberg segðum, að sveitamaður í sögunni væri af Rangárvöll- um, en hann væri úr Borgarfirði. En í fyrstu útgáfu smásögunnar var sveitamaðurinn af Rangárvöllum, þótt Laxness breytti því í síðari útgáfum. Ég var ef til vill sekur um einhverja ósamkvæmni með því að segja frá fyrstu út- gáfunni, en ekki hinni síðustu frá hendi skálds- ins. En ég var ekki sekur um villu. Það er furðulegt, að Helga skuli ekki hafa vitað af fyrstu gerð smásögunnar. Því er síðan við að bæta, að ég ræddi í nokkrum smáatriðum í bók minni um söguna og leitaði fyrirmynda að henni. Lesendur mínir vita, hversu fráleitur þessi sleggjudómur Helgu er. Í grein sinni í Lesbókinni gekk Helga enn lengra. Hún hélt því fram, að í verki mínu bætti ég engu við æskuminningabækur Hall- dórs Kiljans Laxness og hin miklu rit Peters Hallbergs um hann. Þetta er alrangt, eins og allir þeir, sem lesa bók mína, vita vel. Hér hirði ég ekki frekar um að rökstyðja það. En Helga nefndi í rauninni aðeins eina smávægilega villu í bók minni, að kona í einni sögu Laxness hafi ekki verið íslensk-bandarísk, heldur íslensk- kanadísk. En auðvitað eru fleiri villur í bók- inni. Til dæmis hefur fallið niður tilvísun í Inn- ansveitarkroniku á einum stað og smávægileg ónákvæmni slæðst inn í lýsingu á Mosfellsdal. Mér telst til, að bent hafi verið á um 7–10 smá- villur í bókinni, þótt auðvitað hljóti þær að vera fleiri. En þetta er ekki mikið í 620 blað- síðna bók. Í grein Helgu í Lesbók Morgun- blaðsins voru að minnsta kosti fimm villur, sumar meinlegar, eins og hér hefur komið fram. Grein hennar var um 2.000 orð. Bók mín var um 266.000 orð. Væru hlutfallslega jafn- margar villur hjá mér og henni, þá ættu þær að vera tæplega 700. Mér finnst ekki slæm frammistaða að gera um það bil hundrað sinn- um færri villur hlutfallslega en Helga Kress. Merkilegt umræðuefni Hin harða árás Helgu Kress og nokkurra annarra úr hinum þrönga hóp vinstri sinnaðra bókmenntafræðinga á bók mína leiðir athygl- ina frá aðalatriði málsins: Hvernig á að skrifa ævisögu? Hvað er ólíkt með henni og til dæmis doktorsritgerð? Ég stóð frammi fyrir þeim vanda í bók minni að skrifa um mann, sem hafði gefið út fimm minningabækur og vikið að atvikum úr ævi sinni í mörgum greinum. Ég átti þriggja kosta völ. Einn var auðvitað að sneiða fram hjá þessum heimildum, þar eð þær væru til í bókum hans. Ég hafnaði þeim kosti, því að ég var að skrifa fyrir fólk, sem átti hugs- anlega ekki þessar bækur, en vildi fræðast um Halldór Kiljan Laxness. Annar kostur var að klippa minningabrot Halldórs niður og setja gæsalappir utan um þau. Ég hafnaði þeim kosti af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi taldi ég rétt að sannreyna frásögn hans, sem var auð- vitað ekki alltaf nákvæm, enda setti hann minningabækur sínar saman á gamals aldri og varaði sjálfur við því að taka þær of bókstaf- lega. Í öðru lagi er frásögn, sem felst í mörgum beinum tilvitnunum (um ópersónuleg atriði eins og aðstæður, atvik og aðra einstaklinga en Halldór), ekki eins læsileg og unnin frásögn, þar sem lýsingar eru felldar inn í textann. Ég valdi þess vegna þriðja kostinn. Hann var að hafa textann samfelldan og allan í svip- uðum stíl, eins liprum, alþýðlegum og hröðum og mér var framast unnt. Frá þessu brá ég að- eins, þegar um var að ræða samtöl eða per- sónulegar skoðanir Laxness og annarra. Þá vitnaði ég beint í orð þeirra, hafði gæsalappir utan um og tilvísun í neðanmálsgreinar. Aðrar tilvísanir hafði ég eftir þörfum og taldi þær nógu margar, en samtals eru þær rúmlega 1.600 í bók minni. Með aðferð minni, sem aðrir ævisöguritarar hafa líka notað, varð bókin miklu læsilegri en ella. Ég fór hins vegar varlega í að skálda í eyður eða fullyrða eitthvað umfram það, sem heim- ildir leyfa. Í grein sinni hneykslaðist Helga Kress að vísu á því, að ég lýsti gönguferð Hall- dórs og unnustu hans upp á Esju sumarið 1920 og hagnýtti mér til þess skrif Egils Stardals um gönguleiðir upp á Esju og lýsingu Laxness sjálfs á einni gönguferð Arnalds og Sölku Völku (en um hvort tveggja gat ég samvisku- samlega í neðanmálsgreinum). En þetta gerði ég með þeim rökum, að líklega hefðu hjóna- leysin gengið á Esjuna. Það var meinlaus og hógvær lýsing, ætluð til þess að bragðbæta textann. Þetta hefði vissulega ekki átt við í doktorsritgerð, en gera verður mun á henni og ævisögu. Þegar ég skrifaði doktorsritgerð mína í Oxford-háskóla, varaði umsjónarkenn- ari minn mig sérstaklega við stílbrögðum. Ég hafði til dæmis sagt þar á einum stað í upp- kasti mínu, að markaðskerfi án einkaeignar- réttar væri eins og glottið á Cheshire-kett- inum fræga í sögu Lewis Carrolls. Þetta vildi umsjónarkennarinn strika út. Það átti að dómi hans ekki heima í doktorsritgerð. En slík lík- ing getur átt fullan rétt á sér í ævisögu handa almenningi, þar sem reynt er að lífga upp á frásögnina. Í bókinni Halldóri var beinlínis markmið mitt að skrifa sögu í svipuðum stíl og Íslend- ingasögur, þar sem ekki er reynt að fara inn í sál söguhetjunnar, heldur fá lesendur vísbend- ingar um sálarlíf hennar með svipbrigðum og framferði. Ég tók mér með öðrum orðum stöðu við hlið Halldórs og rakti atvik úr ævi hans eins hófsamlega og ég gat. Fyrirmyndir mínar voru Hemingway og höfundur Brennu-Njáls sögu, ekki Dostóévskí eða Joyce. Nú kunna sumir að halda því fram, að við þessa aðferð dragi úr gildi bókarinnar, því að ég bjóði les- endum ekki upp á eigin skilning á Halldóri Kiljan Laxness, heldur styðjist við lýsingar hans á ævi sinni og greiningar Hallbergs á bókmenntaverkum hans. En þessir gagnrýn- endur átta sig ekki á því, að ég vildi einmitt láta lesendum eftir að fella dóma um Halldór og verk hans. Ég vildi ekki troða neinni nið- urstöðu um Halldór niður í kok lesenda. Ég skrifaði þessa bók hvorki sem ákærandi né dómari (og ekki heldur sem verjandi), heldur miklu fremur sem sögumaður eða jafnvel vitni. Ég leit á það sem verkefni mitt að segja sögu, en ekki fella dóma. Þessa sögu vildi ég segja eins vel og ég kynni. Framlag mitt var fólgið í því að safna fróðleiksbrotum um skáldið, ævi hans og verk, og fella þau saman í eina heild, svo að ekki sæjust á samskeyti. Eflaust má deila um, hvernig hafi til tekist, en aðferð mína verður að meta á eigin forsendum. En því mið- ur er augljóst, að margir þeir, sem gagnrýnt hafa bók mína opinberlega, hafa ekki lesið hana, og sumir þeirra hika raunar ekki við að segja það. Vísindagrein og list Sagnfræðin er ekki aðeins vísindagrein, heldur líka list. Sagnfræðingar þurfa að kunna að meta heimildir og nota, en líka að segja frá. Stundum virðast verða árekstrar á milli sagn- fræðinnar og sagnlistarinnar, en góður sagn- fræðingur er einmitt sá, sem kann að leysa úr slíkum árekstrum. Markmið hans hlýtur að vera að standast strangar kröfur um vísinda- legt gildi, en skrifa um leið á þann veg, að al- menningur njóti. Ég tel, að þeir Sigurður Nor- dal og Þór Whitehead séu dæmi um menn, sem hafi tekist þetta. Sjálfur reyndi ég í bók minni um Halldór Kiljan Laxness að gera hið sama. Ég kom þar fram sem rithöfundur ekki síður en fræðimaður og greip til ýmissa bragða rit- höfundarins. Ég vildi ekki aðeins skrifa um bókmenntir, heldur líka skrifa bókmenntir. Ég lagði mikið á mig til að skrifa bók, sem væri í senn fróðleg og skemmtileg og kveikti áhuga á Halldóri Kiljan Laxness. Ég grúskaði til dæmis í ýmsum bréfasöfnum í Þjóðarbók- hlöðunni og skjölum í Þjóðskjalasafninu og ýmsum héraðsskjalasöfnum hér heima og vann í söfnum í Bandaríkjunum, Danmörku, Þýskalandi og Svíþjóð. Ég fór líka til margra þeirra staða, sem Halldór dvaldist á, svo sem Taormina á Sikiley, Rómar, Moskvu, Los Ang- eles, Winnipeg, Berlínar, Leipzig, Kaup- mannahafnar, Stokkhólms og klaustursins í Clervaux í Lúxemborg. Það getur því enginn sakað mig um metnaðarleysi í ritun þessarar bókar. Þótt mér hafi tekist með aðstoð margra ágætra yfirlesara að fækka villum í þessari bók, eru síðan einhverjar eftir. Ég er sammála ungverska Nóbelsverðlaunahafanum von Bek- esy um það, að eitt ráð okkar fræðimanna gegn villum er að eiga vini, sem fáanlegir eru til að lesa vandlega yfir rit okkar. Annað ráð er jafnvel enn betra. Það er að eiga óvini, sem reiðubúnir eru til að eyða tíma og orku í að leita uppi villur, stórar og smáar, og gera það ókeypis. Sá galli er þó á þessu ráði, að mik- ilhæfir óvinir eru ekki á hverju strái. Og hætt- an er sú, að þessir óvinir breytist í vini okkar og áhuginn dofni. Allir góðir fræðimenn þurfa góða óvini, eins og ég hef fengið að reyna síð- ustu vikur. SAGNFRÆÐI OG SAGNLIST Dylgjur Helgu Kress um ritstuld eiga ekki við nein rök að styðjast, segir í þessari grein þar sem deilan um fyrsta bindi ævisögu Halldórs Laxness heldur áfram en höfundurinn telur að það hefði óneitan- lega verið viðkunnanlegra að Helga Kress hefði sagt hreinskilnislega frá því að hún ætti beinna hagsmuna að gæta í málinu þegar hún skrifaði gagnrýni sína hér í Lesbók fyrir skömmu. Höfundur er prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og ævisöguritari. E F T I R H A N N E S H Ó L M S T E I N G I S S U R A R S O N Í grein Helgu í Lesbók Morgunblaðsins voru að minnsta kosti fimm villur, sumar mein- legar, eins og hér hefur komið fram. Grein hennar var um 2.000 orð. Bók mín var um 266.000 orð. Væru hlutfallslega jafnmargar villur hjá mér og henni, þá ættu þær að vera tæplega 700. Mér finnst ekki slæm frammi- staða að gera um það bil hundrað sinnum færri villur hlutfallslega en Helga Kress. Halldór Kiljan Laxness Helga Kress Peter Hallberg Ef þú vilt koma í veg fyrir að vera gagnrýndur, þá skaltu ekkert gera, ekkert segja og ekkert vera. Jóhannes Sv. Kjarval.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.