Lesbók Morgunblaðsins - 19.06.2004, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 19.06.2004, Blaðsíða 5
hvernig sjálfsmorðsflugmennirnir hafi tileink- að sér allt það sem samtíminn og hnattvæð- ingin hafa að bjóða (nýjustu upplýsingatækni, nýjustu flugtækni, verðbréfaspár og áhrifa- mátt fjölmiðla) til þess að ná markmiði sínu. Sjálfsmorðsflugmennirnir féllu inn í fólks- fjöldann í hversdagslegum úthverfum vest- rænna stórborga, þeir menntuðu sig í vest- rænum háskólum og tileinkuðu sér hið vestræna líf. Vitneskjan um þetta leiðir til hinna sálrænu hryðjuverka sem valda því að við tortryggjum alla, treystum engum.2 Myndin af Mohamed Atta sem fengin er úr öryggismyndavélinni undirstrikar þessi sál- rænu hryðjuverk sem atburðirnir hafa leitt af sér. Einhverjir kunna að hneykslast á því hvað hryðjuverkamennirnir hafi verið ósvífn- ir að villa á sér heimildir með þessum hætti. Hvernig þeir gátu fengið sig til að nota vest- ræna menningu og vestræna tækni til þess að ráðast á Vesturlönd. Palestínski blaðamað- urinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Omar Al-Quattan, sem búið hefur í London í 28 ár, lítur öðrum augum á málið. Hann bendir á að afar ólíklegt sé að sjálfsmorðsflugmennirnir hafi verið að villa á sér heimildir. Mun lík- legra er að hegðun þeirra og klæðnaður hafi aðeins endurspeglað menningu þeirra sjálfra og það uppeldi sem þeir hafi hlotið. Omar Al- Quattan þekkir málið af eigin raun og bendir á að ungt fólk af yfir- og millistétt í Araba- löndunum lifi og hrærist í sama menning- arheimi og jafnaldrar þess á Vesturlöndum. Sjálfsmorðsflugmennirnir hafi því ekki endi- lega verið að villa á sér heimildir, þeir hafi ekki verið að blekkja neinn með klæðaburði sínum og hegðun heldur hafi framkoma þeirra aðeins endurspeglað þá menningu sem þeir höfðu alist upp við meðal arabískrar millistéttar.3 Þetta er ef til vill aðeins ein hlið- in á hinni margrómuðu hnattvæðingu. Óvin- urinn sker sig ekki úr. Andlit hins illa Þeir sem vildu ítreka andstæður góðs og ills í kjölfar hryðjuverkanna þurftu því að snúa sér annað í leit sinni að andliti hins illa. Ljósmyndir af sjálfsmorðsflugmönnunum hurfu fljótlega í skuggann. Þess í stað birtist okkur mynd af hellisbúanum Osama bin Lad- en. Mynd af síðhærðum og síðskeggjuðum manni, íklæddum kufli, varð fljótt táknmynd fyrir Íslam í höndum áróðursvélar Banda- ríkjastjórnar. Bin Laden hafði skapað sér ímynd sem hann taldi að myndi skapa órjúf- anleg tengsl milli sín og spámannsins Mú- hameðs í huga fólks. Líkt og Múhameð faldi bin Laden sig í hellisskúta í eyðimörkinni og birtist þannig að eigin mati sem trúverðugur fulltrúi hinnar „sönnu“ trúar múslima. Vissir andstæðingar bin Ladens hafa tekið þessari ímynd hans fagnandi og fundist hún vel til þess fallin að tákngera hið illa. Við virðum fyrir okkur horað andlit, síðskeggjað, slitið af kulda og trekki og erfiðum lífsskil- yrðum. Þannig birtist Osama bin Laden Vesturlandabúum sem framandi vera. Og þar sem Osama bin Laden er andlit hins illa er hið illa einnig framandgert. Það lítur ekki út fyrir að hið illa eigi neitt sameiginlegt með okkur Vesturlandabúum. Það virðist ekki hafa neinar forsendur til þess að skilja vest- ræn gildi og þar af leiðandi engar forsendur til þess að þrífast í vestrænum menning- arheimi. Þar af leiðandi hljóta mörkin milli hins illa og hins góða að vera skýr. Í tví- hyggju áróðursvélarinnar eru engin óljós mörk. It is Us versus Them. Osama bin Laden er tvímælalaust betur til þess fallinn að tákngera andlit hins illa en sjálfsmorðsflugmennirnir sem frömdu glæp- ina sjálfa. Þeir féllu of vel inn í hið vestræna umhverfi. Hann birtist okkur sem framandi vera. En er hann framandi vera? Ég hef fyrir framan mig ljósmynd af Osama bin Laden sem tekin er í Falun í Sví- þjóð árið 1971. Þetta er hópmynd af Osama bin Laden og systkinum hans sem tekin var í sumarleyfi þeirra í Svíþjóð. Þau birtast okkur á þessari ljósmynd sem hluti af þeim vest- ræna heimi sem við þekkjum svo vel. Og það sem verra er, Osama bin Laden virðist kunna ljómandi vel við sig í þessum heimi. Hann lík- ist hverju öðru vestrænu ungmenni. Árið 1971 var Osama bin Laden klæddur sam- kvæmt nýjustu tísku og vissum við ekki hver hann væri gætum við haldið að hér væri ung- ur Vesturlandabúi á ferð, vissulega nokkuð dökkur á hörund, en vestrænn samt, og þar með fulltrúi hins góða í heiminum. Það sama gildir um bræður hans og systur. Klæðnaður þeirra og háttalag er ekki framandi á nokk- urn hátt. Af þessari ljósmynd verður ekki annað séð en að Bin Laden hafi verið vel kunnur þeim menningarheimi sem hefur ver- ið skilgreindur (bæði af honum sjálfum og öðrum) sem andstæða alls þess sem hann sjálfur stendur fyrir. Hvernig getur staðið á því að bin Laden virðist kunna vel við sig í támjóum skóm og útvíðum buxum? Er hann að villa á sér heim- ildir? Hvernig getur þetta verið sami ein- staklingurinn og birtist okkur framandi og forneskjulegur á sjónvarpsskjánum? Hver er hinn eini sanni Osama bin Laden? Er það ill- gjarn maður í kufli sem hefur engan skilning á vestrænum gildum – eða er það þessi glað- beitti unglingur sem ferðast um Svíþjóð um- vafinn táknum hinnar margrómuðu unglinga- menningar Vesturlandabúa? Hvert er hið sanna andlit Osama bin Laden? Hvert er hið sanna andlit illskunnar? Þessi ljósmynd sem tekin er af Osama bin Laden og systkinum hans leysir í vissum skilningi upp andstæðuparið við/þau. Að því leytinu er þetta traumatísk ljósmynd. Það sama má segja um myndina sem tekin var með öryggismyndavélinni á flugvellinum í Boston hinn 11. september 2001. Með þessar ljósmyndir fyrir augunum eigum við erfitt með að skilgreina hið illa sem andstæðu hins góða. Þær skilja okkur eftir með áleitnar spurningar um hið góða og hið illa, um ímyndun og veruleika, líf og dauða, hið sanna og hið ósanna. Þær setja spurningarmerki við það hvort þessar andstæður séu ekki annað en menningarleg afurð orðræðunnar. Ljós- myndirnar sýna, svo ekki verður um villst, að heimurinn er ekki jafn einfaldur og margir vilja vera láta. Þær sýna okkur að tvíhyggjan sem birtist í andstæðunni hið góða/hið illa er aðeins tilbúningur og einföldun á marg- slungnum veruleika. Að því leyti eru þetta traumatískar ljósmyndir. Þær hrista upp í hugmyndaheimi okkar. Þær gera okkur kleift að skoða hluti út frá öðru sjónarhorni en því sem alla jafna birtist okkur í ríkjandi orð- ræðu um hryðjuverkin. Þannig gera ljós- myndirnar okkur mögulegt að sjá veru- leikann í nýju samhengi, óháð orðræðu tvíhyggjunnar sem sífellt leitast við að smætta ástandið í heiminum niður í baráttu góðs og ills. Heimildir: 1 Zygmunt Bauman: „Den eksplosive elendighed.“ Tirsdag 11. september 2001. Eftertanker. En antologi redigert af Claus Clausen og Rasmus Øhlenschlæger Madsen. Tiderne skifter, 2001. 2 Jean Baudrillard: „Terrorismens ånd.“ Tirsdag 11. september 2001. Eftertanker. Bls. 159. 3 Omar Al-Quattan: „Disneyland Islam“. Tirsdag 11. september 2001. Eftertanker, 2002. Höfundur leggur stund á M.A.-nám í menning- arfræðum. Reuters Mynd úr eftirlitsmyndavél á alþjóðlega flugvellinum í Portland af Mohammed Atta (til hægri) og Abdulaziz Alomari (fyrir miðju). Þeir flugu til Boston þar sem þeir fóru um borð í flug ellefu hjá American Airlines að morgni 11. september 2001 en þeirri vél var flogið á annan Tvíturnanna í New York skömmu síðar. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 19. JÚNÍ 2004 5 E itthvað er ekki eins og þeir segja að það sé. Þegar Nev- enka var lítil átti hún fiskabúr með marglitum gullfiskum. Dag nokkurn bættist fiskur í búrið, einn af þessum svörtu, feitu, sem lúra á botninum daginn á enda og virðast ekki hreyfa sig. Svo tóku að sjást meiðsl í hinum fiskunum, sá á botninum glefsaði í þá, rétt eins og hann væri að leika sér að þeim. Nev- enka hafðist ekki að, áttaði sig ekki, en svo einn daginn var sá svarti búinn að éta alla skrautfiskana. Löngu síðar varð Nevenka Fernández öld- ungis óvænt borgarfulltrúi í bænum Ponferrada. Hún fór fram fyrir Partido Pop- ular, spænska Þjóðarflokkinn, nýútskrifuð úr háskóla, og samkvæmt Juan José Millás sem skráir sögu hennar var veran í borg- arstjórn því líkust sem einn litríkur og lítill gullfiskur hefði verið settur í búr fullt af þessum svörtu. Juan José Millás er spænskur rithöfund- ur, fæddur í Valencia 1946 og býr í Madríd. Fyrsta skáldsaga hans kom út 1975 og hann hefur verið býsna afkastamikill síðan. Hann starfar fyrir dagblaðið El País og er ansi vinsæll, bæði sem blaðamaður, pistlahöfund- ur og rithöfundur. Í tengslum við verk hans er gjarnan talað um samtvinnun blaða- mennsku og skáldskapar. Raunar er erfitt að sjá þeirri blöndu nokkurn stað í helstu skáldsögum hans og freistandi að ætla að kenningin hafi komist á kreik einfaldlega vegna þess að hann er bæði blaðamaður og rithöfundur. Síðasta bók hans, á undan þeirri sem hér er til umfjöllunar, nefnist Cu- entos de adúlteros desorientados og hefur að geyma smásögur, áður birtar í ýmsum dagblöðum og tímaritum, sem allar snúast með einum eða öðrum hætti um framhjá- hald, fjári skemmtilegar sögur, öfgakenndar og fáránlegar. Bókin þar á undan, Dos muj- eres en Praga, Tvær konur í Prag, vann til virtra verðlauna, Premio Primavera, árið 2002. Afbragðs skáldsaga sem gerist alls ekki í Prag heldur Madríd; í raun er ekki mikil blaðamennska á ferð þar þótt blaða- mennska komi mjög við sögu; höfundur sér ástæðu til að nefna í eftirmála einnar útgáfu bókarinnar að söguhetjan sé skálduð, öfugt við það sem lesendur ætla, ef dæma má af spurningum sem höfundurinn fær um hver þessi persóna í raun og veru sé. El orden alfabético, Stafrófsröðin, heitir skáldsaga frá árinu 1998, fantasísk saga, nokkuð í anda Argentínumannsins José Luis Borgesar, sem fjallar um dreng sem lifir að hálfu í al- fræðiorðabók og að hálfu í ímynduðum heimi; í þeim heimi taka stafir úr stafrófinu að hverfa, svo heilu orðin, loks molnar allur heimurinn og hrynur til grunna. Þekktasta og líklega besta bók Millás heitir El desor- den de tu nombre eða Nafnabrengl og kom út 1986. Hún er metafiksjón eins og hún gerist best, skáldskapur um skáldskap, en býður upp á skothelt plott: Rithöfundur nokkur greinir sálfræðingi sínum frá sam- bandi sínu við gifta konu sem hvorugur veit að er einmitt kona sálfræðingsins. Engin blaðamennska þar heldur, púra skáldskapur. En nýjasta bók Juan José Millás er hins- vegar hrein blaðamennska. Hún heitir Hay algo que no es como me dicen, Eitthvað er ekki eins og mér er sagt að það sé, undirtit- ill: El caso de Nevenka Fernández contra la realidad – Mál Nevenku Fernández gegn veruleikanum. Bókin er byggð á viðtölum við Nevenku Fernández, konu á þrítugs- aldri, fyrrverandi borgarfulltrúa í bænum Ponferrada. Mál hennar var skandall fyrir nokkrum árum, hún flæmdist úr borgar- stjórn vegna kynferðislegrar áreitni – eða ofsókna – borgarstjórans, Ismael Álvarez, sem hún lögsótti á endanum. Hún vann mál- ið, úrslitin vöktu mun minni athygli en mál- sóknin. Fernández forðaðist fjölmiðla og veitti engin viðtöl, líf hennar virðist vera í rjúkandi rúst eftir að hún hættir í borg- arstjórn. Og hún er býsna mikið ein í heim- inum, samstarfsfólk hennar í borgarstjórn styður hana svo sannarlega ekki, eiginkona forsætisráðherrans Aznars, Ana Botella, lýsti yfir stuðningi við borgarstjórann sem hefði, sagði hún, hagað sér óaðfinnanlega; engin samúð með Nevenku Fernández þar; vinstrimenn voru margir hverjir á því að Nevenka ætti þetta skilið, hefði verið nær að binda ekki trúss sitt við PP-flokkinn. Ismael Álvarez borgarstjóri er ekki geð- þekk manneskja í lýsingu bókarinnar. Hann lætur Nevenku í engum friði, brýtur hana smátt og smátt niður og rænir sjálfsvirðing- unni með ísmeygilegasta hætti þannig að hún á ekkert svar, allt sem hún segir er lagt út sem histería og ofsóknarbrjálæði. „Kannski er þetta allt eðlilegt,“ segir rödd innra með Nevenku. „Kannski ert það þú sem ert ekki eðlileg.“ Og borgarstjórinn ein- hvernveginn plantar í Nevenku sektarkennd með kerfisbundnum hætti með smáathuga- semdum um hvað hún sé óeðlileg: „Byrjarðu á þessu, heldurðu að ég ætli að nauðga þér?“ „Ekki gastu sýnt þá nærgætni að hringja í mig á dánarafmæli konu minnar.“ Þetta er saga af kúgun í sinni lymskulegustu mynd. Millás geymir sér það svæsnasta, frásögnin er ekki alveg línuleg. Og þar er svo sem ekki neitt sem gengur verulega fram af neinum, sálfræðilegar ofsóknir borgarstjóra á undir- manni sínum eru miklu fremur eitthvað sem hægt er að heimfæra á hvunndaginn, hin hversdagslegasta kúgun. Kaflarnir skoða ýmsar hliðar á Nevenku Fernández, allt frá bernsku hennar og sam- bandi við föður sinn og fram að því þegar hún flýr borgina sína, Ponferrada, og loks landið vegna áreitni borgarstjórans, en þau stóðu í stuttu sambandi sem Álvarez gat ekki jafnað sig á. Og þótt efnið virki satt að segja ekki sérlega grípandi við fyrstu sýn er textinn svo fjári vel skrifaður, af svo miklu næmi og innsýn og sálfræðilegum skilningi, að úr verður afbragðs bók. Nevenka Fern- ández nær að vinna samúð lesandans, ekki sem einskært fórnarlamb eða engill heldur sem manneskja, kona sem uppgötvar smám saman að eitthvað er ekki eins og henni hef- ur verið sagt að það sé. Bókin „endar hvorki vel né illa heldur venjulega eins og flest í þessu lífi“, eins og höfundur segir í lokin á Eitthvað er ekki eins og mér er sagt að það sé. Þetta er fjarri því að vera besta bók Ju- an José Millás en fín samt, almennileg af- köst, Millás situr ekki við að slípa til perlur og pússa heldur gefur út bók á ári, er það ekki lágmark? Ný bók spænska rithöfundarins Juan José Millás, Hay algo que no es como me dicen (2004), er byggð á viðtölum við konu sem kærði borgarstjóra í spænskri borg fyrir kynferðislega áreitni. Hún vann málið en stóð samt sem áður uppi ein og óstudd. EINS OG ÞEIR SEGJA AÐ ÞAÐ SÉ E F T I R H E R M A N N S T E FÁ N S S O N Höfundur er bókmenntafræðingur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.