Lesbók Morgunblaðsins - 19.06.2004, Blaðsíða 8

Lesbók Morgunblaðsins - 19.06.2004, Blaðsíða 8
8 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 19. JÚNÍ 2004 K laus von See var í rúm fjörutíu ár prófessor í norrænum fræð- um við háskólann í Frankfurt am Main. Þrátt fyrir að hann hafi látið af embætti fyrir nokkrum árum fer því fjarri að hann sé sestur í helgan stein. Þvert á móti er þessi tæplega áttræði fræðimaður enn sístarfandi. Meðal þeirra bóka sem eftir hann liggja má nefna „Goðsögn og guðfræði í Skandinavíu á síðmið- öldum“ (1988), „Barbari, germani, aríi – leitin að rótum þýsks þjóðernis“ (1994), „Evrópa og Norðurlönd á miðöldum“ (1999) og „Textar og tilgátur. Álitamál í þýskri og norrænni sögu“ (2003). Auk þess að senda frá sér hvert ritið af öðru stýrir Klaus von See hópi fræðimanna sem vinnur að því að semja viðamikinn skýr- ingarbálk við Eddukvæðin. Þegar eru komin út þrjú þykk bindi af þessum Edduskýringum sem til stendur að verði níu bindi alls. Þetta stóra verkefni sem er unnið við háskólann í Frankfurt am Main er styrkt af þýska rann- sóknarráðinu (Deutsche Forschungsgemein- schaft). Það er því ekki ofsagt að þýsk stjórn- völd sýni menningararfi okkar Íslendinga mikinn sóma. Fyrir rannsóknir sínar á fornnorrænni menningu hefur Klaus von See verið heiðraður með margvíslegum hætti . Þar má nefna að ár- ið 1983 var hann kjörinn einn af ellefu „ævi- löngum heiðursfélögum“ (Honorary Life Mem- bers) í hinu virðulega „Viking Society for Northern Research“ í Lundúnum. Þá hafði engum Þjóðverja hlotnast umræddur heiður frá stríðslokum. Í lok ársins 2002 tilnefndi Margrét II. Danadrottning hinn virta þýska fræðimann „riddara af Dannebrogsorðunni“, fyrir viða- miklar og stórmerkar rannsóknir sínar á fornri menningu norrænna þjóða. Í ljósi þess hve mörg þeirra fræðirita sem Klaus von See hefur sent frá sér á löngum ferli fjalla um fornan menningararf okkar Íslendinga má segja að þar hafi Danir gert okkur skömm til; það sætir reyndar furðu að einn virtasti og atkvæðamesti fræðimaður hins þýskumælandi heims á sviði forníslenskrar menningar, sem hefur m.a. um árabil unnið að því ásamt samstarfsmönnum sínum að gera Eddukvæðin aðgengileg þýskum lesendum, skuli ekki enn hafa verið heiðraður af Íslendingum. Það væri óskandi að íslensk stjórnvöld gerðu sem fyrst bragarbót í þessum efnum. Til að ræða við þennan síunga og síkvika fræðimann um rannsóknir hans og æviferil heimsótti ég Klaus von See í íbúð hans í há- skólahverfinu Westend í Frankfurt. Þar er eins og hæfir slíkum andans manni hátt til lofts og vítt til veggja. Þegar við höfðum komið okkur fyrir í vistlegri stofu, sem er þakin bókum í hólf og gólf, spurði ég Klaus von See fyrst, hvort eitthvað væri til í þeim orðrómi að hann ætti það sameiginlegt með landa sínum og starfsbróður, þýska heimspekingnum Kant, að hann hefði verið meira fyrir að ferðast í and- anum en að þvælast um heiminn (það var jú sagt um Kant að hann hefði aðeins einu sinni á ævinni yfirgefið bæinn Kóngsberg, þar sem hann lifði og starfaði). Klaus von See hlær við: „Án þess að mér komi til hugar að líkja mér við annan eins snilling og Immanuel Kant má vel vera að við séum skyldir að þessu leyti. Þó að ég hafi auðvitað annað slagið lagt land undir fót hef ég þó alla tíð talið óþarft að vera á mikl- um þeytingi milli landa vegna minna fræði- starfa. Ástæðan er einfaldlega sú að Frankfurt er mjög miðsvæðis, bæði í Þýskalandi og Evr- ópu; þess vegna hafa fræðimenn verið duglegir að koma hingað og sækja okkur heim. Vegna þess hve mér hefur líkað vel að lifa og starfa á þessum stað hef ég líka hafnað öllum boðum sem mér hafa borist um prófessorsstöður í öðr- um borgum, svo sem við háskólana í Kiel, Bonn og Köln. Þetta hefur reyndar valdið starfs- bræðrum mínum nokkurri furðu. Ég var frá upphafi mjög sáttur við að koma hingað til Frankfurt. Þegar mér bauðst kennarastaða hér fyrir rúmum fjörutíu árum var engin norrænu- deild starfandi hér við háskólann; hin fornu vígi norrænna fræða í Þýskalandi eru háskólarnir í Kiel, Köln, Greifswald og München. Ég fékk því svigrúm til að byggja upp kennslu í nor- rænu hér frá grunni. Þegar ég kom til Frank- furt komst ég t.d. að því að það eina sem til var af fornnorrænum bókmenntum á háskólabóka- safninu voru tólf bindi úr svokallaðri Thule- útgáfu íslenskra fornbókmennta. Ég fékk því m.a. það þakkláta hlutverk að koma hér upp norrænu bókasafni. Sem dæmi um það hversu vel Frankfurt er í sveit sett má nefna að ég var um árabil aðalrit- stjóri viðamikils uppsláttarverks um bók- menntafræði („Handbuch der Literaturwissen- schaft“), sem var gefið út í 24 bindum. Alls komu um 250 fræðimenn með mér að því mikla verki. Þá kom sér vel að ég skyldi búa svona miðsvæðis, því menn áttu auðvelt með að kom- ast hingað úr öllum áttum, til að sækja þá ótal- mörgu og oft mjög fjölmennu ritnefndarfundi sem voru haldnir hér í íbúðinni minni í West- end. Það má segja að ég þurfi svo sem ekki að fara neitt annað til að vinna; hér hef ég ágætt bókasafn og mínar eigin bækur hef ég nánast allar samið við skrifborðið mitt hér í stofunni.“ Þú komst til Norðurlanda í fyrsta sinn skömmu eftir 1950. Það hefur ekki verið vanda- laust fyrir þýskan námsmann að heimsækja Skandínavíu, svona stuttu eftir stríðið? „Nei, það er óhætt að segja það. Ég var 26 ára gamall þegar mér bauðst, ásamt þremur námsmönnum öðrum, að vera einn vetur í Kaupmannahöfn. Það var ekki sjálfsagt mál að bjóða þýskum námsmönnum til Danmerkur, svona skömmu eftir stríð. Við vissum t.d. aldrei hver það var í Danmörku sem styrkti okkur til náms; sá aðili kaus að halda nafni sínu leyndu. Vegna þeirra aðstæðna sem ríktu eftir stríðið voru ferðalög Þjóðverja um Norðurlönd ekki einfalt mál. Þess vegna er ferill minn ólíkur ferli margra sem á eftir komu að því leyti að ég fékk ekki áhuga fyrir norrænum fræðum vegna ferðalaga um þessar slóðir, hvað þá vegna ná- inna vináttutengsla við Norðurlandabúa; þvert á móti var áhugi minn á norrænni menningu eingöngu sprottinn af fræðilegri rót. Ég lauk doktorsprófi í sagnfræði 1953 í Hamburg hjá Hermann Aubin með ritgerð um „konungsveldi og ríki í Skandínavíu á miðöldum“ (hún kom reyndar ekki út í bók fyrr en nú fyrir skömmu). Samhliða lagði ég stund á norræn fræði hjá hinum kunna fræðimanni Hans Kuhn og hann mælti síðan með því að ég fengi styrk til náms í Kaupmannahöfn.“ Hans Kuhn var mikill Íslandsvinur, ekki satt? „Jú, hann var mjög hrifinn af Íslandi og skrifaði m.a. vinsæla bók um landið. Þó má segja að áhugi hans fyrir forníslenskri menn- ingu hafi líka í byrjun átt sér fræðilegar rætur. Sjálfur nálgaðist ég fornmenningu Íslendinga upphaflega frá sjónarhorni sagnfræðinnar og síðan réttarsögunnar. Ég öðlaðist réttindi til að gegna embætti prófessors (Habilitation) með ritgerð sem ég skrifaði hjá Kuhn um forn- norræn lagaorð („altnordische Rechtswörter“). Þar að auki hafa rannsóknir mínar lengst af snúist um bókmenntafræðileg efni. Sem fræði- maður hef ég því aldrei verið háður því að ferðast um norrænar slóðir líkt og þeir starfs- bræður mínir sem hafa t.d. nálgast fornnor- ræna menningu af sjónarhóli þjóðfræðinnar. Það virðist heldur ekki hafa bitnað neitt á ná- kvæmni í meðferð máls og staðanafna. Það gladdi mig t.d. að lesa það í ritdómi um dokt- orsritgerð nemanda míns Wolfgangs Gerholds eftir íslenska lærdómsmanninn Magnús Stef- ánsson, sem birtist í norska tímaritinu Histor- isk tidsskrift í fyrra, að það væri ánægjulegt að lesa rit sem væri svona laust við málfræðivillur og rugling á staðanöfnum í fornu máli. Þvínæst bætti Magnús því við að Gerhold hefði í þessu efni „gengið í góðan skóla hjá Klaus von See, prófessor í Frankfurt“. Það er alltaf gaman að heyra athugasemdir af þessu tagi, ekki síst þegar þær koma frá íslenskum fræðimönnum. Um Kuhn má reyndar bæta því við að hann var kvæntur íslenskri konu, auk þess sem hann bjó um tíma á Íslandi eftir seinna stríð og stundaði þá m.a. búskap á bæ skyldmenna konu sinnar á Norðurlandi.“ Áttu norræn fræði ekki erfitt uppdráttar við þýska háskóla eftir stríð, vegna þess hve þeim hafði verið misbeitt sem áróðurstæki í Þriðja ríkinu? „Jú, þau áttu vissulega erfitt uppdráttar. Fyrir stríð voru norræn fræði hluti af svoköll- uðum germönskum fræðum. Þrátt fyrir að þau yrðu fyrir umtalsverðum hugmyndafræðilegum áhrifum frá þjóðrembu nasismans, m.a. með kenningum á borð við þá að „hinn norræni maður“ væri eins konar frummynd „hins þýska“ eða „germanska manns“, – þar sem menn leituðu ekki síst fanga í Íslendingasög- unum – þá höfðu þessi tengsl við aðrar fræði- greinar jafnframt þau jákvæðu áhrif að norræn fræði voru hluti af stærra samhengi; þannig þurftu þeir sem lærðu germönsk fræði t.d. líka að kunna sitthvað fyrir sér í norrænum fræð- um. Eftir stríð var norrænan hins vegar með- vitað tekin út úr þessu fræðilega samhengi. Því fylgdi sá ókostur að norræn fræði urðu fljót- lega einangrað fag við háskólana. Þannig hafa norrænufræðingar hér í Þýskalandi á síðari ár- um verið fremur einangraðir í fræðasamfélag- inu. Menn úr öðrum fræðigreinum hafa sýnt rannsóknum þeirra takmarkaðan áhuga. Mér hefur hins vegar alla tíð verið umhugað um að rjúfa þessa einangrun. Hvar sem ég hef komið því við hef ég reynt að gera rannsóknir á norrænum bókmenntum gjaldgengar í fræða- samfélaginu. Í fyrrnefndu uppsláttarverki um bókmenntafræði reyndi ég t.d. að koma inn eins miklu efni um norrænar fornbókmenntir og ég gat. Þannig gat ég komið fyrir yfirlits- grein eftir Kurt Schier um Íslendingasögur í bindið sem fjallaði um miðaldabókmenntir. Ég held að það sé vandfundið yfirlitsrit um bók- menntafræði á þýsku þar sem er að finna jafn mikinn fróðleik um norrænar fornbókmenntir. Þá má nefna að ég stýrði um árabil ritröð hjá forlaginu Artemis, þar sem voru birtar ritgerð- ir um höfunda eða valin efni úr heimsbók- menntunum, svo sem Kafka, Robert Musil, Tol- stoj og ensku rómantíkina, svo dæmi séu nefnd. ELDHUGI OG FRÆÐILEGU ÍSLENSKRAR FORNMEN Klaus von See er fyrrverandi prófessor í norrænum fræðum við háskólann í Frankfurt am Main. Hann vinn- ur enn að rannsóknum á forníslenskum bókmenntum. Hér er rætt við von See um ævi hans og störf. E F T I R A RT H Ú R B J Ö R G V I N B O L L A S O N „Hvar sem ég hef komið því við hef ég reynt að gera rannsóknir á norrænum bókmenntum gjald- gengar í fræðasamfélaginu,“ segir Klaus von See.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.