Lesbók Morgunblaðsins - 07.02.2004, Page 6

Lesbók Morgunblaðsins - 07.02.2004, Page 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 7. FEBRÚAR 2004 H vað er hægt að segja? Þetta eru bara myndir – horfðu!“ Leifur Þorsteinsson situr í sýningarsal Ljósmynda- safns Reykjavíkur í Gróf- arhúsi og allt í kring hall- ast upp að veggjum innrammaðar ljósmyndir sem bíða þess að verða hengdar upp. Þetta eru svarthvítar ljósmyndir sem bera vitni um þjálfað auga og skarpa sýn höfundarins. „Þetta er fólk og borg. Þetta er menning og andrúmsloft þeirrar kynslóðar sem er nú um það bil að hætta þátttöku í lífinu. Nýju kynslóðirnar eru allt öðruvísi – þessi borg er ekki lengur til, þótt það sé hægt að finna þessa staði alla saman sem myndirnar sýna. Þetta er samt ekki sama borgin. Nú er eng- inn Búnaðarbanki heldur bara KB-banki. Út- vegsbankahornið er ekki til lengur. Það er að vísu horn þar en það er ekki Hornið. Það er ekkert líf í miðbænum lengur.“ Hann bendir á myndirnar þar sem þær standa í röðum: „Þetta er andrúmsloftið og hversdagsmenningin sem ég þekkti svo vel á seinni hluta tuttugustu aldar.“ Leifur er Reykvíkingur í húð og hár og myndirnar á þessari sýningu er allar úr mið- borginni, vesturbænum og Þingholtunum, teknar á þrjátíu ára tímabili. Leifur ólst upp við Ásvallagötu, fluttist síðan á Freyjugötu meðan hann var í Menntaskólanum; á milli þessara heimila má segja að sé borg mynd- heimsins. Ferill Leifs sem ljósmyndara hófst upp úr 1960, þegar hann sneri heim frá námi í Kaup- mannahöfn sem fyrsti sérhæfði iðnaðar- og auglýsingaljósmyndari Íslendinga. Hann hef- ur um áratugaskeið verið einn virtasti ljós- myndari þjóðarinnar, mikilvirkur kennari, fyrst á vegum Ljósmyndarafélagsins, þá í Iðnskólanum og nú síðustu árin í Listahá- skólanum. Hann hefur haldið einkasýningar hér heima og erlendis, kunnar eru til að mynda frumkvöðlasýningar hans á borgarlíf- inu í Bogasalnum á sjöunda og áttunda ára- tugnum. Þá tók Leifur þátt í heimssýning- unni í Osaka árið 1970 og var í forsvari fyrir Íslendinga á sýningunni Frosen Image í Bandaríkjunum árið 1982. Myndirnar á þess- ari sýningu nú voru teknar á árabilinu 1963 til 1990, en eftir það einbeitti Leifur sér meira að annars konar ljósmyndum, þar á meðal kyrralífsmyndum. „Ég hef aldrei verið í formlegu listnámi,“ segir Leifur. „Nema þegar ég var í barna- skóla. Þá var ég hjá Kurt Zier í teikningu. Og það var teiknikennsla í lagi. Þá fékk ég fyrst áhuga á myndum. Ég hef alltaf verið með ljósmyndadellu, al- veg frá því að ég sem strákur fékk kassa- myndavél í afmælis- eða jólagjöf. Svo keypti ég framkallara og fixer hjá bræðrunum í Sportvöruhúsinu. Það var ægilega fínt, fix- erinn var í töfluformi; fjórar töflur í lítra! Ég var alltaf að mynda. En eftir Mennta- skólann agiteraði stærðfræðikennarinn minn mjög fyrir því að ég færi til Kaupmannahafn- ar að læra eðlis- og stærðfræði. Ég var svo- sem ekkert frábitinn því. En þegar ég var búinn með þrjú ár, fyrrihlutann, fór ég að efast um að ég nennti að verða kennari það sem eftir væri lífsins og svissaði yfir. Fór að læra ljósmyndaiðnina. Ég hafði ekki trú á því að ég væri séní – eða hafði einfaldlega ekki nógu mikinn áhuga.“ – Þú hefur samt náð því að vera eðlisfræð- ingurinn í íslenskri ljósmyndarastétt. „Ég veit ekkert um það …“ – En þetta úrval mynda, eru þetta allt myndir sem þú tókst fyrir sjálfan þig? „Já já. Ekkert fyrir kúnna, fyrir utan tvær myndir. Hann bað mig að mynda Fjalakött- inn áður en hann var rifinn, ég myndaði allt í bak og fyrir, kúnninn fékk kontakta til að velja myndir af en ég heyrði aldrei meira frá honum. Hann borgaði aldrei neitt og fékk því engar myndir. Ég held ég hafi myndað alls staðar þar sem ég komst inn í húsið. Bíósal- urinn sjálfur var í algjörri niðurníðslu en það var ekki rétt að rífa þetta hús. Það þurfti að taka til hendinni en það hefði átt að gera upp bíósalinn; kvikmyndasafnið hefði átt að fara þar inn. Þetta eru allt kópíur sem ég gerði núna. Ég á aldrei neinar gamlar kópíur, nema eitt- hvað sem ekki er nógu vel gert og ég hef gleymt að henda. Ég byrjaði á þessu rétt fyr- ir jólin og var að þessu þangað til núna. Þetta er allt prentað á fíber, helvíti mikið magn, og krakkarnir í búðinni þekktu mig ekki þegar ég spurði hvort ég fengi ekki einhvern af- slátt. En svona er þetta, maður er dottinn út úr þessu.“ Leifur kímir. – Dottinn út? Ertu ekki upptekinn við að kenna yngstu kynslóðinni í Listaháskólanum? „Jú.“ – Ertu ekki í takt við tímann þar? „Ég er að skoða tímann. En ég veit ekki hvort ég er í takt við yngstu kynslóðina. Ég hef skoðað hana og veit hvað hún vill.“ – Þú hefur kosið að fara í gamla góða handverkið og prenta myndirnar á réttan hátt. „Ég snerti ekki á digital nema nauðsyn beri til. Reyndar er ég samt að kenna það alla daga … Svo er ég kominn með svo helvíti góðan prentara heim sem ég þarf að fara að prófa mig áfram með. En það er samt alls ekki það sama,“ segir hann og grettir sig. „Þú getur fengið gott tölvuprent en gæðin eru langt í frá þau sömu og í góðri ljósmynd. Það er stór munur á því, hvað sem allir segja.“ – Þessar myndir eru um tuttugustu öldina en það er enginn tregi í þeim. „Nei nei, þetta er bara frásögn af þessum andblæ tímans. Húsin og umhverfið spegla hugarfarið. Ég held ég hafi ekki verið að skrá heim- ildir, þótt það hafi verið einhvers staðar í undirmeðvitundinni að þetta gæti orðið sagn- fræðilegt. Þetta er söfnunarárátta. Maður rekst á fallegt mótíf og vill eiga mynd af því. Varðveita það fyrir sjálfan sig.“ – Þetta eru mjög formhreinar ljósmyndir. „Kompósisjón og formalismi í mynd er það sama og ritstíll í frásögn. Og maður reynir að halda hreinum, klárum stíl, til að geta sagt frá án málskrúðs. Þetta er einfaldlega sá stíll sem ég hef tamið mér.“ – Þú hefur verið afar virkur við kennslu og uppfræðslu. Heldurðu að það hafi skilað ein- hverju? „Ég hef ekki hugmynd um það,“ segir Leifur og hlær. „Jú jú, eitthvað hefur ábyggi- lega skilað sér. Það fer eftir því hverju fólkið sækist eftir. Það hefur nú skilað mestu þegar við slepptum fólki lausu þannig að það gat farið til útlanda að læra. Íslensk ljósmyndun hefur grætt langmest á því. Við gáfum þeim lausan tauminn og sögðum að ef þau lærðu bara nógu mikið þá fengju þau íslensk próf. Þú getur rétt ímyndað þér hvort það hafi ekki komið margvíslegir straumar inn í land- ið. Ef við einöngrum okkur er alltaf hætta á forpokun. Annars þekki ég ekkert af þessum atvinnu- ljósmyndurum lengur, nema gömlu mennina. Ég hitti þá reglulega en þessir ungu láta ekk- ert sjá sig.“ – Finnst þér afgerandi kynslóðamunur í ljósmyndarastéttinni? „Já. Ég er af 20. aldar kynslóð sem hugsar á allt annan hátt. Við erum rólegri. Ekki nærri því eins frek til lífsins.“ – Þú varst brautryðjandi hér sem iðnaðar- og auglýsingaljósmyndari. Er eitthvað skylt með þessum myndum sem þú sýnir hér og því starfi? „Iðnaðar- og auglýsingaljósmyndun var eiginlega ekki til þegar ég kom heim. Það þekkti hana enginn og það krafðist enginn neins af mér. Það tók enginn eftir því ef mað- ur gerði eitthvað vel. Kúnnunum var alveg sama. Maður fékk ekki borgað fyrir að liggja yfir hlutum og spekúlera. Það þurfti að gera allt í einum hvelli. Borgunin var léleg og ef maður fór eitthvað að hanga yfir þessu tapaði maður á því. Stór hluti af því sem ég gerði var tæknilegs eðlis. Og ennþá stærri hluti var tekinn á slæds sem kúnninn fékk í hendurnar og sem betur fer á ég ekki neitt eftir af því. Ég skil ekkert eftir mig af þessu, það er búið að prenta þetta og henda bæklingunum. Þetta hér,“ segir hann og bendir yfir sal- inn, „er það sem ég var að gera sem ljós- myndun, og svo portrett. Ég tók myndir af listamönnum, vinum og kunningjum. Það er allt annars eðlis. Ég gaf mig samt aldrei út fyrir að vera portrettljósmyndari. Kannski ég sýni portrettin næst – ég veit það ekki. Eða það sem ég er byrjaður að fikta við núna.“ – Eitthvað stafrænt? „Nei, langt frá því,“ segir Leifur og skellir upp úr. „Ég verð að láta lítið fyrir mér fara því menn sperra svo upp augun þegar þeir sjá mig koma með heljarfínt statíf og ofan á því liggur Macintosh-dós. Dós utan af kon- fekti. Það er heimagerð „pinhole“-myndavél, en ég veit ekkert hvort það kemur eitthvað sýningarhæft út úr því.“ ANDRÚMSLOFT BORGARINNAR Morgunblaðið/Einar Falur Biðröð við Bifreiða- eftirlitið, mótmælendur á Lækjartorgi, hestakerrusmiðja við Bergstaðastræti og Fjalakötturinn eru meðal horfinna fyrirbæra sem birtast í ljósmyndum Leifs Þorsteinssonar á sýningunni Fólk og borg, sem verður opnuð í Ljósmyndasafni Reykjavíkur í dag. EINAR FALUR INGÓLFSSON hlýddi á Leif segja frá andrúms- lofti liðinna tíma. efi@mbl.is „Þetta er söfnunarárátta. Maður rekst á fallegt mótíf og vill eiga mynd af því,“ segir Leifur Þorsteinsson.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.