Lesbók Morgunblaðsins - 19.06.2004, Blaðsíða 13
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 19. JÚNÍ 2004 13
TÓNLIST fyrir sumarkvöld verður flutt á
tvennum tónleikum á Kjarvalsstöðum í kvöld.
Á efnisskránni er verkið Music for a
Summer Evening (Makrokosmos III) eftir
George Crumb, fyrir tvö uppmögnuð píanó
og slagverk frá árinu 1974. Það eru Anna
Guðný Guðmundsdóttir, Snorri Sigfús Birg-
isson, Pétur Grétarsson og Steef van Oost-
erhout sem flytja, en verkið hefur aldrei ver-
ið flutt á Íslandi fyrr.
Notast er við fjölbreytileg slagverkshljóð-
færi í verkinu, þar á meðal nokkur afar
óhefðbundin á borð við asnakjálka, tíbetska
bænasteina og altblokkflautu. Píanóin fá
einnig óhefðbundna meðferð, en í einum
kafla verksins eru pappírsarkir látnar þekja
strengi píanósins.
Ljóðlínur settar í tónmál
Verkið er í fimm þáttum sem heita Noct-
urnal Sound, Wanderer-Fantasy, The Ad-
vent, Myth og Music of the Starry Night.
Um verkið segir tónskáldið George Crumb:
„Mér finnst Summer Evening, sem er 40
mínútur að lengd, mynda eina samfellda
heild. Fyrsti kafli, þriðji kafli og fimmti kafli,
sem samdir eru fyrir fullskipaða sveit og í
stórum formum, virðast vera kjarni verksins.
Á hinn bóginn eru kaflarnir „Wanderer
Fantasy“ og „Myth“ draumkenndir og hugs-
aðir sem nokkurs konar millispil í heildar-
forminu. Stóru köflunum þrem fylgja tilvitn-
anir í ljóð sem voru mjög ofarlega í huga
mínum þegar ég samdi verkið og sem ég trúi
að eigi sér táknræna samsvörun í tónmáli
Summer Evening. „Nocturnal Sounds“ fylgir
tilvitnun í Quasimodo: „Odo risonanze effim-
ere, oblío di piena notte nell’acqua stellata“
(„Ég heyri hverfult bergmál, óminni dimmr-
ar nætur í stöðuvatni sem alsett er stjörn-
um“); „The Advent“ tengist þessum orðum
Pascal: „Le silence éternel des espaces infin-
is m’effraie“ („Hin eilífa þögn í óendanlegum
geimi veldur mér skelfingu“); og síðasta kafl-
anum, „Music of the Starry Night“, fylgir
þessi yfirskilvitlega og fallega mynd frá
Rilke: „Und in den Nächten fällt die schwere
Erde aus allen Sternen in die Einsamkeit.
Wir alle fallen. Und doch ist Einer, welcher
dieses Fallen unendlich sanft in seinen
Händen hält“ („Og á næturnar hrapar hin
þunga jörð frá stjörnunum niður í einsemd-
ina. Við erum öll að hrapa. En samt er Einn
sem heldur þessu mikla falli gætilega í hendi
sér.“).“
Tónleikarnir í kvöld hefjast kl. 19.30 og 22.
SUMARKVÖLD
Í TÓNUM
Morgunblaðið/ÞÖK
Anna Guðný Guðmundsdóttir, Snorri Sigfús Birgisson, Pétur Grétarsson og Steef van Ooster-
hout leika á tvennum tónleikum á Kjarvalstöðum í kvöld.
KÓRASTEFNAN við Mývatn 2004 stóð svo
sannarlega undir nafni. Margrét Bóasdóttir,
höfundur og stjórnandi stefnunnar, bauð til sín
fjórum gæðakórum. sem mynduðu kjarnann í
150 manna hátíðarkór sem mætt gæti ströng-
um kröfum stórvirkis Haydn, Sköpunarinnar.
Þarna gafst því kjörið tækifæri að leiða þessa
góðu kóra upp á tónleikapall og leyfa tónleika-
gestum að njóta þeirra sem sjálfstæðra hljóð-
færa. Sannarlega tókust ágæt kynni með
ánægðum áheyrendum og kórunum fjórum á
tónleikum þeirra í Skjólbrekku á tónleikunum
sem hér eru til umfjöllunar.
Fyrst leiddi Helgi Bragason sinn kór,
Kammerkór Hafnarfjarðar í útsetningum ís-
lenskra þjóðlaga, m.a. eftir Hallgrím Helga-
son, Hjálmar H. Ragnarsson og Hafliða Hall-
grímsson. Kórinn er vel skipaður og söng
sérlega tært og hreint. Ungar og ómblíðar
kvenraddir. Mótun hendinga og styrkleikabogi
vel útfærður af Helga. Vantaði stundum meiri
dirfsku í tjáningu og tenórar of daufir í radd-
sólói í Hættu að gráta. Lokalag kórsins, amer-
íska lagið Shenandoah, var flutt af miklum
sannfæringarkrafti í frábærri útsetningu
James Erb.
Af þeim þremur útsetningum Smára Ólafs-
sonar fannst mér úts. við Ýmissa stétta allir
þjónustumenn best og mest hrífandi. En það
var Kór Akureyrarkirkju sem söng það lag.
Krossferli að fylgja þínu og Gegnum Jesú
helgast hjarta, sem Kór Bústaðakirkju söng
undir stjórn Guðmundar skorti meiri hreyf-
ingar í röddum. Hins vegar fylgdi mikill funi
flutningi þeirra á kórmótettu Mendelssohn,
sem heitir í ísl. þýðingu Kristjáns Vals Ingólfs-
sonar: Heyr, ó Drottinn. Þar fór saman einkar
fagur einsöngur Hönnu Bjarkar Guðjónsdótt-
ur, sveigjanleg og góð stjórn Guðmundar,
ásamt vel fylltu hlutverki hljómsveitar í hönd-
um píanóleikarans Aladár Racz.
Eftir hlé hélt tónleikum fram með flutningi
Kórs Egilsstaðakirkju undir stjórn Norð-
mannsins Torvald Gjerde. Kórinn er vel skip-
aður, en þó hætti karlaröddum að syngja sig í
sundur á kraftmestu stöðunum. Efnisval kórs-
ins var mjög svo á alþýðunótum og gerði Tor-
vald, það sem ég hef gagnrýnt áður aðra kóra
fyrir, að stjórna kórnum frá píanóinu í tveimur
lögum og fannst mér það miður. Píanóleikur-
inn varð allt of fyrirferðarmikill og kórinn óná-
kvæmari. En eigi að síður fylgdi kórnum kraft-
ur og fjör.
Öflugasti og fjölmennasti kórinn steig síðast
á stokk, en það var eins og fyrr greindi Kór
Akureyrarkirkju með Björn Steinar Sólbergs-
son í stafni. Kórinn er nú tilbúinn til siglingar
og er að halda í söngvíking austur til Slóveníu
næstu daga. Ekki fór fram hjá áheyrendum að
vel er kórinn til þeirrar sóknar búinn.
Var söngur hans blæbrigðaríkur og allt hans
fas hið besta. Bassarnir mega þó stundum
gæta sín að einstaklingshyggjan verði ekki á
kostnað raddfélagsins.
En samstaða í siglingu í austurveg mun
örugglega styrkja raddkennd þeirra.
Tónleikar þessir voru góður vitnisburður
um hve kórrækt okkar hefur borið ríkulegan
ávöxt og enn er sjálf Sköpunin eftir.
KÓRAVEISLA VIÐ MÝVATN
TÓNLIST
Kórastefna 2004 við Mývatn,
Félagsheimilinu Skjólbrekku.
Flytjendur Kammerkór Hafnarfjarðar, stjórnandi
Helgi Bragason, Kór Bústaðakirkju, stjórnandi Guð-
mundur Sigurðsson, Kór Egilsstaðakirkju, stjórn-
andi Torvald Gjerde og Kór Akureyrarkirkju, stjórn-
andi Björn Steinar Sólbergsson. Einsöngvari Hanna
Björk Guðjónsdóttir. Píanóleikari: Aladár Rácz fluttu
íslensk og erlend kórlög og mótettan: Heyr, ó Drott-
inn eftir Mendelssohn. Föstudaginn 11. júní kl
20.30.
KÓRTÓNLEIKAR
Jón Hlöðver Áskelsson
LJÓSMYNDASÝNINGIN Íslandsljós stendur
nú yfir á tveimur stöðum, í Grófarhúsi og í
Grafíksalnum, Hafnarhúsi. Sýningin var
upphaflega sett saman og sýnd í Vannes í
Frakklandi í október í fyrra. 40 alþjóðlegir
ljósmyndarar áttu þar verk og var sú sýning
nefnd Hafið. Hátíð hafsins fékk svo íslensku
myndirnar heim til Íslands og kallar sýn-
inguna Íslandsljós. Myndir Ragnars Axels-
sonar unnu til fyrstu verðlauna í Frakk-
landi. Auk Ragnars eru verk Guðbjarts
Ásgeirssonar, Guðmundar Ingólfssonar og
Árna Sæbergs á sýningunni. Myndirnar eru
teknar á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum.
Myndir eftir Ragnar, Árna
og Guðmund eru nýjar en myndir Guð-
bjarts Ásgeirssonar eru teknar um borð í
síðutogara og á síldveiðum fljótlega eftir
seinni heimsstyrjöldina. Guðbjartur var
kokkur á fiskiskipum og áhugaljósmyndari.
Til gamans má geta að Guðbjartur er
langafi Ólafs Elíassonar listamanns í föð-
urlegg.
Ljósmyndararnir hafa mismunandi sýn á
hafið og eru viðfangsefnin ólík. Myndirnar
endurspegla hina draumkenndu fegurð
hafsins en einnig hinn harða veruleika og
baráttu þeirra sem eiga allt sitt undir haf-
inu.
Verk Guðbjarts eru í Grófarhúsi, Borg-
arbókasafni og myndir þeirra Ragnars,
Árna og Guðmundar eru í Grafíksalnum,
Hafnarhúsi.
Sýningin er opin frá fimmtudegi til sunnu-
dags frá kl. 14–18 og stendur til 3. júlí. Ein verðlaunamynda Ragnars Axelssonar á sýningunni í Frakklandi. Hún er nú á sýningunni Íslandsljós hér heima.
Hafið með
augum ljós-
myndarans