Lesbók Morgunblaðsins

Ulloq
Ataaseq assigiiaat ilaat
Saqqummersitaq pingaarneq:

Lesbók Morgunblaðsins - 24.01.2004, Qupperneq 4

Lesbók Morgunblaðsins - 24.01.2004, Qupperneq 4
4 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 24. JANÚAR 2004 E f ég ætti að geta mér til um, hvaða höfundur verður lesinn á Íslandi eftir 1000 ár, þá mundi ég nefna Þórberg,“ segir Tómas Guðmundsson einhverju sinni í spjalli við Matthías Johannes- sen.1 Og þetta mun ekki hafa verið í fyrsta skipti sem þúsund ár voru nefnd í tengslum við Þórberg. „Þessi bók verður lesin eftir 1000 ár,“ hefur Þórberg- ur eftir kunningja sínum, Snæbirni Jónssyni, árið 1923, en sá hafði komist í einhvers konar frumdrög að Unuhúsbálkinum.2 Ekki var þetta heldur í síðasta sinn sem ár- þúsund var notað sem mælikvarði á verk Þór- bergs, fyrir réttum fjórtán árum þegar verið var að afhjúpa minningarskjöld um Þórberg Þórðarson á framhlið Hringbrautar 45 komst sá sem hér talar svo að orði, eftir að hafa rifjað upp að það var aðeins eitt annað hús í höf- uðstaðnum sem hafði verðskuldað að fá á sig minningarskjöld um skáld, nefnilega Dillons- hús sem Jónas Hallgrímsson hafði búið í um skeið, en síðar verið flutt upp að Árbæ: „Ég á ekki von á því að Hringbraut 45 verði nokkurn tímann flutt upp að Árbæ, en ef ég ætti að slá á það hvort endast muni lengur þau verk sem Þórbergur reit í þessu húsi eða húsið sjálft – myndi ég ekki treysta mér til þess nema eftir vandlega úttekt sérfræðinga á endingar- mætti steinsteypunnar. En hvað bækur Þór- bergs varðar þá telja sumir að þær muni verða lesnar um langa hríð og ekki er ólíklegt að sú bók sem hafði beinlínis þetta hús að sögusviði, Sálmurinn um blómið, muni enn vera höfð um hönd eftir þúsund ár – ef almættið lofar og tungan heldur.“ Halldór Laxness er ögn varfærnari í umsögn um annað verk Þórbergs, ævisögu séra Árna, sem hann segir að eigi „áreiðanlega eftir að verða heimsbók – kanski eftir 100 ár, ef prent- list verður þá ekki gleymd“.3 *** Þó svo við hljótum að bíða enn um stund áður en ljóst verður hvort spádómarnir rætast væri ekki úr vegi að velta fyrir sér stöðu Þórbergs nú þegar tæp þrjátíu ár eru liðin síðan hann hvarf okkur sjónum. Þrjátíu ár, það er heil kynslóð komin til sög- unnar og önnur væntanlega horfin af sviðinu. Þrjátíu ár eru langur tími – á okkar tímum. Því tíminn líður langt því frá alltaf jafn hratt, hraðinn eykst með hverju ári, þ.e.a.s. breyting- arnar verða æ örari, tíminn er ekki bara af- stæður fyrir Guði sem leggur einn dag að jöfnu við þúsund ár og öfugt. Tíminn er afstæður að því leyti einnig að þrjátíu ár á okkar dögum rúma viðlíka breytingar og þúsund ár áður fyrr. Menn hafa ekki fyrr spáð einhverri firrunni en hún tekur sig til og rætist. Gott dæmi um það má finna í Kompaníi við allífið þegar Þór- bergur setur sér að hugsa lengst inn í framtíð- ina og fimbulfambar um: „Að skrifa bréf á skrifborðinu mínu og geta leyst það upp með hugsuninni og sent það kunningja mínum á vesturströnd Bandaríkjanna og látið það mat- eríalíserast á borðinu fyrir framan hann eins útlits og það var, áður en ég leysti það upp.“4 Í dag, 35 árum síðar, er þetta hversdagsleg- asti hlutur í heimi og kallast tölvupóstur. *** Það hamfarahlaup aðstreymandi efnis sem við erum stödd í um þessar mundir gerir að verkum að skjótt fennir yfir verk lifenda, og þegar dauðinn kemur í ofanálag og menn eru ekki lengur viðloðandi í líkamanum til að minna á sig er ekki að sökum að spyrja. Við sem lifum í fannfergi núsins þykjumst góð ef bækurnar sem komu út í hitteðfyrra eru ekki huldar gleymsku, fyrir nú utan að bókmenntir hafa á okkar dögum hreppt ámóta örlög og íslenski hesturinn: frá því að vera þarfasti þjónninn, burðarklár, dráttarklár, reiðhestur, matur, gólfmotta, reipi – yfir í að vera leikfang, tóm- stundagaman, póní. Það er fljótlegt að ganga úr skugga um að Þórbergur Þórðarson er ekki ofarlega í huga upprennandi kynslóðar um þessar mundir og skólakerfið hefur sagt skilið við hann. Reyndar deilir hann þar örlögum með nær öllum ís- lenskum höfundum sem honum voru samtíða, að undanskildum Halldóri Laxness sem á sinn fasta sess í námsefni skólanna, ásamt Íslend- ingasögunum. Það er því hætt við að myndin af skáldinu hafi tekið allnokkrum stakkaskiptum. Nóg var hún samt einkennileg fyrir. Hvað seg- ir til að mynda útgefandi Þórbergs, Ragnar í Smára? „Hann (Þórbergur) er skemmtimaður. Hann hefir hug til að vera hreinskilinn og hann hefir náð mikilli leikni í að skemmta. En hann er fyrst og fremst trúður og það er sannarlega ekkert skammaryrði. Trúðurinn var oft vitrari en kóngurinn …“5 {Halldór} Laxness kveður enn sterkar að orði í endurminningum sínum, Úngur eg var: „Laungum minti Þórbergur mig á mannkynsfrelsara, amk vitríng úr helgisögum, helst úr Austurlöndum, sem hefði tekið sig uppúr fjallabygð sinni í Himalæafjöllum og lagt á stað með bróður sinn vangefinn, eða kanski bara asnann sinn, til að láta hann vinna fyrir sér með kúnstum í höfuðborginni á meðan hann væri sjálfur að boða mönnum eilífa speki. Því miður vildi stundum fara svo að menn hneigðust meir að kúnstum asnans en hinni eilífu speki meistarans (…) sumir voru þó ekki gáfaðri en svo, að þeim þótti asninn snjallari en mannkynsfræðarinn.“6 En félagi Þórbergs og frændi, Gunnar Benediktsson, segir aftur á móti í kveðjuorðum yfir honum látnum: „Þórbergur Þórðarson er sá agaðasti persónuleiki sem ég hef kynnst.“7 *** Eftir því sem tíminn líður dofna þessar mannalýsingar og senn líður að því að af Þórbergi gefst ekki önnur mynd en sú sem hann hefur skilið eftir sjálfur og lifir í verki hans, sem að sínu leyti var sjálfsmynd í stóru broti. „Hver maður er settur saman úr hersingu af sjálfum,“ segir skáldbróðir Þórbergs, Frakkinn Marcel Proust, sem einnig var stórtækur sjálfsmyndari. Hvert og eitt okkar er margir. Ekki nóg með að við séum jafn mörg myndunum sem aðrir gera sér af okkur, myndbreytingarnar eiga sér einnig stað innra með okkur, hin endanlega niðurstaða er aðeins fengin við dauðann og þá ber svo við að úr hinum fjölmörgu skyndimyndun framkallast heildarmynd sem er einhvers konar summa eða samantekt af öllum hinum. Í dæmi Þórbergs er þetta raunar enn flóknara því hann hefur látið eftir sig texta sem hafa verið að birtast eftir hans dag og munar þar mest um bækur þær tvær sem Helgi M. Sigurðsson hefur tekið saman úr dagbókum Þórbergs og bréfum: Ljóri sálar minnar og Mitt rómantíska æði sem út komu árin 1986 og 1987. Þá hafa tvö bréfasöfn birst sem fengur er að, Bréf til Sólu en það eru bréf Þórbergs til leynilegrar ástkonu sinnar um árabil, Sólrúnar Jónsdóttur, sem spanna nærfellt áratug frá 1922 til 1931, og svo Bréfin hans Þórbergs, sem hann reit vinkonum sínum Lillu Heggu og Biddu systur öðru hverju um tveggja áratuga skeið, frá 1952 til 1971. Hvert og eitt þessara verka hefur aukið dráttum í myndina af Þórbergi. *** Það sem mönnum kom einkum á óvart um söfnin tvö sem unnin voru upp úr dagbókunum var hve kröm Þórbergs og neyð hefur verið mikil fyrstu árin hans í Reykjavík. Hve hyldjúp örvænting hans er. Örbirgð hans og andstreymi gegndarlaust. 17. nóvember 1915 trúir hann dagbókinni fyrir eftirfarandi: „… Eg get eigi sagt að eg hafi verið þur í fætur í 5 ár. Guð minn góður, hvar lendir þetta? … Utanyfirfötin eru orðin svo skítug og rifin að eg skammast mín að koma fyrir alminnlega menn. En engan útveg sé eg. Nú hefi eg gengið svo að segja á sokkunum í viku. Megnustu nálykt leggur af rúmfötunum þegar þau hitna á nóttinni. Stundum verð eg að sitja í myrkri vegna olíuleysis. Oft liggur mér við að örvænta. Eg er að reyna að brjóta mér leið til mentunar og þekkingar og vil sannarlega verða nýtur maður. En helvítis lífið og mennirnir sem eg á saman við að sælda fara með alla góða ásetninga mína … Ég er að sökkva … Mér líður aldrei vel nema þegar eg er nývaknaður á morgnana … Mér finst eg vilja deyja. Eg get varla lifað lengur; hefi enga gleði af lífinu þegar ástæðurnar ræna mig rósemi og næði, rífa mig og tæta í sundur og draga mig niður í sorpið.“8 *** Íslenskur aðall og Ofvitinn lýsa að vísu oft á tíðum kröppum dansi sögumanns, en allt var það undir formerkjum fyndni og angurværðar, auk þess sem lesandinn vissi að sá Þórbergur sem var í háska á blaðsíðunum hafði fyrir löngu náð landi, frægur rithöfundur í öruggri höfn. Halldór Laxness byrjar reyndar Íslendingaspjall sitt (1967) með því að gera góðlátlegt grín að kreppulýsingum Ofvitans: „Það er svo mikið af lostætu sjávarfángi við Faxaflóa þar sem Reykjavík stendur, að til skamms tíma var fleiri heiðarlegum krásum kastað í sjó aftur en hinu nam sem hægt var að torga … Það er ógerníngur að verða húngurmeistari í slíkum stöðum hvað sem maður er mikið skáld. Menn sem eru blánkir nú sem fyr, hvort heldur þeir eru skáld og rithöfundar eða eitthvað annað, eiga ævinlega frænku í bænum ef vel er að gáð, eða þegar verst lætur gamla mömmu uppí sveit og hún gefur rúgbrauð og saltfisk sem er besti matur í heimi, og kanski mjólk, nema maður vilji fara að ferðast um landið einsog þýskur prófessor & doktor, þá fær maður ókeypis kaffi og bakkelse þrjátíu sinnum á dag …“9 Sem vekur mann til umhugsunar um hvað Suðursveit hefur verið órafjarlæg á dögum Ofvitans, því auðvitað vaknar sú spurning þegar unglingurinn Þórbergur stígur hvað krappastan dans á mölinni og hungrið sverfur fastast að honum – nú þegar tekur litlar fjórar Galgopasvipurinn.Vandamálasvipurinn. Nú er það svart. ÞÓRBERG- UR EFTIR ÞÚSUND ÁR E F T I R P É T U R G U N N A R S S O N Margan hafði furðað á því að Þórbergur Þórðarson skyldi ekki halda áfram með hina vinsælu ævisögu sína þar sem Ofvitanum sleppti, þvert ofan í boðað framhald. Hér er bókin Bréf til Sólu, sem kom út árið 1983, lesin sem þetta framhald en þar getur að líta Þórberg sem sannarlega kemur á óvart, Þórberg framhaldsins sem aldrei kom, Þórberg sem aðeins örfáir vissu að hefði verið til. Sá drýldni.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.